Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Niðurstaðan

Nú liggur niðurstaðan fyrir (sjá kosningavef Rúv).

Framsókn fær 9 fulltrúar, Sjálfstæðisflokkur 16, Borgarahreyfingin 4, Samfylkingin 20 og Vinstrihreyfingin 14. Samtals eru þetta 63 fulltrúar eins og alþjóð er kunnugt. Meirihluti er því 32 fulltrúar eins og flestir hafa áttað sig á.

Þetta þýðir að núverandi ríkisstjórn heldur velli. En þurfa menn ekki að vera nokkuð sammála um veigamikil mál, eins og t.d. um það hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu? 

Ég er einn af þeim sem er sammála því að það eigi að sækja um aðild. Ég er hins vegar ekkert sannfærður um að það eigi að ganga í Evrópusambandið. Það fer auðvitað eftir því hvað er í boði. Hvað við fáum og hvað við þurfum að láta af hendi í staðinn. Eina leiðin til að finna út úr því er að ganga til samninga. Kannski kemur í ljós að innganga er ekki góður kostur. Kannski kemur í ljós að það sem við fáum er meira virði en það sem við þurfum að láta af hendi. Hvað veit ég! Tel því gott og skynsamlegt að á þetta verði látið reyna. 

Við eigum auðvitað ekki að vera eins og karlinn í sögunni um tjakkinn sem margir kannast við. Það er mjög auðvelt að tala sig upp (eða niður) í það að aðild að Evrópusambandinu hljóti að vera slæm. Það er eins og að horfa á fjall og komast að þeirri niðurstöðu að maður komist örugglega aldrei nema hálfa leið. Þess vegna borgi sig ekki að leggja af stað.

Eigum við ekki frekar að setja okkur markmið og leggja af stað? Kannski verður niðurstaðan sú að fjallið sé brattara og lengra en við töldum. Þá snúum við bara við.

 


Þetta ætla ég að kjósa!

Nú er kominn tími til að taka ákvörðun.

Mér hefur fundist allir flokkar hafa brugðist. Hver með sínum hætti. Þau tvö nýju framboð sem nú bjóða fram tel ég ekki nægilega öflug. Var reyndar dálítið hrifinn af Borgarahreyfingunni. Fór og skoðaði fólkið og jafnaði mig. Ein leið væri þá að kjósa ekki. Önnur að skila auðu. Hvorug huggnast mér.

Fjórflokkarnir eru þá eftir. Í þeim öllum er gott fólki. Einnig fólk sem ég tel að eigi ekkert erindi á Alþingi Íslendinga. Það er auðvitað bara mín skoðun. Ég hef því komist að niðurstöðu með hvaða hætti ég ætla að kjósa. Kalla aðferðinna "Minnstu summu útstrikana". Aðferðin gengur einfaldlega út á það að ég ætla að kjósa þann flokk þar sem ég tel mig þurfa að strika fæsta út af efstu fimm frambjóðendum.

Ég er í Reykjavík Suður. Ef ég byggi nokkur hundrum metrum norðar væri ég í Reykjavík Norður. Lýst eiginlega betur á það fólk. Sýnist ég einnig myndi kjósa annan flokk ef svo væri. Suðurliðið virðist slappara.

Nú þarf ég að skoða listana og strika út. Hvað út úr því kemur skýrist í kjörklefanum!

Svo mun ég auðvitað halda með mínum mönnum. Áfram X-? 


Hvað á ég að kjósa 3?

Nú er komið að því að túlka niðurstöður. Til að átta sig betur á niðurstöðunni er betra að lesa fyrri tvo pistla um sama efni (en auðvitað getur þú bara haldið áfram að lesa!)

Fyrst þarf að hafa í huga að greiningin byggir á mati mínu á svörum stjórnmálamanna við spurningum Fréttablaðsins. Hér getur margt haft áhrif. Mat mitt getur verið rangt, ekki er víst að stjórnmálamennirnir séu sömu skoðunar nú og þá og ekki er víst að spurningar Fréttablaðsins séu þær spurningar sem skipta máli. En látum það liggja milli hluta.

Vinstri Grænir hafa afgerandi stöðu. Tengjast sterkt atriðum eins og hátekjuskatti, hækkin virðisaukaskatts, vilja stjórnlagaþing og vilja auka framlög til þróunarsamvinnu. Eru hins vegar mótfallnir einkavæðingu bankanna, hvalveiðum í atvinnuskyni, álversframkvæmdum og uppbyggingu olíuhreinsistöðvar. Þetta er því flokkur sem er líklegur til að hækka skatta og vill hafa umhverfisvernd í huga við eflingu atvinnulífsins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig afgerandi stöðu sem er í raun andstæð stöðu Vinstri Grænna. Það verður því að teljast afar ólíklegt að þessir flokkar starfi saman eftir kosningar. Það fer þó eftir því hve Evrópumálin skipta þessa flokka miklu máli. Sjálfstæðisflokkurinn vill fyrst og fremst efla atvinnulífið og er tilbúinn að fara hefðbundnar leiðir að því. Er mótfallinn skattahækkunum.

Framsóknarflokkurinn hefur einnig afgerandi stöðu. Vill fara í framkvæmdir eins og Landspítala og Sundabraut og er t.t.l opinn fyrir stóriðju. Er mótfallinn sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, Landhelgisgæslu og Varnarmálastofnunar og að innkalla eigi veiðiheimildir. Staðsetningin bendir til þess að þessi flokkur gæti vel unnið með Sjálfstæðisflokki og á líklega mesta samleið með þeim. Óvíst er þó að menn leggi í slíka stjórn þó svo að meirihluti næðist. En maður veit aldrei. Framsókn gæti einnig unnið með Vinstri Grænum, Samfylkingu og Borgarahreyfingu. Þeir gætu því, eins og svo oft áður, lent í oddaaðstöðu eftir kosningar.

Lýðræðishreyfingin hefur einnig afgerandi stöðu. Hefur ekki áhuga á að endurskoða stjórnarskrána og er tilbúinn að sameina sveitarfélög með lagasetningum. Tel mig geta útilokað þennan valkost strax.

Aðrir flokkar, þ.e. Frjálslyndir, Samfylkingin og Borgarahreyfingin, hafa ekki afgerandi stöðu. Þetta er nokkuð svipuð niðurstaða og kom fram í grein sem ég skrifaði fyrir nokkru um markaðsstarf stjórnmálaflokka og birt var í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla (sjá www.hi.is/~th undir Rannsóknir) Ástæðan fyrir þessu er sú að þessir flokkar lenda nálægt miðju og hafa ekki skýra aðgreiningu á grundvelli málefna. Athugið að þetta þýðir ekki að þessir flokkar hafi ekki skýra stefnu í neinu. Hún er bara ekki frábrugðin stefnu annarra flokka. Hvað vörumerki varðar er þetta alla jafna talið slæmt. Það þarf hins vegar ekki að vera slæmt þegar stjórnmál eru annars vegar. Þessi þrír flokkar gætu t.d. hæglega unnið saman og hver og einn þeirra gæti líklega unnið með hinum.

Samfylkingin og Borgarahreyfingin eru mjög svipaðir flokkar. Halla sér frekar að Vinstri Grænum en Sjálfstæðisflokknum og frá Frjálslyndum og Lýðræðishreyfingunni. Gallinn við þessa stöðu er að ef t.d. Vinstri Grænir og Samfylking ákveða að starfa saman eftir kosningar, eins og heyrst hefur, er líklegt að stefna Vinstri Grænna verði ofaná af þeirri einföldu ástæðu að stefna þeirra virðist miklu skýrari. Sama má í raun segja ef Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndu ákveða að vinna saman eftir kosningar. Eina sem gæti breytt þessu er ef Samfylking yrði sigurvegari kosninganna. Þá myndi staða þeirra batna og flokkurinn gæti leyft sér að hafa mun afgerandi afstöðu í tilteknum málefnum en þeir virðast hafa nú.

Samfylking, Framsókn og Borgarahreyfingin gætu einnig starfað saman eftir næstu kosningar. Það væri líklega best fyrir þá sem leggja áherslu á Evrópumálin. 

Nú er bara að taka ákvörðun. Meira um það síðar.


Hvað á ég að kjósa 2?

Ef þú ert að lesa þetta og hefur ekki lesið fyrri hlutann, ættirðu að byrja á því.

Ég hef komist að því að það er ekki allra að lesa út úr vörukortum (sjá skjalið í fyrri færslu). Líklega fer það saman að þeir sem eiga erfitt með að lesa landakort, eiga einnig í erfiðleikum með þetta. Vörukort er svo sem ekkert einfalt mál, þræðir sem liggja í ýmsar áttir og að því er virðist tilviljanakennd staðsetning vörumerkja á því. Ég ætla því að byrja á því að útskýra hvernig lesið er úr kortinu. (já það er ágætt að hafa það fyrir framan sig þegar það er gert)

Þræðirnir tákna eiginleika eða atriði sem tekin er afstaða til. Þetta eru stefnuvektorar og í þessu tilviki vísa þeir á "Já, afgerandi". Eins og sjá má eru þeir mislangir. Langur vektor táknar að það er mikill munur á afstöðu flokkanna hvað viðkomandi atriði varðar. Tökum atriði 6 sem dæmi (Á að leggja á hátekjuskatt?). Þá hefur einn flokkur, Vinstri Grænir, tekið mjög afgerandi Já afstöðu á meðan að annar flokkur, Sjálfstæðisflokkur, hefur tekið mjög afgerandi Nei afstöðu. Flokkarnir hafa því mjög andstæða stefnu hvað þetta atriði varðar. (lestu þetta aftur til öryggis).

Mikilvægt er að hafa í huga að vektorarnir vísa í báða áttir sbr. dæmið hér á undan. Þetta þýðir að þeir sem eru vinstra megin á kortinu eru líklegri til að fara skattahækkanaleið en um leið ólíklegri til að efla atvinnulíf með stóriðju (atriði 3 og 4), stunda hvalveiðar í atvinnuskyni (atriði 10) og einkavæða ríkisbankana (atriði 24).  Þeir sem eru hægra megin á kortinu eru þá líklegri til að vilja efla atvinnulíf með stóriðju, stunda hvalveiðar og einkavæða ríkisbankana en um leið ólíklegri til að fara skattahækkanaleið. 

Stundum liggja vektorarnir samsíða. Því meira sem það er, því meiri fylgni er á milli atriðana. Þetta eru þá mjög lík atriði eða jafnvel sama atriðið sem mætti þá sameina í stærri þátt. Þetta má t.d. sjá á atriðum 14 og 18 en í báðum tilvikum er um að ræða atriði sem snúast um það að setja af stað viðamiklar framkvæmdir. Sömu sögu má segja um atriði 5, 10, 4 og 3 en þetta er allt atriði sem tengjast því að efla atvinnulífið. Segja má að atriði 24 tengist því einnig (nú skaltu gefa þér tíma til að skoða kortið vel).

Sumir vektorarnir eru mjög stuttir. Þetta á t.d. við um atriði 1, 2, 17, 22, 19. Þetta táknar að afstaða flokkana er mjög lík hvað þessi atriði varðar, þ.e. flokkarnir eru ekki að aðgreina sig á grundvelli þessara eiginleika eða atriða. Segir hins vegar ekkert til um afstöðuna, hún gæti verið já afgerandi hjá öllum, nei afgerandi hjá öllum eða óljós hjá öllum.

Ætli þetta sé ekki gott í bili. Meira síðar.


Hvað á ég að kjósa?

Ég er einn af þeim sem er ekki viss um hvað ég ætla að kjósa. Tel jafnvel koma til greina að kjósa ekki. Það er auðvitað ömurlegt. Þarf því að reyna að finna út úr þessu.

Tók mig til og skoðaði svör forsvarsmanna framboðanna í Fréttablaðinu um helgina (sjá frambod.pdf) en þar var þetta ágæta fólk spurt 24 spurninga um hin ýmsu stefnumál og verkefni. Eftir að hafa rennt yfir svör þeirra var ég ekki miklu nær. Átti erfitt með að átta mig á því hvernig einn flokkur greindi sig frá öðrum. Datt þá í hug að nota hugbúnað sem ég hef undir höndum og er ætlaður til að greina með hvaða hætti eitt vörumerki aðgreinir sig frá öðru. Kallað vörukort eða Perceptual mapping.

Fyrst þurfti að fara yfir svör framboðanna. Spurningarnar voru Já/Nei spurningar en oft gátu framboðin ekki svarað þannig. Ákvað því að búa til kvarðann 1=Nei afgerandi, 2=Nei ef kannski og þegar, 3=Stefnan og svarið óljóst, 4=Já ef kannski og þegar og 5=Já afgerandi.

Setti inn í forritið og út kom mynd af því hvernig einn flokkur aðgreinir sig frá öðrum (sjá kosningar09.pdf). Nú þarf bara að túlka niðurstöður.

...meira um það síður (en þó í tíma).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dapur rekstur stjórnmálaflokka!

Samvkæmt upplýsingum sem birtast á AMX fréttavefnum þá skulduðu stjórnmálaflokkarnir nálægt hálfum milljarði í lok ársins 2007. Einnig kemur fram að eigið fé þeirra allra, fyrir utan Sjálfstæðisflokksins, væri neikvætt. Það er það sem kallað er að vera tæknilega gjaldþrota. Annars er það orðhengilsháttur. Annað hvort er maður gjaldþrota eða ekki. Stundum komast rekstrareiningar upp með að starfa áfram þrátt fyrir að vera gjaldþrota!

Miðað við reksturinn á flokkunum 2007 er afar líklegt að þessi staða hafi versnað nú þegar kreppir að. Síðustu fregnir af fjármálum Sjálfstæðisflokksins benda til þess að staða hans hafi versnað til muna.

Nú er bara spurningin hvert reikningurinn verður sendur. Ef allir flokkarnir eru jafn illa staddir fjárhagslega er ekki ólíklegt að þeir taki sameiginlega ákvörðun um að senda reikninginn á almenning. Það verður að teljast óásættanlegt. 

Réttast væri að stjórnlagaþingið fyrirhugaða tæki þessa ákvörðun. Líklega verða sumir flokkar gjaldþrota, rétt eins og sum heimili og fyrirtæki verða gjaldþrota. 

Svo verður að teljast verulega til umhugsunar hversu óábyrgur rekstur flokkanna virðist vera. Allir flokkarnir virðast reknir með tapi og safna skuldum. Það getur varla gengið til lengdar. 


Niðurfelling Framsóknar

Í Fréttablaðinu í dag fylgdi með sérblað frá Framsókn, Tíminn. Þar gerir flokkurinn grein fyrir stefnu sinni, m.a. þeirri umdeildu tillögu að fella niður 20% af höfuðstól húsnæðislána. Eftir að hafa lesið þetta yfir hef ég enn nokkrar spurningar.

  • Í fyrsta lagi átta ég mig ekki á því af hverju aðeins er höfðað til skuldara með lán til 40 ára. Í undirfyrirsögn greinarinnar segir: "Ertu með húsnæðislán til 40 ára? Taktu þér 10 mínútur í að lesa þetta." Mjög undarlegt. Hvað með þá sem eru með lán til 25 ára?
  • Fram kemur hugtakið réttlæti. Í greininni er því haldið fram að fasteignalánin hafi verið flutt úr gömlu bönkunum með miklum afslætti. Liggur þetta fyrir? Hvað með lán sem tekið var hjá Íbúðalánasjóði? Varla voru þau flutt eitthvað með miklum afslætti.
  • Framsókn skiptir fólki í þrjá hópa! Það er út af fyrir sig merkilegt. Þar styðst flokkurinn mikið við eina breyta, þ.e. upphæð skuldarinnar. Svo virðist sem vandi skuldara sé fyrst og fremst mældur út frá því. Hvað með aðrar skuldir, tekjur viðkomandi og svo breytilega hegðun fólks?
  • Tillagan virðist ekki gera greinarmun á tegundum lána, þ.e. verðtryggt lán í krónum annars vegar og svo fasteignalán í erlendri mynt hins vegar. Eru aðstæður þær sömu hjá þessum skuldurum?
  • Talað er um að helsti kosturinn við tillöguna sé einfaldleiki. En er vandinn einfaldur? Er ekki um mjög flókið viðfangsefni að ræða sem kallar á flókin og yfirgripsmikil viðbrögð?  

Eftir lesninguna verð ég því miður að segja að þetta hljómar enn sem ódýrt, en frekar óábyrgt, konsingatrix. Til að öllu sé haldið til haga er rétt að fram komi að ég tel Framsóknarflokkinn ekki einan um slíkar kúnstir. Því miður sýnist mér flestir flokkar falla í þessa gryfju. Á fagmáli er þetta kallað "oflof".

Ef flokkar eru sannfærðir um að verðbólga hafi þróast með óeðlilegum hætti og að gengisskráningin sé röng, væri rétt að leiðrétta það. Það er út af fyrir sig einföld framkvæmd að fastsetja gengið, segjum við 150-170 stig og stilla af vísitöluna miðað við eitthvað sem menn telja eðlilegt!

Á móti má spyrja hvort 10-15% verðbólga sé óeðlileg í eins neysludrifnu samfélagi og hér hefur verið um mörg undanfarin ár.


Er markaðsstarf stjórnmálaflokka á villigötum?

Neytendur eru margir, dreifðir og með mismunandi þarfir og kauphegðun. Það getur því verið kostnaðarsamt, og beinlínis óskynsamlegt, að ætla sér að þjóna þörfum allra, alltaf.

Miðuð markaðsfærsla tekur á þessu vandamáli og skiptist í markaðshlutun, markaðsmiðun og staðfærslu og gengur gjarnan undir nafninu STP-marketing hjá fagfólki með tilvísun í ensku heitin Segmenting, Targeting og Positioning. Ef kröftunum er beint að markhópi sem hefur lítinn sem engan áhuga á tilboðinu verður að líta svo á að því fé og tíma sem í það fór hafi ekki verið vel varið.

Þegar hluta á niður markað er notast við ýmsar breytur s.s. kyn, aldur, tekjur, menntun, þjóðerni eða trúarbrögð. Hefðbundið er að skipta markaði upp eftir fleiri en einni breytu, svo sem konur á aldrinum 25-35 ára (kyn og aldur), eða karlar á höfuðborgarsvæðinu (kyn og svæði). Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er til ein rétt leið við að velja breytur og aðferðir við markaðshlutun. Tilgangur markaðshlutunar og tengsl við heildarstefnu skipulagsheildarinnar skiptir meginmáli við val á aðferð. Virðist í þessu sambandi litlu skipta hvort fyrirtæki aðhyllist eina stefnu frekar en aðra né heldur hvort um er að ræða samkeppnisrekstur eða opinberan rekstur. Ávinningurinn virðist alltaf vera meiri en ef reynt er að þjóna þörfum allra, alltaf.

 

Markhópar stjórnmálaflokka

Stjórnmálaflokkar hafa um ýmsar leiðir að velja þegar kemur að því að skilgreina hópa sem þeir vilja koma skilaboðum sínum til. Í grundvallaratriðum er um fjórar leiðir að ræða:

Í fyrsta lagi geta stjórnmálaflokkar litið á kjósendur sem einsleitan hóp. Hér aðhyllist stjórnmálaflokkur heildarmarkaðsfærslu og flokkurinn ákveður hver hugmyndafræðin er og hver stefnan á að vera. Þessi leið felur það í sér að hún er almenn og nær til fjöldans. Kjósendur eru hins vegar ekki allir jafn líklegir til að kjósa ákveðinn stjórnmálaflokk út frá almennum skilaboðum og áherslum. Kjósendur geta verið tryggir eða ótryggir og haft mismunandi skoðanir og þarfir. Þessi aðferð hefur því þau kunnuglegu áhrif að kjósendur eiga erfitt með að átta sig á hvað aðgreinir einn flokk frá öðrum.

Í öðru lagi geta stjórnmálaflokkar notað það sem kalla má almenn málefnaáhersla eða vöruaðgreiningu. Þannig hefur flokkur mörg stefnumál og reynir þannig að höfða til sem flestra kjósenda. Rétt eins og í fyrri aðferðinni er helsti gallinn við þessa aðferð sú sýn að flokkurinn sé opinn í báða enda og erfitt sé að átta sig á fyrir hvað hann stendur í raun og veru. Aftur dálítið kunnuglegt úr íslenskum stjórnmálum.

Í þriðja lagi er hægt að styðjast við markaðshlutun til að ná markmiðum flokksins. Þá er kjósendum skipt niður í mismunandi hópa eftir lýðfræðilegum, sálfræðilegum, persónulegum eða öðrum breytum sem nota má við markaðshlutun. Út frá þessari aðferð má skilgreina nokkra hópa sem eru ólíkir og því þarf að nota mismunandi aðferðir í samskiptum við þá.

Fjórða leiðin sem hægt er að fara er að samtvinna fyrstu þrjár leiðirnar, þ.e. nota í senn heildarmarkaðsfærslu, vöruaðgreiningu og markaðshlutun. Því stærri sem flokkurinn er, því líklegra er að ná megi árangri með þessari aðferð. Lítill flokkur ætti ekki að velja þessa aðferð og er miklu líklegra að slíkur flokkur nái árangir með því að einbeita sér að tilteknu málefni sem nægilega margir láta sig varða til að kjósa flokkinn út á það.

 

Vandi stjórnmálaflokka

Kjósendur, stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverki á markaði sem hægt er að kalla stjórnmálamarkað eða kosningamarkað. Flokkarnir þurfa að markaðsfæra tilboð sín, sem oftar en ekki eru einhvers konar loforð um það sem gerast á í framtíðinni. Tilboð og eða loforð flokkana geta birst í stefnuskrá, viðhorfi, skoðunum eða hugmyndum að bættu samfélagi. Sem dæmi er vandfundið það stjórnmálaafl sem ekki ætlar að koma lagi á efnahagsmálin að afloknum kosningunum nú í apríl. Hafa ber í huga að ekki er sjálfgefið að kjósendur taki þátt í kosningum. Flestir kjósendur vita að úrslit kosninga velta ekki á einu atkvæði og því er hætt við að sumir hafi lítinn áhuga á að afla sér upplýsinga um málefni og frambjóðendur flokka. Almenn vantrú á stjórnmálaflokka virðist einnig hafa aukist síðustu vikur og mánuði. Því er mikilvægt fyrir stjórnmálaflokka að standa faglega að samskiptum sínum við væntanlega kjósendur.

Hér eiga stjórnmálaflokkar í nokkrum vanda. Stjórnmálaflokkar eru ekki, rétt eins og flestir vita, fyrirtæki þar sem hægt er að gefa út einhverja tiltekna línu hvað samskipti og skilaboð varðar. Vissulega reyna menn þó að stilla saman strengi í kosningabaráttunni. Þar virðast flestir flokkar leggja áherslu á „loforð", þ.e. kjósi viðkomandi flokkinn þá muni þetta eða hitt gerast eða breytast eftir kosningar. Í því ljósi er áhugavert að skoða með hvaða augum almenningur lítur slík loforð. Í rannsókninni Þjóðarrýni sem höfundur stóð að fyrir síðustu kosningar var m.a. kannað traust til stjórnmálamanna. Spurt var: Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að stjórnmálamenn standi við gefin loforð? Niðurstaðan var sú að aðeins 17% svarenda töldu það líklegt eða mjög líklegt. Aðrir, eða 83%, höfðu efasemdir um að stjórnmálamenn standi við gefin loforð. Í sömu rannsókn koma fram að 84% svarenda töldu það líklegt eða mjög líklegt að fólk almennt stæði við gefin loforð. Reglulegar kannanir Capacent Gallup á trausti til stofnana virðist styðja þessa niðurstöðu en þar er Alþingi jafnan meðal þeirra stofnana sem nýtur minnst trausts. Varða viljum við hafa það þannig?

Stjórnmálaflokkar þurfa því að breyta þeim aðferðum sem þeir nota í markaðsstarfi sínu og það fyrsta sem þarf að gera er að átta sig á því að kjósendur eru ekki einn hópur, heldur margir með mismunandi kröfur og óskir. Því þarf að nota fjölbreyttar aðferðir í samskiptum við þá og tryggja að réttur hópur fái rétt skilaboð.


Samkeppnisstaða háskóla

Haustið 2008 fór viðskiptafræðideild Háskóla Íslands af stað með viðskiptafræðinám í kvöldskóla. Námið hefur gengið undir nafninu BSV, eða BS nám með vinnu. Námið er hugsað fyrir þá sem vilja verða sér út um háskólagráðu í viðskiptafræði sem af einhverjum ástæðum hafa ekki möguleika á því að stunda nám í dagskóla. Ástæðurnar geta verið margvíslegar s.s. skuldbindingar er tengjast vinnu eða fjölskyldu.

Þessu námstilboði var afar vel tekið og stunda nú um 70 nemendur námið. Það er ánægjulegt, sérstaklega þegar haft er í huga að samkeppnisstaðan er afleit borin saman við hina svo kölluðu einkaháskóla.

 

Samkeppnisstaða BSV

Þegar tala er um afleita samkeppnisstöðu í þessu samhengi er átt við þá staðreynd að nám sem þetta flokkast undir svo kallaða þjónustukennslu sem háskóladeild er ekki skilt að veita eða sinna. Námið er því ekki fjármagnað af hinu opinbera með svo kölluðum þreyttum einingum heldur eru tekin skólagjöld af nemendum til að standa undir kennslu, kynningum og þjónustu við nemendur. Gjaldið fyrir næsta skólaár er kr. 50.000 fyrir hvert námskeið sem er sambærilegt gjald og HR og Bifröst taka. Það sem er hins vegar undarlegt við fyrirkomulagið er að einkaskólarnir, HR og Bifröst, fá til viðbótar framlag frá hinu opinbera. Sú upphæð bætist þá við þau gjöld sem skólarnir innheimta af nemendum. Miðað við reikniflokk félagsvísinda gætu tekjur einkaskólanna verið 85-90% hærri fyrir hvert námskeið, fyrst og fremst vegna tekna frá hinu opinbera. Það er auðvitað dálítið undarlegt að horfa upp á það að einkaframtakið skuli byggja samkeppnisstöðu sína á slíku framlagi.

Á sama tíma er ekkert sem bendir til þess að nemendur í einkaskólunum fái betri eða meiri þjónustu en nemendur í BSV viðskiptafræðideildar. Kennarar uppfyllar allir þær ströngu kröfur sem gerðar eru til kennara í Háskóla Íslands og námið hefur skýra þjónustustefnu og þjónustuviðmið.

Vegna þessa hafa einkaskólarnir mun meira fjármagn til að setja í kynningarstarf og annað sem er líklegt til að draga að nemendur og vekja athygli á náminu. Það má því halda því fram að skattgreiðendur kosta kynningarstarf einkaskólanna í þeim tilgangi að hafa betur í samkeppninni við ríkisháskóla, sem þeir eiga þó sjálfir!

 

Samkeppnin

Á undanförnum misserum hefur nokkuð verið rætt um samkeppni milli háskóla. Það er þá gjarnan gert með jákvæðum formerkjum, þ.e. að með tilkomu samkeppninnar þá batni starf skólanna. Líklega er eitthvað til í því ef horft er á málið út frá markaðslegu sjónarhorni. Samkeppni getur virkað sem hvati til að standa sig betur. Það sem kemur þó mörgum í Háskóla Íslands spánskt fyrir sjónir er það viðhorf að samkeppnin sé nýtilkomin. Alla tíð hefur verið ákveðin samkeppni milli deilda skólans og nemendur hafa getað farið til útlanda í nám. Aukið val hér heima ætti þó að koma nemendum til góða. Einn mælikvarði á samkeppni er að neytendur hafi raunverulega valkosti. Þannig geti það verið kostur fyrir nemendur að geta valið milli skóla A, B eða C.

Samkeppnin hefur hins vegar á sér margar hliðar og þegar rætt er um samkeppni á skólamarkaði þá þarf að vera ljóst við hvað er átt. Snýst samkeppnin fyrst og fremst um að laða að sér sem flesta nemendur og fá þannig greitt fyrir sem flestar þreyttar einingar? Eða snýst hún einnig um hæfa kennara, góða kennsluaðstöðu, góða rannsóknaraðstöðu og að geta boðið upp á annan þann búnað og aðstöðu er prýðir góðan háskóla? Snýst hún ekki einnig um að hið opinbera mismuni ekki nemendum?

Ef svo er, þurfa þá ekki að gilda sömu leikreglur fyrir alla sem keppa á markaðinum?


Sumarnámskeið

Fyrir stundu sendi viðskiptafræðideild svo hljóðandi fréttatilkynningu.

 

FRÉTTATILKYNNING

Sumarnámskeið Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands

 

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur ákveðið að bjóða nemendum amk 4 sumarnámskeið og til að gera það mögulegt hafa kennarar ákveðið að gefa vinnu sína.

Þau námskeið sem boðin verða eru Vöruauðkenni og viðskiptatengsl, Vinnumarkaðurinn og þróun hans, Utanríkisverslun og Stefnumótun fyrirtækja. Viðskiptafræðideild gerir ráð fyrir að 100-200 nemendur vilji nýta sér þetta tilboð en kennsla mun fara fram á íslensku. Framhaldsnemar geta nýtt sér þessi námskeið og skrifa þá sérefnaritgerð til viðbótar við það sem nemendur í grunnnámi gera.

Viðskiptafræðideild er elsta viðskiptadeild á Íslandi og ein stærsta deild Háskóla Íslands með um 1.400 nemendur. Þar ef eru 752 í grunnnámi og 656 í framhaldsnámi. Deildin er langstærsta framhaldsdeildin í skólanum með um 21% af öllum nemendum í framhaldsnámi.

Með þessu vill viðskiptafræðideild og starfsfólk hennar koma til móts við þarfir nemenda en könnun meðal þeirra sýnir að stór hluti gerir ekki ráð fyrir að fá sumarvinnu nú í sumar.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband