Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Rétt, sanngjarnt og gerlegt!

Ég hef nokkuð oft þurft að velja á milli ólíkra kosta í ákvarðanatöku. Stundum hefur ekki verið augljóst hvaða kostur er bestur og stundum hefur þurft að velja á milli slæmra kosta. Mér til hjálpar hef og reynt að styðjast við það sem er RÉTT, SANNGJARNT OG GERLEGT. (að mínu mati að sjálfsögðu)

Mjög oft virðist liggja í augum uppi hvað sé RÉTT að gera. Það þarf hins vegar ekki að vera SANNGJARNT og oftar en ekki er það sem er RÉTT alls ekki GERLEGT. Þetta er því oft hægara sagt en gert. 

Með þetta í huga þá velti ég því fyrir mér hvað sé RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT í tengslum við dóm Hæstaréttar varðandi gengistryggð bílalán. Sumir telja RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT að lántakendur gengistryggðra lána taki þau vaxtakjör sem þeir hefðu annars fengið, þ.e. ef gengistryggð lán hefðu ekki verið í boði. Það getur svo sem vel verið!

Það sem vefst aðeins fyrir mér í því sjónarmiði er að líklegt er að hin "góðu" lán, sem gengistryggðu lánin áttu að vera, hafi beinlínis verkað sem neysluhvati. Fólk hafi tekið lán sem það hefði ekki gert ef aðeins hin kjörin hefðu verið í boði. Að sjálfsögðu ber hver og einn ábyrgð á sinni lántöku og þó ég hafi öðru hvoru reynt að bera hönd yfir höfuð stjórnenda bankanna þá verður ekki hjá því litið að ábyrgð þeirra er mikil. Bankar og fjármálastofnanir virðast beinlínis hafa haldið fé að fólki. Jafnvel fólki, óháð öllu efnahagshruni, sem var ekki borgunarmenn þessara lána.

Í mínum huga hefur það einni áhrif á hvað sé RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT ef satt reynist að stjórnendur fjármálafyrirtækja hafi vitað fyrirfram að gengistryggð lán væru vafasöm. Þeir hafi einfaldlega tekið sénsinn!


Að hagræða...

...gengur oft illa!

Það er líklegt að ein ástæðan fyrir því sé sú að það getur verið nokkuð flókið að vinna slíkt verk svo vit sé í. Hagræðingarverkefni krefjast mikillar þekkingar og reynslu af rekstrartengdum viðfangsefnum. Þá þekkingu má t.d. ná sér í með því að stunda nám í viðskiptafræði. Þetta er þekking sem mér sýnist oft ekki vera til staðar meðal þeirra sem eru að vinna að slíkum verkefnum og á það ekki síst við um opinbera og hálf-opinbera geirann.

Stundum er það sem er kallað hagræðing alls ekki hagræðing heldur er aðeins gert minna af því (hugsanlega óhagkvæma) verki sem unnið er. Dæmi um slíkt er flatur niðurskurður. Þar reynir hver og ein stofnun að mæta "hagræðingar" kröfunni óháð því hvort það starf sem unnið er sé vel unnið eða ekki. Niðurstaðan verður því oft sú að stofnanir losa sig við "kostnað" yfir á aðrar stofnanir. Heildarniðurstaðan verður því sú að heildarávinningurinn verður takmarkaður.

Önnur leið sem gjarnan er farin er að færa verkefni frá hinu opinbera yfir til einkaaðila. Það hljóti að vera hagkvæmara! Ég held ég þurfi ekki að eyða mörgum orðum í þetta. Reynslan sýnir að það er ekki lögmál að einkaaðili framkvæmi verk betur en opinber aðili. Stundum virðist því reyndar þveröfugt farið.

Það hugtak sem ég tel mikilvægt að þeir sem að hagræðingarverkefnum koma þekki er hugtakið FRAMLEIÐNI. Eftir að hafa skoðað þessi mál í all mörg ár þá sýnist mér vandinn að stórum hluta tengjast vanþekkingu á þessu hugtaki og þeim aðferðum sem því tengjast. Það er ekki ein einföld leið að útskýra þetta hugtak en kannski má segja að einfaldasta framsetningin sé sú að framleiðniaukning feli það í sér að þú gerir það sem þú ert að gera jafnvel með minni tilkostnaði. Eða að þú gerir betur það sem þú ert að gera með sama tilkostnaði. 

Það að gera minna af einhveru sem þú gerir illa er ekki framleiðniaukning en gjarnan álitin vera það. Slík útfærsla virðist oftar en ekki hafa aukinn kostnað í för með sér síðar.


Viðskiptafræðin öflug!

Þann 5. júní sl. lauk umsóknarfresti í grunnnám við Háskóla Íslands. Það vekur athygli mína hve margir hafa sótt um í viðskiptafræði en umsóknir í grunnnám eru tæplega 300. Þetta eru mun fleiri umsóknir en í fyrra.

Þetta er ánægjulegt sérstaklega í ljósi þess að viðskiptafræðin hefur átt undir högg að sækja. Ýmsir hafa í barnaskap sínum látið sér detta í hug að efnahagshrunið hafi verið þessari grein um að kenna! Það er að sjálfsögðu alrangt og gott að sjá að ungt fólk virðist átta sig á því að góð leið til að öðlast þekkingu á rekstri og viðskiptum er að læra viðskiptafræði. 

Íslenskt atvinnulíf þarf á þessari þekkingu að halda. Viðskiptafræðingar vinna fjölbreytt störf s.s. við bókhald, fjármál, stjórnun, markaðsmál, mannauðsstjórnun og þannig mætti áfram telja. Viðskiptafræðin gefur haldgóða menntun á þessum sviðum. Stjórnunar og sérfræðistörf í tengslum við atvinnulífið er viðfangsefni viðskiptafræðinga.

Gott að ungt fólk áttar sig á því. Það gera það ekki allir. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband