Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Þjóðstjórnin...

... er rangnefni. Það er dálítið undarlegt að líta svo á að stjórn sem samsett er af öllum flokkum á þingi sér þjóðstjórn. Tiltrú þjóðarinnar á núverandi flokka, hvort sem um er að ræða meirihluta eða minnihluta, virðist einfaldlega ekki nægilega mikil til að hægt sé að kalla slíka stjórn þjóðstjórn.

Í ljósi aðstæðna væri því eðlilegt að mynda utanþingsstjórn með  fimm ráðuneytum, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

En hverjir gætu gegnt þessum embættum? Sem betur fer eigum við mikið úrval af fólki sem vel gæti tekið við keflinu fram yfir næstu kosningar. Nefni nokkur nöfn:

Forsætisráðuneyti: Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Rannveig Rist forstjóri Alcan, Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, 

Fjármálaráðuneyti: Gylfi Magnússon dósent viðskiptafræðideild HÍ, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA. 

Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti: Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar,

Atvinnumálaráðuneyti: Páll Jensson prófessor iðnaðarverkfræðideild HÍ, Ingjaldur Hannibalsson prófessor viðskiptafræðideild HÍ, Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor HÍ, Jón Torfi Jónasson forseti menntavísindasviðs HÍ, Ástráður Eysteinsson forseti hugvísindasviðs HÍ.  

 


Loksins, loksins...

... hefur einhver af ráðamönnum þjóðarinnar áttað sig á því að enginn einn er ómissandi. Þetta ágæta fólk hefur fram að þessu boðið þjóðinni upp á þann málflutning að fari það frá muni allt fara á versta veg! Einn tók meira að segja þannig til orða, svona til að réttlæta eigin tilvist, að lengi geti vont versnað. Annar taldi að kosningar í vor myndi lengja kreppuna um 2 ár!

Það er mikilvægt fyrir alla að stjórn og lykil embættismenn fari frá. Það verður að skapa eðlilegt svigrúm fyrir aðra til að taka við og gefa þjóðinni ástæðu til að öðlast trú að nýju á því kerfi sem við höfum ákveðið að búa við hér á landi. Það er reyndar hugsanlegt að stjórnvaldið hafi gengið núverandi kerfi svo gjörsamlega til húðar að nauðsynlegt reynist að taka upp nýtt kerfi. Hvaða kerfi ætti þá að taka upp er ekki augljóst. 

Nú er spurningin hvað gerist næst þegar viðskiptaráðherra, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og stjórn þess hafa vikið. Atburðarás síðustu daga hefur verið með svo miklum ólíkindum að ómögulegt er að segja til um það. Það verður þó að teljast líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið og að stjórnin falli. Maður veit þó aldrei. Það fer allt eftir því hversu ærlegir menn eru.

Ef stjórnin fellur er líklega heillavænlegast að mynduð verði þjóðstjórn valinkunnra karla og kvenna. Líklega duga 5 ráðuneyti til að halda hér málum gangandi. Þetta gætu verið forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Þá er bara að finna fólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að takast á við verkefnið. Það þarf ekki að vera mjög mikið vandamál. Í raun er miklu stærra vandamál að ákveða hver ætti að tilnefna þetta fólk. Líklega fellur það í hlut Forseta.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband