Hvað á ég að kjósa 2?

Ef þú ert að lesa þetta og hefur ekki lesið fyrri hlutann, ættirðu að byrja á því.

Ég hef komist að því að það er ekki allra að lesa út úr vörukortum (sjá skjalið í fyrri færslu). Líklega fer það saman að þeir sem eiga erfitt með að lesa landakort, eiga einnig í erfiðleikum með þetta. Vörukort er svo sem ekkert einfalt mál, þræðir sem liggja í ýmsar áttir og að því er virðist tilviljanakennd staðsetning vörumerkja á því. Ég ætla því að byrja á því að útskýra hvernig lesið er úr kortinu. (já það er ágætt að hafa það fyrir framan sig þegar það er gert)

Þræðirnir tákna eiginleika eða atriði sem tekin er afstaða til. Þetta eru stefnuvektorar og í þessu tilviki vísa þeir á "Já, afgerandi". Eins og sjá má eru þeir mislangir. Langur vektor táknar að það er mikill munur á afstöðu flokkanna hvað viðkomandi atriði varðar. Tökum atriði 6 sem dæmi (Á að leggja á hátekjuskatt?). Þá hefur einn flokkur, Vinstri Grænir, tekið mjög afgerandi Já afstöðu á meðan að annar flokkur, Sjálfstæðisflokkur, hefur tekið mjög afgerandi Nei afstöðu. Flokkarnir hafa því mjög andstæða stefnu hvað þetta atriði varðar. (lestu þetta aftur til öryggis).

Mikilvægt er að hafa í huga að vektorarnir vísa í báða áttir sbr. dæmið hér á undan. Þetta þýðir að þeir sem eru vinstra megin á kortinu eru líklegri til að fara skattahækkanaleið en um leið ólíklegri til að efla atvinnulíf með stóriðju (atriði 3 og 4), stunda hvalveiðar í atvinnuskyni (atriði 10) og einkavæða ríkisbankana (atriði 24).  Þeir sem eru hægra megin á kortinu eru þá líklegri til að vilja efla atvinnulíf með stóriðju, stunda hvalveiðar og einkavæða ríkisbankana en um leið ólíklegri til að fara skattahækkanaleið. 

Stundum liggja vektorarnir samsíða. Því meira sem það er, því meiri fylgni er á milli atriðana. Þetta eru þá mjög lík atriði eða jafnvel sama atriðið sem mætti þá sameina í stærri þátt. Þetta má t.d. sjá á atriðum 14 og 18 en í báðum tilvikum er um að ræða atriði sem snúast um það að setja af stað viðamiklar framkvæmdir. Sömu sögu má segja um atriði 5, 10, 4 og 3 en þetta er allt atriði sem tengjast því að efla atvinnulífið. Segja má að atriði 24 tengist því einnig (nú skaltu gefa þér tíma til að skoða kortið vel).

Sumir vektorarnir eru mjög stuttir. Þetta á t.d. við um atriði 1, 2, 17, 22, 19. Þetta táknar að afstaða flokkana er mjög lík hvað þessi atriði varðar, þ.e. flokkarnir eru ekki að aðgreina sig á grundvelli þessara eiginleika eða atriða. Segir hins vegar ekkert til um afstöðuna, hún gæti verið já afgerandi hjá öllum, nei afgerandi hjá öllum eða óljós hjá öllum.

Ætli þetta sé ekki gott í bili. Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snjólfur Ólafsson

Ég fann einfaldari leið til að ákveða hvað ég kýs:

Ég er sannfærður um að VG og Samfylking myndi næstu stjórn, sama hvað ég kýs. Ég er sannfærður um að sá flokkur sem fær meira fylgi mun ráða meiru í þeirri ríkisstjórn. Ég vil að Samfylkingin ráði meiru en VG í næstu ríkisstjórn, m.a. út af afstöðunni til ESB.

Niðurstaðan er því einföld: Ég kýs Samfylkinguna

Snjólfur Ólafsson, 23.4.2009 kl. 12:06

2 identicon

Ýmsar leiðir eru til að flokka fylgjendur stjórnmálaflokka í hópa. Ein þeirra, kennd við Lilian sem þú kannast við, gengur út á það að skipta megi kjósendum í fjóra flokka, þ.e. tryggir okkur, tryggir þeim, vinnanlegir og tapanlegir.

Séð frá sjónarhóli Samfylkingarinnar ert þú líklega í hópnum tryggir okkur. Þess vegna er niðurstaðan einföld!

Annars held ég að þú hafir rétt fyrir þér. Nema þeim gangi mjög vel og Framsókn ögn betur en kannanir gera ráð fyrir. Ef S fær 35 og B 18 þá geta S og B myndað meirihluta. Gætu jafnvel tekið O með til tryggja meirihlutann.

Þórhallur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband