Viðskiptasóðaskapur, taka tvö
10.4.2010 | 10:39
Fyrir um 14 mánuðum sagði ég mig úr stjórn IP-fjarskipta ehf eftir þriggja daga stjórnarsetu. Ég, ásamt Hilmari Ragnarssyni, hafði verið tilnefndur í stjórnina af Samkeppniseftirlitinu af ástæðum sem ég fer ekki nánar út í hér. Hver og einn getur kynnt sér ástæðurnar á vef Samkeppniseftirlitsins.
Við úrsögnina kusum við að nota hugtakið "viðskiptasóðaskapur" um reynslu okkar af stjórnarsetunni. Viðbrögðin voru sterk og ekki síst frá þeim sem töldu á sig hallað í umræðunni. Gekk það svo langt að okkur var hótað málsógn ef við drægum ekki ásakanir okkar til baka. Við sáum okkur því knúna til að útskýra nánar okkar afstöðu án þess að það hefði nokkur áhrif á upplifun okkar af málinu. Sumir töldu okkar draga í land með útskýringum okkar, sáu jafnvel ástæðu til að fagna því opinberlega. Hvað mig varðaði var það ekki aðalatriði málsins. Sagan myndi einfaldlega draga fram hvað það er sem varð til þess að við sáum okkur knúna til að nota umrætt hugtak um okkar upplifun.
Í færslu þann 11. febrúar 2009 geri ég tilraun til að útskýra hugtakið. Þar kemur fram að viðskiptasóðaskapur er:
"Hegðun sem einkennist af því að stjórnendur ganga á svig við almenn gildi og nota þvinganir, ógnanir, óbilgirni og ruddaskap til að ná fram markmiðum sínum."
Þá kemur einnig fram í sömu færslu að "viðskiptasóðinn" gangi út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt.
Því miður hefur ekkert komið fram sl. 14 mánuði sem hefur gefið mér tilefni til að ætla að ég hafi viðhaft óeðlilega viðkvæmni eða tepruskap þegar þessari upplifun var lýst á sínum tíma. Þvert á móti þá hefur margt komið fram sem bendir til þess að hegðun sú sem við vorum að setja okkur upp á móti hafi verið miklu algengari en geðslegt er að gera sér í hugarlund.
Á mánudaginn kemur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis út. Ég veit ekkert um innihaldið en mun kynna mér það. Því miður held ég að fréttirnar verði ekki góðar. Þær verða kannski ekkert sérstaklega skýrar og sjálfsagt ekki augljóst hvert framhaldið verður. Sumt er væntanlega þess eðlis að ætla má að um lögbrot sé að ræða. Annað kann að benda til þess að gengið hafi verið á svig við almenn gildi og siðferði en sé ekki beinlínis lögbrot.
Það er einmitt um slík tilvik sem ég kýs að nota hugtakið "viðskiptasóðaskapur" yfir. Ég minni á að samkvæmt skilgreiningu þá gengur viðskiptasóðinn út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt. Fyrir allt venjulegt fólk er það þó ekki svo.
Ætluð lögbrot eiga sér skilgreindan farveg. Siðlaus hegðun þarf einnig sinn farveg.
Að lokum vona ég að við sem þjóð höfum þann styrk til að bera að missa ekki stjórn á okkur í kjölfar birtingar skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þar skiptir mjög miklu máli að framvinda málsins sé skýr og gefi ekki tilefni til að ætla að verið sé að fara undan í flæmingi. Þar er stjórnvöldum mikill vandi á höndum. Það sem einum þykir sjálfsagt og réttlátt þykir öðrum bera merki ofsókna og hausaveiða. Stjórnvöld hafa því allan minn skilning á þeim vanda sem fylgir úrlausn þessa máls. Við sem þjóð þurfum að koma þessu máli, og reyndar ýmsum öðrum málum, frá. Þá fyrst getum við hafist handa við að byggja upp okkar samfélag á gildum sem ég held að flestir skilji og vilji.
Athugasemdir
Mín skoðun er sú,að fyrir löngu síðan átti að vera búið að skipta um Forstöðumann í Samkeppniseftirlitinu. Páll Gunnar Pálsson er vanhæfur embættismaður,líkt og hann var hjá Fjármálaeftirlitinu áður.Hann er ofmetin embættismaður.Ég þakka pistlahöfundi fyrir þennan athyglisverða pistil.
Númi (IP-tala skráð) 10.4.2010 kl. 23:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.