Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Þegar vegur verður tröð!

Í síðstu viku kom út sérrit Viðskiptablaðsins sem ber heitið Menntavegurinn, tímarit um framhaldsmenntun á háskólastigi. Í inngangi að tímaritinu segir að nú sé fjallað um framhaldsnám á háskólastigi með áherslu á fjármál og stjórnun.
Í fyrstu virðist þetta áhugavert og um leið lofsvert framtak, enda mikilvægt að almenningur fái greinargóðar upplýsingar um það nám sem í boði er á þessu sviði.

Vonbrigði!
Þegar tímaritinu er flett kemur í ljós að verulegur galli er á efnistökum þess. Hallar þar verulega á umfjöllun um nám við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en sú deild hefur flesta nemendur í framhaldsnámi á sviði stjórnunar, markaðsfræði, alþjóðaviðskipta og reikningshaldi og endurskoðun. Að vísu er umfjöllun og viðtal við forstöðumann MBA náms við Háskóla Íslands en sú umfjöllun er ekki fyrr en á bls. 43. Það sem vekur sérstaka athygli er það rými sem Háskólinn í Reykjavík fær. Af þeim 27 umfjöllunum í tímaritinu eru 12 tengdar HR og þar af eru amk 2 sem ekki snúast um framhaldsnám, heldur grunnnám eða símenntun. Tímaritið sér ástæðu til að vera með ein 4 "drottningarviðtöl" við fyrrum nemendur í MBA námi við HR, sem er gott fyrir þau, en ekkert slíkt er við fyrrum MBA nemendur úr HÍ. Hefur þaðan þó margt mjög svo frambærilegt fólk lokið námi.

Sögufölsun?
Hið alvarlega er þó sú staðreynd að í rímaritinu er hvergi, ef frá er talið MBA námið, fjallað um framhaldsnámi í Viðskiptafræðideild HÍ. Viðskiptafræðideild hefur sem sérsvið kennslu og rannsóknir á sviði viðskiptafræðigreina, s.s. stjórnunar og fjármála, en eins og áður hefur komið fram átti Menntavegurinn að vera með sérstaka áherslu á þessi svið. Framhaldsnámið í Viðskiptafræðideild á nú um þessar mundir 10 ára afmæli og hafa því mjög margir nemendur fengið sína framhaldsmenntun þar. Í boði eru 6 námsleiðir sem ekkert er minnst á, rétt eins og þær séu ekki til. Þessar námsleiðir eru MS í fjármálum fyrirtækja, MS í mannauðsstjórnun, MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum, MS í stjórnun og stefnumótun og MS í viðskiptafræði. Í tímaritinu Menntavegurinn, tímarit um framhaldsmenntun á háskólastigi þar sem sérstök áhersla er lögð á stjórnun og fjármál, er ekkert fjallað um þessar greinar. Hvernig má það vera? Er þetta kannski með vilja gert? Er hugsanlegt að einhverjir hafi af því hagsmuni að fela þá staðreynd að Viðskiptafræðideild hefur verið í farabroti í framhaldsmenntun á þessu sviði?

 Vegur verður tröð
Niðurstaðan er því sú að tímaritið gefur mjög villandi mynd af stöðu og framboði framhaldsmenntunar á sviði stjórnunar og fjármála þar sem hallar verulega á hlut Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Það er auðvitað með öllu óásættanlegt. Það er einnig nokkuð augljóst að Menntavegurinn stendur alls ekki undir nafni, Menntatröð, tímarit um valið framhaldsnám á ýmsum stigum, hefði verið mun betra, amk meira lýsandi, heiti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband