Góður, betri, bestur

Misskilin velgengni!
Helgina 10-11 maí sá Viðskiptaráð ástæðu til að óska Háskólanum í Reykjavík til hamingju með að vera á meðal 50 "BESTU" háskóla í vestur Evrópu. Hér er auðvitað um stórfrétt að ræða enda sá Viðskiptaráð ástæðu til að koma hamingjuóskum sínum á framfæri með tveimur heilsíðu auglýsingum í dagblöðum helgarinnar.
Hið sorglega er þó að Viðskiptaráð hefur eitthvað misskilið upplýsingarnar sem finna má á heimasíðu Eduniversal en þar kemur hvergi fram að um sé að ræða tilnefningu á "BESTU" háskólunum. Hér er vert að benda á að aðalsmerki góðra háskóla er að þjálfa nemendur í greinandi hugsun og að þeir leggi mat á þær upplýsingar og gögn sem tengjast því viðfangsefni sem fengist er við hverju sinni. Því eru lesendur eindregið hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar sem og forsendur matsins á heimasíðu Eduniversal www.eduniversal.com/ 

 Um hvað snýst málið?
 Eduniversal er ekki viðurkennd matsstofnun á gæðum háskóla og hefur litla sem enga reynslu af slíku mati. Matið snýst ekki um gæði heldur er verið að leggja mat á vitund og að einhverju leyti velvilja. Á heimasíðu Eduniversal kemur fram að um sé að ræða "top internationally known business schools" og þarf töluvert hugmyndaflug til að álíta sem svo að beint samband sé á milli vitundar og raunverulegra gæða háskóla.
Könnun Eduniversal stenst á engan hátt þær kröfur sem gerðar eru við mat á gæðum háskóla. Mjög óljósar upplýsingar er að finna varðandi þau viðmið sem höfð voru til grundvallar, hvaða vægi þau viðmið höfðu og síðast en ekki síst hvernig skóli varð gjaldgengur í matið. Fram kemur að 12 manna nefnd lagði einhvers konar mat á 4000 skóla á einum degi en það þarf ekki mikla reiknikunnáttu til að átta sig á því að hver skóli hefur ekki fengið langan tíma. Reyndar verður að telja afar ólíklegt að allir skólarnir hafi verið skoðaðir með þeim hætti að hægt væri að leggja raunhæft mat á gæði þeirra eftir þá skoðun.
Margir aðilar hafa í gegnum tíðina haft hagsmuni af því að selja fyrirtækjum, stundum stofnunum, aðgang að heimasíðu sinni í þeim tilgangi að byggja upp vitunda fyrir viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Eduniversal virðist nýta sér þetta þekkta viðskiptamódel og markhópurinn eru skólar sem selja fræði fyrir fé. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við það en að álíta að vefgalskapur í tengslum við þá starfsemi hafi eitthvað með gæði að gera er fráleitt.

Meira um vitund!
Í  þessu vitundarsamhengi er  vert  að  benda á  vefsíðu  rannsóknarstofnunarinnar  CSIC.  Þar er  háskólum víða um heim raðað eftir akademískum sýnileika þeirra á netinu. Stofnunin leggur áherslu á að hér sé ekki um hefðbundið gæðamat að ræða en bendir á að góður skóli með lítinn akademískan sýnileika á Netinu sé afar sjalfgæft fyrirbrigði.
Bandarískir háskólar raða sér í efstu sætin en þeir efstu eru MIT, Stanford, Harvard, PennState og Berkeley en þessir skólar raða sér einnig mjög ofarlega á hefðbundnan lista þar sem skólum er raðað eftir gæðum. Í Evrópu eru í efstu sætunum Cambridge, Oxford, SFIT, University of Helsinki og University of Osló. Einnig allt skólar sem þekktir eru fyrir að vera góðir og öflugir háskólar.
Á síðunni er birtur heimslisti og Evrópulisti. Á Evrópulistanum er Háskóli Íslands í 92. sæti, 258. á heimslistanum, og Kennaraháskólinn í 456. sæti, 1124. á heimslistanum. Aðrir íslenski háskólar komust ekki á top 500 Evrópu listann!
Á síðunni er þó birtur top 100 listi fyrir hvert land og má sjá niðurstöður fyrir Ísland hér. Þar sést að Háskóli Íslands ber höfuð og herðar yfir aðra háskóla hvað akademískan sýnileika varðar og eftir sameiningu HÍ og KHÍ verð þeir yfirburðir enn augljósari.

Kannski að eigandi Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands ætti að óska þessum skólum til hamingju með þennan frábæra árangur!
Heilsíða í Fréttablaðinu og/eða Morgunblaðinu væri þá við hæfi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband