Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Forsendubrestur!

Í umræðunni um skuldavanda heimila kemur ítrekað fram að um forsendubrest hafi verið að ræða. Um þetta er fjallað eins og um staðreynd sé að ræða. En er það svo?

Ef ég gef mér einhverjar forsendur sem svo standast ekki er þá um forsendubrest að ræða? Það þykir mér nokkuð hæpið. Gæti ekki miklu heldur verið um að ræða vanmat mitt á aðstæðum og þróun mála. Auðvitað sá ég ekki fyrir algjört efnahagshrun og fall krónunnar frekar en nokkur annar. Reyndar verður að benda á að ef eitthvað má lesa í þann fjölda mála sem tengjast innherjasvikum þá virðast sumir hafa haft betri sjón en aðrir hvað þetta varðar. En nú hafa gengislánin verið dæmd ólögleg og kannski ekki mikil ástæða til að eyða miklum tíma í þau.

Kemur þá að verðtryggðum lánum. Hvaða forsendubrestur átti sér stað hvað þau varðar? Komu skuldari og lánardrottinn sér saman um einhver hámörk á sveiflu verðbólgunnar? Ég held ekki. Sveifla í verðbólgi hefur verið mikil allt frá því að hún var tekin upp. Stjórnvöldum hefur eiginlega aldrei tekist að ná markmiðum sínum hvað verðbólguna varðar.

Það sem fyrst og fremst er athugavert við verðtryggðu lánin er sú undarlega hugmynd að í lagi sé að taka verðtryggt lán sem nemur allt að 100% af verðmæti eignar þegar tekjur eru óverðtryggðar. Sveiflur í verðbólgu og verði á íbúðarhúsnæði mun alltaf hafa þau áhrif að á einum tíma er eigið fé fjölskyldu jákvætt en á öðrum neikvætt þegar skuldahlutfallið er svona hátt. Eiginfjárstaða heimilis skiptir svo í raun ekki miklu máli. Það sem skiptir máli er greiðslugeta heimilisins. Það ætti að vera hægt að reikna út greiðslugetu fjölskyldu en svo virðist sem margir hafi gengið að ystu brún hvað það varðar og ekki gert ráð fyrir neinum slaka eða sveiflum. Það er óráðlegt.

 Þegar ég var að kaupa mína fyrstu alvöru fasteign þá var mér ráðlagt að láta ekki lán nema hærri upphæð en sem nemur 60% af verðinu. Ef ég færi upp fyrir það þá gæti eignamyndunin orðið neikvæð. Ég fæ ekki betur séð en að þetta ráð sé í fullu gildi enn þann dag í dag.

En þessar hugleiðingar mínar leysa ekki nokkurn vanda. Það er staðreynd að margar fjölskyldur eru í miklum vandræðum og það er þjóðhagslega óhagkvæmt að viðhalda þeim vandræðum. Það er hins vegar ekki augljóst hver á að gera hvað. Spjótin beinast að stjórnvöldum. Þeim er ætlað að koma með lausn á vandanum. Mjög skiptar skoðanir eru svo um þær leiðir sem í boði eru.

Ef skuldari og lánardrottnar geta ekki leyst vandann þá vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að takmarka frelsi einstaklinga til að skuldsetja sig sem og ábyrgð þeirra sem lána. Frelsið er gott en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Ef ábyrgðin er tekin af hlutaðeigandi aðilum þá er ekki ólíklegt að það sam eigi við um frelsið. Varla viljum við það?

...eða hvað?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband