Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Pólitísk hegðun!

Ein stærsta hindrunin fyrir því að skipulagsheildir geti tileinkað sér nútímaleg vinnubrögð, sem m.a. hafa þarfir viðskiptavina/skjólstæðinga, að leiðarljósi er það sem kallað hefur verið pólitísk hegðun. Þessi hegðun hefur verið skilgreind af mörgum fræðimönnum og ein hljóðar svo:

"Sú viðleitni einstaklings að vinna eigin hugmyndum brautargengi og koma í veg fyrir að andstæða sjónarmið nái fram að ganga."

Hér skal tekið fram að þegar talað er um pólitíska hegðun í skilningi stefnumótunar er ekkert sérstaklega verið að fjalla um stjórnmál, stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka. Heldur hegðun sem einkennist fyrst og fremst af því sem að framan greinir.

Hins vegar á þetta gjarnan vel við þegar stjórnmál eru annars vegar, sérstaklega þegar blandað er saman rekstri og pólitík. Það getur verið slæm blanda. Meirihluti á hverjum tíma hefur hagsmuni af því að láta líta svo út að allt sé í góðu lagi og að allir séu ánægðir. Minnihluti hefur hins vegar hag af því að láta líta svo út að allt sé slæmt, allt gangi illa og allir séu óánægðir. Virðist þá litlu skipta hvaða flokkur er við völd hverju sinni. Flestir virðast taka þátt í þessum slag. Niðurstaðan er sú að hagsmunir viðkomandi skipulagsheildar verða fyrir borð bornir. Sama þá þá við um viðskiptavini eða skjólstæðinga viðkomandi skipulagsheildar.

Stjórnvöld standi frammi fyrir miklum erfiðleikum nú. Taka þarf margar erfiðar ákvarðanir og mikilvægt að þær verði sem flestar réttar og góðar. Vandinn við það er að það sem einum þykir rétt, kann öðrum að þykja rangt. Þar hefur oftar en ekki pólítisk afstaða ráðið för, þ.e. ef maður er í minnihluta þá er maður á móti, jafnvel þó svo að tillagan sem slík sé skynsamleg og jafnvel þó svo að maður hafi lagt fram sömu eða svipaða tillögu á meðan að maður var í meirihluta!

Það er aldrei mikilvægara en nú að stjórnmálamenn láti af háttalagi sem þessu. Ef það gerist ekki er hætt við að teknar verði margar slæmar ákvarðanir sem þjóna þröngum pólitískum hagsmunum fárra en gætu skaðað marga til lengri tíma.  

Dæmi um slæmar ákvarðanir eru flatur niðurskurður og hátekjuskattur. Flatur niðurskurður hefur það í för með sér að skorið er jafn mikið niður hjá skilvirkri einingu og hjá óskilvirkari einingu. Í því fellst sóun. Hátekjuskattur skilar yfirleitt litlum viðbótartekjum og virðist fyrst og fremst hafa það hlutverk að afla pólitískra vinsælda. Ef slík skattamismunun á að skila einhverjum árangri þá er nauðsynlegt að setja mörkin við millitekjur. Þá er beinlínis verið að refsa fólki sem vill leggja mikið á sig til að sjá sér og sínum farborða. Reynslan sannar það. Hátekjuskattur hefur einnig neikvæði áhrif á vilja launþega til að koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum. Í raun má færa fyrir því rök að hagkvæmt gæti verið að lækka tekjuskatt verulega. 

Slík ákvörðun er þó væntanlega of rótæk sem stendur.


Óábyrg fréttaumfjöllun!

Eins og alþjóð væntanlega hefur áttað sig á hefur verið skrifað undir samkomulag um IceSave deiluna. Sama alþjóð virðist alls ekki átta sig á því hvað það hefur í för með sér, enda varla von þar sem upplýsingar um málið eru mjög takmarkaðar.

Sem fyrrum stjórnandi úr atvinnulífinu þá átta ég mig á því að stundum þurfa upplýsingar að vera takmarkaðar. Fyrir því eru ýmsar góðar og gildar ástæður. Ég hef ákveðið að treysta því í þessu tilviki. Viðurkenni að ég botna satt best að segja ekkert í málinu og myndi aldrei fara að tjá mig um kosti eða galla samkomulagsins með svo takmarkaðar upplýsingar.

Frétta- og dagskrárgerðarfólk hafa, eins og von er, mikinn áhuga á að fá upplýsingar um málið. Þannig hafa þau dregið til sín hvern sérfræðinginn af öðrum til að útskýra fyrir þjóðinni hvað í samkomulaginu fellst. Allir eiga sérfræðingarnir það sameiginlegt að tala um takmarkaðar upplýsingar en sumir láta það ekkert hindra sig í að tjá sig um ágæti samkomulagsins. Þar fer þetta ágæta fólk út af sporinu, þ.e. sérfræðingssporinu. Tjá sig gjarnan fjálglega um galla samkomulagsins, hve það sé óábyrgt og hvað sé verið að fara illa með þjóðina. Þarna breytist viðkomandi úr sérfræðingi sem kallaður er til til að fjalla um tiltekið mál, sem ekki allir hafa yfirsýn yfir, í einstakling sem hefur skoðun á einhverju máli.

Auðvitað má fólk hafa skoðanir. Skárra væri það nú. Það er hins vegar mikilvægt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða sérfræðiálit eða skoðun einstaklings.

Það hefur einnig vakið athygli mína hvað sumt dagskrárgerðarfólk hefur sterkar skoðanir á málinu. Stundum svo sterkar að viðmælandinn kemst ekki að. Er það hlutverk dagskrárgerðarfólks eða fréttamanna að vera stöðugt að koma eigin skoðunum á framfæri? Ég held ekki. Þetta fólk gegnir mikilvægu hlutverki varðandi það að draga fram ólík sjónarmið og skoðanir annarra.  Ættu að einbeita sér að því.

...en svo öllu sé til haga haldið þá er ég hund fúll yfir IceSave málinu!


Græðgin gleður!

Sjálfsagt verður erfitt að finna einhverja eina haldbæra skýringu fyrir því að efnahagskerfið á Íslandi fór þá leið sem það fór. Þær eru eflaust margar.

Mér finnst þó ástæða til að draga fram eina skýringu en það er GRÆÐGI. Ef horft er yfir sviðið þá virðist sem GRÆÐGI hafi verið einn aðaldrifkraftur efnahagskerfisins. Virðast þar fáir undanskildir, jafnvel ekki undirritaður! Afleiðingarnar eru þó mis alvarlegar. Fyrir suma skapar þetta aðeins óþægindi og kannski smávægilega leiðindi á meðan aðrir standa frammi fyrir stórkostlegu áfalli hjá sér og sínum. 

Áður en lengra er haldið þá hvet ég alla sem ekki hafa séð myndina Wall Street frá 1987 að horfa á þá ágætu mynd. Þeir sem hafa séð hana ættu bara að horfa á hana aftur. Það eru mörg mjög góð atriði í myndinni. Eitt sterkasta atriðið er þegar Gordon Gekko, sem leikinn er af Michael Douglas, sannfærir fundarmenn um að GRÆÐGI sé drifkraftur framfara. (sjáið þetta atriði hér).

Mjög margir virðast hafa tileinkað sér "möntru" Gekko. Það var t.d. dálítið undarlegt að verða vitni að því að sölumenn höfnuðu staðgreiðslu en hvöttu væntanlega kaupendur þess í stað til að taka lán. Það væri miklu betra. "Svo leikur þú þér bara eitthvað með peninginn!" sögðu þeir. Svipuð hugmyndafræði hefur verið í stærri kaupum almennings. s.s. húsnæðiskaupum, þar sem væntanlegir "eigendur" létu óprúttna sölumenn sannfæra sig um að hægt væri að kaupa dýra húseign án þess eiga krónu upp í! Þar hefur GRÆÐGI beggja ráðið för.

Alvarlegustu tilvikin eru þó þegar stjórnendur stöndugra fyrirtækja létu GRÆÐGINA verða til þess að þeir misstu sjónar á kjarnastarfsemi fyrirtækisins og létu sannfæra sig um að fjárfestingar með lántöku væri besta leiðin til að stuðla að vexti og velgengni starfseminnar. Aftur er það GRÆÐGI beggja sem ræður för. Átakanlegt dæmi um þetta má lesa í MBL sunnudaginn 31. maí í umfjöllun Agnesar um sjávarútvegsfyrirtæki á Snæfellsnesi.

 Það er því miður þannig að þeir sem kenna öðrum um ættu kannski að líta í eiginn barm fyrst. Hvað er það annað en GRÆÐGI að halda að hægt sé að komast yfir hluti án þess að eiga fyrir þeim? Hvað er það annað en GRÆÐGI þegar venjulegt launafólk á Íslandi skuldbreytir íbúðaláni í einhverja erlenda mynt? Hvað er það annað en GRÆÐGI þegar sölumaður leggur mikið á sig til að sannfæra kaupanda um að betra sé að taka lán en að staðgreiða það sem keypt er? Og hvað er það annað en GRÆÐGI sem verður til þess að kaupandinn trúir þessu?

Við getum því sjálfum okkur um kennt. Sumir lenda kannski betur í þessu en aðrir en allir eitthvað. Munum bara að af engu verður ekkert. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband