Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Það sem áður var inn er út!
13.2.2010 | 00:22
Í byrjun árs 2007 heyrði ég gert góðlátlegt grín að því að hér áður hefðu verið fluttar reglulega fréttir af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti fólki ótrúlega gamaldags og hallærislegt.
Einhver benti þá á að nú væru fluttar reglulega fréttir af annars konar aflabrögðum, þ.e. þróun vísitalna í hinum ýmsu kauphöllum hingað og þangað um heiminn. Í kvöldfréttum RÚV væri jafnvel gengið svo langt að fréttaþulurinn læsi upp breytingar á þessum vísitölum. Eins og þeir sem á þessum upplýsingum þyrftu á að halda hefðu þær ekki nú þegar. Nei, allar fjölskyldur í landinu skyldu fá að vita af þessum mikilvægu upplýsingum. Taldi sá hinn sami að í framtíðinni myndi verða gert sambærilegt grín að þessum fréttum og gert væri af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti viðstöddum hálf kjánaleg athugasemd.
En viti menn. Nú er eins umræddar vísitölur hafi bara horfið af yfirborði jarðar og reglulega heyrast fréttir af aflabrögðum skipa og báta eins og þeir hafi tekið upp á þeirri iðju aftur eftir langt hlé.
Fréttir eru hálf undarlegt fyrirbæri. Mér er verulega til efs hversu gagnlegt er að lesa gamlar fréttir til að átta sig á stöðu mála í fortíðinni. Fréttamenn virðast verða fórnarlömb hjarðhegðunar eins og margir aðrir.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig við metum fréttir ársins 2009 og 2010 eftir 2 til 3 ár. Ætli það geti verið að þá sjáum við að fréttaflutningur af líðandi stund hafi verið þröngsýnn og takmarkaður og að augljóst væri að ekki hafi verið fluttar fréttir af því sem raunverulegu máli skipti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Starfsfélaginn!
6.2.2010 | 17:16
Félagi minn sem býr í Hollandi sendi mér þessar línur í vikunni.
Hollenska blaðið De Volkskrant birti í dag ummmæli hollenska seðlabankastjórans fyrir þingnefndinni sem rannsakar fjármálakreppuna. Samkvæmt blaðinu voru ummæli með nokkuð öðrum hætti en maður hefur lesið á íslenskum vefmiðlunum.
Hollenski seðlabankastjórinn, Nout Wellonk, sagði fyrir rannsóknarnefnd hollenska þingsins í gær að þann 3. september 2008 hafi hann spurt íslenska starfsbróður sinn um stöðu íslensku bankanna og íslenska fjármálakerfisins. Mun starfsbróðirinn hafa flutt honum langa tölu um möguleika íslensks efnahagslífs til lengri tíma, um heitar lindir, hveri, fisk og Guð má vita hvað. Og að bankarnir stæðu traustum fótum. Tæpri viku seinna sagði Íslendingurinn hins vegar að 6 mánuðum áður hafi hann varað við óstöðugleika íslensku bankanna. Ég vonaði lengi að hann hefði einfaldlega ekki gert sér grein fyrir ástandinu, sagði hollenski seðlabankastjórinn fyrir nefndinni. En svo þegar ég heyrði þetta hugsaði ég með sjálfum mér; það var einfaldlega logið að okkur.
Ef marka má þessa frásögn í blaðinu hérna þá segir hollenski seðlabankastjórinn að það hafi verið sami maðurinn, íslenski starfsbróðir hans, sem sagði sér 3. september að allt væri í lagi með íslensku bankana og viku seinna að hann hafi varað íslensk stjórnvöld við slæmri stöðu bankana sex mánuðum fyrr. Það var því íslenski seðlabankastjórinn sem sagði honum ósatt í fyrstu. Ekki nema von að Jón Sigurðsson eða aðrir kannast ekkert við að hafa sagt þessum hollendingi að allt væri í fínu lagi með íslensku bankana; hollenski seðlabankastjórinn er alltað að vitna í Davíð.
Þá vitum við það...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)