Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Ákvarðanafælni!

Ákvarðanafælni er óheppilegur löstur sumra stjórnenda. Hvort sem þeim líkar það betur eða verr þá þurfa stjórnendur reglulega að taka ákvarðanir. Sumar eru vandasamar og í eðli sínu flóknar. Sumar jafnvel óþægilegar.

Það að forseti Íslands skuli ekki hafa treyst sér til að taka afstöðu til laga um ríkisábyrgð vegna Icesave samkomulagsins kemur á óvart. Málið hefur verið til umfjöllunar á Alþingi lengur en nokkurt annað mál og fátt sem er óljóst við það. Vitað er að stjórnarandstaðan var á móti málinu sem og hópar í samfélaginu. Allt þetta hefur legið fyrir í langan tíma og ekkert óvænt við það.

Það er hálfgerð móðgun við almenning að eyða meiri tíma í þetta mál. Forsetinn þarf að taka ákvörðun. Ef hann treystir sér ekki til að staðfesta lögin þá er það niðurstaða.
Ef forsetinn kýs hins vegar að nota þetta mál til að baða sig í ljósi fjölmiðla þá eru það frekar óheppilegt.

...en ekkert kemur manni lengur á óvart í þessu máli!


IceSave samþykkt!

Alþingi hefur samþykkt lög um ríkisábyrgð á Icesave-samkomulaginu, 33-30. Maður veit varla hvort rétt er að hlægja eða gráta. Maður veit ekki einu sinni hvort málið er að byrja eða enda. Ég er líklega einn af ófáum sem er algjörlega búinn að fá nóg af þessu máli. En það er auðvitað munaður sem t.d. alþingismenn geta ekki veitt sér.

Framkoma sumra alþingismanna hefur að mínu viti ekki verið til þess fallin að auka virðingu almennings fyrir Alþingi. Stöðugt argaþras í nafni þjóðarheilla er ekki trúverðugt. Vonandi tekst þessu ágæta fólki að ná áttum. 

...ekki veitir af.


Ímynd banka og sparisjóða

Þessa dagana er ég og félagi minn, Friðrik Eysteinsson aðjúnkt við HÍ, að vinna að grein um áhrif bankahrunsins á ímynd banka og sparisjóða.

Í greininni er fjallað um afmarkaðan þátt í kjölfar hruns íslensku bankanna 2008, þ.e. ímynd þeirra. Fjallað er almennt um hvernig ímynd verður til og hvernig markaðsstarf hefur þróast í þá átt að beina tilboði skipulagsheildar að vel skilgreindum markhópi og leggja áherslu á að mynda tengsl við hann. Í rannsókninni er bæði lagt mat á ímynd einstakra banka í samanburði við aðra og þróun meðaltals ímyndarþátta fyrir einstaka banka og greinina í heild. 

Megin niðurstaða rannsóknarinnar er að ímynd Landsbankans virðist hafa skaðast mest í kjölfar bankahrunsins. Eftir hrunið tengist bankinn sterkar við spillingu en áður en fyrir það tengdist hann sterkt við eiginleika eins og traust og samfélagsleg ábyrgð. Bankahrunið virðist ekki aðeins hafa skaðað tiltekin vörumerki á markaðinum heldur hefur atvinnugreinin sem slík orðið fyrir miklum ímyndarlegum skaða. Meðaleinkunn jákvæðra eiginleika lækkar umtalsvert á meðan að meðaleinkunn eiginleika eins og spilling hækkar mikið hjá öllum bönkunum. Spilling virðist því vera sá eiginleiki sem helst einkennir íslenskan bankamarkað eftir bankahrunið.

Vinnupappír sem byggir á þessari rannsókn má sjá hér. Fleiri greinar um svipað efni má sjá á heimasíðunni minni undir <Rannsóknir>


Ölvaður Ögmundur!

Innslag Kastljóss sl. föstudagskvöld þykir mér eitthvað það alundarlegasta sem fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu vikur og mánuði. Í inngangi er því haldið fram að Ögmundur hafi verið undir áhrifum áfengis við atkvæðagreiðslu og sterklega gefið til kynnað að það "ástand" hafi þá væntanlega haft áhrif á þann gjörning.

Ég tek fram að ég er enginn sérstakur vildarvinur Ögmundar og ekki er ég að mæla með því að fólk sé almennt drukkið í vinnunni. Hér þykir mér hins vegar nokkuð langt gengið. Var Ögmundur ölvaður? Dugar að drekka 1-2 vínglös með mat til að réttlæta það að tilkynna alþjóð að viðkomandi hafi verið drukkinn í vinnunni? Vissi dagskrárgerðarfólk eitthvað um þetta og var eitthvað í framferði þingmannsins sem gaf tilefni til að upplýsa þjóðina með þessum hætti?

Ég er einn af þeim fjölmörgu sem bera traust til RÚV. Þessi fréttaflutningur þykir mér hins vegar fyrir neðan allar hellur. Ég dreg stórlega í efa að sú mynd sem dregin var upp af Ögmundi eigi rétt á sér. Í mínum huga ber þessi fréttaflutningur því merki vinnubragða sem eru ekki RÚV til sóma.

Ef þetta er skilningur fjölmiðlamanna á gegnsæi og að hafa allt upp á borðinu þykir mér það ágæta fólk vaða í villu. Væri ekki nær að eyða aðeins meiri tíma í einstök mál og fjalla um það sem raunverulega skiptir máli. 


Fyrsta skoðanakönnun á Íslandi

Í janúar-mars hefti tímaritsins Helgafells frá 1943 er birt grein um fyrstu skoðanakönnunina á Íslandi. Greinin, og rannsóknin, er unnin af Torfa Ásgeirssyni en fram kemur að dr. Björn Björnsson og cand.polit. Klemenz Tryggvason hafi aðstoðað við orðalag spurninga og ýmis skipulagsatriði.

Það er margt fróðlegt í þessari grein. Sem dæmi er gerð grein fyrir úrtakinu en fram kemur að 68,8% þeirra sem svara voru karlar á meðan 31,2% voru konur. Um þetta segir höfundur:

"Hér er því um áberandi skakkt hlutfall að ræða. Orsökin er aðallega tregða kvenna til þess að láta í ljós skoðanir sínar á opinberum málum."

...og til að fyrirbyggja allan misskilning þá heldur höfundur áfram útskýringum sínum:

"Hér nægir að nefna, að konur hliðra sér afar oft hjá því að taka sjálfstæða afstöðu til spurninga af þessu tagi."

Maður gæti talið þetta skrifað árið sautjánhundruð og eitthvað en ekki árið 1943. Í það minnsta hafa konur tekið miklum breytingum!

Könnunin sjálf fjallar svo um hin ýmsu þjóðfélagsmál. Þannig er til að mynda kannað viðhorf almennings til þess hvort byggja eigi Hallgrímskirkju (nú þegar eins og fram kemur í spurningunni). Niðurstaðan var sú að rúm 80% töldu það ekki tímabært!

Einnig var könnuð afstaða almennings til þess hvort slíta ætti konungssambandinu við Danmörk og stofna lýðveldi á árinu. Tæp 50% sögðu nei við þeirri hugmynd!

Könnunin er á margan hátt stórbrotin lesning og læt ég hana því fylgja með.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðarleiðtogi!

Ég tel að hver þjóð þurfi á leiðtoga að halda. Reyndar tel ég að hver eining, stór sem smá, þurfi á leiðtoga að halda. Látum það þó liggja á milli hluta í bili.

Spurningin er hver ætti þessi leiðtogi að vera og hvaða kosti ætti hann eða hún að hafa til að bera? Sjálfur tel ég óheppilegt að þjóðarleiðtogi sé annað hvort fyrrum herforingi eða stjórnmálamaður. Hér á landi þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af fyrrum herforingjum en kannski meiri af fyrrum stjórnmálamönnum. Svo ekki sé talað um núverandi stjórnmálamenn en það er önnur saga.

Af þessum ástæðum tel ég forsætisembættið mikilvægt. Forsetinn á að vera leiðtogi þjóðarinnar og hafinn upp fyrir flokkapólitík og flokkadrætti. Hann eða hún þarf að vera einstaklingur sem flestir líta upp til, einstaklingur sem hefur grunngildi eins og hófsemi, heiðarleika og manngæsku að leiðarljósi og talar af varfærni en festu um flest mál. 

Eftir að hafa hlustað á viðtal við Vigdísi fyrrum forseta rann það upp fyrir mér hvað við misstum mikið þegar hún hætti sem forseti. Líklega nokkuð til í því þegar sagt er að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Vigdís talar þannig að eftir er tekið. Virðist laus við raup og dramb og virðist hafa það umburðarlyndi sem góður leiðtogi þarf til að bera.

Hún virðist einnig í fínu formi!


Rannsóknir í markaðsfræði

Komin er út bókin Rannsóknir í markaðsfræði. Bókin á sér nokkurn aðdraganda en hún hefur verið í vinnslu í ein þrjú ár.  Markmiðið með útgáfunni er að gera rannsóknir í markaðsfræði aðgengilegri en nú er. 

Í bókinni eru sjö greinar sem fjalla um ólík viðfangsefni markaðsfræðinnar, s.s. atferlisgreiningu, þáttagreiningu, fyrirtækjamenningu, staðfærslu og samkeppnishæfni, ímyndarmælingar, markaðshneigð, þjónustumælingar og þjónustumat. Sumar greinarnar fjalla um hugtök á meðan að í öðrum er verið að vinna með tölur og gögn. Lesendur ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi að því gefnu að rannsóknir á sviði markaðsfræði séu þeim áhugaverðar.

Meðhöfundar að einstaka greinum eru þeir Art Schalk, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, Gunnar Magnússon, Haukur Freyr Gylfason og Valdimar Sigurðsson. Höfundur bókarkápu er Þorgeir Guðlaugsson.

Bókin er 213 síður og fáanleg hjá Bóksölu Stúdenta.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband