Þvaður!
10.5.2010 | 21:05
Stundum þykir mér fólk tala og skrifa með óskaplega óábyrgum hætti. Stundum er þetta saklaust þvaður en stundum er um að ræða skaðlega, og jafnvel rættna, umfjöllun um efni sem viðkomandi virðist ekki hafa nokkurt vit á.
Dæmi um slíka umfjöllun er pistill Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í dag sem hann kallar Excelskáldin. (sjá Fréttablaðið 10. maí, bls. 15)
Þar kemur m.a. fram:
"Fram hefur komið að viðskiptahættir mannsins sem veðsetti bótasjóð Sjóvár í braski sínu hafi verið kenndir við Háskólann og nemendur sérstaklega látnir gera grein fyrir þeim á prófi. Það er ekki endilega vegna þess að kennarar við Háskólann séu siðlausir eða fábjánar þeir hafa kannski bara ekki mikið hugsað út í rétt og rangt og flækjurnar sem téður viðskiptamaður bjó til virðast hafa þótt svo athyglisverðar frá faglegu sjónarmiði að aðdáun hafi vakið. En það vantar augljóslega eitthvað í nám þar sem slíkt er kennt með velþóknun. Sjálf hugmyndafræðin á bak við það er röng. Sú hugmyndafræði að allt okkar háttalag og öll okkar einkenni sé vara á markaði: líka traust."
Hér fer GAT með þvaður. Hvergi hefur komið fram á ábyrgum vettvangi að viðskiptahættir þessa tiltekna manns hafi verið kenndir við Háskólann. Það kann að vera að einhver sé þeirrar skoðunar, haldi það og hafi jafnvel bloggað um það. Það verður hins vegar ekki sannleikur við það enda fullkomið þvaður.
Sem kennari við Háskólann get ég fullvissað lesendur um að fæstir kennarar, ef einhverjir, eru siðlausir eða fábjánar. Flestir, ef ekki allir, hafa fengið áralanga þjálfun í gagnrýnni hugsun og velta því reglulega fyrir sér hvað sé rétt og hvað sé rangt. Aftur fer GAT með þvaður.
Það að halda því fram að umræddur gjörningur hafi vakið aðdáun er ekki aðeins þvaður, heldur einnig rætið og ósmekklegt. Þetta á GAT, sem ég held að sé sómakær maður, að vita.
Athugasemdir
Usss, til hvers að skemma góða sögu með sannleikanum.
Annars skilst mér að "alvarleiki" þessa máls sé ekki meiri en svo að Karl Werners hafi haldið smá tölu fyrir nemendur, sem og einhverjum öðrum (þá) framámönnum í íslensku viðskiptalífi, og spurt var út í aðferðafræðina á prófi sem Karl notaði. S.s. Karl fjallaði um þetta í fyrirlestri en að HÍ hafi ekki kennt þetta beint per se. Það var nú allur alvarleiki málsins.
Sigurjón Sveinsson, 11.5.2010 kl. 08:25
Sælir.
Ég sat þennan kúrs. Karl kom og talaði í hálftíma og svaraði spurningum nemenda eftir það. Þetta var námskeið í stjórnun, og lítið sem ekkert komið inn á fjárfestingarstefnu félaga hans. Spurningin í prófinu sjálfu varðaði að mig minnir uppbyggingu og stjórnskipulag móðurfélagsins (sem þá var Milestone en síðar varð Moderna). Eftir á að hyggja sem nemandi finnst mér ekkert athugavert við það að þessi maður hafi verið fenginn til að halda fyrirlestur. Reyndar skilst mér að hann hafi sjálfur ekki getað útskýrt almennilega hvernig félagið var uppbyggt í viðtölum við rannsóknarnefndina. En eins og þetta horfði við á þessum tíma, var hann eigandi samsteypu í örum vexti og því eflaust margt sem sneri að efni námskeiðisins sem hann var að glíma við einmitt þá.
Helgi Karlsson (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.