Þjóðfundurinn!

Ég var svo heppinn að fá að koma að framkvæmd Þjóðfundarins sl. laugardag. Var í hlutverki borðstjóra, eða lóðs eins og það er kallað, og vann með mörgu ólíku fólki yfir daginn.

Það sem kom skemmtilega á óvart var hve margir eru sammála um mörg grundvallaratriði. Kannski ekki margt sem koma á óvart en það held ég að hafi svo sem ekki verið markmiðið með fundinum. Stundum komu fram skemmtileg sjónarmið sem endurspegluðu fyrst og fremst hagsmuni þess er setti það fram. Þannig taldi sá yngsti á borðinu mikilvægt að endurskoða áfengislöggjöfina á meðan sá elsti lagði áherslu á lífeyrismál.

Það sem hefur vakið athygli mína er hve margir virðast reiðubúnir til að hafa efasemdir um að eitthvða hafi komið út úr þessum fundi. Í umræðunni þykir mér sumir ekki átta sig á hvað Þjóðfundurinn er og það sem er ekki síður mikilvægt, hvað hann er ekki.

Að mínu viti er Þjóðfundurinn samtal. Þarna kemur saman úrtak þjóðarinnar og ræðir ýmsar áherslur sín á milli. Það var ekki hlutverk Þjóðfundar að taka ákvarðanir um efnisinnihald né að útfæra þær hugmyndir sem fram komu. Ég gat ekki betur séð en að margir þátttakendur væru mjög ánægðir með fundinn. Því held ég að mikið hafi komið út úr honum. 

Það er svo annara að nýta sér, eða ekki, þær hugmyndir og áherslur sem fram komu!


Rétt, sanngjarnt og gerlegt

Ég lendi stundum í því að þurfa að taka vandasamar ákvarðanir. Það á eflaust við um marga aðra. Sumar ákvarðanir eru vandasamari en aðrar og hef ég tamið mér að gera það sem ég held að sé RÉTT, SANNGJARNT OG GERLEGT á hverjum tíma. Þetta þrennt fer reyndar ekki alltaf saman.

Sjónvarpsþátturinn "Saga af stríði og stolnum gersemum" sem sýndur var á RÚV sunnudagskvöldið 31. október fannst mér nokkuð merkilegur. Átti reyndar í dálitlu basli með að átta mig á því um hvað þátturinn var en smátt og smátt þá rann það upp fyrir mér. Svo virðist sem á Íslandi sé þýfi úr dómkirkjunni í Coventry! Um er að ræða glugga úr kirkjunni sem teknir voru úr til að forða þeim frá eyðileggingu vegna yfirvofandi loftárása. Af einhverjum ástæðum þá enduðu þessir gluggar á Íslandi og gegna sumir sínu upprunarlegu hlutverki, þ.e. eru gluggar í kirkju, en aðrir eru í geymslu og eru víst búnir að vera þar lengi fáum til yndis eða ánægju.

Nú er úr vöndu að ráða. Hvað ætli sé RÉTT, SANNGJARNT OG GERLEGT í þessari stöðu? Í mínum huga er það nokkuð augljóst. Að sjálfsögðu á að skila þessu til baka. Alveg eins og við vildum fá handritin okkar til baka á sínum tíma. Okkur væri ekkert annað en sómi af þvi að skila þessum gluggum til þeirra sem, að því er virðist, teljast réttir eigendur. 


Forsendubrestur!

Í umræðunni um skuldavanda heimila kemur ítrekað fram að um forsendubrest hafi verið að ræða. Um þetta er fjallað eins og um staðreynd sé að ræða. En er það svo?

Ef ég gef mér einhverjar forsendur sem svo standast ekki er þá um forsendubrest að ræða? Það þykir mér nokkuð hæpið. Gæti ekki miklu heldur verið um að ræða vanmat mitt á aðstæðum og þróun mála. Auðvitað sá ég ekki fyrir algjört efnahagshrun og fall krónunnar frekar en nokkur annar. Reyndar verður að benda á að ef eitthvað má lesa í þann fjölda mála sem tengjast innherjasvikum þá virðast sumir hafa haft betri sjón en aðrir hvað þetta varðar. En nú hafa gengislánin verið dæmd ólögleg og kannski ekki mikil ástæða til að eyða miklum tíma í þau.

Kemur þá að verðtryggðum lánum. Hvaða forsendubrestur átti sér stað hvað þau varðar? Komu skuldari og lánardrottinn sér saman um einhver hámörk á sveiflu verðbólgunnar? Ég held ekki. Sveifla í verðbólgi hefur verið mikil allt frá því að hún var tekin upp. Stjórnvöldum hefur eiginlega aldrei tekist að ná markmiðum sínum hvað verðbólguna varðar.

Það sem fyrst og fremst er athugavert við verðtryggðu lánin er sú undarlega hugmynd að í lagi sé að taka verðtryggt lán sem nemur allt að 100% af verðmæti eignar þegar tekjur eru óverðtryggðar. Sveiflur í verðbólgu og verði á íbúðarhúsnæði mun alltaf hafa þau áhrif að á einum tíma er eigið fé fjölskyldu jákvætt en á öðrum neikvætt þegar skuldahlutfallið er svona hátt. Eiginfjárstaða heimilis skiptir svo í raun ekki miklu máli. Það sem skiptir máli er greiðslugeta heimilisins. Það ætti að vera hægt að reikna út greiðslugetu fjölskyldu en svo virðist sem margir hafi gengið að ystu brún hvað það varðar og ekki gert ráð fyrir neinum slaka eða sveiflum. Það er óráðlegt.

 Þegar ég var að kaupa mína fyrstu alvöru fasteign þá var mér ráðlagt að láta ekki lán nema hærri upphæð en sem nemur 60% af verðinu. Ef ég færi upp fyrir það þá gæti eignamyndunin orðið neikvæð. Ég fæ ekki betur séð en að þetta ráð sé í fullu gildi enn þann dag í dag.

En þessar hugleiðingar mínar leysa ekki nokkurn vanda. Það er staðreynd að margar fjölskyldur eru í miklum vandræðum og það er þjóðhagslega óhagkvæmt að viðhalda þeim vandræðum. Það er hins vegar ekki augljóst hver á að gera hvað. Spjótin beinast að stjórnvöldum. Þeim er ætlað að koma með lausn á vandanum. Mjög skiptar skoðanir eru svo um þær leiðir sem í boði eru.

Ef skuldari og lánardrottnar geta ekki leyst vandann þá vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að takmarka frelsi einstaklinga til að skuldsetja sig sem og ábyrgð þeirra sem lána. Frelsið er gott en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Ef ábyrgðin er tekin af hlutaðeigandi aðilum þá er ekki ólíklegt að það sam eigi við um frelsið. Varla viljum við það?

...eða hvað?


Fréttabörnin!

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig blaðamannastéttin er að þróast. Aftur og aftur gerist það að ég hrekk við þegar fjölmiðill virðist setja "barn" í það að fjalla um erfið og alvarleg mál sem krefjast mikillar reynslu af hendi blaðamannsins. Auðvitað eru þetta ekki börn, aðeins ungt fólk sem virðist hafa litla reynslu. Svo er kannski þessi upplifum mín fyrst og fremst til marks um það að ég er að eldast. Hver veit?

Mér finnst þó eitthvað vanta í stétt blaðamanna. Svo virðist sem settur hafi verið hámarksaldur í stéttinni og sýnist mér það sérstaklega áberandi í sjónvarpi. Hvar eru eiginlega "gömlu" góðu blaðamennirnir? Og hvar er undirbúningurinn? Og hvernig stendur á því að spurningarnar sem bornar eru upp bjóða viðmælandanum upp á það að svara með Já-i eða Nei-i?

Ágætt dæmi um þetta er umfjöllun í sjónvarpi (RÚV og Stöð2) á yfirheyrslu yfir Sigurði Einarssyni. Það var eiginlega ekki hægt að heyra spurningu af viti? Sumar voru settar fram sem Já eða Nei spurningar (sem ég hélt að væri afgreitt í fjölmiðlafræði 101), þ.e. svarið gat verið Já eða Nei og sumar voru með augljóst svar, virtust illa ígrundaðar og einkenndust miklu frekar af gjammi en að um væri að ræða mikilvægar spurningar sem gott væri fyrir almenning að fá svör við!

Kannski er þetta ósanngjarnt hjá mér og kannski var ég sérlega pirraður yfir þessari frétt. Mér finnst samt sem áður eiginlega ekkert gagn af svona blaðamennsku. Ef þetta er birtingarmynd fjórða valdsins, sem fjölmiðlar vilja stundum skilgreina sig, þá líst mér ekki á!  


Samkeppni af hinu góða!

Nokkuð skiptar skoðanir eru um nýframkomið frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið lagst gegn frumvarpinu þar sem að allar líkur séu fyrir því að skaði bæði neytendur og bændur á meðan að nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þar sem frumvarpið er til umfjöllunar, telur að samkeppni eigi ekki við á þessum markaði.

Það má eflaust færa fyrir því rök að á sumum mörkuðum eigi samkeppni ekki við. Þá er hins vegar mikilvægt að skilgreina nokkuð nákvæmlega forsendurnar fyrir því. Það þarf einnig að átta sig vel á því við hvað er átt þegar talað er um samkeppni og fyrir hvern hún er. Að sama skapi þarf að átta sig á því hvenær markaður verður markaður.

Til eru nokkuð margar skilgreiningar á samkeppni. Algengt er að tala um samkeppni út frá atvinnugrein annars vegar og samkeppni út frá þörfum hins vegar. Fyrri skilgreiningin er dæmigerð rekstrarhagfræðileg nálgun á samkeppnishugtakinu og gengur út frá því að aðilar sem framleiða sömu vöru eða veita sömu þjónustu, séu í samkeppni.  Seinni skilgreiningin er dæmigerð markaðsfræðileg nálgun á samkeppni og gengur út frá því að þeir aðilar sem fullnægja sömu þörfum, séu í samkeppni.

Þetta er ágætt að hafa í huga þegar tekin er afstaða til þess hvort samkeppni á mjólkurmarkaði sé æskileg eða ekki. Er samkeppni af hinu góða, eins og stundum er sagt, eða ekki? Til að geta svarað því þarf að svara þeirri grundvallarspurningu fyrir hvern mjólkuriðnaðurinn er? Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar fyrst og fremst út frá þeim sem starfa í greininni, þ.e. út frá framleiðendum, þá kann vel að vera að samkeppni eigi ekki við. Á móti má benda á að samkeppni hefur m.a. þann kost að hún á það til að auka samkeppnishæfni framleiðenda. Því gæti samkeppni komið sér vel.
Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar einnig út frá neytendum má vel færa fyrir því rök að samkeppni sé til bóta. Út frá sjónarhóli neytenda er samkeppni til staðar þegar neytendur hafa val. Ef samkeppni á mjólkurmarkaði verður til þess að góðum vörum á samkeppnishæfu verði fjölgar þá er hún til góða fyrir neytendur. Það þarf þá að vera tryggt. Samkeppni má ekki bara hafa þann tilgang að gefa fleirum tækifæri á að starfa á tilteknum markaði.

Stundum er eins og samkeppnisviljinn sé fyrst og fremst drifinn áfram af hagsmunum framleiðenda. Þá krefjast aðilar, í nafni samkeppni, að fá að taka þátt í tiltekinni starfsemi. Oftar en ekki er eins og hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir í slíkri samkeppnisvæðingu. Hvort þetta á við um mjólkuriðnaðinn skal ósagt látið. Til að fá úr því skorið þyrfti svo margt að breytast í landbúnaðarmálum hér á landi. Það er til að mynd alls ekki víst að verð á mjólkurafurðum muni lækka þó svo að aðilari mættu framleiða mjólk utan kvóta. Það er heldur ekki víst að fjölbreyttni muni aukast né heldur gæði. Það kann hins vegar vel að vera að það fyrirkomulag sem við lýði er sé of dýru verði keypt.

Eins og sjá má er þetta ekkert sérstaklega einfalt mál og ólíklegt að niðurstaðan verði þannig að öllum líki. Tvennt er þó ágætt að hafa í huga. Að öllum lýkindum býr mjólkuriðnaðurinn við meiri samkeppni en menn vilja vera láta. Mjólk er ekki bara í samkeppni við mjólk heldur einnig við aðra drykki svo sem eins og safa og gos. Mjólkurvörur eru því í samkeppni við aðrar matvörur á matvörumarkaði. Hitt er að mér hefur alltaf þótt það dálítið undarleg afstaða að vilja skapa sér samkeppnisforskot með því að meina öðrum að taka þátt. Það mun ætið bitna á neytendum og skerða samkeppnishæfni viðkomandi greinar. 


Jón G Hauksson hneykslaður!

Í morgunútvarpinu í morgum kom fram að ritstjóri Frjálsrar verslunar er hneykslaður á því hvað laun sumra, sérstaklega bankamanna, hafa lækkað lítið. Það kann vel að vera rétt að laun hefðu átt að lækka meira en raun ber vitni. Mér finnst það þó ekki eiga að vera markmið í sjálfu sér, gott ef menn fá góð laun fyrir góða vinnu.

Mér finnst miklu áhugaverðara að sjá hve margir virðast hafa ótrúlega lág laun. Þetta á ekki síst við um svo kallað listafólk sem margt hvert virðist hafa ótrúlega lítið upp úr krafsinu. Margir með lægri laun en atvinnuleysisbætur og sumir með lægri laun en sem nemur félagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg.

Ég tek fram að ég hef ekkert sérstakt horn í síðu listafólks. Skil bara ekki hvernig þetta fólk kemst af. Það eru einhver takmörk fyrir því hve langt maður kemst á andans auðæfum. Auðvitað læðist að manni sá grunur að hér sé ekki allt eins og það á að vera. Kannski væri ráð að skoða það áður en farið er út í að hækka skatta á almenna launþega. Hugsanlega kæmi eitthvað út úr því. Hugsanlega ekki.

Sé þetta hins vegar það sem þetta ágæta fólk uppsker fyrir sína miklu vinnu þá eiga þau alla mína samúð. Þetta bara hlýtur að vera erfitt líf.


Vingull í pólitík

Ég hef alltaf verið hálfgerður vingull í pólitík og skort það sem sumir kalla pólitíska sannfæringu. Reynsla mín sem opinber starfsmaður hefur kannski haft einhver áhrif. Hef átt erfitt með að sjá hvor klárinn er betri, bleikur eða rauður (og auðvitað blár og grænn).

Ég held þó að pólitíska sannfæringin sé meiri en ég vil vera láta. Ég á bara erfitt með að staðsetja mig í flokkakerfinu hér á landi sem virðist fyrst og fremst ganga út á að viðhalda sjálfu sér. Ég er t.d. hrifinn af einkaframtaki. Tel að maður eigi að uppskera eins og maður sáir og álít að í grundvallaratriðum þá sé hver sinnar gæfu smiður. Ég hef hins vegar aldrei skilið einkavæðingu sem gengur út á það að gera út á hið opinbera. Það hefur ekkert með einkaframtak að gera. Ég er einnig þeirrar skoðunar að sum verkefni eigi að vera á ábyrgð hins opinbera. Hef efasemdir um algæti einkaframtaksins. 

Ég er einnig þeirrar skoðunar að samfélagsleg aðstoð eigi rétt á sér. Sé reyndar nauðsynleg og sjálfsögð. Tel hins vegar að bætur eigi að vera undantekning fremur en regla. Samfélagið þurfi að vera þannig úr garði gert að það bjóði upp á næg tækifæri fyrir flesta. Sumir munu hins vegar ekki geta nýtt sér góð tækifæri. Samfélagið þarf að aðstoða þá.

Yfirlýsing stjórnarinnar í gær vekja óneitanlega upp margar spurningar. Getur verið að pólitísk sannfæring fárra verði dýru verði keypt? Getur verið að umræddur samningur sé ólöglegur eftir allt saman og því var það þá ekki kannað miklu fyrr? Hvað táknar það þegar menn segjast ætla að vinda ofan af einkavæðingunni? Hvað hefur verið einkavædd? Var ekki einhver sem seldi eign sína? Má það ekki? Þjónar einhverjum tilgangi að eiga eitthvað og nota það ekki? 

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessa máls. 


Hvað er að frétta?

Stundum þykir mér fjölmiðlar afar takmarkaðir. Það er eins og að það ágæta fólk sem þar starfar ráði aðeins við umfjöllun um eitt mál í einu. Skiptir þá engu hver miðillinn er, þeir virðast allir hafa sama "fréttanefið" og láta alla fréttatíma sem og fréttatengda þætti fjalla um þetta sama mál.

Þetta hefur orðið til þess að ég er oftar og oftar farinn að stilla á Rás 1. Þar láta menn dægurþras ekki mikið trufla sig og halda sínu (dagskrár) striki sama hvað á dynur. Verð þó að viðurkenna að það er dálítið sérstakt að hlusta á 30-40 mín. þátt um mjög afmarkað efni. Stundum svo afmarkað og sérstætt að mér er til efs að margir tugir hlustenda hafi þekkingu, vit eða ánægju af því. Það er hins vegar ánægjulegt að vita til þess að enn skuli vera til fólk sem hafi nennu til að setja sig vel inn í afmörkuð mál og fjalla um þau af viti (þekki þó sjaldnast efnið nægilega vel sjálfur til að geta dæmt um það en umræðan er trúverðug).

En hvað er að frétta? Hvað er með þau mál sem tröllriðu öllum fjölmiðlum fyrir ekki löngu síðan? Hvað með t.d. IceSave? Er það mál bara leyst? Eða er það jafn óleyst og þegar umræðan um það mál var sem mest? Tek þó fram að ég er ekki að kalla eftir frekari umfjöllun um það mál. Ég eins og margir var alveg búinn að fá mig fullsaddan af þeirri umræðu.

Velti fyrir mér hvort Magma málið sé af svipuðum toga. Um annað er varla rætt þessa dagana. En er þetta mál sem verðskuldar svona mikla athygli? Kannski, kannski ekki. 

Mér heyrist þó margir rugla saman mörgum málum í tengslum við þessa umræðu. Stundum er verið að tala um viðskiptasamning milli tveggja lögaðila, stundum um það hvort orkuauðlindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar, stundum um stefnu Vinstri Grænna, stundum um yfirgang Samfylkingarinnar og stundum um það hvort þetta mál sé ekki einmitt dæmi um það að það eigi að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Þessu er svo gjarnan öllu blandað saman í einum og sama þættinum. Mjög upplýsandi eða hvað?


Erlendar fjárfestingar!

Ég er einn af þeim sem hef talið það sjálfgefið að eftirsóknarvert sé að fá erlenda fjárfesta til að fjárfesta hér á landi. Umræðan síðustu daga og vikur bendir hins vegar til þess að erlent fjármagn er ekki endilega álitið eftirsóknarvert, jafnvel talið óæskilegt.

Stjórnvöld þurfa að gera það upp við sig hvort erlend fjárfestingin er æskileg eða ekki. Að sjálfsögðu eiga að gilda um það reglur en slíkar reglur þurfa að vera skýrar og eðlilegar. Þær mega ekki breytast eftir því sem vindurinn blæs eða eftir því úr hvaða flokki tiltekinn ráðherra kemur. 

Ef stjórnvöld telja það æskilegt að hingað leiti erlent fjármagn er ekki þar með sagt að það geri það. Grundvallaratriði sem þarf að vera til staðar er að hér séu áhugaverð fjárfestingatækifæri. Það er ekki áhugavert fyrir erlenda fjárfesta að aðeins sé heimilt að fjárfesta í einhverju sem innlendir fjárfestar hafa ekki áhuga á. Fjárfestingatækifærin eru víða. 

Fyrir utan fjárfestingatækifæri er einkum þrennt sem gert hefur það að verkum að Ísland hefur orðið fyrir valinu. Þetta er lágt raforkuverð, hæft (og reyndar ódýrt) vinnuafl og stjórnmálalegur stöðugleiki. Mjög víða er orkuverð lágt. Einnig hæft starfsfólk (og jafnvel ódýrara en hér) en þá hefur vantað upp á stjórnmálalegan stöðugleika. Styrkur Íslands liggur í því að koma vel út hvað öll þessi þrjú atriði varðar.

Því miður bendir ýmislegt til þess að hvað það síðast talda varðar, stjórnmálalegur stöðugleiki, þá sé það ekki eins mikill styrkur á áður. Gæti jafnvel orðið veikleiki. Þetta fer auðvitað allt eftir því hvernig stjórnmálalegur stöðugleiki er skilgreindur. Það má gera með ýmsum hætti. Þannig má horfa til þess hvort í landinu megi búast við stjórnarbyltingu, einhliða eignaupptöku eða hvort mikil spilling ríki meðal stjórnmálamanna. Einnig er mikilvægt að fjárfestingaumgjörðin sé studd eðlilegu regluverki sem gera má ráð fyrir að standist þegar á reynir.

Áhættustig fjárfestinga hækkar verulega ef gera má ráð fyrir að reglur breytist án augljósra ástæðna. Við þurfum að gæta þess að snúa ekki styrk okkar upp í veikleika!


Algjör gal-skapur!

Nú hafa komið fram hugmyndir með hvaða hætti stjórnvöld geta aukið skatttekjur sínar um 1-2% af vergri landsframleiðslu. Í grundvallaratriðum ganga þessar hugmyndir út á að hækka matvöruverð í landinum með því að hækka virðisaukaskatt á matvæli í 25,5%.

Í ljósi þess að matvöruverð er nú þegar mjög hátt hér á landi getur þetta vart talist góð tillaga. Eiginlega hljómar þetta eins og algjör gal-skapur (AGS). Það er ekki mjög líklegt að almenningur taki þessari hugmynd fagnandi. Skattur á mat er eins og skattur á bensín, þ.e. auknar tekjur skila sér hratt og vel, fyrst og fremst vegna þess að fólk getur illa komist af án þess að kaupa mat og/eða bensín. Því miður er ekki annað líklegt en að kaupmenn myndu velta þessu beint út í verðlagið. Hækkun á matvælaverði hér á landi yrði því stórkostleg aðför að lífsgæðum.

Enn og aftur verð ég að draga fram hugtakið FRAMLEIÐNI. Aukin framleiðni skattkerfisins gengur í grundvallaratriðum út á það að nýta betur þá skattstofna fyrir eru. Það er ekki dæmi um aukna framleiðni að hækka skattprósentu eða koma með nýja skatta. 

Það væri hins vegar dæmi um aukna framleiðni skattkerfisins að sjá til þess að þeir sem eiga að greiða skatta, geri það. Það hefði verið mun athyglisverðara að sjá tillögur sem ganga út á það að koma í veg fyrir að tilteknir hópar komi sér undan að greiða þá skatta sem þeim ber. Flestum er ljóst að hér á landi eru stunduð umtalsverð skattsvik. Stundum er jafnvel talað um það sem þjóðaríþrótt að finna leiðir til að greiða ekki "of mikla" skatta!

Á tímum sem þessum er óþolandi að skattar séu hækkaðir á suma hópa á meðan að aðrir koma sér hjá því að greiða þá. Tillögur ráðgjafa stjórnvalda hefðu kannski átt að beinast frekar í þá átt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband