Úrsögn úr stjórn IP-fjarskipta

Miðvikudaginn 11. febrúar sögðum við Hilmar Ragnarsson okkur úr stjórn IP-fjarskipta en við höfðum verið tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu í stjórn félagsins. Tilnefning okkar var samþykkt af hluthöfum á hluthafafundi 6. febrúar 2009. Með úrsögninni sendum við útskýringar á þessari ákvörðun okkar en það bréf var merkt sem trúnaðarmál og aðeins ætlað hlutaðeigandi aðilum. Bréfið átti ekkert erindi til fjölmiðla og er harmað að það skuli hafa birst þar.
Umfjöllunin sem fylgt hefur í kjölfarið hefur fyrst og fremst verið til þess fallin að valda misskilningi og að okkar mati ekki líkleg til að bæta stöðu IP-fjarskipta. Mikilvægt er að hafa í huga að umrætt bréf er ekki greinargerð til Samkeppniseftirlitsins, við vorum ekki fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í stjórn IP-fjarskipta og við höfðum engra hagsmuna að gæta í þeim deilum sem uppi eru milli eigenda fyrirtækisins né heldur í því máli er Samkeppniseftirlitið rekur gagnvart Teymi. Þau mál eru okkur algerlega óviðkomandi.
Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að í bréfinu sé Teymi sakað um „viðskiptasóðaskap“ og einnig hafa fjölmiðlar ruglað hugtakinu saman við önnur hugtök sem koma málinu ekkert við, s.s. eins og viðskiptaóreiðu. Þetta er rangt og byggt á misskilningi. Líklega hafa fjölmiðlar ekki haft fyrir því að lesa bréfið sem þeim var þó sent. Eins og fram kemur í bréfi okkar fengum við ýmsar skýrslur og gögn til að setja okkur inn í málið. Sumt er í eðli sínu trúnaðarmál en annað eru opinberar skýrslur. Þessar upplýsingar, ásamt samskiptum við eigendur og aðra tengda aðila, urðu til þess að við kusum að nota umrætt hugtak til að lýsa upplifun okkar af þeirri reynslu. Í því felst engin ásökun á Teymi, Capital Plaza, IP-fjarskipti, Vodafone, Samkeppniseftirlitið eða það starfsfólk sem þar vinnur. Við vorum einungis að lýsa upplifun okkar af málinu í heild. Það finnst okkur með miklum ólíkindum og minnir á illvígt forræðismál þar sem foreldrarnir berjast svo hatramri barráttu að aðalatriðið, þ.e. barnið, gleymist. Efnisatriði deilunnar, hver svo sem sökin er, eru með þeim hætti að við kusum að nota umrætt hugtak um reynslu okkar og treystum okkur ekki til að starfa áfram í stjórninni.
Við höfum eftir sem áður eitt og annað við framkomu Teymis við okkur að athuga. Í bréfi frá Teymi til stjórnarformanns eru settar fram mjög alvarlegar ásakanir, svo alvarlegar að Teymi sá ekki aðra leið en að lýsa yfir vantrausti og óskaði eftir því að Samkeppniseftirlitið skipaði annan fulltrúa í hans stað. Þá höfðum við setið í stjórn IP-fjarskipta í rúmlega einn virkan dag! Það er augljóslega mjög alvarlegt þegar meirihlutaeigandi lýsir vantrausti á stjórnarformann og skyldi maður ætla að slíkt sé gert að vel athuguðu máli. Að okkar mati var það ekki gert og hafði Teymi ekki fyrir því að ræða þessar ásakanir við okkur. Slíkt samtal hefði eflaust orðið málinu til góðs. Þessi framkoma er fáheyrð og átti stóran þátt í úrsögn okkar úr stjórn fyrirtækisins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband