Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Verðtrygging

Það eru nokkuð skiptar skoðanir um ágæti verðtryggingar hér á landi. Þeir sem skulda mikið af verðtryggðum lánum virðast almennt frekar andsnúnir henni á meðan að þeir sem eiga verðtryggðan sparnað virðast henni frekar hlynntir. Stjórnmálamenn hafa svo gjarnan þá afstöðu sem hentar hverju sinni.

Ég er einn af þeim sem er frekar á móti verðtryggingu en með. Öfugt við skilgreiningu mína hér að framan þá skulda ég lítið af verðtryggðum lánum og á verðtryggðan sparnað. Er samt frekar mótfallinn verðtryggingu!

Það verður ekki um það deilt að í verðbólgusamfélagi þarf að finna leið til að koma í veg fyrir að eignir brenni upp. Það er auðvitað þannig að ef skuldir brenna upp í verðbólgu þá brenna einhverjar eignir á móti. Það sem er slæmt er að við skulum búa í samfélagi þar sem verðtrygging er talin nauðsynleg. Best væri ef efnahagslegur stöðugleiki væri þannig að hún væri óþörf. 

Gallinn við verðtrygginguna er m.a. sá að tilvist hennar dregur úr áhuga skuldareiganda á að koma á þessum stöðugleika. Skuldareigandinn er tryggður fyrir verðbólguáhættu með verðtryggingu. Verðtryggingin er því á kostnað skuldara sem tekur alla áhættuna. Það getur vart talist sanngjarnt.

Hitt sem ég vil nefna varðandi verðtrygginguna er mælitækið sjálft. Það má halda því fram að það sem mælitækið mælir, þ.e. vísitalan, sé skakkur mælikvarði og mæli ekki það sem henni er ætlað að mæla. Vísitalan byggir á verðþróun vara í s.k. neyslukörfu. Neyslukarfan er samsafn vara/þjónustu sem meðalheimili notar og byggir á neyslukönnunum. Núverandi neyslukarfa er of gömul til að líklegt sé að hún endurspegli neyslu heimila í dag.

Bæði kannanir og rauntölur sína að heimilin bregðast við þegar að þrengir. Þannig hefur sala í nýjum bílum dregist saman sem og eftirspurn eftir ýmsum vörum/þjónustu sem má flokka sem munaðarvörur. Verð á þessum vörum hefur hækkað mikið. Neyslan hefur dregist saman á meðan að mælitækið gerir ráð fyrir öðru. Með þessu fæst því rangt mat á þróun vísitölunar sem bitnar á heimilinu.

Stór hluti vanda heimilana nú er því tilbúin vandi sem er tilkomin vegna þess að við sættum okkur við ónákvæmt mælitæki.


og enn um efnahagsaðgerðir

Það er ekki góður siður að gagnrýna hugmyndir annarra án þess að koma með einhverja betri hugmynd eða tillögu í staðinn. Margar hugmyndir hafa komið fram varðandi með hvaða hætti á að koma heimilum til aðstoðar. Allar hafa þær verið gagnrýndar af öðrum sem hafa þó ekki alltaf komið með móttillögu í staðinn.

Ég ætla að gera tilraun til að koma með tillögu að þvi hvernig mætti standa að því að aðstoða heimili í vanda. Í mínum huga er lykilatriði að greina vandann. Átta sig á því hverjir þurfa aðstoð, hverjir ekki og hverjum er ekki viðbjargandi ef svo má að orði komast. Ég er því frekar neikvæður gagnvart hugmyndum sem ganga út á að færa niður skuldir allra skuldara eða að afhenda öllum tiltekna fjárhæð. Tel það of dýrt og sóun á almannafé. 

Það þarf því að greina vanda heimilana og skipta þeim upp í flokka eða hópa. Þeir gætu verið svona:

  • Heimili sem skulda lítið sem ekkert. Þau þurfa augljóslega ekki aðstoð.
  • Heimili sem skulda íbúðalán en greiðslubyrði er innan eðlilegra marka. Þessi heimili þurfa heldur ekki aðstoð.
  • Heimili sem fórum t.d. þá leið að skuldbreyta lánum, tókum erlend lán í staðinn fyrir innlend í þeirri von að hagnast á gengismun. Þessi heimili þurfa að átta sig á því að í hverri hagnaðarvon er einnig tapáhætta. Svo fremi sem greiðslubyrði er innan viðráðanlegra marka er lítil ástæða fyrir hið opinbera að bregðast við.
  • Heimili sem skulda það mikið að engin von er til þess að heimilið standi undir greiðslum af þeim lánum. Þessum heimilum þarf að koma til aðstoðar. Það væri hægt að gera með þeim hætti að Íbúðalánasjóður leysti til sín íbúðirnar, og þar með lánin, en fyrrum eigendum gæfist kostur á að búa í íbúðunum gegn sanngjarnri leigu. Með þessu væri komið í veg fyrir að heimilin yrðu gjaldþrota með tilheyrandi vandamálum.
  • Heimili sem augljóslega hafa hagaða sér mjög óskynsamlega í peningamálum. Keypt of dýra íbúð, bíla á bílalánum og innbú og innanstokksmuni án þess að hafa efni á því. Þessi heimili verða líklega gjaldþrota, því miður.
Lykilatriðið er því að greina vandann og leysa hann þar sem vandinn er leysanlegur. Það er útilokað  að ætla að verða öllum allt og það virðist ekki ábyrg ráðstofun á almannafé að aðstoða fólk sem þarf ekkert á því að halda.
 

Enn um efnahagsaðgerðir

Það var dálítið undarlegt að hlusta á tvo fyrrum kollega og vini karpa um lausnir á vanda heimila á Stöð 2 nú í kvöld. Kom reyndar ekkert á óvart að þeir væru ósammála, þetta var eins og maður væri kominn á kaffistofuna í Odda.

Ég verð að viðurkenna að ég hallast frekar að sjónarmiðum Gylfa en Tryggva. Þekki þó Tryggva það vel að ólíklegt er að hans hugmyndir séu tóm vitleysa. Bíð spenntur eftir að lesa skýrslu hans og félaga þar sem hugmyndin er útskýrð.  Minnir reyndar að Framsóknarflokkurinn eigi hugmyndina. En það er auðvitað algjört aukaatriði í málinu.

Kannski er þetta spurning um réttlæti og sanngirni frekar en lausnir á efnahagsvanda. Er rétt og sanngjarnt að fella niður skuldir hjá fólki sem hefur hagað sér með mjög óábyrgum hætti? Er rétt og sanngjarnt að fella niður skuldir sumra en ekki allra. 20% niðurfelling skulda á alla er ekki niðurfelling skulda á alla! Það vill svo til að til eru heimili sem skulda lítið sem ekki neitt. Þessi heimili lögðu jafnvel mikið á sig til að greiða niður skuldir til að verða ekki verðbólgubálinu að bráð. Losuðu allan sparnað og greiddu niður skuldir. Takmörkuðu þar með verulega svigrúm til fjárfestinga og neyslu.

Fyrir þessi heimili hljómar hugmyndin um 20% flatann niðurskurð afar illa. Kannski væri rétt að leggja inn á reikning skuldlítilla heimila upphæð sem samsvaraði meðalniðurfellingu hjá skuldurum! 


Efnahagsaðgerðir

Öllum má ljóst vera að kosningar eru framundan. Frambjóðendur á markaði bjóða fram hugmyndir sínar til lausnar efnahagsvandanum og virðast sumar góðar, aðrar verri.

Verð að viðurkenna að ég skil ekki þá hugmynd sem gengur út á það að fella niður að hluta skuldir hjá fólki sem ekki á í fjárhagslegum vandræðum. Hvernig leysir það vandann og fyrir hvern? Þetta munu væntanlegir frambjóðendur örugglega útskýra fyrir okkur kjósendum á næstu dögum og vikum.

Ég myndi auðvitað glaður þiggja 20% niðurfellingu skulda. Hef bara ekkert með það að gera. Nær væri að aðstoða fólk sem á í fjárhagslegum vandræðum og hefur hagað sér sæmilega skynsamlega í sínum fjármálum.

Hugmyndin virðist því ganga út á það að vera öllum allt, en um leið engum neitt!!

...en kannski selur þetta! 


Ætlunarverk auglýsinga!

Í Fréttablaðinu í dag skrifar Kjartan nokkur Guðmundsson nokkrar línur um ætlunarverk sjónvarpsauglýsinga (sjá bls. 30). Þar segir hann:

"Ætlunarverk sjónvarpsauglýsinga er í níutíu og níu prósentum tilvika að fá áhorfendur til að kaupa vörur sem þeir þurfa ekki á að halda, fyrir peninga sem þeir eiga ekki".

 Þetta er ansi mögnuð fullyrðing sem hvorgi er studd heimildum eða tölulegum gögnum. Kannski ekki hægt að ætlast til þess þegar maður skrifar í Fréttablaðið. Það er þó hægt að ætlast til þess að það sé eitthvað vit í því sem maður skrifar. Framangreind fullyrðing bendir til þess að sá er skrifar viti eiginlega ekki neitt um auglýsingar né hlutverk þeirra. Sé fyrst og fremst að lýsa viðhorfi sínu til auglýsinga sem er auðvitað allt annað mál.

Ég viðurkenni að sumar auglýsingar eru í mínum huga leiðinlegar og ótrúverðugar. Stundum finnst mér það vegna þess að hægt er að benda á efnislega atriði sem eru ekki faglega unnin en stundum er það vegna þess að ég skil ekki neitt í auglýsingunni sem er oftast vegna þess að ég er ekki hluti af þeim markhóp sem auglýsingunni er ætlað að höfða til. Það er því allt eins líklegt að þetta sé fín auglýsing!

Hlutverk auglýsinga er að styðja við markaðssamskipti fyrirtækja eða stofnana. Auglýsingar eru því eitt af fleiri verkfærum sem hægt er að nota við þá iðju. Stundum er talað um að markmið auglýsinga geti verið eitt af þrennu, þ.e. að veita upplýsingar, sannfæra eða minna á. Auglýsingar gegna því mikilvægu hlutverki í því að skapa vitund um vöru eða þjónustu. Auglýsingar gegna mun minna hlutverki í því að selja vörur eða þjónustu, öfugt við það sem margir halda fram. Þar gegna aðrir markaðsráðar (4p) veigameira hlutverki og mikilvægt að hafa í huga að árangur í viðskiptum næst vegna þess að mjög margt er vel gert, ekki eitthvað eitt.

Samhæfð markaðssamskipti er eitt af þessum viðfangsefnum sem þarf að sinna vel. Samhæfð markaðssamskipti miða að því að fyrirtæki eða stofnanir samþætti og samhæfi allt kynningarstarf sitt í þeim tilgangi að koma á framfæri skýrum, mótsagnarlausum og sannfærandi skilaboðum um fyrirtækið og eða vörur þess. En það þarf einnig að standa vel að vöruþróun, verðlagningu og dreifingu á vöru eða þjónustu svo dæmi sé tekið. Frábærar auglýsingar en illa ígrunduð verðlagning er ekki líkleg blanda til árangurs. Tala nú ekki um ef varan er léleg í ofanálag og hvergi fáanleg.

Í markaðsstarfi kemur það því miður fyrir að þeir sem að því standa ofmeta mátt auglýsinga og vanmeta mikilvægi annarra þátta. Árangurinn verður því minni eða óvaranegri en lagt er upp með. Þess vegna er mikilvægt að kenna stjórnendum góða markaðsfræði. Líklega er það aldrei mikilvægara en nú. 


Nú væri gott...

...að eiga áburðarverksmiðju. Í fjölmiðlum er fjallað um vanda bænda sem m.a. tengist háu áburðarverði. Um áraraðir var hér á landi rekin áburðarverksmiðja og unnu þar vel á þriðja hundrað manns þegar mest var. Notað var innflutt hráefni en innlent vinnuafl og innlend orka. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var því mjög stórt fyrirtæki á sínum tíma.

Fyrir nokkrum árum var þessi verksmiðja einkavædd en hún var í eigu ríkisins fram að því. Niðurstaðan varð sú að smátt og smátt lagðist framleiðsla á áburði af hér á landi. Áburður var þess í stað fluttur inn og á einhverjum tíma var það hagkvæmt. Fyrir hvern er hins vegar ekki alveg ljóst.

Eftir standa hrörlegar byggingar, fáum til gagns eða gleði. Kannski gæti verið áhugavert að skoða viðskiptaáætlun um áburðarverksmiðju hér á landi. Kannski yrði niðurstaðan af því að slík starfsemi væri óarðbær. Það þarf hins vegar að hafa í huga að landbúnaðir á Íslandi er óarðbær ef aðeins er horft til fjárhagslegra mælikvarða. Það dettur engum í hug að skynsamlegt sé að leggja niður landbúnað á Íslandi. Sama ætti að gilda um þjónustueiningar greinarinnar.  


Úrsögn úr stjórn IP-fjarskipta

Miðvikudaginn 11. febrúar sögðum við Hilmar Ragnarsson okkur úr stjórn IP-fjarskipta en við höfðum verið tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu í stjórn félagsins. Tilnefning okkar var samþykkt af hluthöfum á hluthafafundi 6. febrúar 2009. Með úrsögninni sendum við útskýringar á þessari ákvörðun okkar en það bréf var merkt sem trúnaðarmál og aðeins ætlað hlutaðeigandi aðilum. Bréfið átti ekkert erindi til fjölmiðla og er harmað að það skuli hafa birst þar.
Umfjöllunin sem fylgt hefur í kjölfarið hefur fyrst og fremst verið til þess fallin að valda misskilningi og að okkar mati ekki líkleg til að bæta stöðu IP-fjarskipta. Mikilvægt er að hafa í huga að umrætt bréf er ekki greinargerð til Samkeppniseftirlitsins, við vorum ekki fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í stjórn IP-fjarskipta og við höfðum engra hagsmuna að gæta í þeim deilum sem uppi eru milli eigenda fyrirtækisins né heldur í því máli er Samkeppniseftirlitið rekur gagnvart Teymi. Þau mál eru okkur algerlega óviðkomandi.
Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að í bréfinu sé Teymi sakað um „viðskiptasóðaskap“ og einnig hafa fjölmiðlar ruglað hugtakinu saman við önnur hugtök sem koma málinu ekkert við, s.s. eins og viðskiptaóreiðu. Þetta er rangt og byggt á misskilningi. Líklega hafa fjölmiðlar ekki haft fyrir því að lesa bréfið sem þeim var þó sent. Eins og fram kemur í bréfi okkar fengum við ýmsar skýrslur og gögn til að setja okkur inn í málið. Sumt er í eðli sínu trúnaðarmál en annað eru opinberar skýrslur. Þessar upplýsingar, ásamt samskiptum við eigendur og aðra tengda aðila, urðu til þess að við kusum að nota umrætt hugtak til að lýsa upplifun okkar af þeirri reynslu. Í því felst engin ásökun á Teymi, Capital Plaza, IP-fjarskipti, Vodafone, Samkeppniseftirlitið eða það starfsfólk sem þar vinnur. Við vorum einungis að lýsa upplifun okkar af málinu í heild. Það finnst okkur með miklum ólíkindum og minnir á illvígt forræðismál þar sem foreldrarnir berjast svo hatramri barráttu að aðalatriðið, þ.e. barnið, gleymist. Efnisatriði deilunnar, hver svo sem sökin er, eru með þeim hætti að við kusum að nota umrætt hugtak um reynslu okkar og treystum okkur ekki til að starfa áfram í stjórninni.
Við höfum eftir sem áður eitt og annað við framkomu Teymis við okkur að athuga. Í bréfi frá Teymi til stjórnarformanns eru settar fram mjög alvarlegar ásakanir, svo alvarlegar að Teymi sá ekki aðra leið en að lýsa yfir vantrausti og óskaði eftir því að Samkeppniseftirlitið skipaði annan fulltrúa í hans stað. Þá höfðum við setið í stjórn IP-fjarskipta í rúmlega einn virkan dag! Það er augljóslega mjög alvarlegt þegar meirihlutaeigandi lýsir vantrausti á stjórnarformann og skyldi maður ætla að slíkt sé gert að vel athuguðu máli. Að okkar mati var það ekki gert og hafði Teymi ekki fyrir því að ræða þessar ásakanir við okkur. Slíkt samtal hefði eflaust orðið málinu til góðs. Þessi framkoma er fáheyrð og átti stóran þátt í úrsögn okkar úr stjórn fyrirtækisins.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband