Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Fúsk og fum!

Ég hef stundum látið ófagleg vinnubrögð í stjórnun markaðsmála fara í taugarnar á mér. Félagi minn úr  háskólaumhverfinu benti mér reyndar á að ef mér þætti fúsk áberandi þá gæti ég líklega sjálfum mér um kennt þar sem mjög líklegt væri að ég hefði kennt þessu fólki. Það kann að vera eitthvað til í þessu enda reynir maður að vera á tánum hvað þessa þekkingaryfirfærslu varðar.

Ég sá hins vegar nýlega starfsauglýsingum sem minnti mig á hvar vandinn liggur að mínu mati. Vandamálið liggur ekki endilega í þekkingarskorti þeirra sem vinna, eða geta unnið, þessi störf heldur miklu heldur hjá þeim sem ráða í þessi störf og jafnvel hjá þeim ráðgjöfum sem koma að ráðningunni.

Í umræddri auglýsingu kemur fram um menntunar- og hæfniskörfur:

  • Sveinn eða meistari í <faginu>
  • Reynsla af stjórnun
  • Frumkvæði og hæfni til að vinna sjálfstætt
  • Skipulögð vinnubrögð
  • Rík þjónustulund og samskiptahæfni
  • Góð almenn tölvukunnátta

Það er alltaf fróðlegt að skoða svona lista. Það má ganga úr skugga um hvort umsækjandi hafi sveins eða meistarapróf faginu og hafi góða almenna tölvukunnáttu. Hin atriðin eru miklu erfiðari við að eiga. Hvað er t.d. átt við með reynslu af stjórnun. Á hún að vera löng eða stutt, góð eða slæm? Umsækjandi gæti átt langan stjórnunarferil en þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að flestum þykir viðkomandi slæmur stjórnandi. Þetta má þó auðvitað kanna með nokkurri fyrirhöfn.
Hin atriðin eru öllu verri. Hvernig metur maður frumkvæði og hæfni til að vinna sjálfstætt? Og hvaða lund er þessi þjónustulund? Og hvað með samskiptahæfnina? Þetta eru augljósir kostir en erfitt að meta.

Látum vera hvers krafist er og skoðun nánar hvað viðkomandi á að gera. Í auglýsingunni kemur fram hvað ábyrgðarsvið og helsu verkefni varðar:

  • Rekstur og starfsmannahald
  • Afgreiðsla og þjónusta
  • Vöruinnkaup og samskipti við birgja
  • Sölu- og markaðsmál

Þetta er athyglisvert. Þegar maður ber saman listana þá er ekki augljóst að sjá að um sama starf er að ræða. Það kemur t.d. hvergi fram í menntunar- og hæfniskröfum að viðkomandi þurfi að hafa lágmarks rekstrarþekkingu. Viðkomandi þarf ekki heldur að kunna skil á grundvallaratriðum í mannauðsstjórnun né heldur í vörustjórnun. 

Það ekki heldur talið nauðsynlegt að viðkomandi hafi þekkingu í stjórnun markaðsmála. Það virðist þó vera eitt af fjórum megin viðfangsefnum starfsmannsins. Niðurstaðan verður því óhjákvæmilega fúsk. Það hefur ekkert með góðan vilja eða viðhorf að gera. Stjórnun markaðsmála er viðfangsefni sem krefst tiltekinnar þekkingar. 

Ég tek þessa auglýsingu aðeins sem dæmi um algengt fyrirkomulag. Vona að þeir sem þekkja til auglýsingarinnar fyrirgefi mér. Gagnrýni mín beinist ekki að viðkomandi starfsemi. Miklu heldur að því algenga viðhorfi stjórnenda og eigenda að stjórnun markaðsmála séu viðfangsefni sem allir og enginn geti unnið vel og ekki þurfi neina sérstaka þekkingu til þess. Dæmin sanna að stundum er útfærsla markaðsstarfs léleg, órökrétt og illa ígrunduð. Þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að þeir sem hafa með þessi mál að gera hjá fyrirtæki eða stofnun, hafa ekki þá þekkingu sem nauðsynleg er. 

Niðurstaðan verður því fúsk og fum!


Smálán!

Fyrirtækið Kredia ehf hefur tekið upp á því að bjóða fólki það sem fyrirtækið kýs að kalla smálán. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram:

Kredia ehf. var stofnað til að auðvelda aðgang almennings að smálánum. Það er markmið Kredia að viðskiptavinir njóti ætíð skjótrar og góðrar þjónustu, einfaldlega og örugglega með nýtingu nútímatækni.

Kredia vill bjóða aðra möguleika í lánaviðskiptum. Þjónustan er áþekk lánaþjónustu bankanna eða kreditkortaþjónustu, en þó þarf ekki að stofna reikning eða greiða árgjöld eða önnur gjöld tengd viðskiptunum. Viðskiptavinir greiða eingöngu gjald fyrir hvert lán fyrir sig.

Þetta er út af fyrir sig áhugavert og gott svo langt sem það nær. Mér er þó til efs að það sem er mikilvægt einmitt núna sé að auðvelda almenningi aðgengi að smálánum en hver og einn verður að sjálfsögðu að gera það upp við sig. 

Áður en slíkt lán er tekið ættu menn þó að skoða kjörin vel. Fyrir 10.000 kr. í 15 daga greiða lántakendur kr. 2.500. Ef sama lán er tekið í aðra 15 daga, þ.e. einn mánuð, greiðir lántakandinn kr. 5.000. Sé lánið  tekið í eitt ár er kostnaðurinn (vextirnir) kr. 60.000.

Þetta þætti einhversstaðar nokkuð háir vextir!  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband