Ætli þetta virki enn?

Er dálítið að velta því fyrir mér hvort blogg sé enn lesið af einhverjum? Nú er maður víst ekki maður með mönnum nema maður blási í á Fésinu eða Twitter.

...en sjáum til.


Er ímynd bankanna að styrkjast?

Ég hef staðið fyrir mælingum á ímynd bankanna frá 2004. Meðal ímyndarþátta eru TRAUST og SPILLING  en þeir eru fleiri þættirnir.

Fram að hruni þá einkenndist ímyndin af jákvæðum þáttum s.s. eins og TRAUSTI og fáir tengdu SPILLINGU við banka og sparisjóði. Það var þó þannig, og er þannig enn, að sumir bankar tengdust TRAUSTI sterkar en aðrir bankar og sumir tengdust SPILLINGU frekar en aðrir.

Eftir hrun þá breyttist allt. Grein sem áður einkenndist af jákvæðri ímynd glataði þeirri stöðu nánast á einni nóttu. Við tók sterk tengsl við ímyndarþáttinn SPILLING! Meðfylgjandi mynd sýnir ágætlega hvernig þessir tveir ímyndarþættir hafa þróast. Síðasta mælingin, í febrúar 2012, bendir til þess að ímyndin sé að styrkjast. Þeir sem til þekkja vita að það að byggja upp traust tekur langan tíma. Það má einnig sjá á myndinni.

 Þróun á ímynd banka

Nú er bara spurningin hvort innistæða sé fyrir þessum breytingum og hvort þessi grein nái að snúa stöðunni við. Það virðist þó ætla að taka einhver ár til viðbótar.


Alvörumaður Mugison!

...ekki þetta endalausa sultarhjal. Hér er maður sem þorir að viðurkenna að honum vegnar vel. Það er eins og það hafi verið dálítið "tabú" síðustu misserin.

Því miður náði ég ekki í miða og sem betur fer er uppselt! Það er þá rýmra fyrir einhverja aðra þetta kvöld. 


Karlalandsliðið í fótbolta!

Flestir virðast sammála því að árangur karlalandsliðsins í fótbolta sé óásættanlegur. Ráðamenn í þeim málefnum virðast einnig fullvissir um að ekki sé sérstök ástæða til að gera eitthvað í málinu!

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvað sé ásættanlegur árangur og hvað ekki. Mér finnst stundum að þeir sem tjá sig um þessi mál gleymi því að Ísland er örþjóð og árangur út af fyrir sig að hægt sé að koma saman sem liði sem ekki verður sér til skammar. Kannski hefur það ekki tekist sl. misseri og kannski er óþarfi að raðast neðar en Færeyjar á styrkleikalista. Hvað veit ég!

Hitt veit ég að fótbolti fær allt of mikla athygli hér á landi. Tek fram að mér þykir gaman að horfa á góðan fótbolta. Þykir jafnleiðinlegt að horfa á lélegan fótbolta.  Íslenskur fótbolti er því miður allt of oft í þeim flokki. Varla við öðru að búast þegar tekið er mið af fjölda liða í efstu deild. Liðin eru einfaldlega allt of mörg miðað fjölda íbúa. Ástæðan fyrir því er að allt of mörgum er beint í fótbolta en ættu í raun að stunda aðra íþrótt. Gætu þar hugsanlega náð mun betri árangri.

Um þetta skrifaði ég færslu fyrir um tveimur árum og í stað þess að endurtaka hana þá vísa ég til hennar hér. Hef út af fyrir sig ekkert skipt um skoðun.

Áfram Ísland!


Hringvegurinn hjólaður á 8 dögum

Um miðjan júní ákváðum við félagarnir, Halli og Rúnar, að hjóla hringveginn. Þetta er svo sem ekki ný hugmynd en einhvern veginn hefur hún ekki komist á framkvæmdastig fyrr en núna. Við höfum svo sem ekkert óskaplega mikla reynslu af því að hjóla, það lengsta sem við höfðum farið fyrir þessa ferð var 107 km á dag. Erum þó í ágætu formi!

Í byrjun var markmiðið að fara hringinn á 7 dögum. Strax sáum við að það var illgerlegt og ákváðum að fara hringinn á 8 dögum. Lagt var af stað mánudaginn 20. júní kl. 9.30 og komið til baka mánudaginn 27. júní kl. 21. Að jafnaði voru hjólaðir 160-200 km á dag og hjólað 12-14 tíma.

Við upphaf ferðar

   

Fyrsta daginn voru hjólaðir 185,5 km og gist að Höfðabrekku rétt austan við Vík. Ferðatíminn var 12 tímar og meðalhraðinn 19,7 km á klst. Veðrið frekar leiðinlegt og við rennblautir þegar komið var í náttstað. 

Gist að Höfðabrekku

 Annan daginn var stefnan tekinn á Hala í Suðursveit (gist í Gerði). Hjólaðir voru 203 km, meðalhraðinn var 19,9 km á klst og ferðatíminn 13 timar. Þennan dag voru aðstæður góðar, umferð lítil og lítið um brekkur. Við þó þreyttir á náttstað enda 203 km nokkuð löng dagleið.

 

Við Jökulsárlón eftir 180 km hjólreiðar

Þriðja daginn var stefnan tekin á Djúpavog. Aðstæður ágætar en nokkuð um brekkur. Hjólaðir voru 161,61 km, meðalhraðinn 18,7 km og ferðatíminn 11 tímar. 

 

22062011234.jpg

 

Fjórða daginn var stefnan tekinn á Egilsstaði. Þetta átti að vera hálfgerður hvíldardagur en raunin varð önnur. Öxi er ekki sérlega hentug til hjólreiða. 

 

Á leið á Öxi

 

Hjólaðir voru 89,49 km, meðalhraðinn var aðeins 13,8 km og ferðatíminn 7,5 tímar. Komnir óvenju snemma á náttstað, eða um kl. 16 og gátum því nærst vel og hvílt okkur. Þetta var eini dagurinn sem við vorum komnir á náttstað fyrir kvöldmat en oftast vorum við ekki komnir fyrr en um kl. 22.

Fimmta daginn var stefnan tekinn á Mývatn um Möðrudalsöræfi. Hjólaðir voru 161,71 km, meðalhraðinn aðeins 14,4 km á klst og ferðatíminn 14 tímar. 

Á leið yfir Möðrudalsöræfi

 

Á þessari leið voru aðstæður afar slæmar. Aðeins tveggja stiga hiti, mótvindur og rigning.  Allt hafðist þetta þó og vorum við komnir á náttstað um kl. 22.

Sjötta daginn var stefnan tekin á Skagafjörð. Hjólaðir voru 194,17 km, meðalhraðinn 18,5 km á klst og ferðatíminn 13 tímar. Frekar erfið leið, mikið um brekkur og stundum mótvindur. 

Séð yfir Akureyri á leið í Skagafjörð

 Sjöunda daginn var stefnan tekinn suður fyrir heiðar eða í Norðurárdal. Hjólaðir 187,63 km, meðalhraðinn 20,9 km á klst, enda mikill meðvindur, og ferðatíminn 13 tímar. Óskaplega kalt í Hrútafirði enda norðan bál.

Kalt í Hrútafirði

 

Síðasti dagurinn átti að vera  frekar þægilegur enda ekki nema 144,38 km. Norðan hvassviðri gerði það þó að verkum að þetta varð heldur meiri raun en til stóð. Meðalhraðinn var þó 18,1 km á klst og ferðatíminn 12 tímar. Mannskaða veður var í Hvalfirði og urðum við um tíma að leita vars. Hér má sjá stutt myndband sem lýsir aðstæðum ágætlega.

Leitað skjóls í Hvalfirði

 

Allt hafðist þetta þó að lokum. Í heild voru hjólaðir 1.327 km á 8 dögum. Vitum ekki til þess að hringurinn hafi áður verið hjólaður á svo skömmum tíma.

Komnir á áfangastað eftir 1.327 km

 

....þetta er því óformlegt íslandsmet þar til annað kemur í ljóst!


Klofin þjóð!

Nú liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave lögin fyrir. Um 60% sagði NEI og þar með um 40% JÁ. Flestir myndu telja þetta nokkuð góðan meirihluta. Sumir, þá einkum stjórnmálamenn, telja að nú sé mikilvægt að sameina þjóðina. Þetta mál hafi klofið hana í tvær fylkingar!

Þessi klofningur held ég að sé satt best að segja stórlega ofmetinn. Ég held að mun auðveldara verði að fá fólk til að styðja niðurstöðuna en menn vilja vera láta.

Í fyrsta lagi þá kusu um 60% NEI. Í öðru lagi þá virtust margir mjög óvissir í afstöðu sinni, þ.e. hvort þeir ættu að kjósa NEI, eða JÁ. Í þriðja lagi voru einhverjir sem vissu ekkert endilega hvað átti að kjósa og létu kannski nær umhverfið ráða. Einhverjir þeirra sögðu eflaust JÁ. Svo voru einhverjir sem langaði til að segja NEI en þorðu ekki! 

"Nei hópurinn" gæti því allt eins verið 75-80%. Það telst varla klofin þjóð. Eftir stendur kannski 25% sneið sem hafði fullkomna sannfæringu fyrir því að JÁ væri rétt en NEI væri rangt. Mér er til efs að sá hópur muni halda áfram að berjast fyrir þeim málstað.

Það sem er áhyggjuefni er hve margir stjórnmálamenn leggja á það áherslu að nú þurfi að sameina hina klofnu þjóð. Það sé þá verkefni sem þeir sjálfir séu einmitt best til fallnir. 

...um það hef ég satt best að segja miklar efasemdir.


Hjarðhegðun!

Nú hefur kjörstöðum verið lokað og skrif á blogg síðum og fésbókinni mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni sl. daga og vikur. Ég dáist að því fólki sem hefur mótað sér sannfærandi niðurstöðu. Skiptir þá litlu hvort svarið er JÁ eða NEI. Sumir hafa jafnvel lýst því yfir að þeir hafi kynnt sér samninginn vel. Ekki dreg ég það í efa. Ég hef reynt en sannast sagna ekki náð að móta mér skýra mynd af kostum og göllum samningsins. Miðað við þau ólíku sjónarmið lögfræðinga, hagfræðinga og annarra spekinga þarf það svo sem ekki að koma neinum á óvart.

Ég held því fram að mjög fáir skilji málið til einhvers gagns. Ég held því einnig fram að mjög óráðið hafi verið að setja mál sem þetta í þjóðaratkvæði. Fæ ekki séð að það hafi verið til góðs.

Ég var lengi óviss um afstöðu mína. Út af fyrir sig ágæt rök fyrir hvorum valkostinum fyrir sig. Þegar í kjörklefann kom og ég horfði á kjörseðilinn varð mér þó ljóst að það var aðeins einn réttur valkostur! Vonandi verður það niðurstaðan. 

Ef hinn valkosturinn verður ofaná þá vona ég svo sannarlega að það fólk sem talað hefur fyrir honum hafi rétt fyrir sér. Annars bíða okkar miklir erfiðleikar. 


IceSave!

Nú þarf hver og einn að fara að gera upp við sig hvernig á að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um IceSave lögin. Í grundvallaratriðum eru þrjár leiðir í boði:

  1. Segja JÁ
  2. Segja NEI
  3. Mæta ekki

Í mínum huga er ekki augljóst hvaða leið er best. Lengi vel hallaðist ég að því að mæta ekki. Taldi mig ekki hafa nokkrar forsendur til að setja mig inn í þetta af einhverju viti. Tel mig reyndar ekki enn hafa þær forsendur eða upplýsingar. Málsvarar beggja sjónarmiðana færa ágæt rök fyrir sínum málstað. Ekki hjálpar það nú mikið.

Ég er því enn að gæla við þá hugmynd að mæta ekki! 


Traust til stjórnmála!

Flestir átta sig á því að traust til stjórnmála er ekki mikið um þessar mundir. Undanfarið hefur nokkuð verið um þetta rætt, m.a. í tengslum við nýútkomna skýrslu á vegum Samfylkingarinnar um starf flokksins og í viðtalsþættinum Návígi þar sem rætt var við Huldu Þórisdóttir. Í umfjölluninni kemur sterkt fram það sjónarmið að traust til stjórnmála hafi hrunið um leið og bankakerfið hrundi.

Þetta er á vissan hátt rétt en þó ekki nema hálfsannleikur. Það er ekki eins og stjórnmálin hafi notið mikils trausts fyrir hrunið. Það má m.a. sjá í könnunum Capacent Gallup á trausti til stofnana. Vissulega hefur traust til alþingis minnkað en það hefur aldrei verið sérstaklega mikið. Þannig báru aðeins 29% mikið traust til alþingis í febrúar 2007. Það að nú skuli aðeins 13% bera mikið traust til alþingis er vissulega lægra en flokkast ekki endilega sem hrun. 

Í  kjölfar alþingiskosninganna 2007 skrifaði ég í fræðigreinina Markaðsfræðilegt sjónarhorn á stöðu stjórnmálaflokka fyrir alþingiskosningarnar 2007. Þar kemur eitt og annað fram sem of langt mál er að gera grein fyrir hér en áhugasamir eru hvattir til að lesa greinina. Þar er m.a. gerð grein fyrir niðurstöðum könnunar í tengslum við greinina en spurt var: "Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að stjórnmálamenn standi við gefin loforð?" Niðurstaðan varð sú að aðeins tæp 18% tödu það líklegt eða mjög líklegt. Í sömu könnun var spurt "Hversu líklegt eða ólíklegt telur þú að fólk almennt standi við gefin loforð?" en þar varð niðurstaðan sú að tæp 74% töldu það líklegt eða mjög líklegt.

Með öðrum orðum þá taldi fólk það mun líklegra að almenningur stæði við gefin loforð en stjórnmálamenn.

Vantraust til stjórnmála á sér því mun lengri sögu en til bankahrunsins haustið 2008. Það er eitthvað sem stjórnmálamenn þurfa að fást við. 


Skandall!

Kosningaþátttakan, eða öllu heldur þátttökuleysið, til stjórnlagaþings er meiriháttar skandall. Hvað er að þjóð minni? Viljum við virkilega ekki hafa áhrif á það hvernig Stjórnarskráin verður? Viljum við veikt stjórnlagaþing sem alþingismenn geta hunsað að vild?

Ég á bara ekki orð!

Þetta er mín eina huggun!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband