Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Jón G Hauksson hneykslaður!

Í morgunútvarpinu í morgum kom fram að ritstjóri Frjálsrar verslunar er hneykslaður á því hvað laun sumra, sérstaklega bankamanna, hafa lækkað lítið. Það kann vel að vera rétt að laun hefðu átt að lækka meira en raun ber vitni. Mér finnst það þó ekki eiga að vera markmið í sjálfu sér, gott ef menn fá góð laun fyrir góða vinnu.

Mér finnst miklu áhugaverðara að sjá hve margir virðast hafa ótrúlega lág laun. Þetta á ekki síst við um svo kallað listafólk sem margt hvert virðist hafa ótrúlega lítið upp úr krafsinu. Margir með lægri laun en atvinnuleysisbætur og sumir með lægri laun en sem nemur félagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg.

Ég tek fram að ég hef ekkert sérstakt horn í síðu listafólks. Skil bara ekki hvernig þetta fólk kemst af. Það eru einhver takmörk fyrir því hve langt maður kemst á andans auðæfum. Auðvitað læðist að manni sá grunur að hér sé ekki allt eins og það á að vera. Kannski væri ráð að skoða það áður en farið er út í að hækka skatta á almenna launþega. Hugsanlega kæmi eitthvað út úr því. Hugsanlega ekki.

Sé þetta hins vegar það sem þetta ágæta fólk uppsker fyrir sína miklu vinnu þá eiga þau alla mína samúð. Þetta bara hlýtur að vera erfitt líf.


Vingull í pólitík

Ég hef alltaf verið hálfgerður vingull í pólitík og skort það sem sumir kalla pólitíska sannfæringu. Reynsla mín sem opinber starfsmaður hefur kannski haft einhver áhrif. Hef átt erfitt með að sjá hvor klárinn er betri, bleikur eða rauður (og auðvitað blár og grænn).

Ég held þó að pólitíska sannfæringin sé meiri en ég vil vera láta. Ég á bara erfitt með að staðsetja mig í flokkakerfinu hér á landi sem virðist fyrst og fremst ganga út á að viðhalda sjálfu sér. Ég er t.d. hrifinn af einkaframtaki. Tel að maður eigi að uppskera eins og maður sáir og álít að í grundvallaratriðum þá sé hver sinnar gæfu smiður. Ég hef hins vegar aldrei skilið einkavæðingu sem gengur út á það að gera út á hið opinbera. Það hefur ekkert með einkaframtak að gera. Ég er einnig þeirrar skoðunar að sum verkefni eigi að vera á ábyrgð hins opinbera. Hef efasemdir um algæti einkaframtaksins. 

Ég er einnig þeirrar skoðunar að samfélagsleg aðstoð eigi rétt á sér. Sé reyndar nauðsynleg og sjálfsögð. Tel hins vegar að bætur eigi að vera undantekning fremur en regla. Samfélagið þurfi að vera þannig úr garði gert að það bjóði upp á næg tækifæri fyrir flesta. Sumir munu hins vegar ekki geta nýtt sér góð tækifæri. Samfélagið þarf að aðstoða þá.

Yfirlýsing stjórnarinnar í gær vekja óneitanlega upp margar spurningar. Getur verið að pólitísk sannfæring fárra verði dýru verði keypt? Getur verið að umræddur samningur sé ólöglegur eftir allt saman og því var það þá ekki kannað miklu fyrr? Hvað táknar það þegar menn segjast ætla að vinda ofan af einkavæðingunni? Hvað hefur verið einkavædd? Var ekki einhver sem seldi eign sína? Má það ekki? Þjónar einhverjum tilgangi að eiga eitthvað og nota það ekki? 

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessa máls. 


Hvað er að frétta?

Stundum þykir mér fjölmiðlar afar takmarkaðir. Það er eins og að það ágæta fólk sem þar starfar ráði aðeins við umfjöllun um eitt mál í einu. Skiptir þá engu hver miðillinn er, þeir virðast allir hafa sama "fréttanefið" og láta alla fréttatíma sem og fréttatengda þætti fjalla um þetta sama mál.

Þetta hefur orðið til þess að ég er oftar og oftar farinn að stilla á Rás 1. Þar láta menn dægurþras ekki mikið trufla sig og halda sínu (dagskrár) striki sama hvað á dynur. Verð þó að viðurkenna að það er dálítið sérstakt að hlusta á 30-40 mín. þátt um mjög afmarkað efni. Stundum svo afmarkað og sérstætt að mér er til efs að margir tugir hlustenda hafi þekkingu, vit eða ánægju af því. Það er hins vegar ánægjulegt að vita til þess að enn skuli vera til fólk sem hafi nennu til að setja sig vel inn í afmörkuð mál og fjalla um þau af viti (þekki þó sjaldnast efnið nægilega vel sjálfur til að geta dæmt um það en umræðan er trúverðug).

En hvað er að frétta? Hvað er með þau mál sem tröllriðu öllum fjölmiðlum fyrir ekki löngu síðan? Hvað með t.d. IceSave? Er það mál bara leyst? Eða er það jafn óleyst og þegar umræðan um það mál var sem mest? Tek þó fram að ég er ekki að kalla eftir frekari umfjöllun um það mál. Ég eins og margir var alveg búinn að fá mig fullsaddan af þeirri umræðu.

Velti fyrir mér hvort Magma málið sé af svipuðum toga. Um annað er varla rætt þessa dagana. En er þetta mál sem verðskuldar svona mikla athygli? Kannski, kannski ekki. 

Mér heyrist þó margir rugla saman mörgum málum í tengslum við þessa umræðu. Stundum er verið að tala um viðskiptasamning milli tveggja lögaðila, stundum um það hvort orkuauðlindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar, stundum um stefnu Vinstri Grænna, stundum um yfirgang Samfylkingarinnar og stundum um það hvort þetta mál sé ekki einmitt dæmi um það að það eigi að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Þessu er svo gjarnan öllu blandað saman í einum og sama þættinum. Mjög upplýsandi eða hvað?


Erlendar fjárfestingar!

Ég er einn af þeim sem hef talið það sjálfgefið að eftirsóknarvert sé að fá erlenda fjárfesta til að fjárfesta hér á landi. Umræðan síðustu daga og vikur bendir hins vegar til þess að erlent fjármagn er ekki endilega álitið eftirsóknarvert, jafnvel talið óæskilegt.

Stjórnvöld þurfa að gera það upp við sig hvort erlend fjárfestingin er æskileg eða ekki. Að sjálfsögðu eiga að gilda um það reglur en slíkar reglur þurfa að vera skýrar og eðlilegar. Þær mega ekki breytast eftir því sem vindurinn blæs eða eftir því úr hvaða flokki tiltekinn ráðherra kemur. 

Ef stjórnvöld telja það æskilegt að hingað leiti erlent fjármagn er ekki þar með sagt að það geri það. Grundvallaratriði sem þarf að vera til staðar er að hér séu áhugaverð fjárfestingatækifæri. Það er ekki áhugavert fyrir erlenda fjárfesta að aðeins sé heimilt að fjárfesta í einhverju sem innlendir fjárfestar hafa ekki áhuga á. Fjárfestingatækifærin eru víða. 

Fyrir utan fjárfestingatækifæri er einkum þrennt sem gert hefur það að verkum að Ísland hefur orðið fyrir valinu. Þetta er lágt raforkuverð, hæft (og reyndar ódýrt) vinnuafl og stjórnmálalegur stöðugleiki. Mjög víða er orkuverð lágt. Einnig hæft starfsfólk (og jafnvel ódýrara en hér) en þá hefur vantað upp á stjórnmálalegan stöðugleika. Styrkur Íslands liggur í því að koma vel út hvað öll þessi þrjú atriði varðar.

Því miður bendir ýmislegt til þess að hvað það síðast talda varðar, stjórnmálalegur stöðugleiki, þá sé það ekki eins mikill styrkur á áður. Gæti jafnvel orðið veikleiki. Þetta fer auðvitað allt eftir því hvernig stjórnmálalegur stöðugleiki er skilgreindur. Það má gera með ýmsum hætti. Þannig má horfa til þess hvort í landinu megi búast við stjórnarbyltingu, einhliða eignaupptöku eða hvort mikil spilling ríki meðal stjórnmálamanna. Einnig er mikilvægt að fjárfestingaumgjörðin sé studd eðlilegu regluverki sem gera má ráð fyrir að standist þegar á reynir.

Áhættustig fjárfestinga hækkar verulega ef gera má ráð fyrir að reglur breytist án augljósra ástæðna. Við þurfum að gæta þess að snúa ekki styrk okkar upp í veikleika!


Algjör gal-skapur!

Nú hafa komið fram hugmyndir með hvaða hætti stjórnvöld geta aukið skatttekjur sínar um 1-2% af vergri landsframleiðslu. Í grundvallaratriðum ganga þessar hugmyndir út á að hækka matvöruverð í landinum með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli í 25,5%.

Í ljósi þess að matvöruverð er nú þegar mjög hátt hér á landi getur þetta vart talist góð tillaga. Eiginlega hljómar þetta eins og algjör gal-skapur (AGS). Það er ekki mjög líklegt að almenningur taki þessari hugmynd fagnandi. Skattur á mat er eins og skattur á bensín, þ.e. auknar tekjur skila sér hratt og vel, fyrst og fremst vegna þess að fólk getur illa komist af án þess að kaupa mat og/eða bensín. Því miður er ekki annað líklegt en að kaupmenn myndu velta þessu beint út í verðlagið. Hækkun á matvælaverði hér á landi yrði því stórkostleg aðför að lífsgæðum.

Enn og aftur verð ég að draga fram hugtakið FRAMLEIÐNI. Aukin framleiðni skattkerfisins gengur í grundvallaratriðum út á það að nýta betur þá skattstofna fyrir eru. Það er ekki dæmi um aukna framleiðni að hækka skattprósentu eða koma með nýja skatta. 

Það væri hins vegar dæmi um aukna framleiðni skattkerfisins að sjá til þess að þeir sem eiga að greiða skatta, geri það. Það hefði verið mun athyglisverðara að sjá tillögur sem ganga út á það að koma í veg fyrir að tilteknir hópar komi sér undan að greiða þá skatta sem þeim ber. Flestum er ljóst að hér á landi eru stunduð umtalsverð skattsvik. Stundum er jafnvel talað um það sem þjóðaríþrótt að finna leiðir til að greiða ekki "of mikla" skatta!

Á tímum sem þessum er óþolandi að skattar séu hækkaðir á suma hópa á meðan að aðrir koma sér hjá því að greiða þá. Tillögur ráðgjafa stjórnvalda hefðu kannski átt að beinast frekar í þá átt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband