Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
Traust til stjórnmála!
12.12.2010 | 11:10
Flestir átta sig á því að traust til stjórnmála er ekki mikið um þessar mundir. Undanfarið hefur nokkuð verið um þetta rætt, m.a. í tengslum við nýútkomna skýrslu á vegum Samfylkingarinnar um starf flokksins og í viðtalsþættinum Návígi þar sem rætt var við Huldu Þórisdóttir. Í umfjölluninni kemur sterkt fram það sjónarmið að traust til stjórnmála hafi hrunið um leið og bankakerfið hrundi.
Þetta er á vissan hátt rétt en þó ekki nema hálfsannleikur. Það er ekki eins og stjórnmálin hafi notið mikils trausts fyrir hrunið. Það má m.a. sjá í könnunum Capacent Gallup á trausti til stofnana. Vissulega hefur traust til alþingis minnkað en það hefur aldrei verið sérstaklega mikið. Þannig báru aðeins 29% mikið traust til alþingis í febrúar 2007. Það að nú skuli aðeins 13% bera mikið traust til alþingis er vissulega lægra en flokkast ekki endilega sem hrun.
Í kjölfar alþingiskosninganna 2007 skrifaði ég í fræðigreinina Markaðsfræðilegt sjónarhorn á stöðu stjórnmálaflokka fyrir alþingiskosningarnar 2007. Þar kemur eitt og annað fram sem of langt mál er að gera grein fyrir hér en áhugasamir eru hvattir til að lesa greinina. Þar er m.a. gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar í tengslum við greinina en spurt var: "Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að stjórnmálamenn standi við gefin loforð?" Niðurstaðan varð sú að aðeins tæp 18% tödu það líklegt eða mjög líklegt. Í sömu könnun var spurt "Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að fólk almennt standi við gefin loforð?" en þar varð niðurstaðan sú að tæp 74% töldu það líklegt eða mjög líklegt.
Með öðrum orðum þá taldi fólk það mun líklegra að almenningur stæði við gefin loforð en stjórnmálamenn.
Vantraust til stjórnmála á sér því mun lengri sögu en til bankahrunsins haustið 2008. Það er eitthvað sem stjórnmálamenn þurfa að fást við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)