Færsluflokkur: Bloggar
Rétt, sanngjarnt og gerlegt!
27.6.2010 | 10:09
Ég hef nokkuð oft þurft að velja á milli ólíkra kosta í ákvarðanatöku. Stundum hefur ekki verið augljóst hvaða kostur er bestur og stundum hefur þurft að velja á milli slæmra kosta. Mér til hjálpar hef og reynt að styðjast við það sem er RÉTT, SANNGJARNT OG GERLEGT. (að mínu mati að sjálfsögðu)
Mjög oft virðist liggja í augum uppi hvað sé RÉTT að gera. Það þarf hins vegar ekki að vera SANNGJARNT og oftar en ekki er það sem er RÉTT alls ekki GERLEGT. Þetta er því oft hægara sagt en gert.
Með þetta í huga þá velti ég því fyrir mér hvað sé RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT í tengslum við dóm Hæstaréttar varðandi gengistryggð bílalán. Sumir telja RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT að lántakendur gengistryggðra lána taki þau vaxtakjör sem þeir hefðu annars fengið, þ.e. ef gengistryggð lán hefðu ekki verið í boði. Það getur svo sem vel verið!
Það sem vefst aðeins fyrir mér í því sjónarmiði er að líklegt er að hin "góðu" lán, sem gengistryggðu lánin áttu að vera, hafi beinlínis verkað sem neysluhvati. Fólk hafi tekið lán sem það hefði ekki gert ef aðeins hin kjörin hefðu verið í boði. Að sjálfsögðu ber hver og einn ábyrgð á sinni lántöku og þó ég hafi öðru hvoru reynt að bera hönd yfir höfuð stjórnenda bankanna þá verður ekki hjá því litið að ábyrgð þeirra er mikil. Bankar og fjármálastofnanir virðast beinlínis hafa haldið fé að fólki. Jafnvel fólki, óháð öllu efnahagshruni, sem var ekki borgunarmenn þessara lána.
Í mínum huga hefur það einni áhrif á hvað sé RÉTT, SANNGJARNT og GERLEGT ef satt reynist að stjórnendur fjármálafyrirtækja hafi vitað fyrirfram að gengistryggð lán væru vafasöm. Þeir hafi einfaldlega tekið sénsinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að hagræða...
17.6.2010 | 10:24
...gengur oft illa!
Það er líklegt að ein ástæðan fyrir því sé sú að það getur verið nokkuð flókið að vinna slíkt verk svo vit sé í. Hagræðingarverkefni krefjast mikillar þekkingar og reynslu af rekstrartengdum viðfangsefnum. Þá þekkingu má t.d. ná sér í með því að stunda nám í viðskiptafræði. Þetta er þekking sem mér sýnist oft ekki vera til staðar meðal þeirra sem eru að vinna að slíkum verkefnum og á það ekki síst við um opinbera og hálf-opinbera geirann.
Stundum er það sem er kallað hagræðing alls ekki hagræðing heldur er aðeins gert minna af því (hugsanlega óhagkvæma) verki sem unnið er. Dæmi um slíkt er flatur niðurskurður. Þar reynir hver og ein stofnun að mæta "hagræðingar" kröfunni óháð því hvort það starf sem unnið er sé vel unnið eða ekki. Niðurstaðan verður því oft sú að stofnanir losa sig við "kostnað" yfir á aðrar stofnanir. Heildarniðurstaðan verður því sú að heildarávinningurinn verður takmarkaður.
Önnur leið sem gjarnan er farin er að færa verkefni frá hinu opinbera yfir til einkaaðila. Það hljóti að vera hagkvæmara! Ég held ég þurfi ekki að eyða mörgum orðum í þetta. Reynslan sýnir að það er ekki lögmál að einkaaðili framkvæmi verk betur en opinber aðili. Stundum virðist því reyndar þveröfugt farið.
Það hugtak sem ég tel mikilvægt að þeir sem að hagræðingarverkefnum koma þekki er hugtakið FRAMLEIÐNI. Eftir að hafa skoðað þessi mál í all mörg ár þá sýnist mér vandinn að stórum hluta tengjast vanþekkingu á þessu hugtaki og þeim aðferðum sem því tengjast. Það er ekki ein einföld leið að útskýra þetta hugtak en kannski má segja að einfaldasta framsetningin sé sú að framleiðniaukning feli það í sér að þú gerir það sem þú ert að gera jafnvel með minni tilkostnaði. Eða að þú gerir betur það sem þú ert að gera með sama tilkostnaði.
Það að gera minna af einhveru sem þú gerir illa er ekki framleiðniaukning en gjarnan álitin vera það. Slík útfærsla virðist oftar en ekki hafa aukinn kostnað í för með sér síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Viðskiptafræðin öflug!
8.6.2010 | 21:21
Þann 5. júní sl. lauk umsóknarfresti í grunnnám við Háskóla Íslands. Það vekur athygli mína hve margir hafa sótt um í viðskiptafræði en umsóknir í grunnnám eru tæplega 300. Þetta eru mun fleiri umsóknir en í fyrra.
Þetta er ánægjulegt sérstaklega í ljósi þess að viðskiptafræðin hefur átt undir högg að sækja. Ýmsir hafa í barnaskap sínum látið sér detta í hug að efnahagshrunið hafi verið þessari grein um að kenna! Það er að sjálfsögðu alrangt og gott að sjá að ungt fólk virðist átta sig á því að góð leið til að öðlast þekkingu á rekstri og viðskiptum er að læra viðskiptafræði.
Íslenskt atvinnulíf þarf á þessari þekkingu að halda. Viðskiptafræðingar vinna fjölbreytt störf s.s. við bókhald, fjármál, stjórnun, markaðsmál, mannauðsstjórnun og þannig mætti áfram telja. Viðskiptafræðin gefur haldgóða menntun á þessum sviðum. Stjórnunar og sérfræðistörf í tengslum við atvinnulífið er viðfangsefni viðskiptafræðinga.
Gott að ungt fólk áttar sig á því. Það gera það ekki allir.
Bloggar | Breytt 9.6.2010 kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Góður, betri, bestur!
23.5.2010 | 09:01
Í kjölfar "yfirtökutilboðs" félags prófessora hefur enn á ný vaknað umræða sem gengur út á undarlegan meting milli háskóla hér á landi. Reyndar verð ég að taka fram að mér þykir "tilboð" prófessoranna bera þess merki að vera lítt hugsað enda benda heimildir mínar til þess að þar séu skoðanir fárra sagðar skoðanir margra.
Sú hugmynd að háskólar geti á einhver hátt keppt sína á milli er hálf galin. Háskólar sem á annað borð uppfylla almenn skilyrði eru í eðli sínu góðir, hver á sinn hátt. Gæðin byggja á því fólki sem ráðið er til starfa og þeir sem ráðnir eru eftir hefðbundnum leiðum hafa eitthvað til að bera sem verðmætt er.
Metingur og belgingur í þessum efnum er ekki viðeigandi og margt sem sagt er í umræðunni er háskólasamfélaginu til minnkunnar.
En úr því að þessi umræða er farin aftur af stað þá minnist ég þess að fyrir rúmum tveimur árum skrifaði ég pistil um þetta efni. Hann má sjá hér.
...legg svo til að háskólafólk taki höndum saman og hætti hegðun sem gjarnan er kennd við "pissu" keppni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er óhætt að kjósa BESTA flokkinn?
16.5.2010 | 14:12
Innkoma BESTA flokksins í íslenska pólitík hefur vakið verðskuldaða athygli. Þeir sem fyrir eru virðast ekkert átta sig á því hvað er að gerast né hvernig bregðast skuli við. Taka jafnvel upp á því að segja aulabrandara í tíma og ótíma!
Aðrir halda því sjónarmiði á lofti að galið sé að kjósa BESTA flokkinn. Það muni hafa verulega slæmar afleiðingar í för með sér. Því sé heillavænlegra að kjósa gömlu góðu flokkanna! Ég verð að viðurkenna að þessi rök standa verulega í mér. Hafa stjórnmálamenn staðið sig frábærlega fram að þessu?
Eftir að hafa skoðað nýtt myndband BESTA flokksins hef ég sannfærst um að flokkurinn mun vinna stórsigur í Reykjavík. Myndbandið er háðsádeila á þau stjórnmálaöfl sem fyrir eru og það sem er óþægilegt er að maður getur svo vel verið sammála mörgu af því sem fram kemur í textanum. Myndbandið má sjá hér.
Þá er það spurningin hvað mun gerast eftir kosningar þegar og ef BESTI flokkurinn vinnur stórsigur í Reykjavík. Ég tel satt BEST að segja ólíklegt að það fólk sem skipar sæti á lista flokksins muni hafa áhuga á því að setjast í hinar ýmsu nefndir og ráð borgarinnar. Þau vilji miklu heldur gera það sem þau eru BEST í, þ.e. að skemmta sjálfum sér og öðrum.
Leiðin sem þau gætu farið væri að fá fólk með sérfræðiþekkingu til að taka sæti í þeim ráðum og nefndum sem kæmu í hlut flokksins. Hér væri um að ræða fólk sem ekki væri mjög illa farið af flokkshollustu og myndu fyrst og fremst nálgast verkefnið út frá þeirri sérfræðiþekkingu sem það hefur.
Það að kjósa BESTA flokkinn gæti því eftir allt saman verið ákjósanleg leið til að efla íbúalýðræði hér í borg. Ég held því að það sé ekki óhjákvæmileg ávísun á glundroða að kjósa BESTA flokkinn. Í því gæti falist tækifæri til umbóta.
...ég er nú samt ekki viss um að ég leggi í að kjósa flokkinn!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Skýrslan góða!
15.5.2010 | 06:15
Ég hef verið að glugga í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eiginlega skyldulesning. Hef því miður ekki náð að lesa hana alla og verð að hrósa Styrmi Gunnarssyni fyrir að hafa ekki aðeins náð að lesa skýrsluna yfir heldur einnig gefið út á bók aðalatriði hennar!
Geri þó ráð fyrir að ekki séu allir sammála Styrmi um þau atriði.
Ég hef einbeitt mér að því að lesa það sem beinlínis snerti mig og mitt starf. Dæmi um það er kaflinn um háskólasamfélagið í viðauka 1. Sá kafli er misgóður.
Forsenda kaflans virðist vera sú að fjölmiðlamenn hafi staðið frammi fyrir nýjum og umfangsmiklum viðfangsefnum sem erfitt gat verið að átta sig á nema með aðstoð sérfræðing. Í lok kafla 2, um fjölmiðla, kemur fram að margir sérfræðingar í háskólum hafi verið ófúsir til að tjá sig (bls. 211). Í upphafi kafla 3 er fjallað um mikilvægi þess að fjölmiðlar geti komið sér upp fróðu og áreiðanlegu tengslaneti og að þeir geti leitað til akademíunnar við greiningu og túlkun upplýsinga (strangt til tekið hefði hér átt að standa "gagna". Gögn verða upplýsingar eftir greiningu. En látum það liggja á milli hluta.) (bls. 211). í lok málsgreinarinnar segir svo:
"Í ljósi þessa þarf að huga að háskólasamfélaginu" (bls. 211)
Þetta er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Það er fullkomlega eðlilegt að hugað sé að háskólasamfélaginu í þessu sambandi. En að ástæðan sé sú að fjölmiðlamenn hafi ekki ráðið við að túlka umhverfi sitt og ekki alltaf getað leitað til háskólamanna kemur mér undarlega fyrir sjónir.
Reyndar fjallar kaflinn ekki um háskólasamfélagið sem slíkt heldur mjög afmarkaðan hluta þess. Í kaflanum segir:
"Blaðamenn Morgunblaðsins ráku sig iðulega á það að fræðimenn á sviði lögfræði, hagfræði og viðskiptafræði vildu ekki tjá sig um álitaefni í viðskiptum. Sumir af því að þeir voru í vinnu fyrir viðskiptablokkirnar, aðrir af því að þeir óttuðust neikvæð viðbrögð við gagnrýni. Margir sem undanfarna mánuði hafa verið duglegir að tjá sig um orsakir hrunsins voru ekki reiðubúnir að tjá sig um áhættuþættina í fjármálakerfinu þegar eftir því var leitað á árunum fyrir hrun" (bls. 211)
Hér er vísað í Reykjavíkurbréf MBL frá 29. ágúst 2009. Hér hefði verið mjög gagnlegt að upplýsa lesendur um hvaða fræðimenn þetta nákvæmlega voru. Í mínu nær umhverfi kannast ég alls ekki við þetta. Þeir sem hafa tjáð sig mikið um fjármálakerfið eftir hrunið gerðu það einnig fyrir það. Nefni menn eins og Þorvald Gylfason, Gylfa Magnússon, Guðmund Ólafsson og Vilhjálm Bjarnason. Allir þessi menn höfðu sig nokkuð í frammi fyrir hrunið og bentu á ótal atriði sem ástæða væri til að hafa áhyggjur af.
Í skýrslunni segir svo:
"Það eru alvarlegar ásakanir að íslenskir fræðimenn hafi veirð svo háðir fjármálastofnunum eða viðkvæmir fyrir almenningsáliti að þeir hafi ekki viljað tjá sig við fjölmiðla" (bls. 211).
Þessu get ég ekki verið meira sammála enda kemur í ljós við athugun vinnuhópsins að þetta á ekki við nokkur rök að styðjast hvað Háskóla Íslands varðar. Vissulega fékk Háskóli Íslands einhverja styrki frá fjármálastofnunum en þeir voru aðeins 0,23% af heildartekjum skólans á árunum 2003-2008. Tengslin við fjármálastofnanir voru því óveruleg og ekki nokkrar líkur fyrir því að þessir styrkir hafi haft einhver áhrif á störf sérfræðinga skólans.
Hér hefði kannski verið ástæða fyrir vinnuhópinn að hætta umfjöllun sinni um háskólasamfélagið á þessum nótum. Þess í stað ákvað vinnuhópurinn að samkeyra lista yfir þá aðila sem þáðu verktakagreiðslur frá bönkunum við nöfn þeirra sem starfa í viðskipta- og hagfræðideildum íslenskra háskóla, af þeirri ástæðu að sá hópur hafi einkum legið undir ámæli fjölmiðlamanna um fjárhagsleg tengsl (bls. 212).
Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Lét vinnuhópurinn óánægða fjölmiðlamenn ákvarða hvaða hópur fékk svona rýni og hver ekki? Hefði kannski átt að skoða hvaða fjölmiðlamenn fengu verktakagreiðslur frá bönkunum á þessu tímabili (2004-2008)? Kannski að það hefði varpað ljósi á ýmislegt sem vinnuhópurinn veltir fyrir sér í kafla 2 í viðaukanum? Kannski ekki?
Aftur kemst vinnuhópurinn að því að ekki sé um fjárhagsleg tengsl að ræða en um samkeyrsluna segir:
"Á grundvelli þeirra upplýsinga er ekki að sjá að viðskipta- og hagfræðingar í háskólum landsins hafi þegið verktakagreiðslur frá bönkunum" (bls. 212)
...og hvað með það ef svo hefði verið? Væri eitthvað óeðlilegt við það að sérfræðingar á þessu sviði ynnu fyrir bankana stöku sinnum? Ætti það að hafa afgerandi áhrif á störf þessara sérfræðinga?
Úr því að vinnuhópurnn ákvað að kanna tengsl sem þessi hefði þá ekki verið ástæða til að kanna fjárhagsleg tengsl sérfræðinga úr öðrum greinum óháð því hvað fjölmiðlafólki fannst? Getur verið vanþekkingu um að kenna að álíta sem svo að aðeins viðskipta- og hagfræðingar komi að viðskiptum og eigi þar hagsmuna að gæta?
Bloggar | Breytt 16.5.2010 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Siðvit!
13.5.2010 | 00:27
Nokkur umræða hefur verið um siðferði og siðfræði í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er vel enda nokkuð augljóst að eitthvað hefur brugðist í þeim efnum.
Spurningin er hins vegar sú hvort hægt sé að auka siðferði með því að kenna fólki siðfræði. Siðfræði er góð fræði svo langt sem hún nær. En ætli það sé hægt að kenna siðlausu fólki almennt siðferði með því að láta það sitja námskeið í siðfræði? Það hef ég satt best að segja efasemdir um.
Sumt fólk er, því miður, siðbjálfar. Þetta eru einstaklingar sem sjá ekki né þekkja muninn á réttu og röngu. Slíku fólki verður ekki bjargað með kúrs í siðfræði.
Siðvit er eitthvað sem er að hluta til meðfætt og að hluta til lært. Einstaklingur sem hefur lítið siðvit um tvítugt er einfaldlega ekki líklegur til að breytast mikið við að sitja námskeið í siðfræði.
Gott nám gerir gott fólk betra. Býr ekki til gott fólk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þvaður!
10.5.2010 | 21:05
Stundum þykir mér fólk tala og skrifa með óskaplega óábyrgum hætti. Stundum er þetta saklaust þvaður en stundum er um að ræða skaðlega, og jafnvel rættna, umfjöllun um efni sem viðkomandi virðist ekki hafa nokkurt vit á.
Dæmi um slíka umfjöllun er pistill Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu í dag sem hann kallar Excelskáldin. (sjá Fréttablaðið 10. maí, bls. 15)
Þar kemur m.a. fram:
"Fram hefur komið að viðskiptahættir mannsins sem veðsetti bótasjóð Sjóvár í braski sínu hafi verið kenndir við Háskólann og nemendur sérstaklega látnir gera grein fyrir þeim á prófi. Það er ekki endilega vegna þess að kennarar við Háskólann séu siðlausir eða fábjánar þeir hafa kannski bara ekki mikið hugsað út í rétt og rangt og flækjurnar sem téður viðskiptamaður bjó til virðast hafa þótt svo athyglisverðar frá faglegu sjónarmiði að aðdáun hafi vakið. En það vantar augljóslega eitthvað í nám þar sem slíkt er kennt með velþóknun. Sjálf hugmyndafræðin á bak við það er röng. Sú hugmyndafræði að allt okkar háttalag og öll okkar einkenni sé vara á markaði: líka traust."
Hér fer GAT með þvaður. Hvergi hefur komið fram á ábyrgum vettvangi að viðskiptahættir þessa tiltekna manns hafi verið kenndir við Háskólann. Það kann að vera að einhver sé þeirrar skoðunar, haldi það og hafi jafnvel bloggað um það. Það verður hins vegar ekki sannleikur við það enda fullkomið þvaður.
Sem kennari við Háskólann get ég fullvissað lesendur um að fæstir kennarar, ef einhverjir, eru siðlausir eða fábjánar. Flestir, ef ekki allir, hafa fengið áralanga þjálfun í gagnrýnni hugsun og velta því reglulega fyrir sér hvað sé rétt og hvað sé rangt. Aftur fer GAT með þvaður.
Það að halda því fram að umræddur gjörningur hafi vakið aðdáun er ekki aðeins þvaður, heldur einnig rætið og ósmekklegt. Þetta á GAT, sem ég held að sé sómakær maður, að vita.
Bloggar | Breytt 11.5.2010 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veiðileyfi á viðskiptafræði
8.5.2010 | 08:31
Svo virðist sem út hafi verið gefið veiðileyfi á viðskiptafræði. Ýmsir, leikir og lærðir, keppast við að tala þessa grein niður og gefa jafnel til kynna að ófarir þjóðarinnar sé þessari einu grein um að kenna.
Sem kennari margra viðskiptafræðinga sl. 17 ár verð ég að mótmæla þessu. Með því er ég ekki að segja að greinin þurfi ekki að horfa í eiginn barm en það þurfa svo sem aðrar greinar einnig að gera. Það er einnig dálítið einkennilegt að tala um viðskiptafræði eins og um persónu sé að ræða. Menn segja gjarnan að viðskiptafræðin þurfi að gera þetta og viðskiptafræðin þurfi að gera hitt.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðskiptafræði er í raun yfirheiti yfir margar ólíkar fræðigreinar, s.s. eins og stjórnunarfræði, markaðsfræði, fjármálafræði, rekstrarstjórnun og reikningshald. Þetta hefur í för með sér að innan greinarinnar er fjölbreyttur hópur einstaklinga, sem n.b. flestir höfðu ekkert með efnahagshrunið að gera.
Vissulega unnu margir viðskiptafræðingar í bönkum og gera reyndar enn. Skárra væri það nú. En þar unnu einnig margir aðrir með margvíslega menntun. Sumir virðast líta svo á að ef einstaklingur gekk inn í banka þá hafi hann umsvifalaust breyst í viðskiptafræðing. Þetta er ákaflega mikill barnaskapur. Eins og að álíta að við það að ganga inn í hænsnabú þá breytist maður í hænu.
Enginn ein fræði- eða starfsgrein ber ábyrgð á efnahagshruninu. Það gera einstaklingar. Vissulega eru sumir þeirra viðskiptafræðingar, en einnig verkfræðingar, lögfræðingar og heimspekingar. Fólk úr ýmsum áttum með ólíka menntun.
Hver og ein fræðigrein getur eflaust bætt sig. Þær eiga að gera það. Einstaklingar innan einnar fræðigreinar eiga hins vegar að varast að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra. Umræðan um viðskiptafræði ber þess því miður merki.
Háskólar gera gott fólk betra. Þeir búa ekki til gott fólk. Viðskiptafræðin er fjölmenn grein og augljóslega eru mannkostir mismunandi. Lítið við því að gera. Geri ráð fyrir að þannig sé einnig háttað í öðrum greinum...
...jafnvel heimspeki!
Bloggar | Breytt 9.5.2010 kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Að gagnrýna skýrsluna!
18.4.2010 | 14:49
Hér fyrr í dag skrifaði í færslu sem bar yfirskriftina "Má gagnrýna skýrsluna". Færslan var löng og ígrunduð og ég óskaplega ánægður með hana. Þegar ég ætlaði að vista og birta færsluna þá hvarf hún. Vistaðist ekki né birtist!
Þetta er líklega ágætt svar við spurningunni. Það er líklega ekki ætlast til þess að skýrslan sé gagnrýnd. Læt því vera að endurtaka færsluna. Er einnig dálítið forlagatrúar. Líklega er tilgangur með öllu. Kannski var færslan ekki eins góð og ég taldi. Hver veit.
Það er þó eitt atriði sem ég er hugsi yfir. Í 8. bindi skýrslunnar er háskólafólk gagnrýnt fyrir gagnrýnislausa umfjöllun um hina svokölluðu útrás og starfsemi bankanna. Þetta þykir mér heldur ómaklegt.
Í fyrsta lagi þá er háskólafólk mjög fjölbreyttur hópur. Mjög margir hafa afar litlar forsendur til að fjalla um viðskipta- og eða efnahagsmál. Það fólk verður seint sakað um áður nefnt gagnrýnisleysi enda fylgja flestir því viðmiði að tala fyrst og fremst um það sem viðkomandi þekkir og hefur vit á.
Eftir stendur að innan Háskóla Íslands eru margir sem hafa forsendur til að fjalla um þessi mál, t.d. sumir kennarar viðskiptafræðideildar og hagfræðideildar (áður viðskipta- og hagfræðideildari). Lausleg athugun mín bendir til þess að menn eins og Ársæll Valfells lektor í viðskiptafræði, Gylfi Magnússon dósent í fjármálum, Vilhjálmur Bjarnason lektor í fjármálum, Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði og Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði hafi allir komið fram með gagnrýni eða lýst áhyggjum sínum af stöðu mála árin 2007-2008.
Það var hins vegar ekki mikil stemmning fyrir gagnrýni á þessum tíma. Hvorki innan bankakerfisins né á stjórnarheimilinu. Jafnvel var gengið svo langt að gagnrýna menn fyrir að vera að gagnrýna og þeir þá sakaðir um að grafa undan velgengninni með óþarfa neikvæðni sem fyrst og fremst benti til þess að þeir vissu ekkert hvað þeir væru að tala um.
Steininn tók svo úr þegar Gylfi Magnússon lýsti því yfir að bankakerfið væri tæknilega gjaldþrota. Alþingismenn, ráðherra og bankastjórar beinlínis réðust gegn Gylfa í fjölmiðlum með alls konar yfirlýsingum um hæfni, eða öllu vanhæfni, dósentsins.
Það er því kannski einhver ástæða fyrir því af hverju háskólafólk hugsar sig vel um áður en stjórnvöld eru gagnrýnd. Það er eitthvað sem stjórnvöld þurfa að velta fyrir sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)