Samkeppni af hinu góða!

Nokkuð skiptar skoðanir eru um nýframkomið frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið lagst gegn frumvarpinu þar sem að allar líkur séu fyrir því að skaði bæði neytendur og bændur á meðan að nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þar sem frumvarpið er til umfjöllunar, telur að samkeppni eigi ekki við á þessum markaði.

Það má eflaust færa fyrir því rök að á sumum mörkuðum eigi samkeppni ekki við. Þá er hins vegar mikilvægt að skilgreina nokkuð nákvæmlega forsendurnar fyrir því. Það þarf einnig að átta sig vel á því við hvað er átt þegar talað er um samkeppni og fyrir hvern hún er. Að sama skapi þarf að átta sig á því hvenær markaður verður markaður.

Til eru nokkuð margar skilgreiningar á samkeppni. Algengt er að tala um samkeppni út frá atvinnugrein annars vegar og samkeppni út frá þörfum hins vegar. Fyrri skilgreiningin er dæmigerð rekstrarhagfræðileg nálgun á samkeppnishugtakinu og gengur út frá því að aðilar sem framleiða sömu vöru eða veita sömu þjónustu, séu í samkeppni.  Seinni skilgreiningin er dæmigerð markaðsfræðileg nálgun á samkeppni og gengur út frá því að þeir aðilar sem fullnægja sömu þörfum, séu í samkeppni.

Þetta er ágætt að hafa í huga þegar tekin er afstaða til þess hvort samkeppni á mjólkurmarkaði sé æskileg eða ekki. Er samkeppni af hinu góða, eins og stundum er sagt, eða ekki? Til að geta svarað því þarf að svara þeirri grundvallarspurningu fyrir hvern mjólkuriðnaðurinn er? Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar fyrst og fremst út frá þeim sem starfa í greininni, þ.e. út frá framleiðendum, þá kann vel að vera að samkeppni eigi ekki við. Á móti má benda á að samkeppni hefur m.a. þann kost að hún á það til að auka samkeppnishæfni framleiðenda. Því gæti samkeppni komið sér vel.
Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar einnig út frá neytendum má vel færa fyrir því rök að samkeppni sé til bóta. Út frá sjónarhóli neytenda er samkeppni til staðar þegar neytendur hafa val. Ef samkeppni á mjólkurmarkaði verður til þess að góðum vörum á samkeppnishæfu verði fjölgar þá er hún til góða fyrir neytendur. Það þarf þá að vera tryggt. Samkeppni má ekki bara hafa þann tilgang að gefa fleirum tækifæri á að starfa á tilteknum markaði.

Stundum er eins og samkeppnisviljinn sé fyrst og fremst drifinn áfram af hagsmunum framleiðenda. Þá krefjast aðilar, í nafni samkeppni, að fá að taka þátt í tiltekinni starfsemi. Oftar en ekki er eins og hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir í slíkri samkeppnisvæðingu. Hvort þetta á við um mjólkuriðnaðinn skal ósagt látið. Til að fá úr því skorið þyrfti svo margt að breytast í landbúnaðarmálum hér á landi. Það er til að mynd alls ekki víst að verð á mjólkurafurðum muni lækka þó svo að aðilari mættu framleiða mjólk utan kvóta. Það er heldur ekki víst að fjölbreyttni muni aukast né heldur gæði. Það kann hins vegar vel að vera að það fyrirkomulag sem við lýði er sé of dýru verði keypt.

Eins og sjá má er þetta ekkert sérstaklega einfalt mál og ólíklegt að niðurstaðan verði þannig að öllum líki. Tvennt er þó ágætt að hafa í huga. Að öllum lýkindum býr mjólkuriðnaðurinn við meiri samkeppni en menn vilja vera láta. Mjólk er ekki bara í samkeppni við mjólk heldur einnig við aðra drykki svo sem eins og safa og gos. Mjólkurvörur eru því í samkeppni við aðrar matvörur á matvörumarkaði. Hitt er að mér hefur alltaf þótt það dálítið undarleg afstaða að vilja skapa sér samkeppnisforskot með því að meina öðrum að taka þátt. Það mun ætið bitna á neytendum og skerða samkeppnishæfni viðkomandi greinar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kaupás held ég að fyrirtækið heiti sem rekur lávöruverslanir í Reykjavík og Selfossi og sjálfsagt víðar um land.    Hér austur í V-Skaftafellsýslu heitir verslunin hjá þeim Kjarval þar meigum við kaupa vörurnar 80-100% dýrari en þar sem þéttbýlið er. Ég held að nákvæmlega það sama myndi  gerast verði aukinn samkeppni leifð á mjólkurmarkaði. Dreifbýlið yrði skilið eftir.  Orðið frelsi er fallegt orð og sú merking sem í því felst. Frelsi án stjórnunnar er ekki til því miður því alltaf verða einhverjir til sem misnota það. Það ættu Íslendingar að þekkja best núna eftir óstjórn síðustu ára. 

Ég held að ef þjóðin vill halda mest öllu landinu í byggð þá verður það ekki gert öðruvísi en að á því sé einhver stjórnun.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.8.2010 kl. 17:13

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

USA er talið eitt harðasta ríkið í því að láta samkeppni stjórna markaði. Ég var þar fyrir skömmu og dvaldist meðal annars á sveitabæ í Norður Dakota, einu af mestu landbúnaðarfylkjum landsins. Þar kostar mjólkurlíterinn um 200 kr út úr búð. Það eru ekki beingreiðslur þar en styrkir til landbúnaðar eru mun meiri en hér hjá okkur, þeir eru bara með öðrum hætti og má í stuttu máli segja að þeir sem frekastir eru fái mest. Þetta hefur aftur orðið til þess að gífurleg samþjöppun hefur orðið í greininni og eiga stór svæði undir högg að verjast vegna þessa. Norður Dakóta er talið eitt láglaunaðasta fylki innan USA. Samþjöppun í akuryrkju kemur fyrst og fremst niður á íbúunum á landbúnaðarsvæðum en öllu verri er samþjöppunin kvikfjárrækt, sérstaklega mjólkurframleiðslunni. Skepnurnar eru keyrðar áfram á hormónum til að fá sem mesta nyt og lífaldur þeirra styttist mjög. Vegna hormónagjafar skerðist frjósemin og er því reddað með enn meiri lyfjum. Fjöldinn er orðinn svo mikill á sumum kúabúum að ekki er með nokkru móti hægt að fylgjast með heilsufari kúanna og drepast þær oft eingöngu vegna umhirðuleysis.

Þetta er ekki sú staða sem æskileg er hjá okkur. Frjáls samkeppni mun vissulega koma sumum bændum til góða en aðeins tímabundið. Flestir bændur munu tapa á henni og allir á endanum. Eftir að samþjöppun hefur átt sér stað, sem frjáls samkeppni mun vissulega leiða af sér, munu neytendur einnig tapa. Þetta gæti gerst á innan við einum áratug, miðað við dugnað okkar Íslendinga má þó áætla að okkur tækist að rústa landbúnaðnum á svona fimm árum! 

Gunnar Heiðarsson, 8.8.2010 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband