Hjarðhegðun!
9.4.2011 | 22:21
Nú hefur kjörstöðum verið lokað og skrif á blogg síðum og fésbókinni mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni sl. daga og vikur. Ég dáist að því fólki sem hefur mótað sér sannfærandi niðurstöðu. Skiptir þá litlu hvort svarið er JÁ eða NEI. Sumir hafa jafnvel lýst því yfir að þeir hafi kynnt sér samninginn vel. Ekki dreg ég það í efa. Ég hef reynt en sannast sagna ekki náð að móta mér skýra mynd af kostum og göllum samningsins. Miðað við þau ólíku sjónarmið lögfræðinga, hagfræðinga og annarra spekinga þarf það svo sem ekki að koma neinum á óvart.
Ég held því fram að mjög fáir skilji málið til einhvers gagns. Ég held því einnig fram að mjög óráðið hafi verið að setja mál sem þetta í þjóðaratkvæði. Fæ ekki séð að það hafi verið til góðs.
Ég var lengi óviss um afstöðu mína. Út af fyrir sig ágæt rök fyrir hvorum valkostinum fyrir sig. Þegar í kjörklefann kom og ég horfði á kjörseðilinn varð mér þó ljóst að það var aðeins einn réttur valkostur! Vonandi verður það niðurstaðan.
Ef hinn valkosturinn verður ofaná þá vona ég svo sannarlega að það fólk sem talað hefur fyrir honum hafi rétt fyrir sér. Annars bíða okkar miklir erfiðleikar.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér.
Páll (IP-tala skráð) 9.4.2011 kl. 22:55
Bið fyrir kveðjur til Dr. Gylfa Magnússonar á þessum tímamótum Þórhallur. Hann og þið ágætu gervivísindamenn við HÍ ættuð að læra fræðin ykkar betur.
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 08:21
Gerðu ekki lítið úr þjóð þinni Þórhallur,auðvitað átti að setja þetta mál í hendur þjóðarinnar þó þú menntamaðurinn sért efins um það ,,svei þér að hugsa svona til þjóðar þinnar. Við þurfum oftar að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur tökum Sviss til fyrirmyndar . Þórhallur ég vona að þú komist hvergi til valda í opinbera geiranum þá á ég við í stjórnsýslunni. Menn sem hafa svona trú á samlöndum sínum,eiga bara að halda áfram að vera í sínum fílabeinsturni.
Númi (IP-tala skráð) 10.4.2011 kl. 08:53
Hefði ekki heldur átt að setja Icesave II í Þjóðaratkvæði???? Var ekki sýnt þá og sannað að það veitir ekki af því að þjóðin hafi vit fyrir stjórnmálamönnum?
Það læðist einhvernvegin að mér sá grunur að hefði Icesave II verið samþykktur væri ástand efnahagsmála í enn verri stöðu hér en raun ber vitni.
Annað hvort er þjóðin þess megnug að taka ákvarðanir um svo mikilvæg mál eða ekki. Ef henni er ekki treystandi til að taka ákvörðun um mál sem stangast á við hagsmunamál Steingríms og hjörð hans í Háskóla Íslands, er spurning hvort lýðræði eigi almennt rétt á sér á Íslandi.
Kjartan Sigurgeirsson, 10.4.2011 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.