Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Reikningurinn sendur á almenning

Það eru margar flóknar ástæður fyrir því af hverju efnahagskerfið fór þá leið sem það fór. Sumar tengjast ytri aðstæðum, aðrar tengjast okkar innra skipulagi. Þar brugðust margir. Eru þar fræðimenn og háskólakennarar ekki undanskildir.

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn brugðust trausti almennings. Þetta er það fólk sem hefur valist, eða valdi sig sjálft, til forystu í þágu almennings. Margir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu og enn aðrir náðu ekki kjöri. Sveitarstjórnarmenn hafa hins vegar ekki tekið sömu ábyrgð og margir þingmenn gerðu. Þeir þurfa að gera það. Vandi sveitarfélaganna nú er ekki aðeins vegna ytri aðstæðna. Sveitarstjórnarmennirnir sem íbúarnir völdu til að reka sveitarfélögin brugðust. Þess vegna eru þau mörg hver í miklum vanda.

Það er auðvelt að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Nánast hvað sem er gert er hægt að gagnrýna af þeirri einföldu ástæðu að það þarf að taka margar sársaukafullar ákvarðanir. Það veldur mér hugarangri að á meðan að almenningur kallar eftir úrbótum í vanda heimilanna þá skuli útspil stjórnvalda vera það að hækka álögur á fólk. Látum vera að áfengi og bensín skuli hækka. Það er neysla sem að einhverju leyti er valkvæði. 

Það sem er slæmt við ákvörðunina er að hún hefur bein áhrif á vísitöluna. Verðtryggingin er út af fyrir sig ill nauðsyn. Það er því mikilvægt að stjórnvöld séu ekki að "fikta" í vísitölunni með ákvörðunum sínum. 

 Það er alltof einföld leið að ætla að velta vandanum yfir á almenning með þessum hætti. Hér held ég því miður að verið sé að henda hundraðkalli til að taka upp krónu. Það er nánast öruggt að viðbrögð almennings munu ekki láta á sér standa. Út frá PR sjónarmiði er þetta því afar óklókt. Betra hefði verið að koma með jákvætt inngrip fyrst, svo mætti skoða skattahækkanir. 


Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar

Vorráðstefna Viðskiptafræðistofnunar verður miðvikudaginn 20. maí og hefst hún með erindi aðalfyrirlesarans, prófessors Michael Evan Goodsite, kl. 10 stofu 101 í Odda. Erindið ber yfirskriftina Corporate Strategies and Climate Change.

Alls verða 20 erindi í 6 straumum. Erindin eru mjög fjölbreytt eins og vænta má en þau tengjast hagfræði, mannauðsstjórnun, markaðsfræði, stjórnun og stefnumótun. Ég verð málstofustjóri á hagfræðimálstofu sem hefst kl. 11 í Háskólatorgi 101. Fyrirlesarar eru Katrín Ólafsdóttir, Guðmundur Kristján Óskarsson og Helgi Tómasson. Erindi Katrínar fjallar um launamun kynjanna, Guðmundar um heilbrigðisútgjöld og Helga um verðtryggða samninga. Áhugafólk um þessi málefni er að sjálfsögðu hvatt til að mæta.

Sjálfur tengist í þremur erindum sem haldin verða í Háskólatorgi 102 kl. 15. Fyrsta greinin er skrifuð með Art Scalk og fjallar um markaðshneigð í bankakerfinu. Önnur greinin er skrifuð með Auði Hermannsdóttir og Friðriki Eysteinssyni og fjallar um ímynd banka í kjölfar bankahrunins. Þriðja greinin er skrifuð með Guðmundi Skarphéðinssyni og Gylfa Dalmann og fjallar um þáttagreiningu DOCS út frá þekkingarstjórnun. 

Áhugasamir geta séð þessar greinar á heimasíðunni minni, www.hi.is/~th undir rannsóknir.


Fyrirgefning syndanna!

Okkur hefur verið fyrirgefið. Bretar gáfu okkur stig!

Alþjóða hvað?

Ónefndur skóli hér í bæ auglýsir um þessar mundir alþjóðlegt nám. Þetta hefur vakið athygli mína og hef ég lagt mig fram um að reyna að átta mig á í hverju þetta liggur.

Í ljós kemur að flestir, ef ekki allir, nemendurnir eru íslenskir en námið fer fram á ensku. Varla dugar það til að gera nám alþjóðlegt, eða hvað? Til viðbótar er að margir kennararnir eru útlendingar. Ætli það sé það sem geri það að verkum að námið telst alþjóðlegt? Útlendingar að kenna íslendingum á ensku!

Þetta væri eins og að hæna yrði að manni við það eitt að inn í hæsnabúið komi maður!


Hvar var verkalýðshreyfingin?

Ég starfaði lengi sem verkamaður og mun ætíð í einhverjum skilningi skilgreina mig sem verkamann. Tel reyndar að flest okkar séum verkafólk þar sem of fáar kynslóðir eru síðan að meginþorri vinnuafls hafði lífsviðurværi sitt af verkamannastörfum. Sumir eiga erfitt með að kannast við það.

Fyrir mörgum árum, þá starfandi sem verkamaður, upplifði ég að verkalýðsforystan hafði meiri áhuga á sér en mér. Eftir það ákvað ég að vinna alltaf mikið 1. maí. Það hefur ekkert breyst. Vinn reyndar mikið alla daga en það er önnur saga. Það gera reyndar margir og ekkert merkilegt við það.

Í byltingunni var það alþýða fólks sem krafðist þess að gerðar yrðu breytingar. Við þekkjum hver niðurstaðan varð. Hún stendur reyndar enn sú krafa að hér verði gerðar margar kerfisbreytingar. Sumar þeirra snúa að verkalýðshreyfingunni, samskiptum hennar við vinnuveitendur og aðkomu að lífeyrissjóðum landsmanna. 

Mér fannst einnig undarlegt að verkalýðshreyfingin hefði ekki séð ástæðu til að taka þátt í byltingunni. Hún gerði það reyndar eftir á, þegar allt var um garð gengið. Hélt reyndar einn fund sem mjög fáir virtust hafa áhuga á. Annars var hún stikkfrí og vísaði til einhvers undarlegs samkomulags við ríkisstjórnina um frið á vinnumarkaði.

Getur verið að verkalýðshreyfingin sé hluti af því kerfi sem fólkið var að mótmæla? Getur verið að vegna tengsla sinna við ríkjandi öfl og kerfi þá hafi forystumenn verkalýðshreyfingarinnar ekki getað tekið þátt í mótmælunum? Þeir séu einfaldlega hluti af því sem fólkið var að mótmæla?

Ég ætla að hugsa um þetta í dag á meðan í vinn.

Svo ætla ég aðeins að undirbúa mig undir tónleikana hjá Karlakór Kjalnesinga laugardaginn 2. maí kl. 16 í Digraneskirkju. Nánar um það hér


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband