Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Hringvegurinn hjólaður á 8 dögum

Um miðjan júní ákváðum við félagarnir, Halli og Rúnar, að hjóla hringveginn. Þetta er svo sem ekki ný hugmynd en einhvern veginn hefur hún ekki komist á framkvæmdastig fyrr en núna. Við höfum svo sem ekkert óskaplega mikla reynslu af því að hjóla, það lengsta sem við höfðum farið fyrir þessa ferð var 107 km á dag. Erum þó í ágætu formi!

Í byrjun var markmiðið að fara hringinn á 7 dögum. Strax sáum við að það var illgerlegt og ákváðum að fara hringinn á 8 dögum. Lagt var af stað mánudaginn 20. júní kl. 9.30 og komið til baka mánudaginn 27. júní kl. 21. Að jafnaði voru hjólaðir 160-200 km á dag og hjólað 12-14 tíma.

Við upphaf ferðar

   

Fyrsta daginn voru hjólaðir 185,5 km og gist að Höfðabrekku rétt austan við Vík. Ferðatíminn var 12 tímar og meðalhraðinn 19,7 km á klst. Veðrið frekar leiðinlegt og við rennblautir þegar komið var í náttstað. 

Gist að Höfðabrekku

 Annan daginn var stefnan tekinn á Hala í Suðursveit (gist í Gerði). Hjólaðir voru 203 km, meðalhraðinn var 19,9 km á klst og ferðatíminn 13 timar. Þennan dag voru aðstæður góðar, umferð lítil og lítið um brekkur. Við þó þreyttir á náttstað enda 203 km nokkuð löng dagleið.

 

Við Jökulsárlón eftir 180 km hjólreiðar

Þriðja daginn var stefnan tekin á Djúpavog. Aðstæður ágætar en nokkuð um brekkur. Hjólaðir voru 161,61 km, meðalhraðinn 18,7 km og ferðatíminn 11 tímar. 

 

22062011234.jpg

 

Fjórða daginn var stefnan tekinn á Egilsstaði. Þetta átti að vera hálfgerður hvíldardagur en raunin varð önnur. Öxi er ekki sérlega hentug til hjólreiða. 

 

Á leið á Öxi

 

Hjólaðir voru 89,49 km, meðalhraðinn var aðeins 13,8 km og ferðatíminn 7,5 tímar. Komnir óvenju snemma á náttstað, eða um kl. 16 og gátum því nærst vel og hvílt okkur. Þetta var eini dagurinn sem við vorum komnir á náttstað fyrir kvöldmat en oftast vorum við ekki komnir fyrr en um kl. 22.

Fimmta daginn var stefnan tekinn á Mývatn um Möðrudalsöræfi. Hjólaðir voru 161,71 km, meðalhraðinn aðeins 14,4 km á klst og ferðatíminn 14 tímar. 

Á leið yfir Möðrudalsöræfi

 

Á þessari leið voru aðstæður afar slæmar. Aðeins tveggja stiga hiti, mótvindur og rigning.  Allt hafðist þetta þó og vorum við komnir á náttstað um kl. 22.

Sjötta daginn var stefnan tekin á Skagafjörð. Hjólaðir voru 194,17 km, meðalhraðinn 18,5 km á klst og ferðatíminn 13 tímar. Frekar erfið leið, mikið um brekkur og stundum mótvindur. 

Séð yfir Akureyri á leið í Skagafjörð

 Sjöunda daginn var stefnan tekinn suður fyrir heiðar eða í Norðurárdal. Hjólaðir 187,63 km, meðalhraðinn 20,9 km á klst, enda mikill meðvindur, og ferðatíminn 13 tímar. Óskaplega kalt í Hrútafirði enda norðan bál.

Kalt í Hrútafirði

 

Síðasti dagurinn átti að vera  frekar þægilegur enda ekki nema 144,38 km. Norðan hvassviðri gerði það þó að verkum að þetta varð heldur meiri raun en til stóð. Meðalhraðinn var þó 18,1 km á klst og ferðatíminn 12 tímar. Mannskaða veður var í Hvalfirði og urðum við um tíma að leita vars. Hér má sjá stutt myndband sem lýsir aðstæðum ágætlega.

Leitað skjóls í Hvalfirði

 

Allt hafðist þetta þó að lokum. Í heild voru hjólaðir 1.327 km á 8 dögum. Vitum ekki til þess að hringurinn hafi áður verið hjólaður á svo skömmum tíma.

Komnir á áfangastað eftir 1.327 km

 

....þetta er því óformlegt íslandsmet þar til annað kemur í ljóst!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband