Skýrslan góða!
15.5.2010 | 06:15
Ég hef verið að glugga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eiginlega skyldulesning. Hef því miður ekki náð að lesa hana alla og verð að hrósa Styrmi Gunnarssyni fyrir að hafa ekki aðeins náð að lesa skýrsluna yfir heldur einnig gefið út á bók aðalatriði hennar!
Geri þó ráð fyrir að ekki séu allir sammála Styrmi um þau atriði.
Ég hef einbeitt mér að því að lesa það sem beinlínis snerti mig og mitt starf. Dæmi um það er kaflinn um háskólasamfélagið í viðauka 1. Sá kafli er misgóður.
Forsenda kaflans virðist vera sú að fjölmiðlamenn hafi staðið frammi fyrir nýjum og umfangsmiklum viðfangsefnum sem erfitt gat verið að átta sig á nema með aðstoð sérfræðing. Í lok kafla 2, um fjölmiðla, kemur fram að margir sérfræðingar í háskólum hafi verið ófúsir til að tjá sig (bls. 211). Í upphafi kafla 3 er fjallað um mikilvægi þess að fjölmiðlar geti komið sér upp fróðu og áreiðanlegu tengslaneti og að þeir geti leitað til akademíunnar við greiningu og túlkun upplýsinga (strangt til tekið hefði hér átt að standa "gagna". Gögn verða upplýsingar eftir greiningu. En látum það liggja á milli hluta.) (bls. 211). í lok málsgreinarinnar segir svo:
"Í ljósi þessa þarf að huga að háskólasamfélaginu" (bls. 211)
Þetta er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Það er fullkomlega eðlilegt að hugað sé að háskólasamfélaginu í þessu sambandi. En að ástæðan sé sú að fjölmiðlamenn hafi ekki ráðið við að túlka umhverfi sitt og ekki alltaf getað leitað til háskólamanna kemur mér undarlega fyrir sjónir.
Reyndar fjallar kaflinn ekki um háskólasamfélagið sem slíkt heldur mjög afmarkaðan hluta þess. Í kaflanum segir:
"Blaðamenn Morgunblaðsins ráku sig iðulega á það að fræðimenn á sviði lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði vildu ekki tjá sig um álitaefni í viðskiptum. Sumir af því að þeir voru í vinnu fyrir viðskiptablokkirnar, aðrir af því að þeir óttuðust neikvæð viðbrögð við gagnrýni. Margir sem undanfarna mánuði hafa verið duglegir að tjá sig um orsakir hrunsins voru ekki reiðubúnir að tjá sig um áhættuþættina í fjármálakerfinu þegar eftir því var leitað á árunum fyrir hrun" (bls. 211)
Hér er vísað í Reykjavíkurbréf MBL frá 29. ágúst 2009. Hér hefði verið mjög gagnlegt að upplýsa lesendur um hvaða fræðimenn þetta nákvæmlega voru. Í mínu nær umhverfi kannast ég alls ekki við þetta. Þeir sem hafa tjáð sig mikið um fjármálakerfið eftir hrunið gerðu það einnig fyrir það. Nefni menn eins og Þorvald Gylfason, Gylfa Magnússon, Guðmund Ólafsson og Vilhjálm Bjarnason. Allir þessi menn höfðu sig nokkuð í frammi fyrir hrunið og bentu á ótal atriði sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af.
Í skýrslunni segir svo:
"Það eru alvarlegar ásakanir að íslenskir fræðimenn hafi veirð svo háðir fjármálastofnunum eða viðkvæmir fyrir almenningsáliti að þeir hafi ekki viljað tjá sig við fjölmiðla" (bls. 211).
Þessu get ég ekki verið meira sammála enda kemur í ljós við athugun vinnuhópsins að þetta á ekki við nokkur rök að styðjast hvað Háskóla Íslands varðar. Vissulega fékk Háskóli Íslands einhverja styrki frá fjármálastofnunum en þeir voru aðeins 0,23% af heildartekjum skólans á árunum 2003-2008. Tengslin við fjármálastofnanir voru því óveruleg og ekki nokkrar líkur fyrir því að þessir styrkir hafi haft einhver áhrif á störf sérfræðinga skólans.
Hér hefði kannski verið ástæða fyrir vinnuhópinn að hætta umfjöllun sinni um háskólasamfélagið á þessum nótum. Þess í stað ákvað vinnuhópurinn að samkeyra lista yfir þá aðila sem þáðu verktakagreiðslur frá bönkunum við nöfn þeirra sem starfa í viðskipta- og hagfræðideildum íslenskra háskóla, af þeirri ástæðu að sá hópur hafi einkum legið undir ámæli fjölmiðlamanna um fjárhagsleg tengsl (bls. 212).
Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Lét vinnuhópurinn óánægða fjölmiðlamenn ákvarða hvaða hópur fékk svona rýni og hver ekki? Hefði kannski átt að skoða hvaða fjölmiðlamenn fengu verktakagreiðslur frá bönkunum á þessu tímabili (2004-2008)? Kannski að það hefði varpað ljósi á ýmislegt sem vinnuhópurinn veltir fyrir sér í kafla 2 í viðaukanum? Kannski ekki?
Aftur kemst vinnuhópurinn að því að ekki sé um fjárhagsleg tengsl að ræða en um samkeyrsluna segir:
"Á grundvelli þeirra upplýsinga er ekki að sjá að viðskipta- og hagfræðingar í háskólum landsins hafi þegið verktakagreiðslur frá bönkunum" (bls. 212)
...og hvað með það ef svo hefði verið? Væri eitthvað óeðlilegt við það að sérfræðingar á þessu sviði ynnu fyrir bankana stöku sinnum? Ætti það að hafa afgerandi áhrif á störf þessara sérfræðinga?
Úr því að vinnuhópurnn ákvað að kanna tengsl sem þessi hefði þá ekki verið ástæða til að kanna fjárhagsleg tengsl sérfræðinga úr öðrum greinum óháð því hvað fjölmiðlafólki fannst? Getur verið vanþekkingu um að kenna að álíta sem svo að aðeins viðskipta- og hagfræðingar komi að viðskiptum og eigi þar hagsmuna að gæta?
Athugasemdir
Styrmir hefur verið fljótur á sér. Þegar maður hefur þurft að skrifa forystugreinar á degi hverjum í 50 ár þá vílar maður ekki fyrir sér að skrifa bók án þess að hafa kynnt sér efnið nákvæmlega. Maður skrifar bara eftir minni sem er si svona gott og áreiðanlegt einsog gengur.
Gísli Ingvarsson, 15.5.2010 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.