Reikningurinn sendur á almenning
29.5.2009 | 00:51
Það eru margar flóknar ástæður fyrir því af hverju efnahagskerfið fór þá leið sem það fór. Sumar tengjast ytri aðstæðum, aðrar tengjast okkar innra skipulagi. Þar brugðust margir. Eru þar fræðimenn og háskólakennarar ekki undanskildir.
Þingmenn og sveitarstjórnarmenn brugðust trausti almennings. Þetta er það fólk sem hefur valist, eða valdi sig sjálft, til forystu í þágu almennings. Margir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu og enn aðrir náðu ekki kjöri. Sveitarstjórnarmenn hafa hins vegar ekki tekið sömu ábyrgð og margir þingmenn gerðu. Þeir þurfa að gera það. Vandi sveitarfélaganna nú er ekki aðeins vegna ytri aðstæðna. Sveitarstjórnarmennirnir sem íbúarnir völdu til að reka sveitarfélögin brugðust. Þess vegna eru þau mörg hver í miklum vanda.
Það er auðvelt að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Nánast hvað sem er gert er hægt að gagnrýna af þeirri einföldu ástæðu að það þarf að taka margar sársaukafullar ákvarðanir. Það veldur mér hugarangri að á meðan að almenningur kallar eftir úrbótum í vanda heimilanna þá skuli útspil stjórnvalda vera það að hækka álögur á fólk. Látum vera að áfengi og bensín skuli hækka. Það er neysla sem að einhverju leyti er valkvæði.
Það sem er slæmt við ákvörðunina er að hún hefur bein áhrif á vísitöluna. Verðtryggingin er út af fyrir sig ill nauðsyn. Það er því mikilvægt að stjórnvöld séu ekki að "fikta" í vísitölunni með ákvörðunum sínum.
Það er alltof einföld leið að ætla að velta vandanum yfir á almenning með þessum hætti. Hér held ég því miður að verið sé að henda hundraðkalli til að taka upp krónu. Það er nánast öruggt að viðbrögð almennings munu ekki láta á sér standa. Út frá PR sjónarmiði er þetta því afar óklókt. Betra hefði verið að koma með jákvætt inngrip fyrst, svo mætti skoða skattahækkanir.
Athugasemdir
en engin ástæðan tengist þeim sem fá reikninginn....almenningi.
zappa (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 01:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.