Þensluhagfræði!
10.8.2009 | 15:26
Í Fréttablaðinu laugardaginn 8. ágúst var forsíðufrétt sem bar yfirskriftina "Sparifé í bönkum ber neikvæða vexti". Blaðamaður virðist hafa rætt við tvo þingmenn um málið, annars vegar Pétur Blöndal þingmann sjálfstæðismanna og hins vegar Lilju Mósesdóttir þingmann Vinstri Grænna. Það sem haft er eftir Lilju vaktir athygli mína en í greininni segir:
"Þetta er í sjálfu sér jákvætt á eins miklum samdráttartímum og við erum að ganga í gegnum núna," segir Lilja. "Það er mjög jákvætt að það séu nærri því neikvæðir raunvextir á sparifé vegna þess að það sem samfélagið og efnahagslífið þarf er að fólk eyði peningum ef það á peninga. Og það er fullt af fólki sem á peninga vegna þess að ríkið tryggði innstæður að fullu." Það sé því í sjálfu sér ekki neikvætt fyrir samfélagið þó það sé neikvætt fyrir einstaklinga að peningar séu að brenna upp.
Svo mörg voru þau orð. Nú eiga sem sagt allir sem eiga peninga að fara af stað og eyða þeim. Það sé best fyrir samfélagið!
Þessu get ég bara ekki verið meira ósammála. Í fyrst lagi tel ég ekki rétt að tala um að fólki eyði peningum. Réttara væri að tala um að fólk ráðstafi þeim á skynsamlegan hátt. Það að hlaupa til nú og kaupa bara eitthvað af því að maður á pening og af því að vextir eru lágir getur ekki talist skynsamlegt.
Lítill sparnaður hefur alltaf verið vandamál hér á landi. Það er mjög mikilvægt að stuðla að því að fólk spari frekar en eyði! Íslendingar þurfa enga sérstaka hvatningu eða kennslu í eyðslusemi. Það sjá allir sem vilja. Það væri miklu nær að taka upp skyldusparnaðinn aftur og hvetja ungt fólk til ráðdeildar og hófsemi.
Athugasemdir
Sæll Þórhallur.
Í kjölfar þinna viðbragða um sparnað fremur en neyslu vakna strax t.d. eftirfarandi spurningar í þeim pælingum:
Hvar eiga fjármagnseigendur að geyma sparnað sinn eða fé sitt?
Með öðrum orðum: Hver á að ráðstafa sparnaði fjármagnseigendanna á þeim geymslustað?
Yrði fénu betur ráðstafað þar en af fólkinu sjálfu?
Hver getur svarað þeirri spurningu annar en fólkið sjálft?
Í hverju á að mæla þann samanburð? T.d. ávöxtun fjárins séð frá sjónarhóli einstaklingsins eða frá þjóðhagslegum sjónahóli?
Hörmungasaga fjárvörslufyrirtækja hér undanfarin ár fram að bankahruninu íslenska er eldur sem fjármagnseigendur og ekki síst aðrir eru með a.m.k. þriðja stigs brunasár af. Þeir munu væntanlega forðast þann eld í bráð.
Hvernig hefur t.d. lífeyrissjóðunum íslensku heppnast að ávaxta fé sparifjáreigenda, vinnandi launþega landsins, sem samviskusamlega og í góðri trú hafa greitt umtalsverðan hluta launa sinna til vörslu þar? Verðmætahrun eigna hjá mörgum lífeyrissjóðum er vitnisburður um að eitthvað annað en 100% tillit til hagsmuna viðkomandi sparifjáreigenda hafi ráðið för við ráðstöfun inngreidds sparnaðar. Dæmið um fulltrúa Lífeyrissjóðs verslunarmanna í stjórn Kaupþings hins fallna er ótrúleg hryllingssaga um firringu í því samhengi.
Þessi bakgrunnur leiðir mann því til að álykta að þeir sem eru svo heppnir að eiga fé til ráðstöfunar (umfram skyldusparnað) muni huga að því að stjórna fjárfestingum sínum sjálfir í stað þess að treysta á sjóðstjóra fjármálafyrirtækja í því sambandi. Sagan sýnir að þeir hafa tilhneigingu til að gæta fyrst og fremst hagsmuna síns fyrirtækis og, þegar þeir hafa aðstöðu til, sinna eigin. Trúverðugleiki slíkra aðila hefur brostið illilega. Það er ekki hér með sagt að allir slíkir séu undir þá sök seldir, en skemmdu eplin í pokanum hafa smitað út frá sér. Þegar fjármagnseigandinn stingur hendi sinni í þann poka veit hann ekki fyrirfram hvort hann hreppir skemmt epli eða ekki.
Ég velti fyrir mér nokkrum atriðum þessu tengd í pistli mínum um það hvort lífeyrissjóðsiðgjöld launafólks séu skattlagning í reynd og þannig fjárinnlegg í nokkurs konar fjárfestingasjóð ríkis og atvinnulífs. Í því sambandi er einmitt vafamál að hve miklu leyti sá sparnaður skilar sér aftur til launþeganna, sparendanna. Annað mikilvægt atriði í því sambandi er jafnframt það að í því (núverandi) fyrirkomulagi hefur sparifjáreigandinn, launþeginn, ekki yfirráðarétt yfir fé sínu sem honum er gert að leggja inn í lífeyrissjóð. Er það hið besta sem á verður kosið?
Í öðrum pistli velti ég ennfremur fyrir mér réttmæti raka fyrir núverandi stefnu Seðlabankans varðandi stýrivexti og hinu magnaða lögmáli eftirspurnar og framboðs varðandi leiguverð á fjármagni, vöxtum, í ljósi gildandi gjaldeyrishafta. Þar er einnig imprað á því m.a. hvort sparifjáreigendum og lántakendum er gert jafn hátt undir höfði.
Kristinn Snævar Jónsson, 10.8.2009 kl. 16:50
Ég mundi frekar segja að peningar þyrftu að skipta um aðsetur. Það er nauðsynlegt að það sé framleitt og verslað til að halda markaðinum gangandi.
Ég fer blandaða leið. Ég fór með gömlu gönguskóna mína og lét skósmiðinn gera við þá. Hann fær vinnu við það. Svo sá ég skó á 13 þús sem sagðir eru kosta 25-30 þús. Býst við að kaupa þá og nota spari.
Ég er íhaldssamur varðandi bifreiðar. Mágur minn var í vandræðum með gamla jeppann sinn. Hann þurfti að farga honum. Ég tók það að mér og lét rífa jeppann. Fékk varahluti að verðmæti 200 þús og gaf strákum afganginn af jeppanum sem rifu hann en borgaði þeim líka peninga. Með þessu fengu strákarnir vinnu, jeppinn gjörnýttur og aukinn lífsgæði hjá mági mínum að þurfa ekki að hafa áhyggjur af jeppanum. Og gjaldeyrissparnaður vegna varahluta.
Ég fór í Ikea og keypti mér 12 vatnsglös á 950 kr, svipuð glös kosta 2760kr annarsstaðar. Með þessu hressi ég upp á hjúskapinn og hef konuna ánægða, græði smávegis og held markaðinum gangandi.
Með þessu er ég búinn að hafa töluverð áhrif á efnahagsmálin og lífskjör og mun halda svona áfram.
Að lokum vil ég hvetja fól til að gera slátur í haust til síðasta blóðdropa.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 10.8.2009 kl. 18:48
Lilja er kannski að vara við því að peningarnir muni brenna upp í bönkunum ef fólk tekur þá ekki út strax og eyðir/ráðstafar þeim. Svo er til önnur aðferð en það er að geyma þá á öruggari stað en bönkunum en Lilja hefur ekki viljað nefna það þar sem hún situr í núnverandi ríkisstjórn.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2009 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.