Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Frostavetur framundan?

Nú liggur fyrir að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar virðist ekki ætla að ganga eftir. Flestir mælikvarðar efnahagsmála ýmist standa í stað eða hafa þróast í neikvæða átt. Mörg fyrirtæki munu ekki þola ástandið mikið lengur með tilheyrandi áhrifum á atvinnuástand.

Á sama tíma standa stjórnmálamenn í einhverju óskiljanlegu pólítísku þrefi. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hve minnihluti á hverjum tíma, skiptir þá ekki máli hver er við stjórn, getur lagst lágt til að skora pólitísk mörk. Með þessu er ég ekki að segja að allt sé rétt og gott sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Það er afar fátt sem er rétt og gott við það ástand sem nú ríkir. Það er hins vegar mikilvægt að menn taki höndum saman við að vinna okkur út úr vandanum. Samvinna er ekki áberandi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það sem verra er er að samvinna er heldur ekkert sérstaklega áberandi milli stjórnarflokkanna. Það er auðvitað alveg undarleg staða en um leið mjög skaðleg fyrir framvindu mála.

Ég veit satt best að segja ekki hvað er rétt og best að gera. Til þess vantar mig miklu meiri upplýsingar um stöðu mála. Tel jafnvel líklegt að jafnvel þó svo að ég hefði allar nauðsynlegar upplýsingar þá myndi ég ekki heldur vita hvað væri best og rétt að gera. Vandinn er einfaldlega mjög viðamikill og flókinn. Það ágæta fólk sem valist hefur til forystu er því ekki öfundsvert. Það er eflaust mjög auðvelt að draga upp önnur sjónarhorn sem draga úr trúverðugleika þeirra aðgerða sem í gangi eru. Það má hins vegar ekki verða markmið í sjálfu sér.

Það sem að mínu viti ætti að gera betur er að upplýsa þjóðina með markvissari hætti. Það er mikilvægt að fá almenning í lið með sér. Það gerist ekki nema að fólk hafi á tilfinningunni að það sé hluti af einhverri aðgerðaráætlun og að verið sé að stefna að skýru markmiði. Leiðin getur verið erfið og okkur getur borið af leið. Það er hins vegar mikilvægt að upplýsa almenning og gera það með viðurkenndum aðferðum. Þessar aðferðir kallast almannatengsl og því miður hef ég séð alltof mörg skólabókardæmi um mistök í stjórnun almannatengsla frá því í október sl. 

Aðalmistökin liggja í því að stjórnendur/stjórnvöld stórlega vanmeta gildi almannatengsla á erfiðleikatímum. Almannatengsl þurfa að vera hluti af lausninni, ekki eitthvað sem maður þarf að gera af því að til þess er ætlast. Þá verður þetta alltaf í skötulíki. 

Öflug almannatengsl eru sérstaklega mikilvæg í því fjölmiðlaumhverfi sem hér er. Fjölmiðlar hér á landi eru fáir og veikir. Það er varla til sá fjölmiðlamaður sem getur fjallað um efnahagsmál svo vit sé í. Það er fyrst og fremst vegna þess að menntun þeirra er oftast á einhverju öðru sviði. Þekking á efnahagsmálum er ekki meðfædd og ekki eins sjálfgefin og menn vilja vera láta. Það þarf að hafa töluvert fyrir því að afla sér grundvallar þekkingar á rekstri og efnahagsmálum. Þá þekkingu hafa fjölmiðlamenn almennt ekki. Þeirra hlutverk verður því oftar en ekki að enduróma það sem að þeim er rétt í stað þess að fjalla um það með gagnrýnum hætti. Niðurstaðan verður því gjarnan ruglingsleg, þversagnarkennd umræða sem gerir ekkert annað en að skapa ótta, óróa og óöryggi á meðal almennings. 

Þetta er það sem sumir kalla að skora pólitísk mörk. Ég er dálítið hneykslaður á því hve sumir stjórnmálamenn eru tilbúnir að ganga langt, að því er virðist í þeim tilgangi einum að láta bera á sjálfum sér og skapa sér einhverja stöðu í eiginn flokki. Því miður held ég að þegar upp er staðið þá verði hátterni sem þetta flokkað sem sjálfsmark. Það er eins og menn átti sig ekki á því hvað er vörn og hvað er sókn í þessu samhengi.


Við úrlausn vandamála...

...er mikilvægt að byrja á því að átta sig á í hverju vandinn liggur. Þetta þykir sumum augljóst en líklega er þó hægara um að tala en í að komast. Það er mjög algengt að hinir og þessir leggi þetta og hitt til í þeim tilgangi að leysa eitthvað sem alls ekki er augljóst þegar upp er staðið.

Þau eru mörg viðfangsefnin sem tengjast efnahagsástandinu hér á landi. Það væri að æra óstöðugan að ætla að telja þau öll upp hér enda ekki víst að sú upptalning yrði tæmandi. Það er þó einn vandamálaflokkur sem stendur mér nær en aðrir en það eru viðfangsefni er snúa að þróun háskólastarfs í landinu. 

Það er auðvitað dálítið undarlegt að tala um háskóla sem vandamál sérstaklega þegar haft er í huga að efling æðri menntunar hefur verið leið margra þjóða út úr sambærilegum efnahagsörðugleikum og hér eru nú. Vandinn er væntanlega sá að einhverjum þykir fara of miklir peningar í þetta starf. Aftur hljómar það undarlega þegar horft er til þeirra landa sem við, amk á hátíðarstund, viljum bera okkur saman við. Aðrir benda á óhagræði og að fjöldi skóla sé of mikill miðað við fólkfjölda. Það kann að vera rétt en á móti má benda á að sjálfstæði svo lítillar þjóðar sem við erum telst seint tiltakanlega hagstæð. 

Það kann að vera að einhverjar háskólaeiningar séu of litlar, aðgengi að námi sé of gott eða að einhverjir skólar hafi farið fram úr sér hvað uppbyggingu varðar. Hver svo sem vandinn er þá er mikilvægt að greina hann og leysa. Það er ekki góð leið að láta sér detta í hug að lausn á vanda eins skóla verði á kostnað annars. Ýmsar hugmyndir varðandi sameiningu og samvinnu virðast miða að því. 

Það þykir mér hálf fáránlegt. Þetta er svona eins og að láta aðila B fá magakveisu af því að þá muni aðili A líklega losna við sína! Ef einhver skóli hefur fylgt viðskiptamódeli sem ekki virðist ganga upp þá er það vandamál þess skóla, ekki einhvers annars.


Öflug endurkoma!

Ég var aldrei neinn sérstakur aðdáandi Þorsteins Pálssonar þegar hann var í pólitík. Ég verð þó að viðurkenna að álit mitt á Þorsteini hefur vaxið mikið síðustu vikur. 

Hugsanlega er hér sá leiðtogi sem við þurfum á að halda þessa dagana? 


Fagna aðildarumsókn

Ég fagna niðurstöðu Alþingis þess efnis að sækja um aðild að ESB. Tel að það sé eina leiðin til að fá úr því skorið hvort við eigum samleið með öðrum Evrópuþjóðum eða ekki. Vel kann að vera að ríkjum ESB sé svo umhugað að fara illa með smærri aðildarríki að samningurinn verði óaðgengilegur.

Margir þingmenn nota orðið hagsmunamat í þessu máli. Ég er sammála þeirri nálgun. Það á einfaldlega að láta meiri hagsmuni ganga fyrir minni. Það á ekki að láta sérhagsmuni fárra ganga fyrir heildarhagsmunum margra. Þetta hafa sumir kallað ókost við ESB. Við ráðum okkur ekki fullkomlega í öllum málum. Reyndar fórum við dálítið, svo ekki sé meira sagt, illa að ráði okkar. Við þurfum einnig að taka tillit til annarra. Það finnst sumum galli.

Ég tel mikilvægt að horfa eftir sóknarfærum sem hugsanleg innganga í ESB hefur í för með sér. Sú ógnun sem sumar greinar verða fyrir ætti um leið að vera tækifæri fyrir aðrar greinar. Við eigum ekki að gefa okkur að allt verði eins og áður.

Aðalkosturinn við ESB að mínu mati er annars vegar möguleiki okkar á að taka upp nýjan gjaldmiðil og svo gegnsæi í verðlagningu. Það verðlag sem almenningur býr við hér er óásættanlegt og afleiðing sérhagsmunagæslu. Því þarf að ljúka, almenningi til heilla. 


Er ESB lausnin?

Það er mjög erfitt að svara þessari spurningu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það virðist ekki vera ljóst hver vandinn er! Því er erfitt að segja af eða á með ágæti ESB.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Ísland ætti að ganga í ESB og taka upp Evru. Það þurfti ekki kreppu til. Að sjálfsögðu hefðum við ekki losnað við kreppuna en mér er til efs að við stæðum frammi fyrir eins miklum vanda nú ef við hefðum gengið í ESB þegar við áttum að gera það.

Ég held einnig að við værum ekki að fást við þau undarlegu mál sem tengjast arðgreiðslum til eigenda sem skulda allan sinn eignarhluta og munu líklega aldrei standa skil á honum. Verð að viðurkenna að mig skorti hugmyndaflug til að láta mér detta svona fléttu í hug. En ég er auðvitað engin fjármálasnillingur! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband