Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Rannsóknamiðstöð

Sett hefur verið á stofn Rannsóknamiðstöð um markað- og þjónustufræði.

Rannsóknamiðstöðin er vettvangur fyrir fræðilegar og hagnýtar rannsóknir á sviði markaðs- og þjónustufræða. Markmiðið er að vinna að vönduðum og viðurkenndum rannsóknum og miðla niðurstöðum á viðeigandi vettvangi. Ennfremur að þjóna íslensku atvinnulífi með vönduðum rannsóknum er tengjast fyrirtækjum og stofnunum og starfsumhverfi þeirra.

Hlutverk Rannsóknamiðstöðvarinnar er að: 

  1. Stunda fræðilegar rannsóknir er tengjast stefnumótun markaðsmála, vörumerkjastjórnun, markaðshneigð, siðferðilegum álitaefnum í markaðsstarfi, kauphegðun, þjónustuhegðun, þjónustuþróun, þjónustuumhverfi og þjónustugæðum.
  2. Stunda hagnýtar rannsóknir er tengjast markaðsgreiningu, vörumerkjagreiningu, atvinnuvegagreiningu, samkeppnisgreiningu, þjónustugreiningu og þjónustugæðum.
  3. Vera bakland kennslu í markaðs- og þjónustufræðum og eiga þátt í þjálfun nemenda í rannsóknum á sviðinu.
  4. Sinna tengslum og efla samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði markaðs- og þjónustufræða.
  5. Gangast fyrir atburðum á sviði markaðs- og þjónustufræða.

Rannsóknamiðstöðin starfar undir regnhlíf Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Stjórn miðstöðvarinnar eru skipuð 3-5 áhugasömum einstaklingum um rannsóknir á sviðinu. Hana skipa nú Auður Hermannsdóttir aðjúnkt og forstöðumaður Viðskiptafræðistofnunar, Friðrik Eysteinsson aðjúnkt, Runólfur Smári Steinþórsson prófessor og Þórhallur Guðlaugsson dósent.


Viðskiptafræði!

Í kjölfar bankahrunsins hafa komið fram undarleg sjónarmið varðandi nám og kennslu í viðskiptafræði. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt að þessi fræðigrein hefur verið úthrópuð á útifundum og það gefið til kynna að í greininni megi finna orsök efnahagsvanda þjóðarinnar!

Þetta er byggt á mikilli fáfræði um greinina. Viðskiptafræði er samsafn margra undirgreina, s.s. markaðsfræði, stjórnunar, stefnumótunar, fjármála, reikningshalds, mannauðsstjórnunar og alþjóðaviðskipta. Viðskipafræðingar starfa því mjög víða og koma að rekstri ólíkra fyrirtækja og stofnana. Vissulega unnu, og vinna, margir viðskiptafræðingar í bönkunum. Það er fyrst og fremst vegna þess að þar vinnur mjög margt fólk, ekki bara viðskiptafræðingar. 

Sú hugmynd að það muni draga úr vinsældum viðskiptafræðinnar meðal háskólanema er dálítið uggvænleg. Sú hugmynd að það eigi jafnvel að hvetja til þess er skelfileg. Stjórnun og rekstur er sérsvið viðskiptafræðinnar. Það væri miklu nær að efla viðskipta- og rekstrarþekkingu þeirra sem koma að rekstri. Það er alltof algengt að það vanti upp á þá þekkingu. 

Í öðrum greinum er það kallað fúsk!


Ímynd eða ímyndun!

Ímynd fyrirtækja skiptir miklu máli í nútíma rekstri. Ímynd skiptir einnig miklu máli fyrir staði, fólk og þjóðir. Sama má segja um stofnanir hins opinbera. Mjög skiptar skoðanir eru þó um gildi ímyndar og stundum er hugtakinu ruglað saman við ímyndun og því álitið að ímynd sé eitthvað sem ekki er raunverulegt, sé óekta og hafi lítið raunverulegt gildi.

Þetta er alvarlegur misskilningur. Sá misskilningur er af margvíslegum toga, sumur hafa beina andúð á hugtakinu og aðrir telja að hægt sé að byggja upp ímynd hratt og með auglýsingum einum saman. Vera kann að ímynd sé ekki gott orð í þessu sambandi. Hugsanlega væri betra að nota orðið orðspor, þ.e. að starfsemi, þjóðir og einstaklingar byggi upp orðspor. Hér þarf að hafa í huga að ímynd, eða orðspor, er ekki góð eða slæm, ekkert frekar en heit eða köld. Ímynd getur verið jákvæð eða neikvæð en tengist þó alltaf ákveðnum eiginleikum sem geta verið í eðli sínu jákvæðir eða neikvæðir. Þessir eiginleikar gætu verið frumkvæði, spilling, góð þjónusta, gamaldags eða nýjungagarn svo dæmi sé tekið.

Í nýrri rannsókn sem ég vinn að um þessar mundir er lagt mat á ímynd banka og sparisjóða í kjölfar bankakreppu. Niðurstöður má sjá hér.  


Morgunblaðið

Á heimasíðu félagsskapar um stofnun almenningshlutafélags um kaup á Morgunblaðinu kemur fram að framundan séu nýir tímar og að ekki sé lögmál að auðmenn eða ríkið eigi fjölmiðla. Þetta er vissulega áhugavert framtak. Óháð stjórnmálaskoðunum þá verða menn að viðurkenna að mikil verðmæti liggja í Morgunblaðinu. 

Væntanlegir eigendur þurfa ekki að sækja vatnið yfir lækinn þegar kemur að ritun forsíðugreinar fyrsta tölublaðs sem nýir eiendur standa að. Vek ég athygli á grein í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins, sem kom út 2. nóvember 1913. Þar segir:

"Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað. Reykjavíkurbær hefur enn eigi eignast slíkt blað, þó þörfin hafi verið mikil um mörg ár og mörg nauðsynleg skilyrði hafi þegar verið fyrir hendi. Stjórnmálabarátta sú, sem þjóðin hefir átt í síðasta áratuginn, hefur tekið svo mikið rúm í blöðunum, að þeim hefir eigi verið unt að rita um margt hið skemtilega og nýstárlega, sem gerst hefir innanlands og utan. En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum, þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjarmálum. Þær fréttir munu ritaðar með öllu litlaust." (heimild: hvar.is)

Ég held að það sé eitthvað svona sem þessi ágæti félagsskapur hefur í huga.

 

 

 


Viðskiptasóðaskapur!

Síðustu daga hef ég orðið vitni að hegðun sem ég hef kosið að kalla "Viðskiptasóðaskap". Þetta er hegðun sem einkennist af því að stjórnendur ganga á svig við almenn gildi og nota þvinganir, ógnanir, óbilgirni og ruddaskap til að ná fram markmiðum sínum.

Markmiðin snúast svo ekkert endilega um hagsmuni þeirrar einingar sem þeim er ætlað að stjórna heldur kannski allt annarar einingar sem þeir eru þá einnig að stjórna eða vinna fyrir. Samkeppnislögin taka fyrir hátterni stjórnenda sem kann að vera ólöglegt.

En hver man ekki eftir löglegt en siðlaust?

Viðskiptasóðinn gengur út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt. Það er grundvallarmisskilningur. Lög eru mannanna verk og maðurinn er þrátt fyrir allt ákaflega ófullkominn. Siðgæðið er víðara og nær dýpra.

Því er rétt að hlusta eftir því.

Meira um þetta síðar!


Hver og hver og vill og verður!

Nýja ríkisstjórnin er ekki öfundsverð. Það er eiginlega alveg sama hvað gert verður, alltaf verða einhverjir óánægðir og benda á að einmitt það sem gert var, eða ekki, hafi verið það sem átti ekki að gera eða skorti. Nú, eins og gjarnan gerist í erfiðum aðstæðu, mun koma í ljós að vinir eru færri en maður ætlar, hagsmunir þeim mun ríkari.

Því miður verður að teljast líklegt að efnahagshruninu verði með einum eða öðrum hætti velt yfir á almenning. Enda er óljóst hvert annað ætti að velta því! Þá er mikilvægt að teknar séu ákvarðanir sem eru réttar, mögulegar og sanngjarnar. Hér er ríkisstjórninni vandi á höndum. Það sem einum þykir rétt, kann öðrum að finnast rangt og það sem einum þykir sanngjarnt, kann öðrum að þykja ósanngjarnt.

Til að bæta gráu ofan á svart eru kosningar framundan. Þeir sem lifað hafa nokkur kjörtímabil vita að ekki eru endilega skynsamlegustu ákvaranirnar teknar síðustu vikurnar fyrir kosningar. Getur það verið að nú verði breyting á? Kannski eru utanþingsráðherrarnir merki um breytta hætti. Kannski er það bara liður í vinsældaöfluninni? Leið til að róa lýðinn!

Hvernig sem er þá eru verkefnin næg fyrir hina nýju ríkisstjórn. Það er mikilvægt að á næstu vikum séu teknar margar réttar ákvarðanir. Því er einnig mikilvægt að aðrir stjórnmálamenn láti það ekki eftir sér að þvælast fyrir að óþörfu. Það er einfaldlega allt of mikið í húfi nú.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband