Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Að gagnrýna skýrsluna!

Hér fyrr í dag skrifaði í færslu sem bar yfirskriftina "Má gagnrýna skýrsluna". Færslan var löng og ígrunduð og ég óskaplega ánægður með hana. Þegar ég ætlaði að vista og birta færsluna þá hvarf hún. Vistaðist ekki né birtist!

Þetta er líklega ágætt svar við spurningunni. Það er líklega ekki ætlast til þess að skýrslan sé gagnrýnd. Læt því vera að endurtaka færsluna. Er einnig dálítið forlagatrúar. Líklega er tilgangur með öllu. Kannski var færslan ekki eins góð og ég taldi. Hver veit.

Það er þó eitt atriði sem ég er hugsi yfir. Í 8. bindi skýrslunnar er háskólafólk gagnrýnt fyrir gagnrýnislausa umfjöllun um hina svokölluðu útrás og starfsemi bankanna. Þetta þykir mér heldur ómaklegt. 

Í fyrsta lagi þá er háskólafólk mjög fjölbreyttur hópur. Mjög margir hafa afar litlar forsendur til að fjalla um viðskipta- og eða efnahagsmál. Það fólk verður seint sakað um áður nefnt gagnrýnisleysi enda fylgja flestir því viðmiði að tala fyrst og fremst um það sem viðkomandi þekkir og hefur vit á.

Eftir stendur að innan Háskóla Íslands eru margir sem hafa forsendur til að fjalla um þessi mál, t.d. sumir kennarar viðskiptafræðideildar og hagfræðideildar (áður viðskipta- og hagfræðideildari). Lausleg athugun mín bendir til þess að menn eins og Ársæll Valfells lektor í viðskiptafræði, Gylfi Magnússon dósent í fjármálum, Vilhjálmur Bjarnason lektor í fjármálum, Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði og Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði hafi allir komið fram með gagnrýni eða lýst áhyggjum sínum af stöðu mála árin 2007-2008.

Það var hins vegar ekki mikil stemmning fyrir gagnrýni á þessum tíma. Hvorki innan bankakerfisins né á stjórnarheimilinu. Jafnvel var gengið svo langt að gagnrýna menn fyrir að vera að gagnrýna og þeir þá sakaðir um að grafa undan velgengninni með óþarfa neikvæðni sem fyrst og fremst benti til þess að þeir vissu ekkert hvað þeir væru að tala um.

Steininn tók svo úr þegar Gylfi Magnússon lýsti því yfir að bankakerfið væri tæknilega gjaldþrota. Alþingismenn, ráðherra og bankastjórar beinlínis réðust gegn Gylfa í fjölmiðlum með alls konar yfirlýsingum um hæfni, eða öllu vanhæfni, dósentsins.

Það er því kannski einhver ástæða fyrir því af hverju háskólafólk hugsar sig vel um áður en stjórnvöld eru gagnrýnd. Það er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að velta fyrir sér. 


Að græða eða græða ekki

Ég hef áður látið koma fram hér að mín skoðun á því hvernig fyrir okkur er komið megi rekja til hugtaksins GRÆÐGI.

Til að svona illa fari þarf GRÆÐGI margra að koma til, ekki bara sumra og alls ekki aðeins þeirra sem spjótin beinast einna helst að þessa dagana. Vissulega virðist það fólk hafa verið drifið áfram af GRÆÐGI en svo virðist einnig hafa átt við um marga fleiri.

Það að líta svo á að hægt sé að eignast "allt" án þess að eiga fyrir því er ákveðin tegund af GRÆÐGI. Það að skuldbreyta lánum, t.d. úr verðtryggðu yfir í gengistryggt var gert vegna þess að þeir sem það gerður ætluðu að GRÆÐA á gengismuninum. Mörg svipuð dæmi mætti taka. GRÆÐGI er því einhvers konar þjóðfélagsmein, reyndar höfuðsynd, sem við erum að súpa seiðið af nú.

Reyndar geri ég ekki sérstaka athugasemd við að fólk vilji GRÆÐA. Stundum er jafnvel notuð mildari útgáfa af hugtakinu sem er AÐ HAGNAST og ekkert athugavert við það.

Þeir sem vilja GRÆÐA mikið taka einnig mikla ÁHÆTTU. Það sem ég tel ámælisvert eru tilburðir í þá átt að taka áhættuna úr sambandi.

Það að ætla sér að GRÆÐA mikið án ÁHÆTTU eða að láta einhvern annan bera hana. Það er eitthvað sem engin sérstök ástæða er til að sætta sig við.


Viðskiptatækifæri í siðferðinu!

Sérstakt bindi í skýrslu rannsóknarnefndarinnar fjallar um siðferði og siðferðileg álitaefni. Þar kennir margra grasa og víða má finna mjög afdráttarlausa gagnrýni á atferli margra í kjölfar bankahrunsins. Einhverjir hafa þó bent á ónákvæmni í þeirri skýrslu og forseti lýðveldisins hefur gengið svo langt að segja hana fulla af rangfærslum. Lítur ennfremur ekki á hana sem hluta af skýrslu nefndarinnar. Veit svo sem ekki mikið um það.

Hvernig sem það er þá eru þarna ótal ábendingar um það sem betur má fara og snúa sumar þeirra að mikilvægi þess að blanda ekki saman viðskiptahagsmunum við aðra hagsmuni.

Það kom mér því, kannski ánægjulega, á óvart að sjá hve höfundar skýrslunnar voru fljót að átta sig á viðskiptatækifærinu sem finna má í skýrslunni en til stendur að halda námskeið um þann lærdóm sem draga má af bankahruninu. Kostar litlar 4.800 kr.

...nokkuð snjallt bara!!


Ekki benda á mig!

Eftir að hafa hlustað á viðbrögð sumra þeirra sem nefndir eru í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er ekki laust við að þessi texti komi upp í hugann. Ekki benda á mig! 

Það er bara ekki nokkur maður sem kannast við það að hafa gert eitthvað rangt. Allir telja þó skýrsluna góða og vel unna en þegar kemur að þeirra hlut þá hafi nefndin misskilið málið örlítið! Allt of mikið sé gert úr þeirra hlut, þau séu ýmist óheppnir makar eða ráðherra á plani. 

...svo má auðvitað alltaf bera fyrir sig minnisleysi. Ekki er nú hægt að að ætlast til þess að maður muni hvert einasta smáatriði sem maður tekur sér fyrir hendur!

 En svo ég taki nú undir með þeim mörgu er tjáð hafa sig um skýrsluna, hún virðist vel unnin. Hún virðist einnig miklu meira afgerandi en ég átti von á. Það er gott. 

Skýrslan er því gott fyrsta skref. Nú er bara að taka það næsta.


Hvað gerist í...

...kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Það hef ég satt best að segja ekki hugmynd um. Óttast þó að umræðan taki á sig pólitískan blæ sem lítið gagn verður af.

Umræðan gæti þá einkennst af því að Vinstri grænir munu með vandlætingu benda á sökudólga, framsóknarmenn verða hneykslaðir og hissa, enda löngu búnir að gera hreint fyrir sínum dyrum, og sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk mun, líklega af skömm, hrökkva í vörn og benda á hina og þessa annmarka við skýrsluna og skýrslugerðina. Umræðan mun svo fyrst og fremst endurspegla pólitíska afstöðu fremur en hlutlæga.

Þetta er þó vonandi óþarfa svartsýni. Vonandi eru í skýrslunni upplýsingar sem gagnast okkur í framtíðinni við að byggja upp okkar samfélag. Vonandi verður þeim sem ætlað er að fjalla um skýrsluna gefið eðlilegt svigrúm til þess. Á ég þar ekki síst við fjölmiðlafólk og hina ýmsu sérfræðinga sem leitað verður til.

Ég hef ákveðið að trúa því að þessi skýrsla sé eitt skref í rétta átt. Hef þó hugfast það sama og sá sem þarf að moka flórinn. "Það er enginn sérstök ástæða til að hafa dálæti á flórnum. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að það þurfi að moka hann!"

 


Viðskiptasóðaskapur, taka tvö

Fyrir um 14 mánuðum sagði ég mig úr stjórn IP-fjarskipta ehf eftir þriggja daga stjórnarsetu. Ég, ásamt Hilmari Ragnarssyni, hafði verið tilnefndur í stjórnina af Samkeppniseftirlitinu af ástæðum sem ég fer ekki nánar út í hér. Hver og einn getur kynnt sér ástæðurnar á vef Samkeppniseftirlitsins.

Við úrsögnina kusum við að nota hugtakið "viðskiptasóðaskapur" um reynslu okkar af stjórnarsetunni. Viðbrögðin voru sterk og ekki síst frá þeim sem töldu á sig hallað í umræðunni. Gekk það svo langt að okkur var hótað málsógn ef við drægum ekki ásakanir okkar til baka. Við sáum okkur því knúna til að útskýra nánar okkar afstöðu án þess að það hefði nokkur áhrif á upplifun okkar af málinu. Sumir töldu okkar draga í land með útskýringum okkar, sáu jafnvel ástæðu til að fagna því opinberlega. Hvað mig varðaði var það ekki aðalatriði málsins. Sagan myndi einfaldlega draga fram hvað það er sem varð til þess að við sáum okkur knúna til að nota umrætt hugtak um okkar upplifun.

Í færslu þann 11. febrúar 2009 geri ég tilraun til að útskýra hugtakið. Þar kemur fram að viðskiptasóðaskapur er:

"Hegðun sem einkennist af því að stjórnendur ganga á svig við almenn gildi og nota þvinganir, ógnanir, óbilgirni og ruddaskap til að ná fram markmiðum sínum."

Þá kemur einnig fram í sömu færslu að "viðskiptasóðinn" gangi út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt.

Því miður hefur ekkert komið fram sl. 14 mánuði sem hefur gefið mér tilefni til að ætla að ég hafi viðhaft óeðlilega viðkvæmni eða tepruskap þegar þessari upplifun var lýst á sínum tíma. Þvert á móti þá hefur margt komið fram sem bendir til þess að hegðun sú sem við vorum að setja okkur upp á móti hafi verið miklu algengari en geðslegt er að gera sér í hugarlund.

Á mánudaginn kemur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis út. Ég veit ekkert um innihaldið en mun kynna mér það. Því miður held ég að fréttirnar verði ekki góðar. Þær verða kannski ekkert sérstaklega skýrar og sjálfsagt ekki augljóst hvert framhaldið verður. Sumt er væntanlega þess eðlis að ætla má að um lögbrot sé að ræða. Annað kann að benda til þess að gengið hafi verið á svig við almenn gildi og siðferði en sé ekki beinlínis lögbrot. 

Það er einmitt um slík tilvik sem ég kýs að nota hugtakið "viðskiptasóðaskapur" yfir. Ég minni á að samkvæmt skilgreiningu þá gengur viðskiptasóðinn út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt. Fyrir allt venjulegt fólk er það þó ekki svo.

Ætluð lögbrot eiga sér skilgreindan farveg. Siðlaus hegðun þarf einnig sinn farveg.

 Að lokum vona ég að við sem þjóð höfum þann styrk til að bera að missa ekki stjórn á okkur í kjölfar birtingar skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þar skiptir mjög miklu máli að framvinda málsins sé skýr og gefi ekki tilefni til að ætla að verið sé að fara undan í flæmingi. Þar er stjórnvöldum mikill vandi á höndum. Það sem einum þykir sjálfsagt og réttlátt þykir öðrum bera merki ofsókna og hausaveiða. Stjórnvöld hafa því allan minn skilning á þeim vanda sem fylgir úrlausn þessa máls. Við sem þjóð þurfum að koma þessu máli, og reyndar ýmsum öðrum málum, frá. Þá fyrst getum við hafist handa við að byggja upp okkar samfélag á gildum sem ég held að flestir skilji og vilji. 


Þökk sé elgosinu!

Ég er einn af þeim mörgu sem hef barið eldgosið augum. Lét mig hafa það að ganga Fimmvörðuháls sem var erfitt en vel fyrirhafnarinnar virði. Upplifunin af því að vera í nálægð við eldgos er afar sérstök svo ekki sé meira sagt.

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að segja frá því sem gerist við eldstöðvarnar. Hafa reyndar einnig verið duglegir við að segja frá því sem EKKI gerist þar en látum það liggja á milli hluta. Það sem ég hef tekið eftir er að á sama tíma hafa eiginlega alveg hætt að birtast fréttir og EKKI fréttir af ICESAVE og efnahagshruninu. Þessi breyting hefur verið kærkomin og upplífgandi.

Nú er spurningin hvort svona lítið sé að gerast í efnahagsmálum þjóðarinnar eða hvort fjölmiðlar taka því sem hendi er næst hverju sinni. Það er ekki á hverjum degi sem maður fær eldgos upp í hendurnar til að fylla upp í fréttamínútur og dálksentímetra! 

...Ef það er raunin þá vona ég að elgosið vari sem lengst!


Enn fleiri skondnar auglýsingar

Þessi birtist í MBL 2. nóvember 1913, á forsíðu!

 

...og ekki er víst að þetta virki í dag (maður veit þó aldrei!)


Fleiri skondnar auglýsingar

Hér er auglýsing sem flestum þykir augljós tímaskekkja, eiginlega hálfgert grín!

 Einhver gæti álitið að svona geti bara gerst í útlöndum. Verum nú ekki of viss um það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband