ESB eða ekki ESB

Allt stefnir í að almenningur þurfi að taka afstöðu til inngöngu í ESB. Til að það sé hægt þarf fólk að hafa góðar upplýsingar um hvað ESB er og hvaða almennu áhrif innganga í ESB hefði á Ísland og íslenskt samfélag. Að vísu á eftir að vinna í samningnum en það breytir því ekki að margt er almennt og margt er væntanlega nú þegar í gildi.

Á vefsvæðinu island.is er að finna upplýsingaveitu stjórnvalda.  Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um hitt og þetta er tengjast aðgerður stjórnvalda í kjölfar efnahagshrunsins. Þar er hins vegar ekki að finna greinargóðar upplýsingar um ESB. Úr því þyrfti að bæta hið fyrsta.

Á opna alfræðivefnum Wikipedia má finna upplýsingar um ESB. Sú grein er merkt sem gæðagrein og virðast upplýsingarnar almennar og hlutlausar. Lesendur hvattir til að kynna sér þær. Sambærilegar upplýsingar er að finna á vef Samtaka iðnaðarins en þar þarf að hafa í huga að samtökin hafa þá yfirlýstu stefnu að hagsmunum iðnaðarins sé betur borgið innan ESB en utan. Ennfremur hefur Eiríkur Bergmann stjórmálafræðingur verið að skrifa greinar í Fréttablaðið varðandi kosti og galla inngöngu í ESB en eftir því sem ég best veit þá hallast Eiríkur frekar að ESB en frá því. Framtak hans er þó til fyrirmyndar en má ekki verða upphafið að deildum þeirra er hallast að eða frá ESB.

Ýmsir ESB-sinnar sem og anti-ESB-sinnar halda úti vefsvæðum þar sem málstaðnum er haldið á lofti. Gallinn við þær upplýsingar er að þær er fremur einsleitar í þá átt sem hentar málstaðnum og því ekki gagnlegar fyrir almenning sem vill kynna sér málið með hlutlausum hætti. Flestir átta sig á því að það getur varla verið um það að ræða að það séu bara kostir eða bara gallar við það að ganga í ESB. 

Ég tel mikilvægt að til verði e.k. hlutlaus upplýsingaveita sem dregur fram staðreyndir um ESB og leiðir saman ólík sjónarmið varðandi kosti og galla inngöngu Íslands í sambandið. Kannski ætti Háskóli Íslands að taka það að sér enda nýtur skólinn almenns trausts meðal almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

ESB umsókn er komin af stað. Ferlið tekur tíma. Enginn getur stöðvað það nema ESB sjálft á þessu stigi. Því er bráðum brýnt að upplýsingar séu að finna sem geta gagnast þeim sem eru leitandi. Hafi maður fordóma á einn eða annan hátt er valið sjálfsagt einfalt. Ertu á móti þá lestu Heimsýnarsíðuna. Ef þú ert fylgjandi þá er önnur sambærileg til. Athyglisvert er samt að lesi maður málflutning heimsýnarmanna þá er ofstækið svo mikið maður hrekkur við en yfirleitt er ekki að finna þennan ofsa í skrifum ESB sinnaðra. Þeir eru merkilegt nokk í varnarstöðu með hinir eru sækjendur.

Gísli Ingvarsson, 7.8.2009 kl. 13:01

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Það væri mikið þarfaverk að setja á fót 5 manna ritnefnd. Tvo sem eru fylgjandi, tvo sem eru andvígir og einn oddamann sem báðir samþykkja. Slík nefnd ætti að ritstýra upplýsingariti sem dreift yrði inn á hvert heimili í landinu. Þetta var gert í Frakklandi 2005 þegar stjórnarskrá ESB var borin undir þjóðaratkvæði.

Ég get ekki tekið undir að greinar Eirkíks Bergmann séu til fyrirmyndar, en hann er einarður stuðningsmaður þess að Ísland gerist aðili að ESB.

Í grein hans um sjávarútveg eru til að mynda taldar upp undanþágur sem aðildarríki (Danmörk, Bretland) fengu þegar Maastricht samningurinn var lögtekinn, þó sú staða eigi alls ekki við um umsóknarríki. Einnig bent á fiskveiðar á Möltu sem fordæmi, þó þar sé alls ekki um að ræða undanþáu frá sjávarútvegsstefnu ESB sem getur haft nokkurt gildi fyrir Ísland.

Ekki svo að Eiríkur þessi sé neitt verri en aðrir sem tjá sig um málið, en bendi bara á að titlar og starfsheiti tryggja hvorki gæði né hlutleysi í þessu hitamáli.

Haraldur Hansson, 7.8.2009 kl. 13:57

3 identicon

Ég tek ekki efnislega afstöðu til greina Eiríks. Framtakið tel ég hins vegar til fyrirmyndar.

Þórhallur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 14:06

4 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég tek undir tillögu Haralds um ritnefndina og skrif þín Þórhallur.

Ég tel samt að fólk eigi líka að lesa skrif hagsmunasamtaka sem eru á með og móti til þess að gera sér grein fyrir muninn á afstöðu þessara hópa.  Flestar þær upplýsingar sem þessir hópar birta eru réttar, en mismunandi túlkun lögð í ýmis atriði.  Meðaltalið ætti að vera nærri sannleikanum.

Axel Þór Kolbeinsson, 7.8.2009 kl. 16:24

5 Smámynd: Hjalti Sigurðarson

Ég held að ef það kostar 400mil bara að semja við ESB þá ætti að setja 40mil í 2 hópa sem væru með og á móti og láta þá skila af sér kynningarefni og 1 síðu í úrdrátt og búa til 6-10 sjónvarpsþætti um þetta. Sagan og aðgerðir ESB getur auðveldlega verið hlutlaus enda bara upptalning á staðreyndum. Það þarf allavega að gera eitthvað. Ekki bara kjósa um þetta með bundið fyrir augun.

Ég er hagfræðingur og á móti. Mér finnst tollstefnan gagnvart 3 heiminum viðbjóðsleg og á alla sök á efnahagslegri lömun þeirra. Með tilheyranda matarskorti, lyfjaskorti, farsóttum, stríð ofbeldi og dauða.

5ára meðal atvinnuleysi í EU-Zone er 7,7 en 4,2% hjá okkur.

10ára hagvöxtur er 2,2% í Eurozone og 4,6% hjá okkur.

Mars 1999-2009

Þeir sem halda því fram að EURO skapi störf og hagvöxt geta ekki útskýrt sig frá þessum staðreyndum.

Þetta versnar kannski eitthvað hjá okkur með hagvöxtinn en við höfum ennþá vinninginn í atvinnuleysinu.

Við skuldum 160%-240% af landsframleiðslu. Til að eiga séns á að fá EURO þá þarf land að skulda 60% eða minna. Held að við ættum að einbeita okkur að því.

Atvinnuleysið er líka komið á undanhald hjá okkur, Apríl 9,1% júní 8,1%

http://www.vinnumalastofnun.is/files/j%C3%BAn%C3%AD09.docx_641919157.pdf

9,4% í EuroZone 16 lönd og er ennþá að hækka. en 9% og 21mil er meðaltal þannig ekki beint hægt að vænta þess að þetta lækki í bráð.

8,9% í öllum 27 EU löndunum.

Hjalti Sigurðarson, 7.8.2009 kl. 16:27

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Þórhallur:

Gaman að sjá þig - gamli félagi - í "úrvalinu" á moggablogginu hérna efst á vefsíðunni. Að mínu mati ættirðu að vera löngu kominn þangað!!!

Ég er sammála þér. Nú barðist ég lengi fyrir því að við færum í þessar aðildarviðræður og flestir halda eflaust að ég sé mjög hlynntur aðild. Vissulega er ég hlynntur aðild, en að öðrum kosti hefði ég ekki viljað aðildarviðræður. Í raun er ég samt "aðildarviðræðusinni", því ég set ákveðin skilyrði fyrir stuðningi mínum við aðildarsamninginn, þ.e. samningurinn verður að uppfylla ákveðna sæmilega hófsamar væntingar hjá mér, bæði varðandi sjávarútveg og landbúnað.

Hugmyndir um kynningu á ESB - kostum og göllum o.s.frv. - hugnast mér því afskaplega vel.

Hjalti:

Algjörlega sammála 1. málsgrein.

Þú vilt auðsjáanlega algjört afnám tolla og innflutningstakmarkana.

Við Íslendingar værum þá eflaust fyrsta landið sem gerði slíkt einhliða, nema kannski að einhver láglaunalönd eða borgríki í Asíu hafi gert það, sem höfðu engra hagsmuna að gæta vegna landleysis eða vegna skorts á fiskimiðum eða öðrum auðlindum. Þú virðist ekki kunna minnstu skil á venjulegri hagsögu.

Tollar þjónuðu lengi vel sem ein helsta tekjulind ríkisins um allan heim, því virðisaukaskattur var nær óþekktur og tekjuskattur takmarkaðist við tíundina eða önnur svipuð skattaúrræði. Að auki var það í takt við stefnu flestra ríkja að vernda bæri allt sem framleidd væri innanlands til að auka framleiðsluna, en reyna að koma í veg fyrir innflutning (merkantílismi). Síðar komu menn fram með kenningar um að betra væri að ríki sérhæfðu sig í því sem þau væru best í og flyttu á móti varning inn. Það sem byrjaði sem sérhæfing einstaklinga (bakari, smiður, bóndi sjómaður, verslunarmaður o.s.frv. endaði sem sérhæfing ríkja (Adam Smith: An Inquiry into the Nature and Causes of the Wealth of Nations).

Engin þjóð hefur hagnast eins mikið og við Íslendingar á sérhæfingu og milliríkjaverslun, enda landbúnaður erfiður hér og iðnaður fábreyttur vegna þess hversu fá við erum. Flestar landbúnaðarafurðir eru innfluttar, t.d. kornmeti, dýrafóður, grænmeti, unnar vörur o.s.frv. Við reynum samt að rækta hér heima það sem við getum við illan leik og mikinn tilkostnað. Talað er um fæðuöryggi, sem er hálfgerð hræsni, því mest að okkar matvöru er flutt inn og við myndum ekki komast af nema í stuttan tíma án innflutnigs varnings, þótt ekki væri nema vegna áburðar, eldsneytis o.s.frv. Núna fraus um mitt sumar og kartöflurnar brugðust og þar með "fæðukartöfluöryggið" okkar. Við skulum vona að pólskir bændur bregðist okkur ekki, svo við höfum einhverjar kartöflur í vetur.

Ég tek undir með þér að tollar eru afskaplega slæm tekjulind og ætti með tímanum að útrýma, þ.e.a.s. þegar allur heimurinn býr við svipuð lífskjör. Það vill nú samt svo til að enn sem komið eru hefur mannkynið ekki fundið upp landið "Útópíu", þótt við Íslendingar höfum síðastliðin ár haldið því fram um allan heim að það land væri hér að finna. 

Tollar eru ekki aðeins tekjulind, heldur virka þeir einnig sem vernd fyrir ákveðna atvinnustarfsemi innan þess ríkis sem tollarnir gilda. Þannig erum við t.d. með verndartolla fyrir mikið að landbúnaðarafurðum, sem við erum að rækta hér á landi við ákaflega erfið skilyrði. Þetta gildir jafnt um lambakjöt - sem ódýrara væri að flytja inn frá Nýja-Sjálandi, svínakjöt, kjúklinga og egg, sem ódýrara væri að flytja inn frá meginlandi Evrópu, Rússlandi, Afríku eða Asíu. Sennilega eru kjúklingarnir ódýrastir, þar sem fuglaflensan er skæðust, svínakjötið ódýrast þar sem svínapestin geisar og lambakjötið, nautakjötið þar sem gin- og klaufaveikin er útbreidd o.s.frv. Að auki eru þessar landbúnaðarafurðir ódýrari þar sem barnaþrælkun og lág laun eru, þar sem engin velferðarþjónusta er o.s.frv.

Ég hef ekkert á móti innflutningi landbúnaðarafurða og ekkert á móti samkeppni fyrir íslenska bændur, en ég hef mikið á móti því að maturinn minn sé sýktur og að maturinn minn sé ódýr af því að börn eru að rækta hann eða að maturinn sé ræktaður, þar sem laun eru svo smánarleg afólkið í landinu hefur ekki efni á afurðunum, en afurðirnar eru fluttar úr landi ódýrar af því að fólki er ekki tryggð lágmarksþjónusta. Einu sinni borðuðu Íslendingar þorsk, af því að hann er besti matfiskurinn. Síðan var allur þorskurinn seldur til útlendinga og við fórum að borða ýsu.

Að auki er íslenskur landbúnaður mikilvægur fyrir byggðajafnvægi og sem menningarlegt fyrirbrigði okkar Íslendinga og nákvæmlega þarna er ég sammála ESB. Íslenskur landbúnaður uppfyllir öll þau skilyrði, sem að ofan getur og þess vegna vil ég tryggja tilvist íslensks landbúnaðar.

Líklegt er að svínakjötsframleiðsla minnki og það sama gildir um framleiðslu á kjúklingakjöti og eggjum. Hér er þó ekki um landbúnað að ræða, sem við þurfum að halda hlífiskildi yfir vegna byggðastefnu eða á grundvelli menningarverðmæta íslensks landbúnaðar.

Við getum full af þjóðernisrembindi talað um íslensku rolluna, íslensku beljuna, íslenska smáhestinn (þ. Pony), íslensku geitian, íslenska hænsnfugla, íslenska hunda - mér finnst ég orðinn hálfgerður "belju- eða rollurasisti, ef slíkt er til? - það má hins vegar ekki tala um hinn íslenska rasa, sem er auðvitað ekki til, nema að við séum að tala um skepnur, ef maður kæmi með svona rök um fólk, væri maður stimplaður rasisti - ekki satt? Ekki misskilja mig, ég er enginn rasisti, enda eru börnin mín 1/2 Íslenidngar, 1/4 Þjóðverji og 1/4 Finnar.

Að hagfræðingur beri saman 5 ára atvinnuleysi 5ára í "EU-Zone" upp á 7,7 við 4,2% atvinnuleysi hjá okkur er í besta falli hjákátlegt. Ástæðan er að inna "EU Zone" eru 27 ríki - stór og smá - með alls um 500 milljónir íbúa. Allt frá Þýskalandi með 82 milljónir íbúa, sem er sambandslýðveldi með ótal héruðum, þar sem atvinnuleysið er allt frá 3-4% upp í 20%. Slíkan samanburð á smá eyju í Norður-Íshafinu, sem er með um 320.000 íbúa við ríkjasamband með 500 milljónir og telur 27 ríki stór og smá er hlægilegur. Berðu t.d saman atvinnuleysið í Danmörku og Grikklandi!

Ég ætla ekki að eyða tíma í hagvaxtarsamanburð, því sömu rök eiga við. Berðu t.d. saman hagvöxt í Lúxemborg og Grikklandi.

Meðaltöl í tilfellum sem þessum segja nákvæmlega ekkert og það á "Akademiker" á borð við þig að vita!

Þú veist nákvæmlega eins og ég að nettóskuldir okkar verða ekki þessar eftir nokkur ár, en þetta lítur vel út fyrir þá sem eru á móti aðild!

Atvinnuleysi minnkar alltaf hér á sumrin (frá hvaða skóla útskrifaðist þú með hagfræðigráðu - sorry!)

Nýjar tölur í dag sýndu að atvinnuleysi er á undanhaldi í Þýskalandi - stærsta hagkerfi ESB. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 8.8.2009 kl. 00:02

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Lesendur athugið. Hlutlaus heimasíða Framsóknarflokksins er opin öllum. Þeir sem ætla sér að ganga í Framsóknarflokkinn ættu að lesa þessa síðu ásamt örðum síðum um Framsóknarflokkinn. Þetta er kátbroslegt. Hvernær ætlið þið að skilja að ESB er fyrst og fremst pólitík. ESB er ekki um efnahagsmál. ESB er stórpólitík. Er engin leið til þess að þið skiljið þetta? ESB ER STÓRPÓLITÍK. Er einhver hér sem vill fjalla hlutlaust um stjórnmál á Íslandi? Nei vel? það gerir enginn og það getur enginn. Hafið þið séð hlutlausa heimasíðu um Sovétríkin? Um Bandaríkin? Áttu menn að lesa sér til um það hvernig þeir hefðu átt að ganga í Sovétríkin árið 1920? Á friðarráðstefnunni í París 1919 komst sendiherra Danmerkur í Moskvu við illan leik til París til að útskýra fyrir mönnum þar hvað var að gerast þar í landi. Enginn trúði honum. Menn þurftu að bíða í marga áratugi eftir því að heyra sannleikann. En á meðan gátu menn lesið sér til í Þjóðviljanum um dásemdir þess ríkis. Seinna eða árið 1955 stofnuðu menn svo Varsjárbandalagið. Ríkin í því voru ennþá "fullvalda og sjálfstæð" stóð þar í samkomulaginu. Guðbjörn getur svo frætt okkur hversu dásamlegt Austur Þýskalands var á meðan hann bjó þar.

Sjálfur get ég frætt ykkur um hvað ESB er að breytast í. Þetta ESB sem ég bý í og hef búið í síðastliðin 25 ár er ekki það sama ESB og ég flutti til fyrir 25 árum. En eftir 25 ár í viðbót verður ESB orðið að The United States of Europe. Enginn vildi það sérstaklega en það gerðist bara í smá skrefum. Þær kynslóðir sem þekktu gömlu ríkin sín verða þá útdauðar - og þar á meðal Guðbjörn hér að ofan, Jón Baldin Hannibalsson flokksbróðir Guðbjörns og Steingrímur J. Sigfússon flokksbróðir þeirra beggja. Þá mun enginn muna lengur eftir gamla þjóðríkinu sínu. 

Engin heimasíða fjallar um það sem raunverulega er að gerast í Evrópusambandinu. ENGIN! Engar kosningar fjalla um það sem raunverulega er að gerast í Evrópusambandinu. En ef þær eru haldnar þá er bara kosið aftur þangað til það kemur rétt út úr þeim.

Vaknið kjánar Íslands! Vaknið! Þetta er ekki 2+2 eða krossgáta. Þetta fjallar um stórpólitík og EKKERT annað. Lýðræðið er á undanhaldi í Evrópusambandinu. Það er staðreynd. Allsstaðar þar sem lýðræðið minnkar og fjarar út, þar mun taka við ófriður. 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 8.8.2009 kl. 07:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband