Forsendubrestur!

Í umræðunni um skuldavanda heimila kemur ítrekað fram að um forsendubrest hafi verið að ræða. Um þetta er fjallað eins og um staðreynd sé að ræða. En er það svo?

Ef ég gef mér einhverjar forsendur sem svo standast ekki er þá um forsendubrest að ræða? Það þykir mér nokkuð hæpið. Gæti ekki miklu heldur verið um að ræða vanmat mitt á aðstæðum og þróun mála. Auðvitað sá ég ekki fyrir algjört efnahagshrun og fall krónunnar frekar en nokkur annar. Reyndar verður að benda á að ef eitthvað má lesa í þann fjölda mála sem tengjast innherjasvikum þá virðast sumir hafa haft betri sjón en aðrir hvað þetta varðar. En nú hafa gengislánin verið dæmd ólögleg og kannski ekki mikil ástæða til að eyða miklum tíma í þau.

Kemur þá að verðtryggðum lánum. Hvaða forsendubrestur átti sér stað hvað þau varðar? Komu skuldari og lánardrottinn sér saman um einhver hámörk á sveiflu verðbólgunnar? Ég held ekki. Sveifla í verðbólgi hefur verið mikil allt frá því að hún var tekin upp. Stjórnvöldum hefur eiginlega aldrei tekist að ná markmiðum sínum hvað verðbólguna varðar.

Það sem fyrst og fremst er athugavert við verðtryggðu lánin er sú undarlega hugmynd að í lagi sé að taka verðtryggt lán sem nemur allt að 100% af verðmæti eignar þegar tekjur eru óverðtryggðar. Sveiflur í verðbólgu og verði á íbúðarhúsnæði mun alltaf hafa þau áhrif að á einum tíma er eigið fé fjölskyldu jákvætt en á öðrum neikvætt þegar skuldahlutfallið er svona hátt. Eiginfjárstaða heimilis skiptir svo í raun ekki miklu máli. Það sem skiptir máli er greiðslugeta heimilisins. Það ætti að vera hægt að reikna út greiðslugetu fjölskyldu en svo virðist sem margir hafi gengið að ystu brún hvað það varðar og ekki gert ráð fyrir neinum slaka eða sveiflum. Það er óráðlegt.

 Þegar ég var að kaupa mína fyrstu alvöru fasteign þá var mér ráðlagt að láta ekki lán nema hærri upphæð en sem nemur 60% af verðinu. Ef ég færi upp fyrir það þá gæti eignamyndunin orðið neikvæð. Ég fæ ekki betur séð en að þetta ráð sé í fullu gildi enn þann dag í dag.

En þessar hugleiðingar mínar leysa ekki nokkurn vanda. Það er staðreynd að margar fjölskyldur eru í miklum vandræðum og það er þjóðhagslega óhagkvæmt að viðhalda þeim vandræðum. Það er hins vegar ekki augljóst hver á að gera hvað. Spjótin beinast að stjórnvöldum. Þeim er ætlað að koma með lausn á vandanum. Mjög skiptar skoðanir eru svo um þær leiðir sem í boði eru.

Ef skuldari og lánardrottnar geta ekki leyst vandann þá vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að takmarka frelsi einstaklinga til að skuldsetja sig sem og ábyrgð þeirra sem lána. Frelsið er gott en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Ef ábyrgðin er tekin af hlutaðeigandi aðilum þá er ekki ólíklegt að það sam eigi við um frelsið. Varla viljum við það?

...eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta eru góðar hugleiðingar hjá þér eins og jafnan Þórhallur. Í lokin talar þú um að frelsinu fylgi ábyrgð. Það var einmitt það sem talsmenn lýðréttinda lögðu megin áherslu á t.d. talsmenn upplýsingastefnunnar og baráttumenn fyrir lýðræði á 19. og 20. öld. Síðan hefur þetta breyst og umræðan í þjóðfélaginu hefur ekki verið ábyrgð einstaklinganna heldur réttur þeirra.  Það er virkilega umhugsunarefni.

Varðandi lánin þá hefur það alltaf legið fyrir að mikil verðbólga mundi leiða til greiðslufalls fjölda lánþega verðtryggðra lána. Verðtryggingin er auk heldur óréttlát en það er annað mál. Ég hef barist á móti verðtryggingu og viljað afleggja hana í meira en áratug m.a. vegna þess að hún er óréttlát og mundi leiða til fjöldagjaldþrota þegar vandamál yrðu í hagkerfinu. Vandamál sem hlaut að koma spurning var bara hvenær og vhað mikið. Verðtrygginguna á að afnema og það á að leita leiða til að eðlilegt jafnvægi geti verið í þjóðfélaginu eins og raunar var gert þegar verðtryggingin var tekin upp sem neyðarráðstöfun. En neyðarráðstöfun á einum tíma verður oft bölvaldur ef eðlileg leiðrétting er ekki gerð þegar neyðarástandinu hefur verið afstýrt.

Nú er neyðarástand og þess vegna verður að grípa til neyðarráðstafana fyrir unga fólkið í landinu.  Það eru til nægir peningar til að borga þær aðgerðir ef vilji er fyrir hendi.

Jón Magnússon, 16.10.2010 kl. 13:15

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Féll ekki dómurum forsendubrest verktaka í hag. Ég tel að það sé hafið yfir allan vafa að sú staðreynd að annar aðilin stundi aðgerðir sem að rugla öllum forsendum hins sé forsendubresturþ Í siðmentuðum þjóðfélögum myndi ég jafnvel halda að um refsivert athæfi sé að ræða og að þeir hinir sömu sætu ekki enn við alla takka

Jón Aðalsteinn Jónsson, 16.10.2010 kl. 20:17

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ef einhver lánar mér andvirði einnar kýr þá fer ég fram á að borga andvirði einnar kýr til baka en ekki andvirði þriggja kúa.

Teljist ég skulda þrjár kýr hefur áreiðanlega orðið forsendubrestur.

Árni Gunnarsson, 16.10.2010 kl. 22:39

4 Smámynd: Gunnar Waage

Tek undir það hjá Jóni að þetta eru góðar hugleiðingar.

Hitt er annað mál að hvar voru þessar hugleiðingar ykkar við Viðskiptafræðideild Háskólans þegar að stjórnvöld ákváðu að hækka veðhlutfallið?

Lánveitandi og þá sérstaklega Íbúðarlánasjóður ber gríðarlega ábyrgð á þeim úrræðum sem sett eru fram og almenningi boðið upp á sem síðan treystir í blindni.

Hvað varðar títt umtalaðan "forsendubrest", þá er það nú svo að ekki getur heldur talist eðlilegt að reikna verðbætur út frá þeirri körfu sem kölluð er vísitala neysluverðs. Þetta heldur uppi óeðlilega háu húsnæðisverði.

Hvar voru sérfræðingar Viðskiptadeildarinnar á undanförnum árum sem horfðu eins og allir á húsnæðisverð fara hér upp úr öllu valdi?

Hvar voru þá ábendingar til stjórnvalda um "60%" veðhlutfall?

Háskólamenn bera vissa ábyrgð í þessu máli Þórhallur, í því felst einnig forsendubresturinn. Breyttar forsendur-forsendur ekki lengur til staðar ect. tja, þýðir fyrir mér að samningar ættu að vera riftanlegir á hvaða tímapunkti sem er.

Það væri spurning fyrir hinn llöglærða og ágæta Jón Magnússon hér fyrir ofan.

Gunnar Waage, 16.10.2010 kl. 22:40

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú svarar sjálfum þér með að nota orðið "gefa" sér forsendur.  Menn gáfu sér forsendur á framreiknaðri bjartsýni og glópshætti. Þar var ekki neikvæð þróun tekin inn í reiknisdæmið þótt hún blasti við.  Menn lugu að viðskiptavinum og það má sýna fram á það.  Forsendur verða að vera byggðar á einhverju handföstu í umhverfinu. Þú diktar þær ekki up i hausnum á þér byggða á eigin græðgi eða örvæntingu þegar lánalínur þrengdust.  Forsendurnar eru áhætta lánveitanda en ekki lántakanda. Lánveitandi er sá sem kúnnin bar traust til að meta rétt.  Þú veist hvernig því trausti er komið núna.

Menn lugu. Svo einfalt var það. Það er bæði trúnaðar og forsendubrestur og það einhliða.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.10.2010 kl. 04:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband