Almannatengsl á erfiðleikatímum
10.10.2008 | 20:25
Geta komið upp erfiðar aðstæður hjá fyrirtækjum, stofnunum og jafnvel þjóðum? Svarið við þessu er nokkuð augljóst en það er ekki spurning hvort heldur hvenær slíkar aðstæður koma upp. Þegar þær koma upp, er þá til áætlun varðandi það hvernig eigi að bregðast við? Liggur t.d. fyrir hverjir eiga að segja hvað, hvenær?
Þegar erfiðar aðstæður koma upp er mikilvægt að hægt sé að nýta sér einhverja áætlun sem tekur á helstu atriðum. Að sjálfsögðu er mikilvægt að vinna markvisst að því að leysa vandann en markviss samskipti eru einnig afar mikilvæg. Þau atriði sem m.a. þarf að huga að eru:
- Ná tökum á umræðunni
- Tilnefna talsmann og/eða ákveða hver segir hvað henær
- Skapa aðstæður til samskipta
- Upplýsa reglulega
- Segja sannleikann
Markmiðið er að koma í veg fyrir misskilning, óróa, óðagot og hræðslu.
Fjölmiðlar eru staðreynd og hafa það hlutverk að flytja fréttir og vera tengiliður atburða við almenning. Fjölmiðlafólk er stundum illa undirbúið og stundum fær þetta fólk ekki réttar upplýsingar. Eftir sem áður þurfa fjölmiðlar að flytja almenningi fréttir. Röng og óvönduð fréttaumfjöllun getur valdið misskilningi, óróa, óðagoti og hræðslu.
Þess vegna er mikilvægt að sinna fjölmiðlum vel. Þetta er atriði sem gleymist alltof oft. Almenningur á rétt á því að fá upplýsingar og mun verða sér úti um þær með einum eða öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt að upplýsingarnar séu réttar því röng og óvönduð fréttaumfjöllun getur valdið misskilningi, óróa, óðagoti og hræðslu.
Í augnablikinu er ekki mikið gagn af því að horfa um öxl og finna sökudólga. það kemur væntanlega að því síðar. Í atburðum síðustu helgi hefðu stjórnvöld þó getað gert margt betur á sviði almannatengsla. Svo virðist sem þessi þáttur hafi verið stórlega vanmetin. Það hefði átt að skapa blaðamönnum mun betri aðstöðu, leggja áherslu á að stjórna umræðunni í stað þess að lenda í Frúnni í Hamborg þar sem viðmælendur komu illa undirbúnir í viðtal og virtust fyrst og fremst leggja áherslu á að segja ekki það sem ekki má. Óljóst var hver var talsmaður ríkisstjórnarinnar en sjálfskipaðir talsmenn eru alla jafna mjög óheppilegt fyrirkomulag.
Eftir sat almenningur ruglaður og óttasleginn. Umræðan olli misskilningi, ótta, óðagoti og hræðslu sem m.a. birtist í því að mjög margir treystu því ekki að innistæður þeirra í bönkum væru tryggðar. Því myndaðist algjört panik ástand í mörgum útibúum þar sem hver og einn reyndi að bjarga því sem bjarga varð.
Almannatengsl eru afar vanmetið viðfangsefni. Svo virðist vera að sumir telji að samskipti muni með einhverjum hætti gera sig sjálf og ekki þurfi að skipuleggja þá vinnu. Það er mikill misskilningur og grundvallar misstök.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.