Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Tvær þjóðir!

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hér á landi búi tvær þjóðir, pólitíkusar og almenningur.

Pólitíkusar eru þeir sem með virkum hætti hafa tekið þátt í stjórnmálum, þingmenn, sveitarstjórnarmenn og þeirra fylgjendur hvar svo sem í flokki þeir standa. Allir sem láta í sér heyra eru umsvifalaust settir í einhvern "flokk" og eru þá á með eða á móti. 

Almenningur eru allir hinir, líklega stór meirihluti þjóðarinnar. Þetta er fólk sem hefur ekkert sérstaklega mikinn áhuga á stjórnmálum, tekur ekki virkan þátt í þeim og er fyrst og fremst að hugsa um að hafa í sig og á. Þetta er fólkið sem nú er að verða fyrir barðinu á hruni efnahagskerfisins á Íslandi. Tók vissulega einhven þátt í fjörinu en fráleitt að álíta að almenningur beri ábyrgð á hvernig nú er fyrir okkur komið. Einhverjir aðrir bera ábyrgð á því.

Nú kemur í ljós að margir úr hópnum almenningur vilja láta í sér heyra. Þá er ekki alveg augljóst hvernig á að gera það. Pólitíkusarnir vernda sitt kerfi og vilja leysa málin á þeim vettvangi. Almenningur virðist ekkert vera til í það. Hvað er þá til ráða?

Líklegt er að nú verði kerfisbreyting. Slíkt hefur gerst í mörgum löndum þar sem almenningur myndar nýtt afl til að koma lagi á mál. Vonandi kemur þá nýtt öflugt fólk sem er tilbúið að láta sig málin varða og vera í forystu. Vonandi fáum við eitthvað betra en endurunna fyrrum stjórnmálamenn og félagsfrömuða sem eru í raun hluti af Pólitíkusum. Nú þarf nýtt fólk sem ekki er hluti af vandamálinu og getur komið að málum án skuldbindinga við fortíðina.

Spurningin er bara hverjir það ættu að vera?

 


Fátæktargildra!

Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á allt að 100% lán voru margir sem höfðu efasemdir um ágæti þess. Ég var einn af þeim og gekk ég svo langt að spá því að þessi lán gætu haft þau áhrif að mynda nýja tegund af fátæktargildru. Á þessum tíma var hins vegar ekki alveg "inn" að vera með slíkt röfl og úrtölur.

En hvað átti ég við þegar ég talaði um nýja tegund af fátæktargildru? Það sem ég átti við var að fólk sem alla jafna á að geta átt í sig og á, lendir í þeirri stöðu að festast í húsnæði sem engan veginn hentar því. Tökum dæmi.
Fólk kaupir íbúð á 25 millj. og fær 100% lán. Tíminn líður og það sem við blasir er að íbúðaverð mun eitthvað lækka. Gefum okkur að lækkunin nemi 20% á tveimur árum. Á sama tíma er einhver verðbólga, segum 8-10% á ári. Eftir tvö ár hafa aðstæður breyst og fjólskyldan hefur þörf fyrir stærra húsnæði. Þá er verðmæti íbúðarinnar um 20 millj. en lánið stendur í u.þ.b. 30 millj. Fjölskyldan hefur því á tveimur árum farið úr þeirri stöðu að eiga ekki neitt í að skulda um 10 millj.

Þessi þróun var því miður mjög svo fyrirsjáanleg. Mjög mikið framboð af fjármagni til íbúðakaupa hlaut að hafa þau áhrif að íbúðaverð myndi hækka mikið og að sú hækkun myndi ganga til baka að miklu eða öllu leyti. Það sem var hins vegar ekki alveg eins fyrirsjáanlegt á þessum tíma var hið algera hrun bankanna sem nú er staðreynd. Ekki hefur það  verið til að bæta þá stöðu sem að framan er lýst.

Félagsmálaráðherra hefur gefið til kynna að veita eigi fólki í greiðsluerfiðleikum e.k. aðstoð. Það er göfugt og líklega skynsamlegt þar sem það getur vart talist þjóðhagslega hagkvæmt að halda fólki í hálfgerði ánauð í "eigin" íbúð. Því er nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða sem leysa vandann. Þær aðgerðir eru hins vegar ekki augljósar. Á t.d. að hjálpa öllum eða bara sumum? Á t.d. aðeins að aðstoða fólk sem tók myntkörfulán en ekki þeim sem tóku verðtryggt lán? Á aðeins að hjálpa þeim sem eru í vanskilum en ekki þeim sem hafa lagt allt kapp á að standa í skilum? Svo þarf væntanlega að taka tillit til þess að ekki hafa allir hagað sér skynsamlega í sínum fjármálum. Sumir tóku t.d. íbúðalán til að greiða niður uppsafnaðar neysluskuldir og aðrir tóku slíkt lán til að kaupa sér bíl eða endurnýja innbúið og eða innréttingar.

Og hvað með ábyrgð lánveitanda? Er hún engin? Er í lagi að lána hverjum sem er svo fremi að einhver eftirspurn er eftir láninu? Er t.d. eitthvert vit í því að lána barni pening sem hefur litlar sem engar tekjur? Er ekki miklu nær að gefa barninu peninginn ef það þarf á annað borð á honum að halda?

Að sjálfsögðu þurfa lánveitendur að taka þátt í því að leysa vandann. Þannig má t.d. færa fyrir því rök að lán fylgi því sem keypt er, en ekki kennitölu þess sem hlutinn kaupir. Ef það væri þannig þá gæti fólk einfaldlega skilað inn bíl sem það sér ekki fram á að geta greitt af. Tapar þannig því  fé sem það átti þegar bíllinn var keyptur, lánveitandinn leysir til sín bílinn og verður af vaxtatekjum. Getur hins vegar selt bílinn síðar og náð þannig einhverju af láninu til baka. Með þessu fyrirkomulagi myndu menn væntanlega vanda sig betur í lánaferlinu og taka ábyrgð á því að það er ekkert í lagi að lána einhverjum fjármagn bara af því að sá eða sú sækist eftir því.

Sama lausn gæti gengið á íbúðamarkaði. Það væri hugsanleg lausn að Íbúðalánasjóður leysti til sín þær íbúðir þar sem lán er komið upp fyrir markaðsverð og "eigendunum" gefinn kostur á því að búa í þeim áfram gegn sanngjarnri leigu. Sumir myndi tapa einhverju en aðrir, sérstaklega þeir sem tóku 100% lán, myndi ekki tapa neinu af þeirri einföldu ástæðu að þeir áttu ekkert þegar til kaupanna var stofnað. Þetta fólk fær hins vegar frelsi til að velja um að búa áfram í íbúðinni eða gera eitthvað annað. Eins og staðan er nú er það hins vegar ekki hægt.

Þetta er það sem ég kalla nýja tegund af fátæktargildru, þ.e. að venjulegt fólk með ágæt meðallaun eru fangar í húsnæði sem hugsanlega hentar ekki og eða það getur ekki og mun ekki geta staðið í skilum. Þetta þarf að leysa svo fólk, stundum kallað mannauður, geti farið að einbeita sér að einhverju öðru en fjárhagsáhyggjum. 


Hvítbókin!

Forsætisráðherra hefur boðað gerð "Hvítbókar" um hrun fjármálamarkaðarins á Íslandi!

Það er vel og stórmannlegt. Það er verra að margir virðast hafa litla trú á því að um raunverulega skoðun verði að ræða. Bent er á að tengsl milli hópa séu með þeim hætti að erfitt gæti reynst að finna einhvern sem ekki er "hluti af vandamálinu", hefur hæfi til að vinna verkið og nýtur trausts almennings. 

Það er mjög mikilvægt að vel sé að þessu staðið ef á annað borð á að gera þetta. Hugsanlega mætti fá erlenda aðila til að stýra verkinu (það er jú alltaf best!!!) en líklegt verður þó að telja að einhver hópur innlendra sérfræðinga og leikmanna þurfi að koma að. Hér gætu stjórnvöld nýtt sér það traust sem almenningur ber til Háskóla Íslands en engin opinber stofnun nýtur eins mikils traust og sú stofnun. Að mínu mati er í skólanum til staðar öll sú þekking til að vinna og/eða leiða þessa vinnu.

 Ég hvet því stjórnvöld til að íhuga af fullri alvöru að leita til Háskóla Íslands þegar og ef unnið verður að gerð "Hvitbókar" um hrun fjármálamarkaðarins á Íslandi. 


Úfffff!!!!!

Enn þyngist róðurinn. Nú segja mér spekingar að raunveruleg hætta sé á því að engin laun verði greidd út um næstu mánaðarmót. Hvernig má það vera?

Ég hlustaði á Silfrið sl. sunnudag með athygli. Sem fyrr var lítið gagn af innleggi stjórnmálamannanna nema hvað Jóhanna virðist ærleg. Viðtalið við Ragnar Önundarson fannst mér áhugavert. Þar útskýrði hann á mannamáli um hvað málið snýst, amk eins og það kemur honum fyrir sjónir. Ef bara lítill hluti af því sem þar kom fram er satt og rétt má ljóst vera að einhver eða einhverjir hafa sýnt fádæma vanrækslu í stjórnun efnahagsmála og almennu fjármálaeftirliti. 

Viðtalið við Jón Ásgeir var hálf fáránlegt. Spyrillinn tapaði sér algjörlega og viðmælandinn reyndi hvað hann gat að róa hann niður. Þetta var allt hálf óhuggulegt.


Almannatengsl á erfiðleikatímum

Geta komið upp erfiðar aðstæður hjá fyrirtækjum, stofnunum og jafnvel þjóðum? Svarið við þessu er nokkuð augljóst en það er ekki spurning hvort heldur hvenær slíkar aðstæður koma upp. Þegar þær koma upp, er þá til áætlun varðandi það hvernig eigi að bregðast við? Liggur t.d. fyrir hverjir eiga að segja hvað, hvenær?

Þegar erfiðar aðstæður koma upp er mikilvægt að hægt sé að nýta sér einhverja áætlun sem tekur á helstu atriðum. Að sjálfsögðu er mikilvægt að vinna markvisst að því að leysa vandann en markviss samskipti eru einnig afar mikilvæg. Þau atriði sem m.a. þarf að huga að eru:

  • Ná tökum á umræðunni
  • Tilnefna talsmann og/eða ákveða hver segir hvað henær
  • Skapa aðstæður til samskipta
  • Upplýsa reglulega
  • Segja sannleikann

Markmiðið er að koma í veg fyrir misskilning, óróa, óðagot og hræðslu.

Fjölmiðlar eru staðreynd og hafa það hlutverk að flytja fréttir og vera tengiliður atburða við almenning. Fjölmiðlafólk er stundum illa undirbúið og stundum fær þetta fólk ekki réttar upplýsingar. Eftir sem áður þurfa fjölmiðlar að flytja almenningi fréttir. Röng og óvönduð fréttaumfjöllun getur valdið misskilningi, óróa, óðagoti og hræðslu.

Þess vegna er mikilvægt að sinna fjölmiðlum vel. Þetta er atriði sem gleymist alltof oft. Almenningur á rétt á því að fá upplýsingar og mun verða sér úti um þær með einum eða öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt að upplýsingarnar séu réttar því röng og óvönduð fréttaumfjöllun getur valdið misskilningi, óróa, óðagoti og hræðslu.

Í augnablikinu er ekki mikið gagn af því að horfa um öxl og finna sökudólga. það kemur væntanlega að því síðar.  Í atburðum síðustu helgi hefðu stjórnvöld þó getað gert margt betur á sviði almannatengsla. Svo virðist sem þessi þáttur hafi verið stórlega vanmetin. Það hefði átt að skapa blaðamönnum mun betri aðstöðu, leggja áherslu á að stjórna umræðunni í stað þess að lenda í Frúnni í Hamborg þar sem viðmælendur komu illa undirbúnir í viðtal og virtust fyrst og fremst leggja áherslu á að segja ekki það sem ekki má. Óljóst var hver var talsmaður ríkisstjórnarinnar en sjálfskipaðir talsmenn eru alla jafna mjög óheppilegt fyrirkomulag.

Eftir sat almenningur ruglaður og óttasleginn. Umræðan olli misskilningi, ótta, óðagoti og hræðslu sem m.a. birtist í því að mjög margir treystu því ekki að innistæður þeirra í bönkum væru tryggðar. Því myndaðist algjört panik ástand í mörgum útibúum þar sem hver og einn reyndi að bjarga því sem bjarga varð.

Almannatengsl eru afar vanmetið viðfangsefni. Svo virðist vera að sumir telji að samskipti muni með einhverjum hætti gera sig sjálf og ekki þurfi að skipuleggja þá vinnu. Það er mikill misskilningur og grundvallar misstök. 


Ljós í myrkrinu

Góður maður sagði eitt sinn við mig, "Maður verður að lifa í lausninni en ekki vandanum. Ef maður gerir það þá finnur maður lausn. Ef maður lifir í vandanum, þá vex hann."

Sjaldan eða aldrei eiga þessi orð betur við en nú. Á þessum tímum er mikilvægt að horfa til þess að ekki er öll nótt úti enn og trúa því að um tímabundna erfiðleika sé að ræða. Sumur eiga vissulega mjög erfitt þessa dagana og líklega munu fleiri bætast í þann hóp, því miður. Það er mikilvægt fyrir alla aðra að vera hvetjandi en ekki letjandi í samskiptum sínum við aðra. Jákvæð nálgun á vandamál er einfaldlega miklu líklegri til árangurs en neikvæð. Við sem erum að vinna með fólki eigum að hvetja. Háskólasamfélagið á að sjálfsögðu að vera gagnrýnið. Það á hins vegar einnig að vera uppbyggjandi.

Bubbi Mortens gerði þetta á sinn hátt. Margt má segja um þann ágæta mann en þessi viðleitni er til eftirbreytni. Hver og einn þarf að taka þátt á sinn hátt og með sínu nefi. 

Að sjálfsögðu er margt sem þarf að skoða og nokkuð augljóst að eitt og annað hefur farið úrskeiðis. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir að þessir atburðir endurtaki sig. Það er einnig mikilvægt að ef einhver ber ábyrgð, þá geri viðkomandi það. Í augnablikinu er hins vegar mikilvægast að ná landi og sæmilegri heilsu. 


Sólbað í fárviðri!

Flestir virðast sammála um að rekja megi vanda bankanna til hinnar alþjóðlegu lausafjárkreppu. Margir benda reyndar á eitt og annað sem gæti hafa orsakað vandann en látum það liggja milli hluta í bili. Kreppan er því dæmigerð ytri ógn, hluti af PEST, sem lítið er hægt að gera við!

Flestir vita einnig að fárviðri er einnig ytir ógn sem lítið er hægt að gera í. Við höfum reyndar sérfræðinga sem spá fyrir um yfirvofandi hættu og ef við teljum mikla hættu á fárviðri þá reyna amk flestir að búa sig sem best undir það. Auðvitað tekst það ekki alltaf og auðvitað hafa sérfræðingar ekki alltaf rétt fyrir sér. Við erum þó almennt á því að allur sé varinn góður.

Ef mjög margir sérfræðingar spá fárviðri þá er væntanlega ekki skynsamlegt að velja þann dag til að liggja í sólbaði, eða hvað?


Markaðsfræðin vinsæl grein

Mikil aðsókn í viðskipta- og hagfræðideild HÍ
Viðskipta- og hagfræðideild býður nemendum upp á metnaðarfullt og krefjandi nám í
Um þúsund umsóknir hafa borist í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands fyrir haustið 2008. Námsframboð er all fjölbreytt en boðið er upp á grunnnám í viðskiptafræði og hagfræði, framhaldsnám í stjórnun, fjármálum, reikningshaldi, mannauðsstjórnun og markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum að ógleymdu MBA námi. Haustið 2008 verður í fyrsta sinni boðið upp á skipulagt BS nám samhliða starfi í viðskiptafræði og hafa borist um 100 umsóknir í það nám.
Í grunnnám í viðskiptafræði bárust vel á fjórða hundrað umsóknir en nemendur geta skráð sig á fjögur áherslusvið, fjármál, markaðsfræði og alþjóðaviðskipti, reikningshald og stjórnun og forysta.

Markaðsfræði vinsæl grein
Í ár, rétt eins og nokkur undanfarin ár, er markaðsfræðin vinsæl en tæp 48% allra umsókna í grunnnám eru í þá áherslulínu. Um 20% eru í fjármál og stjórnun og 12% í reikningshald.

 Markmið náms í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti er þríþætt. Í fyrsta lagi að búa nemendur undir almenn stjórnunarstörf, í öðru lagi að búa nemendur undir sérfræðistörf í markaðsdeildum fyrirtækja eða stofnana og í þriðja lagi að búa nemendur undir framhaldsnám á sviði markaðsfræði og og alþjóðaviðskipta. Að loknu námi eiga nemendur að geta:

  • tekið þátt í gerð markaðs- og eða viðskiptaáætlana fyrir fyrirtæki eða stofnanir, á innanlands- eða alþjóðamarkaði.
  • unnið að ýmsum sérhæfðum verkefnum er tengjast markaðsáætlanagerð s.s. markaðsgreiningu, markaðsrannsóknum, þjónusturannsóknum og gerð kynningaráætlana.
  • fjallað um og kynnt niðurstöður verkefna á íslensku og ensku.
Meðal sérgreina eru námskeið í markaðsrannsóknum, utanríkisviðskiptum, stjórnun viðskiptasambanda og vörumerkjastjórnun, stjórnun viðskipta í ólíkum menningarheimum, alþjóðamarkaðsfræði og markaðsáætlanagerð.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband