Út í vorið!

Þegar nýtt ár gengur í garð tala margir um að mesta skammdegið sé framundan með tilheyrandi drunga og tómlæti. Þetta tel ég vera alvarlega hugsanavillu. Hið rétt er að vorið er framundan og með hverjum degi þá færist þaðnær og hver dagur öðrum lengri.

Hálf ömurlegt ár er nú að kveðja, eða hvað?. Getur verið að sú atburðarás sem hófst með hruni fjármálakerfisins hafi verið upphafið að einhverju miklu betra? Getur verið að margt annað skipti máli en aðeins efnahagsleg velsæld?

Ég held að ég eigi ekki eftir að sakna vissrar hegðunar í okkar samfélagi. Þetta er hegðun sem einkennist af græðgi, sjálflægni og hálfgerðri heimsku. Hvaða vit er t.d. í því að byrja á því að henda öllu út úr nýlega keyptri íbúð? Hvaða vit er í því að vera láta teikna fyrir sig þriðju eldhúsinnréttinguna á fimm árum? Að mín mati ekki mikið. Ég held að það hljóti að vera hægt að ráðstafa tíma sínum með skynsamlegri hætti. Að ég tali nú ekki um ráðstöfum peninga.

Það er því bjart framundan að mínu mati! Kannski verður maður eitthvað blankari og sumir munu eflaust eiga í verulegum peningalegum vandræðum. Af því þarf að draga lærdóm. Sjálfur þekki ég það ágætlega að hafa fjárhagsáhyggjur. Það er ömurleg tilfinning. Sérstaklega þegar maður uppgötvar að það er svo margt annað sem skiptir miklu meira máli í lífinu. Að sjálsögðu á maður ekki að haga sér eins og kjáni í fjármálum. Það er vísasta leiðin til vandræða.

Ágætur maður sagði eitt sinn við mig að maður yrði að lifa í lausninni en ekki vandanum. Ef maður lifir í vandanum, þá vex hann. Ef maður lifir í lausninni, þá kemur hún. Þetta hef ég reynt að temja mér. Með misjöfnun árangri að sjálfsögðu en æfingin skapar meistarann. Það er eins og það sé meira fyrir því haft að vera jákvæður en neikvæður! Þess vegna þarf að vinna í því að vera jákvæður. Ef maður gerir ekki neitt, þá er hætt við að neikvæðnin banki upp á. Jákvæðnina þarf því að æfa og æfa eins og hverja aðra íþrótt.

Oftar og oftar gengur það betur því æfingin skapar meistarann.

Gleðilegt nýtt ár! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband