Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Fellur stjórnin?

Nú vaxa líkurnar heldur fyrir því að ríkisstjórn Íslands falli. Ögmundur, sem þó segist enn styðja ríkisstjórnina, hefur sagt af sér embætti heilbrigðisráðherra. Þetta veikir stjórnina verulega.

Það má halda því fram að það sé ekki aðeins líklegt að stjórnin falli heldur sé það nauðsynlegt. Stjórnarflokkarnir virðast svo ósamstíga í mörgum veigamiklum málum að ekki verður við það unað mikið lengur.

Hvað við tekur þá er ekki gott að segja. Áður hef ég talað fyrir því að mynduð verði þjóðstjórn og gekk svo langt að tilnefna, að mínu mati, hæfa einstaklinga í helstu embætti. Líklega ættu hefðbundnir stjórnmálamenn að stíga til hliðar. Þeir virðast ekki getað staðist þá freistingu að láta stjórnast af pólitísku skítkasti.

Þjóðin þarf ekki á því að halda nú. 


Hugleiðing um samkeppni

Upp á síðkastið hafa komið fram sjónarmið þess efnis að samkeppni og samkeppnislög séu munaður sem við ekki höfum efni á um þessar mundir. Það jafnvel gefið til kynna að Samkeppniseftirlitið sé fyrirbæri sem við getum verið án.

Þessum sjónarmiðum er ég ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að fátt sé eins skaðlegt neytendum og skortur á samkeppni, þar sem hún á við. Samkeppnishugtakið er hins vegar ekki mjög einfalt hugtak og á því margar hliðar. Þannig er t.d. hægt að skilgreina samkeppni út frá ólíkum sjónarhornum. Í grundvallaratriðum er um tvö sjónarhorn að ræða.

Það fyrra er samkeppni skilgreind út frá sjónarhóli atvinnugreinarinnar. Þetta er hefðbundin rekstrarhagfræðileg skilgreining á samkeppni og gengur út á það að fyrirtæki sem eru í sömu atvinnugrein, eru í samkeppni. Þannig er ein myndbandaleiga í samkeppni við aðrar myndabandaleigur, eitt flugfélag í samkeppni við önnur flugfélög og þannig má áfram telja. Samkeppnin er því skilgreind út frá sjónarhóli fyrirtækisins.

Hin nálgunin er að skilgreina samkeppni út frá markaðnum. Þá er sú starfsemi í samkeppni sem fullnægir sömu eða svipuðum þörfum.  Þetta er t.d. skilgreining sem markaðsfræðin styðst við. Þá er samkeppnin skilgreind út frá neytendum og miðað við það að ef neytendur hafa val um tvær eða fleiri leiðir til að fullnægja þörfum sínum og löngunum, þá sé til staðar samkeppni. 

Það er mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að til staðar sé eðlileg samkeppni. Það er hins vegar jafn mikilvægt að átta sig á því hvenær samkeppni er nauðsynleg og hvenær hún skiptir litlu sem engu máli. Það er t.d. óþarfi að láta samkeppnislög þvælast fyrir eðlilegum aðgerðum í bankakerfinu á meðan að nánast allt bankakerfið er á forræði hins opinbera.

Við slíkar aðstæður þjónar samkeppni afar litlum tilgangi. 


Framsýnn forseti

Ég ber mikla virðingu fyrir embætti forseta Íslands. Er t.d. ekki einn af þeim sem telja að leggja eigi þetta embætti niður. Gagnsemi embættisins í alþjóðaviðskiptum var óumdeilt og létu viðskiptajöfrar gjarnan hafa það eftir sér að aðkoma forsetans hafi skipt sköpum við stofnun viðskiptasambanda.

Lítið hefur borið á forseta vorum sl. mánuði, þar til nú. Í viðtali á Bloomberg  gerir forseti grein fyrir afstöðu þjóðarinnar (er jú fulltrúi hennar) til þess sem gerðist í aðdraganda efnahagshrunsins. Sérstaklega athygli vekja eftirfarandi ummæli:

“Whatever you say about the Icelandic banks, they operated within the framework of the European regulations on banking and finance,”

Þetta þykir mér heldur mikil framsýni. Eða hvað? Veit forsetinn eitthvað sem við hin vitum ekki? Er hugsanlegt að þetta verði niðurstaðan eftir allt saman? 

Forsetinn ætti að upplýsa forstjóra Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra um þessa vitneskju sína. Fólkið í þessum stöðum hefur allt haft nokkuð ákveðin orð í þá átt að bankarnir hafi einmitt ekki farið eftir reglum og lögum. 

Sjálfur veit ég ekkert um það. Tel hins vegar mikilvægt að flýta rannsókn þeirra mála sem til skoðunar eru og eiga eftir að koma upp. Það er mikilvægt fyrir viðskipti á Íslandi. Ef niðurstaðan liggur ekki fyrir, þá liggur hún ekki fyrir. Ef niðurstaðan liggur hins vegar fyrir þætti mér eðlilegt að þjóðin þyrfti ekki að lesa um það á Bloomberg


Magnaður Mogginn!

Eins og kunnugt er hefur ritstjóra Morgunblaðsins verið sagt upp störfum. Þegar stefna og áhersla eigenda og stjórnanda fara ekki saman er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að eigendur kjósi að skipta um mann í brúnni. Raunar verður að álíta það grundvallar rétt eigenda.

Hver svo stefna og áherslur nýrra eigenda er liggur svo sem ekki fyrir. Ekki heldur hver tilgangur þeirra með reksri blaðsins er. Er hugmyndin eingöngu sú að um verði að ræða vettvang sem skapar tekjur með sölu auglýsinga eða er miðlinum ætlað eitthvert annað og æðra hlutverk?

Mogginn hefur verið til í nokkur ár. Við stofnun virtist sem eigendur hefðu skýra sýn á tilgang og áherslur blaðsins. Til gamans eru hér brot úr ritsjórnarpistli fyrsta tölublaðs Morgunblaðsins sem koma út 2. nóvember 1913.

" Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað. Reykjavíkurbær hefir enn eigi eignast slíkt blað, þó þörfin hafi verið mikil um mörg ár og mörg nauðsynleg skilyrði hafi þegar verið fyrir hendi. Stjórnmálabarátta sú, sem þjóðin hefir átt í síðasta áratuginn, hefir tekið svo mikið rúm í blöðunum, að þeim hefir eigi verið unt að rita um margt hið skemtilega og nýstárlega, sem gerst hefir innanlands og utan. En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum, þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjar málum. Þær fréttir munu ritaðar með öllu litlaust."

Rétt er að taka fram að stafsetning og áherslur eru blaðsins.

Ekki verður annað sagt en að í upphafi hafi eigendur Morgunblaðsins haft skýra mynd af því hvert ætti að vera hlutverk hins nýja blaðs.

Fljótlega ættu núverandi eigendur að setja sína sýn fram með eins skýrum hætti og þá var gert. Það væri gott fyrir okkur lesendur.


Sá yðar sem syndlaus er...

 Eins og flestum er eflaust kunnugt hefur Magnús Árni Skúlason sagt sig úr bankaráði Seðlabankans í kjölfar ásakana um að hann hafi ætlað að greiða fyrir aflandsviðskiptum með gjaldeyri og vinna þannig gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar með gjaldeyrishöftum. Ásakanirnar virðast koma frá MBL og endurfluttar í fleiri miðlum.

Satt best að segja þykir mér þetta óþarfa viðkvæmni hjá Magnúsi. Það að fjölmiðill kjósi að fjalla um athafnir einstaklinga með sínum hætti er einfaldlega bara eitthvað sem opinber persóna þarf að sætta sig við. Seta í bankaráði Seðlabankans gerir persónuna á vissan hátt opinbera. Þess vegna er mjög mikilvægt að slíkar persónur vandi sig.

Birkir J Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir ákvörðun Magnúsar rétta, en Magnús var fulltrúi Framsóknar í bankaráðinu, og Hallur Magnússon sér sérstaka ástæðu til að hrósa Magnúsi fyrir afsögnina á blogg síðu sinni. Sú færsla endar á orðunum:

Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum!

Getur verið að hér hafi Hallur hitt naglann á höfuðið? Getur verið að allt of margir tengist allt of mörgu sem misjafnt má telja, að nánast útilokað sé fyrir nokkurn mann að taka á málum hér? Getur verið að þeir seku, hverjir svo sem það eru, hafi gætt þess að gera sem flesta þá meðseka sem einhvern tíma í framtíðinni gætu tekið upp á því að gagnrýna þá?

... eða getur verið að við séum bara almennt í ólagi? Hér hafi orðið e.k. siðrof sem geri það að verkum að við erum fullkomlega ófær um að taka á þeim málum sem taka þarf á í tengslum við efnahagshrunið?

... og hvað gera bændur þá? 

 

 


Á milli skips og bryggju

Fréttir af auðugum Japönum sem komu hingað til lands sl. haust og vildu fjárfesta hefur vakið athygli mína. Þetta voru víst enginn smámenni og höfðu áhuga á að fjárfesta fyrir lítinn milljarð dollara. Það eru rúmir 120 milljarðar ísl. króna. Eitt og annað sem má gera fyrir þá peninga.

Fjármálaráðherra kannaðist hins vegar ekki við málið. Dreg það ekki í efa. En að ástæðan hafi verið sú að erindið hafi fallið milli skips og bryggju finnst mér dálítið undarleg.
Ef 120 milljarðar geta fallið milli skips og bryggju í þessu annars ágæta ráðuneyti, hvað þá með smærri upphæðir og önnur minniháttar mál?

Held að ráðherra, sem alla jafna hefur munninn fyrir neðan nefið, hafi þarna orðið alvarlegur fótaskortur á tungunni. 

Svo er það auðvitað til umhugsunar hver það var sem upplýsti ráðherra EKKI um erindið ef þetta var þá eitthvert erindi yfir höfuð.


Pólitískur línudans!

Stjórnmálamenn eru ekki öfundsverðir þessa dagana. Á þeim standa öll spjót og til þess ætlast að stjórnmálamenn komi með varanlegar lausnir á vanda skuldugra fyrirtækja og heimila. Sumum finnst sem að lausnin liggi í augum uppi á meðan að aðrir telja mikilvægt að greina vandann og forgangsraða. Flestir virðast þó komnir á þá skoðun að eitthvað verði að gera í málinu.

Hér er stjórnmálamönnum nokkur vandi á höndum. Það þarf ansi sterk bein, og skilning á eðli máls, til að móta sér ákveðna afstöðu og fylgja henni eftir. Jafnvel þó svo að til óvinsælda verði. Flestir stjórnmálamenn virðast hins vegar óttast almenningsálitið. Umrætt almenningsálit er reyndar ekkert endilega almenningsálit og getur verið t.t.l. þröngur hópur sem lætur hátt í fjölmiðlum eða í bloggheimum. Það þarf ekki að koma á óvart að hagsmunahópar verji hagsmuni sína.

Það er hins vegar til umhugsunar ef stjórnmálamenn láta stjórnast af þrýstingi hagsmunahópa. Að sjálfsögðu telja þessir hagsmunahópar sína hagsmuni mikilvægari en einhverja aðra hagsmuni. Sumum finnst augljóst að fresta eigi vegaframkvæmdum á landsbyggðinni og fella niður skattaafslátt til handa sjómönnum. Þessir sömu aðilar búa þá væntanlega ekki á landsbyggðinni né stunda sjómennsku. Aðrir telja glapræði að ætlast til þess að hagrætt verði í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu og saka stjórnvöld um skammsýni og árás á grunngildi samfélagsins.

Nú er það hlutverk stjórnmálamanna að taka margar erfiðar ákvarðanir í tengslum við fjárlagagerð næsta árs. Það er mikilvægt að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi en láta ekki stjórnast eða glepjast af hagsmunagæslu hagsmunahópa.

Þá verður útkoman eins og múlasni. Hvorki hestur né asni og til lítils gagns fyrir eigandann.


Drunur vegsældar!

Maður hefur verið frekar hnugginn síðustu vikur og mánuði. Allt virðist vera í kyrrstöðu og lítið að gerast  í atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu. Menn gera jafnvel alvarlegar athugasemdir við fjárfestingar útlendinga hér á landi! Það er eins og útlendingar eigi bara að fá að kaupa það sem við höfum ekki áhuga á að eiga.

Vinnustaður minn, Háskóli Íslands, er rétt við flugvöllinn eins og flestir eflaust vita. Árið 2007 kom það gjarnan fyrir að maður þurfti að gera hlé á máli sínu vegna þess að einkaþotur auðmanna, kannski rétt að segja fyrrum, voru ýmist að lenda eða hefja sig til flugs með tilheyrandi hávað og látum. Þessar drunur vegsældar hef ég ekki heyrt lengi.

Í dag varð ég hins vegar vitni af því að einkaþota tók sig á loft með tilheyrandi drunum og hávaða. Ég horfði á vélina og fann fyrir bjartsýni. Frábært! Loksins er eitthvað almennilegt að gerast hér! Nú er þetta allt að koma!

...en svo varð ég kvíðinn!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband