Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Klofin þjóð!

Nú liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave lögin fyrir. Um 60% sagði NEI og þar með um 40% JÁ. Flestir myndu telja þetta nokkuð góðan meirihluta. Sumir, þá einkum stjórnmálamenn, telja að nú sé mikilvægt að sameina þjóðina. Þetta mál hafi klofið hana í tvær fylkingar!

Þessi klofningur held ég að sé satt best að segja stórlega ofmetinn. Ég held að mun auðveldara verði að fá fólk til að styðja niðurstöðuna en menn vilja vera láta.

Í fyrsta lagi þá kusu um 60% NEI. Í öðru lagi þá virtust margir mjög óvissir í afstöðu sinni, þ.e. hvort þeir ættu að kjósa NEI, eða JÁ. Í þriðja lagi voru einhverjir sem vissu ekkert endilega hvað átti að kjósa og létu kannski nær umhverfið ráða. Einhverjir þeirra sögðu eflaust JÁ. Svo voru einhverjir sem langaði til að segja NEI en þorðu ekki! 

"Nei hópurinn" gæti því allt eins verið 75-80%. Það telst varla klofin þjóð. Eftir stendur kannski 25% sneið sem hafði fullkomna sannfæringu fyrir því að JÁ væri rétt en NEI væri rangt. Mér er til efs að sá hópur muni halda áfram að berjast fyrir þeim málstað.

Það sem er áhyggjuefni er hve margir stjórnmálamenn leggja á það áherslu að nú þurfi að sameina hina klofnu þjóð. Það sé þá verkefni sem þeir sjálfir séu einmitt best til fallnir. 

...um það hef ég satt best að segja miklar efasemdir.


Hjarðhegðun!

Nú hefur kjörstöðum verið lokað og skrif á blogg síðum og fésbókinni mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni sl. daga og vikur. Ég dáist að því fólki sem hefur mótað sér sannfærandi niðurstöðu. Skiptir þá litlu hvort svarið er JÁ eða NEI. Sumir hafa jafnvel lýst því yfir að þeir hafi kynnt sér samninginn vel. Ekki dreg ég það í efa. Ég hef reynt en sannast sagna ekki náð að móta mér skýra mynd af kostum og göllum samningsins. Miðað við þau ólíku sjónarmið lögfræðinga, hagfræðinga og annarra spekinga þarf það svo sem ekki að koma neinum á óvart.

Ég held því fram að mjög fáir skilji málið til einhvers gagns. Ég held því einnig fram að mjög óráðið hafi verið að setja mál sem þetta í þjóðaratkvæði. Fæ ekki séð að það hafi verið til góðs.

Ég var lengi óviss um afstöðu mína. Út af fyrir sig ágæt rök fyrir hvorum valkostinum fyrir sig. Þegar í kjörklefann kom og ég horfði á kjörseðilinn varð mér þó ljóst að það var aðeins einn réttur valkostur! Vonandi verður það niðurstaðan. 

Ef hinn valkosturinn verður ofaná þá vona ég svo sannarlega að það fólk sem talað hefur fyrir honum hafi rétt fyrir sér. Annars bíða okkar miklir erfiðleikar. 


IceSave!

Nú þarf hver og einn að fara að gera upp við sig hvernig á að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um IceSave lögin. Í grundvallaratriðum eru þrjár leiðir í boði:

  1. Segja JÁ
  2. Segja NEI
  3. Mæta ekki

Í mínum huga er ekki augljóst hvaða leið er best. Lengi vel hallaðist ég að því að mæta ekki. Taldi mig ekki hafa nokkrar forsendur til að setja mig inn í þetta af einhverju viti. Tel mig reyndar ekki enn hafa þær forsendur eða upplýsingar. Málsvarar beggja sjónarmiðana færa ágæt rök fyrir sínum málstað. Ekki hjálpar það nú mikið.

Ég er því enn að gæla við þá hugmynd að mæta ekki! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband