Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Hvað er að gerast á Alþingi?
29.11.2009 | 14:36
Ég hef áhyggjur af vinnubrögðum alþingismanna um þessar mundir. Skiptir þá litlu hver flokkurinn er. Þetta er allt orðið mjög ótrúverðugt.
Stjórnarliðar slá úr og í. Koma fram með tillögur en draga þær til baka jafnharðan. Svo virðist sem stjórnin sé að "máta" tillögur á almenningi. Ef fram koma sterk viðbrögð þá er alltaf hægt að draga í land. Útkoman verður svo einhver múlasni sem er engum til gagns.
Stjórnarandstæðingar halda upp undarlegu þrasi um málefni sem þarf að leysa hratt og örugglega. Mikill tími sem sóast með þeim hætti.
Fyrir mér er þetta alveg óskiljanlegt. Það er eins og þessu fólki sé fyrirmunað að vinna hratt, skipulega og markvisst að því að koma þjóðinni úr þeirri kreppu sem hún nú er í.
...ég er ekki viss um að það muni breytast mikið í nánustu framtíð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Verslunarleyfi
22.11.2009 | 13:11
Á vef sýslumanna kemur eftirfarandi fram varðandi það hver og hvenær einhver má stunda verslunaratvinnu:
"Lögreglustjórar gefa ekki lengur út verslunarleyfi svo sem gert var samkvæmt lögum nr. 41/1968. Skilyrði þess að mega stunda verslun á Íslandi eru einungis þau að skrásetja í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við á verslun sem stunduð er skv. 1. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu." (sjá vefur sýslumanna)
Þetta held ég að hafi verið mikið óheilla skref. Mér sýnist að ef umrædd skilyrði væru enn við lýði þá hafi mjög margir fyrirgert rétti sínum til að stunda verslunaratvinnu. (sjá lög nr. 41 frá 1968)
Þrátt fyrir að lagatextinn sé kannski ekki mjög nútímalegur þá sýnist mér andi laganna gagnlegur. Þar kemur t.d. fram um tilgang laganna:
Tilgangur þessara laga er að tryggja, eftir því sem tök eru á:
- Að borgararnir eigi völ á sem bestri verslunarþjónustu á hverjum stað og tíma.
- Að þeir aðilar, sem fást við verslun, séu búnir þeim hæfileikum, að þeir geti uppfyllt skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu.
- Að verslun geti þrifist í landinu sem atvinnugrein.
Einnig kemur fram í 4 gr. þau skilyrði sem sá þarf að uppfylla sem veittur er réttur til verslunarrekstrar. Þar má m.a. sjá þetta:
- Hefur lokið prófi úr verslunarskóla, sem viðurkenndur er af ráðherra, eða hefur aðra menntun, sem ráðherra metur jafngilda. Enn fremur má veita þeim verslunarleyfi, sem um þriggja ára skeið hefur starfað við verslun og að þeim starfstíma loknum sótt sérstakt námskeið í verslunarfræðum, sem ráðherra viðurkennir, og lokið þaðan prófi. Meðan ekki er völ á slíkum verslunarnámskeiðum sem gert er ráð fyrir í þessum tölulið, má veita þeim verslunarleyfi, sem starfað hefur þrjú ár við verslun og sannar með vottorðum vinnuveitenda, að hann hafi vegna starfsreynslu sinnar þá þekkingu á bókhaldi, vörum og lagafyrirmælum, sem varða verslunarrekstur, sem telja má nauðsynlega til að reka verslun.
Hér er andi lagatextans sá að nauðsynlegt sé að sá er kemur að verslunarrekstri hafi grundvallarþekkingu á rekstri og viðskiptum. Það kemur einnig fram að mikilvægt sé að viðkomandi hafi óflekkað mannorð og ekki sé hætta á hagsmunaárekstrum.
Ég held að það hafi verið mistök að hverfa frá þessum grundvallarskilyrðum réttar til verslunaratvinnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðskiptavilla!
20.11.2009 | 21:32
Ég hef alltaf öðru hvoru látið mér detta í hug ný orða eða orðasambönd til að ná utanum þær hugmyndir sem ég er með í kollinum. Eitt af þeim orðum var "viðskiptasóðaskapur" sem fór frekar fyrir brjóstið á sumum!
Nú skal kynnt til sögunnar nýtt hugtak, "viðskiptavilla". Það er þegar þeir sem koma að rekstri hafa lítinn sem engan skilning á þeim rekstri né heldur því umhverfi sem hann er í.
Á undanförnum vikum hef ég frétt af nokkrum málum þar sem ráðgjafi frá viðskiptabanka fyrirtækis kemur að rekstrinum í þeim tilgangi að leita hagræðingar.
Hagræðingartillögurnar eru í flestum tilvikum frekar fátæklegar. Nær undantekningarlaust ganga þær út á að hækka verð. Það er lítil hagræðing í því. Hér er miklu heldur verið að koma kostnaði yfir á aðra, þ.e. neytendur. Reksturinn er eftir sem áður jafn óhagkvæmur eða hagkvæmur eftir atvikum.
Áhrif þessarar stefnu bankanna, en þeir eru enn flestir í forsjá ríkisins, geta verið mjög slæmar. Þessi skammtíma ásókn í greiðsluflæði fer beina leið út í verðlagið með tilheyrandi orsökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðfundur 2009
14.11.2009 | 22:49
Þjóðfundurinn var haldinn í dag og var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sitja hann. Að mínu viti var þetta það jákvæðasta sem gerst hefur hér á landi í margar, margar vikur.
Á fundinum hafði ég það hlutverk leiða umræður á borði þar sem 7 þátttakendur voru saman komnir. Það sem kom skemmtilega á óvart var hvað fólkið var jákvætt og áhugasamt og í raun sammála um mörg grundvallaratriði. Það átti t.d. við um gildin sem var fyrsta verkefni hópanna. Í raun voru allir hóparnir sammála og þau gildi sem birt voru þess eðlis að flestir geta tekið undir þau. Líklega gæti öll þjóðin tekið undir þau.
Þetta voru gildi eins og heiðarleiki, réttlæti, virðing, jafnrétti, kærleikur, ábyrgð og frelsi. Hver er svo sem ekki sammála þessu? Sjá nánar á Þjóðfundur 2009
Tilraunin var áhugaverð. Sannfærði mig um að almenningur er fullfær um að móta stefnu í mikilvægum málum fyrir þjóðina. Líklega betur til þess fallinn en þeir sem nú eiga að sinna því!
Kannski ætti að breyta kosningakerfinu? Hætta einfaldlega að kjósa en velja þess í stað 25% þingmanna af handahófi á tveggja ára fresti. Þeir mættu svo líklega vera færri en nú. Með þessu móti yrði enginn of stutt né of lengi. Viss um að árangurinn yrði ekki síðri en nú.
Hagsmunaaðilar eru eflaust ósammála mér.
Bloggar | Breytt 15.11.2009 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Barnalán!
3.11.2009 | 09:16
Kreppan hefur á sér marga skrýtna fleti. Margt sem þarf að endurskoða og endurhugsa. Eitt af því er endurskilgreining orða og hugtaka, s.s. eins og á orðinu barnalán. Í orðabóka má finna þessa skilgreiningu á því orði:
.. eiga <velgengni, barnaláni> að fagna eiga því láni að fagna að <búa við góða heilsu> ég átti ...
Margt sem bendir til þess að í næstu útgáfu þurfi að bæta við skilgreiningu, s.s. eins og:
...ná sér í <velgengni, barnalán> að komast yfir mikið fyrir lítið að <búa við gott barnalán> ég átti gott...
Þetta mál er líklega einhver almesta hryggðarmynd efnahagshrunsins. Látum vera að fullorðið fólk sé að púkast hvert í öðru í nafni velgengninnar. Einhversstaðar hljótum við að vilja draga e.k. siðferðismörk.
...eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)