Þjóðstjórnin taka tvö!
10.3.2010 | 22:44
Í janúar 2009 skrifaði ég pistil um þjóðstjórnina. Eftir að hafa horft á Silfur Egils sl. sunnudag er ég enn þeirrar skoðunar að hugmyndin sem þar kemur fram er góð. Læt þessa færslu því koma aftur.
...vonandi hef ég ekki ástæðu til að birta hana aftur að ári!
-------------------------
Þjóðstjórnin...
.. er rangnefni. Það er dálítið undarlegt að líta svo á að stjórn sem samsett er af öllum flokkum á þingi sér þjóðstjórn. Tiltrú þjóðarinnar á núverandi flokka, hvort sem um er að ræða meirihluta eða minnihluta, virðist einfaldlega ekki nægilega mikil til að hægt sé að kalla slíka stjórn þjóðstjórn.
Í ljósi aðstæðna væri því eðlilegt að mynda utanþingsstjórn með fimm ráðuneytum, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
En hverjir gætu gegnt þessum embættum? Sem betur fer eigum við mikið úrval af fólki sem vel gæti tekið við keflinu fram yfir næstu kosningar. Nefni nokkur nöfn:
Forsætisráðuneyti: Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Rannveig Rist forstjóri Alcan, Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar,
Fjármálaráðuneyti: Gylfi Magnússon dósent viðskiptafræðideild HÍ, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.
Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti: Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar,
Atvinnumálaráðuneyti: Páll Jensson prófessor iðnaðarverkfræðideild HÍ, Ingjaldur Hannibalsson prófessor viðskiptafræðideild HÍ, Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar,
Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor HÍ, Jón Torfi Jónasson forseti menntavísindasviðs HÍ, Ástráður Eysteinsson forseti hugvísindasviðs HÍ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðaratkvæðagreiðslan!
6.3.2010 | 09:40
Allt bendir til þess að "þjóðin" hafni því sem um verður kosið í dag. Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað það er nákvæmlega sem verið er að kjósa um. Er ekki alveg viss!
...það eru þó margir sem skilja það miklu betur en ég og er það vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það sem áður var inn er út!
13.2.2010 | 00:22
Í byrjun árs 2007 heyrði ég gert góðlátlegt grín að því að hér áður hefðu verið fluttar reglulega fréttir af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti fólki ótrúlega gamaldags og hallærislegt.
Einhver benti þá á að nú væru fluttar reglulega fréttir af annars konar aflabrögðum, þ.e. þróun vísitalna í hinum ýmsu kauphöllum hingað og þangað um heiminn. Í kvöldfréttum RÚV væri jafnvel gengið svo langt að fréttaþulurinn læsi upp breytingar á þessum vísitölum. Eins og þeir sem á þessum upplýsingum þyrftu á að halda hefðu þær ekki nú þegar. Nei, allar fjölskyldur í landinu skyldu fá að vita af þessum mikilvægu upplýsingum. Taldi sá hinn sami að í framtíðinni myndi verða gert sambærilegt grín að þessum fréttum og gert væri af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti viðstöddum hálf kjánaleg athugasemd.
En viti menn. Nú er eins umræddar vísitölur hafi bara horfið af yfirborði jarðar og reglulega heyrast fréttir af aflabrögðum skipa og báta eins og þeir hafi tekið upp á þeirri iðju aftur eftir langt hlé.
Fréttir eru hálf undarlegt fyrirbæri. Mér er verulega til efs hversu gagnlegt er að lesa gamlar fréttir til að átta sig á stöðu mála í fortíðinni. Fréttamenn virðast verða fórnarlömb hjarðhegðunar eins og margir aðrir.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig við metum fréttir ársins 2009 og 2010 eftir 2 til 3 ár. Ætli það geti verið að þá sjáum við að fréttaflutningur af líðandi stund hafi verið þröngsýnn og takmarkaður og að augljóst væri að ekki hafi verið fluttar fréttir af því sem raunverulegu máli skipti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Starfsfélaginn!
6.2.2010 | 17:16
Félagi minn sem býr í Hollandi sendi mér þessar línur í vikunni.
Hollenska blaðið De Volkskrant birti í dag ummmæli hollenska seðlabankastjórans fyrir þingnefndinni sem rannsakar fjármálakreppuna. Samkvæmt blaðinu voru ummæli með nokkuð öðrum hætti en maður hefur lesið á íslenskum vefmiðlunum.
Hollenski seðlabankastjórinn, Nout Wellonk, sagði fyrir rannsóknarnefnd hollenska þingsins í gær að þann 3. september 2008 hafi hann spurt íslenska starfsbróður sinn um stöðu íslensku bankanna og íslenska fjármálakerfisins. Mun starfsbróðirinn hafa flutt honum langa tölu um möguleika íslensks efnahagslífs til lengri tíma, um heitar lindir, hveri, fisk og Guð má vita hvað. Og að bankarnir stæðu traustum fótum. Tæpri viku seinna sagði Íslendingurinn hins vegar að 6 mánuðum áður hafi hann varað við óstöðugleika íslensku bankanna. Ég vonaði lengi að hann hefði einfaldlega ekki gert sér grein fyrir ástandinu, sagði hollenski seðlabankastjórinn fyrir nefndinni. En svo þegar ég heyrði þetta hugsaði ég með sjálfum mér; það var einfaldlega logið að okkur.
Ef marka má þessa frásögn í blaðinu hérna þá segir hollenski seðlabankastjórinn að það hafi verið sami maðurinn, íslenski starfsbróðir hans, sem sagði sér 3. september að allt væri í lagi með íslensku bankana og viku seinna að hann hafi varað íslensk stjórnvöld við slæmri stöðu bankana sex mánuðum fyrr. Það var því íslenski seðlabankastjórinn sem sagði honum ósatt í fyrstu. Ekki nema von að Jón Sigurðsson eða aðrir kannast ekkert við að hafa sagt þessum hollendingi að allt væri í fínu lagi með íslensku bankana; hollenski seðlabankastjórinn er alltað að vitna í Davíð.
Þá vitum við það...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bronsöldin
31.1.2010 | 22:59
Þriðja sætið á EM í handbolta er staðreynd. Íslenska liðið stóð sig með ágætum og veitti þjóðinni þá ánægju að verða upptekin af einhverju öðru en því leiðinda argaþvargi er einkennt hefur umræðuna síðustu vikur og mánuði.
Reyndar gekk okkur ekki sem best á móti Frökkum en úr því við þurftum að tapa einum leik þá var ekki úr vegi að velja heims-, ólympíu- og evrópumeistara. Önnur lið riðu ekki feitum hesti frá viðureigninni við okkar menn.
Nú er bara spurningin hvað tekur við. Hvað mig varðar hefur verið miklu skemmtilegra að ræða um handbolta en IceSave.
...líklega held ég því bara áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stórkostlegt!
23.1.2010 | 21:07
Leikur Íslenska liðsins á móti Dönum var hreint stórkostlegur. Það að vinna Dani með fimm marka mun er eins og að vinna til verðlauna.
...nú er bara að halda áfram. Við þurfum svo gjarnan á því að halda að vinna eina og eina Evrópuþjóð. Bara svona til að minna á okkur upp á seinni tíma!
Áfram Ísland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að kenna öðru um!
20.1.2010 | 15:15
Það þykir ekki góður siður að kenna öðru eða öðrum um. Flestir sómakærir einstaklingar kannast við sín mistök og eru reiðubúnir að bæta úr ef kostur er.
Áður en lengra er haldið er rétt að það komið fram að mér finnst IceSave málið skelfilegt klúður. Líklega ein versta birtingarmynd þess sem við erum að fást við þessa dagana. Samt sem áður þykir mér menn allt of viljugir til að kenna IceSave um alla okkar erfiðleika og ófarir.
Eftir því sem ég kemst næst gætu opinberar skuldir verið um 1.000 milljarðar. Það er álíka mikið og skuldir Actavis. Ef skoðað er hvað myndar þessar skuldir gætu 300 milljarðar verið vegna IceSave, 300 milljarðar vegna tapaðra útlána Seðlabankans og 400 milljarðar vegna uppsafnaðs hallareksturs hins opinbera. Sá er skuldar 1.000 milljarða mun eiga í e.k. erfiðleikum, amk um tíma. Þeir erfiðleikar eru hins vegar ekki nema að hluta til vegna IceSave.
Vissulega væri gott að vera laus við IceSave skuldina. Eftir sem áður væru skuldir okkar mjög miklar og rétt að hafa skýra mynd af því hverjir bera ábyrgð á þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sáttin!
16.1.2010 | 10:47
Stjórnmálamenn keppast nú við að sannfæra almenning um að mikill vilji sé þeirra á milli að ná sátt um lausn IceSave málsins. Sumir myndu nú segja að tími hafi verið til kominn.
En um hvað er sáttin? Hvað er það sem gerir það að verkum að þessu ágæta fólki, sem rifist hafa eins og hundur og köttur í marga mánuði, telja allt í einu núna mikilvægt að ná sáttum í málinu?
Getur verið að þau óttist þjóðaratkvæðagreiðslu og vilji leggja mikið á sig til að koma í veg fyrir hana? Er það í lagi? Á þjóðin ekki rétt á því að fá að tjá sig um málið úr því málinu var vísað í þennan farveg? Sjálfur tel ég þetta mjög óheppilegt mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. En það skiptir ekki máli núna. Samkvæmt stjórnarskrá hefur málinu verið vísað í þennan farveg og því eðlilegt að ganga þá götu til enda!
Ég spái því enn að ekkert verði af þjóðaratkvæðagreiðslu. Sátt mun nást meðal þinganna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þjóðaratkvæðagreiðslan!
7.1.2010 | 21:30
Ég held á afþakki þjóðaratkvæðagreiðsluna. Veit satt best að segja ekki hvað NEI eða JÁ táknar í þessu samhengi.
Ef ég segi NEI er ég þá þeirrar skoðunar að ekki eigi að greiða IceSave skuldina, að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa og eðlilegt sé að reyna að ná betri samningum? Eða sé ég þetta sem leið til að koma ríkisstjórninni frá og koma "mínum" mönnum að?
Ef ég segi JÁ er ég þá þeirrar skoðunar að samningurinn sé góður og sjálfsagt mál sé að standa við skuldbindingar okkar Íslendinga. Að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel og að allar tilraunir til að koma henni frá séu óráðlegar?
Ég hef gert nokkrar tilraunir til að lesa yfir samninginn. Skil hann ekki alveg og hef reyndar orðið var við að margir löglærðir menn, sem ég er ekki, túlka samninginn mjög ólíkt. Sama má segja um ýmsa hagfræðinga sem leggja mat á efnahagsleg áhrif samningsins, skoðanir virðast afar ólíkar. Hvernig er þá hægt að ætlast til þess að ég, aumur markaðsmaðurinn, geti tekið efnislega afstöðu til lagasetningarinnar.
Mér finnst þetta álíka gáfulegt og að biðja mig um að ákveða vort krappameinssjúklingur eigi að fá lyf A eða meðferð B. Ég gæti eflaust valið annað hvort.
Ég spái því reyndar að ekkert verði af þessar þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnmálamenn munu skyndilega komast að því að samvinna er betri en sundrung. Áhættan sé einfaldlega of mikil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Arkítektar bankahrunsins
2.1.2010 | 11:47
DV birtir í áramótablaði sínu lista yfir sérfræðinga sem störfuðu fyrir útrásarvíkingana en voru ekki alltaf áberandi í umfjöllun um starfsemi þeirra. Það skal strax tekið fram að ég hef enga sérstaka trú á trúverðugleika þess sem fram kemur í DV og forðast að lesa það blað. Það er fyrir sálina eins og óhollur matur fyrir líkamann.
Sem dæmi um ruglingslega framsetningu og umfjöllun DV um sérfræðinga sem unnu á bakvið tjöldin fyrir útrásarvíkingana er að þar má finna nöfn manna eins og Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar, Karls Wernerssonar, Hannesar Smárasonar, Björgólfs Thors, Ólafs Ólafssonar, og Bakkabræðra. Allt eru þetta einstaklingar sem voru áberandi í alþjóðavæðingunni. Listinn er því blanda af svo kölluðum "útrásarvíkingum" og sérfræðingum er fyrir þá störfuðu.
Það sem vekur athygli mín er hvaða nöfn eru ekki á listanum. Þar eru t.d. ekki nöfn Bjarna Ármannssonar, Sigurjóns í LB, né Hreiðars og Sigurjóns frá Kaupþingi. DV hefur eflaust sínar ástæður fyrir því en reynslan hefur kennt mér að sjaldan gerist eitthvað svona fyrir tilviljun. Þar er annað hvort um að kenna óvönduðum vinnubrögðum eða meðvituð slagsíða í umfjöllun.
Annað sem vekur athygli mín er menntun þeirra sem DV telur að beri ábyrgð á bankahruninu. Þar kemur fram að:
- 3 höfðu ekki lokið háskólanámi
- 5 eru endurskoðendur
- 10 eru lögfræðingar eða lögmenn
- 4 eru með hagfræðimenntun
- 7 eru með viðskiptafræðimenntun
- 3 eru verkfræðingur
- 1 er markaðsfræðingur
Því hefur gjarnan verið haldið fram, óverðskuldað að ég tel, að það hafi fyrst og fremst verið viðskiptafræðingar sem komu hér öllu á vonarvöl. Listinn sýnir að vissulega hefur einn og einn viðskiptafræðimenntun, enda kæmi verulega á óvart ef fólk sem sérhæfir sig í viðskiptum væri ekki áberandi þar, en margir eru lögmenn!
Samt sem áður hefur engum dottið í hug að kenna lögfræði um efnahagshrunið á Íslandi enda er það álíka gáfulegt og að kenna viðskiptafræði, hagfræði eða verkfræði um það. Ef efnahagshrunið er einhverjum að kenna þá eru það tilteknir einstaklingar sem bera ábyrgð á því en ekki hin fræðilega menntun sem þeir hafa orðið sér úti um.
Hafa skal hið fornkveðna í huga að góð menntun gerir gott fólk betra. Býr hins vegar ekki til gott fólk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)