Getur gengið gengið?
17.8.2009 | 09:43
Þrátt fyrir alla mína trú á markaðnum og frelsi í viðskiptum tel ég tímabært að viðurkenna að markaðsöflin ráða mjög illa við gengi íslensku krónunnar. Tel því koma til álita að aftengja hana markaðnum og nota handaflið á ný!
Þetta myndi að sjálfsögðu hafa margvíslega hagræn áhrif í för með sér og sjálfsagt munu einhverjir hagfræðingar súpa kveljur yfir þessari afturhaldssemi. Á móti kemur að öll sú hagfræðiviska sem við höfum notið undanfarin ár gat ekki komið í veg fyrir það ástand sem nú er hér.
Hér áður var gengið fellt reglulega til að koma útflutningsgreinunum til hjálpar. Það var auðvitað gert á kostnað almennings og lífskjara í landinu. Mjög mikið af þeim vandamálum sem steðja að heimilum og atvinnurekstri tengist því að gengisvísitalan er of há. Flestir virðast sammála um það. Nú ættu stjórnvöld að taka sig til og hækka gengi krónunnar og koma gengisvísitölunni í amk. 170 stig. Síðan þarf að vinna markvisst að því að taka upp erlendan gjaldmiðið á einhverju sanngjörnu og eðlilegu skiptigengi og þá þarf að horfa til lífvænleika efnahagslífsins til lengri tíma. Ég tel að eitt af samningsmarkmiðum aðildarviðræðna við ESB eigi að vera að fá að tengja íslensku krónuna við Evru nú þegar.
Hér þarf þó að hafa í huga að veik króna þjónar hagsmunum tiltekinna afla, s.s. útflutningsgreinum og að einhverju leyti fjármálageiranum. Það kann því að vera að það sé engin sérstakur áhugi á að styrkja krónuna næstu mánuði. Það gangi bara ekki að segja það opinberlega.
Spurningin er bara sú hversu lengi á að bjóða almenningu upp á slíkt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.