Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Út í vorið!

Þegar nýtt ár gengur í garð tala margir um að mesta skammdegið sé framundan með tilheyrandi drunga og tómlæti. Þetta tel ég vera alvarlega hugsanavillu. Hið rétt er að vorið er framundan og með hverjum degi þá færist þaðnær og hver dagur öðrum lengri.

Hálf ömurlegt ár er nú að kveðja, eða hvað?. Getur verið að sú atburðarás sem hófst með hruni fjármálakerfisins hafi verið upphafið að einhverju miklu betra? Getur verið að margt annað skipti máli en aðeins efnahagsleg velsæld?

Ég held að ég eigi ekki eftir að sakna vissrar hegðunar í okkar samfélagi. Þetta er hegðun sem einkennist af græðgi, sjálflægni og hálfgerðri heimsku. Hvaða vit er t.d. í því að byrja á því að henda öllu út úr nýlega keyptri íbúð? Hvaða vit er í því að vera láta teikna fyrir sig þriðju eldhúsinnréttinguna á fimm árum? Að mín mati ekki mikið. Ég held að það hljóti að vera hægt að ráðstafa tíma sínum með skynsamlegri hætti. Að ég tali nú ekki um ráðstöfum peninga.

Það er því bjart framundan að mínu mati! Kannski verður maður eitthvað blankari og sumir munu eflaust eiga í verulegum peningalegum vandræðum. Af því þarf að draga lærdóm. Sjálfur þekki ég það ágætlega að hafa fjárhagsáhyggjur. Það er ömurleg tilfinning. Sérstaklega þegar maður uppgötvar að það er svo margt annað sem skiptir miklu meira máli í lífinu. Að sjálsögðu á maður ekki að haga sér eins og kjáni í fjármálum. Það er vísasta leiðin til vandræða.

Ágætur maður sagði eitt sinn við mig að maður yrði að lifa í lausninni en ekki vandanum. Ef maður lifir í vandanum, þá vex hann. Ef maður lifir í lausninni, þá kemur hún. Þetta hef ég reynt að temja mér. Með misjöfnun árangri að sjálfsögðu en æfingin skapar meistarann. Það er eins og það sé meira fyrir því haft að vera jákvæður en neikvæður! Þess vegna þarf að vinna í því að vera jákvæður. Ef maður gerir ekki neitt, þá er hætt við að neikvæðnin banki upp á. Jákvæðnina þarf því að æfa og æfa eins og hverja aðra íþrótt.

Oftar og oftar gengur það betur því æfingin skapar meistarann.

Gleðilegt nýtt ár! 


Að fara í Jólaköttinn...

...hefur ætíð þótt fremur slæmt. Hugsunin á bakvið hugmyndina er sú, eins og flestir vita, að fá ekki þann viðurgjörning um jól sem maður var vanur að fá eða átti von á.

Nú er hætt við að einn og einn fari í köttinn þann alræmda. Ákveðnar stéttir hafa verið drifnar áfram af gildum bónusgreiðslum sem alla jafna hafa verið greiddar út um jól eða áramót. Hætt er við að bónus ársins 2008 verði í rýrara lagi. Maður veit þó aldrei, ég hef satt að segja aldrei áttað mig á forsendum þessara greiðsla. 

Ég er að sjálfsögðu ekki mótfallinn þeirri hugmynd að umbuna fólki fyrir vel unnin störf. Það mætti jafnvel taka upp þann sið á fleiri sviðum. Margir starfsmenn vinna frábært starf án þess að nokkur sjái ástæðu til þess að umbuna fyrir það, amk ekki peningalega. Þetta fólk fær bara sín laun sem oftar en ekki eru frekar lág. Þar er það hinn andlegi auður sem öllu skiptir.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef það á að umbuna fyrir fyrir vel unnin störf eða árangur, þá ætti einnig að "refsa" fyrir illa unnin störf eða slælegan árangur. Fáir eru mér þó sammála. Flestir líta á það sem næga "refsingu" að fá ekki bónus eða lægri bónus en í fyrra. 

 Gleðileg jól!


Háskóli Íslands nýtur mikils traust!

Í nýlegri könnun MMR á trausti almennings til helstu stofnana samfélagsins kemur fram að Háskóli Íslands er sú stofnun sem borið er mest traust til. Tæp 77% bera frekar eða mjög mikið traust til skólans og aðeins 3.4% bera frekar eða mjög lítið traust til hans.

Til samanburðar þá bera 63.5% traust til Háskólans í Reykjavík og tæp 7% bera lítið eða mjög lítið traust til hans. Ekki kemur á óvart að þær stofnanir sem kenndar eru við bankahrunið koma mjög illa út í þessari könnun en innan við 10% bera traust til Seðlabankans, bankakerfisins og Fjármálaeftirlitsins og litlu fleiri bera traust til Alþingis.

Nánar má sjá upplýsingar hér


Háskólatorgið...

...hefur slegið í gegn!

Nýjustu byggingar Háskóla Íslands, Háskólatorg, Tröð og Gimli hafa slegið í gegn ef marka má þann fjölda nemenda og gesta sem dvelja þar löngum stundum. Þetta á ekki síst við nú í aðdraganda prófa en lesaðstaða fyrir nemendur batnaði mikið með tilkomu þessara bygginga. Þessa aðstöðu hafa nemendur nýtt sér vel í prófaundirbúningi.

Reyndar hefur komið í ljós að nemendur úr öðrum háskólum, einna helst frá Háskólanum í Reykjavík, hafa sóst eftir að nýta sér þessa aðstöðu. Þetta kemur dálítið undarlega fyrir sjónir í ljósi þess að Háskólinn í Reykjavík hefur hampað frábærri aðstöðu fyrir nemendur og gengið svo langt í nemendakynningum að segja að aðstaðan í Háskóla Íslands sé ömurleg!

Svo virðist sem sumir nemendur HR séu þessu ekki sammála... 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband