Hvað á ég að kjósa 3?
23.4.2009 | 20:37
Nú er komið að því að túlka niðurstöður. Til að átta sig betur á niðurstöðunni er betra að lesa fyrri tvo pistla um sama efni (en auðvitað getur þú bara haldið áfram að lesa!)
Fyrst þarf að hafa í huga að greiningin byggir á mati mínu á svörum stjórnmálamanna við spurningum Fréttablaðsins. Hér getur margt haft áhrif. Mat mitt getur verið rangt, ekki er víst að stjórnmálamennirnir séu sömu skoðunar nú og þá og ekki er víst að spurningar Fréttablaðsins séu þær spurningar sem skipta máli. En látum það liggja milli hluta.
Vinstri Grænir hafa afgerandi stöðu. Tengjast sterkt atriðum eins og hátekjuskatti, hækkin virðisaukaskatts, vilja stjórnlagaþing og vilja auka framlög til þróunarsamvinnu. Eru hins vegar mótfallnir einkavæðingu bankanna, hvalveiðum í atvinnuskyni, álversframkvæmdum og uppbyggingu olíuhreinsistöðvar. Þetta er því flokkur sem er líklegur til að hækka skatta og vill hafa umhverfisvernd í huga við eflingu atvinnulífsins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig afgerandi stöðu sem er í raun andstæð stöðu Vinstri Grænna. Það verður því að teljast afar ólíklegt að þessir flokkar starfi saman eftir kosningar. Það fer þó eftir því hve Evrópumálin skipta þessa flokka miklu máli. Sjálfstæðisflokkurinn vill fyrst og fremst efla atvinnulífið og er tilbúinn að fara hefðbundnar leiðir að því. Er mótfallinn skattahækkunum.
Framsóknarflokkurinn hefur einnig afgerandi stöðu. Vill fara í framkvæmdir eins og Landspítala og Sundabraut og er t.t.l opinn fyrir stóriðju. Er mótfallinn sameiningu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka, Landhelgisgæslu og Varnarmálastofnunar og að innkalla eigi veiðiheimildir. Staðsetningin bendir til þess að þessi flokkur gæti vel unnið með Sjálfstæðisflokki og á líklega mesta samleið með þeim. Óvíst er þó að menn leggi í slíka stjórn þó svo að meirihluti næðist. En maður veit aldrei. Framsókn gæti einnig unnið með Vinstri Grænum, Samfylkingu og Borgarahreyfingu. Þeir gætu því, eins og svo oft áður, lent í oddaaðstöðu eftir kosningar.
Lýðræðishreyfingin hefur einnig afgerandi stöðu. Hefur ekki áhuga á að endurskoða stjórnarskrána og er tilbúinn að sameina sveitarfélög með lagasetningum. Tel mig geta útilokað þennan valkost strax.
Aðrir flokkar, þ.e. Frjálslyndir, Samfylkingin og Borgarahreyfingin, hafa ekki afgerandi stöðu. Þetta er nokkuð svipuð niðurstaða og kom fram í grein sem ég skrifaði fyrir nokkru um markaðsstarf stjórnmálaflokka og birt var í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla (sjá www.hi.is/~th undir Rannsóknir) Ástæðan fyrir þessu er sú að þessir flokkar lenda nálægt miðju og hafa ekki skýra aðgreiningu á grundvelli málefna. Athugið að þetta þýðir ekki að þessir flokkar hafi ekki skýra stefnu í neinu. Hún er bara ekki frábrugðin stefnu annarra flokka. Hvað vörumerki varðar er þetta alla jafna talið slæmt. Það þarf hins vegar ekki að vera slæmt þegar stjórnmál eru annars vegar. Þessi þrír flokkar gætu t.d. hæglega unnið saman og hver og einn þeirra gæti líklega unnið með hinum.
Samfylkingin og Borgarahreyfingin eru mjög svipaðir flokkar. Halla sér frekar að Vinstri Grænum en Sjálfstæðisflokknum og frá Frjálslyndum og Lýðræðishreyfingunni. Gallinn við þessa stöðu er að ef t.d. Vinstri Grænir og Samfylking ákveða að starfa saman eftir kosningar, eins og heyrst hefur, er líklegt að stefna Vinstri Grænna verði ofaná af þeirri einföldu ástæðu að stefna þeirra virðist miklu skýrari. Sama má í raun segja ef Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndu ákveða að vinna saman eftir kosningar. Eina sem gæti breytt þessu er ef Samfylking yrði sigurvegari kosninganna. Þá myndi staða þeirra batna og flokkurinn gæti leyft sér að hafa mun afgerandi afstöðu í tilteknum málefnum en þeir virðast hafa nú.
Samfylking, Framsókn og Borgarahreyfingin gætu einnig starfað saman eftir næstu kosningar. Það væri líklega best fyrir þá sem leggja áherslu á Evrópumálin.
Nú er bara að taka ákvörðun. Meira um það síðar.
Athugasemdir
mæli með að þú farir inná þessa síðu og tjekkir á hvað þú eigir að kjósa!! xhvad.is
Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.