Við úrlausn vandamála...
29.7.2009 | 09:35
...er mikilvægt að byrja á því að átta sig á í hverju vandinn liggur. Þetta þykir sumum augljóst en líklega er þó hægara um að tala en í að komast. Það er mjög algengt að hinir og þessir leggi þetta og hitt til í þeim tilgangi að leysa eitthvað sem alls ekki er augljóst þegar upp er staðið.
Þau eru mörg viðfangsefnin sem tengjast efnahagsástandinu hér á landi. Það væri að æra óstöðugan að ætla að telja þau öll upp hér enda ekki víst að sú upptalning yrði tæmandi. Það er þó einn vandamálaflokkur sem stendur mér nær en aðrir en það eru viðfangsefni er snúa að þróun háskólastarfs í landinu.
Það er auðvitað dálítið undarlegt að tala um háskóla sem vandamál sérstaklega þegar haft er í huga að efling æðri menntunar hefur verið leið margra þjóða út úr sambærilegum efnahagsörðugleikum og hér eru nú. Vandinn er væntanlega sá að einhverjum þykir fara of miklir peningar í þetta starf. Aftur hljómar það undarlega þegar horft er til þeirra landa sem við, amk á hátíðarstund, viljum bera okkur saman við. Aðrir benda á óhagræði og að fjöldi skóla sé of mikill miðað við fólkfjölda. Það kann að vera rétt en á móti má benda á að sjálfstæði svo lítillar þjóðar sem við erum telst seint tiltakanlega hagstæð.
Það kann að vera að einhverjar háskólaeiningar séu of litlar, aðgengi að námi sé of gott eða að einhverjir skólar hafi farið fram úr sér hvað uppbyggingu varðar. Hver svo sem vandinn er þá er mikilvægt að greina hann og leysa. Það er ekki góð leið að láta sér detta í hug að lausn á vanda eins skóla verði á kostnað annars. Ýmsar hugmyndir varðandi sameiningu og samvinnu virðast miða að því.
Það þykir mér hálf fáránlegt. Þetta er svona eins og að láta aðila B fá magakveisu af því að þá muni aðili A líklega losna við sína! Ef einhver skóli hefur fylgt viðskiptamódeli sem ekki virðist ganga upp þá er það vandamál þess skóla, ekki einhvers annars.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.