Niðurfelling skulda!
19.8.2009 | 09:37
Það að stjórnmálamenn skuli aftur vera farnir að tala um það í alvöru að fella niður skuldir heimila er verulega til umhugsunar. Dreg satt best að segja í efa að menn séu að tala í alvöru enda er almenn niðurfelling skulda afar slæm hugmynd að mínu viti.
Það er að sjálfsögðu satt og rétt að sumir eru fórnarlömb efnahagshrunsins og sitja saklausir uppi með skuldir sem þeir töldu sig ekki hafa stofnað til. Þetta er fólk sem tók gengistryggt lán til íbúðarkaupa í góðri trú, og samkvæmt ráðgjöf, um að þetta væri ábyrgur gjörningur.
Það er hins vegar einnig satt og rétt að margt fólk hefur, er og verður afar óábyrgt í fjármálum. Þetta eru einstaklingar sem keyptu sér miklu dýrari eign en þeir höfðu í raun efni á, "hentu" öllu út og endurinnréttuðu samkvæmt nýjustu tísku og straumum og tóku erlent lán fyrir öllu saman.
Það er beinlínis móðgun við sæmilega ábyrgt fólk sem reynir að standa sig að bjóða því upp á þessa hugmynd. Það er einnig undarlegt, ef satt reynist, að fyrirtækjum og fjárfestum bjóðist einhver önnur kjör en skuldugum heimilum.
En hvað er þá til ráða? Ekki er hægt að láta fyrirtækjum og heimilum blæða út hægt og rólega. Hafi menn misst trú á markaðsöflunum, og vilji handstýra efnahagsmálum enn frekar, væri miklu nær að leiðrétta skuldastöðu heimilana með því að fastsetja gengið í einhverri þeirri vísitölu sem menn gerðu ráð fyrir, fyrir u.þ.b. 18 mánuðum síðan. Þá gáfu sumar greiningardeildir bankanna út að gengisvísitalan ætti að vera 150-160 stig. Hún er núna 237 stig! Þetta væri ekki gallalaus aðgerð en ástandið nú er alls ekki gallalaust og hve lengi vont getur versnað áður en það batnar veit ég ekki.
Það er einnig til umhugsunar að nota aðgerðir stjórnvalda gagnvart peningamarkaðssjóðum sem rök fyrir skuldaniðurfellingu. Hvort sem það var góð, slæm, réttlát eða óréttlát aðgerð þá væri þetta eins og að handa góðum peningum á eftir slæmum. Það eru því miður algeng mistök stjórnenda og stjórnvalda.
Athugasemdir
Þórhallur hvað var gert þegar menn tóku lán? sem voru óverðtryggð hér áður hver tók skellinn þegar verðbólgan æddi af stað voru það ekki þeir sem lánuðu þá.
Það er ekki sanngjarnt að þeir sem tóku lán og fóru í greiðslumat og fengu lán samkvæmt því í íslenskum krónum sitji einir eftir með skaðann þeir sem lánuðu eru með allt sitt á þurru og þeir sem áttu peninga í bönkum eru tryggðar sínar eignir en þeir sem áttu sparifé í húsnæði tapa því öllu og meira til án þess að hafa gert nokkuð annað en að fara eftir leikreglum samfélagsins.
Þeir sömu eru að mynda eiginfé í nýju bönkunum með óðeðlilegum greiðslum á skuldum sem eru uppreiknaðar á vísitölu sem er búin til af misvitrum stjórnmálamönnum.
Það getur ekki staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mismuna fólki svona gróflega, síðan er fyrirtækjum lánað án veða og þær kröfur feldar niður um sem skiptir miljörðum á hvert og eitt sem þannig lán fengu.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 19.8.2009 kl. 10:26
sæll Þórhallur
Þú nefnir að þú getir ekki sagt fyrir um hve lengi vont geti versnað áður en það batnar.
En ég get sagt þér það.
Svarið er ósköp einfalt, Þú getur eifaldlega tekið heildar skuldir þjóðarinnar og deilt í með fjölda vinnandi manna. Reiknaðu svo vexti og afborganir af þessum skuldum bættu svo við kostnaði við almennar neysluvörur. Og skoðaðu hvað er eftir.
Í dag er líklega ekkert eftir, og miðað við horfurnar næstu árin má búast við að almenningur og fyrirtæki fari ekki í neinar framkvæmdir næstu 15 til 20 árin.
Það þarf engan kjarneðlisfræðing til að sjá að eina leiðin til að koma þjóðfélaginu á stað aftur er að fella niður skuldir.
En það þarf hagfræðing til að sjá það ekki.
Sigurjón Jónsson, 19.8.2009 kl. 11:13
Það er líka spurning núna um getu ríkissjóðs til að standa að almennri niðurfellilngu skulda.
Vandamálið okkar hvað skuldir einstaklinga varðar er að við erum með ólíkt lánakerfi því sem gerist í okkar heimshluta. Við erum með verðtryggingu og síðan komu gengisbundnu lánin. Leiðréttind á því misvægi sem varð við og fyrir hrunið er það sem þarf að skoða eins og þú bendir á. Síðan verðum við að koma á lánakerfi sem er sambærilegt því sem er í nágrannalöndum okkar en þá verðum við líka að vera með mynt sem er í lagi.
Hins vegar svíður fólki eðlilega að sjá að þeir sem fengu milljarðana að láni semja við bankana um skuldir sem þeir geta aldrei greitt og halda áfram að reka fyrirtækin sín og eru fínt fólk eins og ekkert hafi í skorist. Síðustu fréttir eru að 4 milljarða skuld 365 miðla sem eru að verulegu leyti ótryggðar séu í frystingu og ekkert greitt af þeim. Það er í boði Samfylkingarinnar Haraldur en eigandi 365 er stærsti styrktaraðili Samfylkingarinnar. Er nokkuð óeðlilegt að venjulegt fólk vilji fá sömu kjör?
Það verða sömu reglur að gilda fyrir alla og ég er í meginatriðum sammála því sem þú ert að skrifa en það verður að leiðrétta misvægið sem skapast vegna verðtryggingar og gengisbundnu lánanna.
Jón Magnússon, 19.8.2009 kl. 11:24
Frekar þykja mér rök þín slæleg. Þú einblínir á gengistryggð lán, en gleymir algerlega öllum hinum, sem tóku sín húsnæðislán í góðri trú, t.d. hjá ÍLS, í íslenskri krónu, en verðtryggð. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Gengisfall krónunnar olli verðbólgukúf, hafi það farið framhjá þér, sem að sjálfsögðu hækkaði öll verðtryggð lán í landinu. Líka þeirra sem hafa ætíð farið varlega í fjármálum. Þannig eru ekki bara "sumir" fórnarlömb hrunsins, heldur ALLIR þeir sem bera verðtryggðar skuldir. Flestir, ef ekki allir þeirra höfðu reiknað með verðbólgu á því róli sem hún var, og jafnvel vonast eftir að verðbólgumarkmiðum Seðlabanka yrði náð. Að tala um "móðgun við sæmilega ábyrgt fólk" er náttúrulega fráleitt. Bankarnir hafa nú þegar ákveðið að fara afskriftaleiðina, hún er bara enn sem komið er þvinguð.
Þvinguð á þann hátt, að fólk fólk og fyrirtæki eru þvinguð í gjaldþrot, og skuldir afskrifaðar í kjölfarið. Enn sem komið er reyndar bundið að mestu við fyrirtæki.
Megin röksemdin fyrir því að skoða þessa leið af fullri alvöru, er hinsvegar nauðsyn þess að koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur. Fólk er að missa trúna á að ástandið lagist á næstunni, og þ.a.l. missir það viljann til að greiða af lánum sem það sér aldrei fram á að ná að klára. Það ástand má ekki grafa um sig, því þá verðum við fyrst í vandræðum.
Lilja Mósesdóttir hefur talað um þetta af skynsemi, og þannig þarf að ræða um málið, en ekki með einhverjum sleggjudómum.
Auðvitað fóru einhverjir óvarlega í fjármálum sínum, og þeim verður sennilega ekki hægt að bjarga.
Þú talar um að "fastsetja gengið" en hvað er það annað en skuldaniðurfelling. Á sama hátt hefur fólk talað um að færa vísitölu handvirkt niður í það sem hún var í janúar 2008 (samþykkt flokksþings Samfylkingar) sem er náttúrulega það sama.
Á endanum komumst við væntanlega að þeirri niðurstöðu að það sé vænlegra að fólk geti og vilji greitt af lánum sínum, og við leitum allra leiða til að gera þeim það kleift. Einhverskonar afskriftir skulda hljóta að koma þar að, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Lifðu heill.
Jón S. (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 11:51
Ríkið hefur með Icesave-samningnum gengst við einhverri ábyrgð á því hvernig fór fyrir efnahagskerfinu og talið sig bera hluta af sökinni. Sé svo er eðlilegt að hluti af þeim skaða sem skuldarar hafa lennt í vegna efnahagshrunsins (t.d. nafnvextir umfram 10%) séu skilgreind sem sameiginlegt vandamál frekar en einstaklingsvandamál.
Héðinn Björnsson, 19.8.2009 kl. 12:48
Þetta snýst allt um verðbólguna og gengi krónunnar sem enginn virðist hafa áhyggjur af. Ef verðbólgan fer niður (það má gjarnar verða verðhjöðnun) og gengið styrkist þá jafnar þetta sig mikið. Það er ótrúlega há verðbólga núna sem haldið er uppi af skattahækkunum og lágu gengi krónunnar. Þetta verður að stoppa til þess að það verði byggilegt hér.
Dagrún (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 15:13
Kæri dósent,
það að tala niður hugsanlegar afskriftir eða leiðréttingar þykir mér þunnur þrettándi og lýsi ég þá eftir þínum leiðum til að:
1. forðast flótta okkar besta fólks
2. koma fjárfestingu af stað í hagkerfinu
3. koma neyslu af stað í hagkerfinu
Það liggur fyrir að forsendubrestur á sér stað hjá flestum lántakendum er trúðu: stjórnvöldum, seðlabanka, eftirlitsstofnunum og síðast en ekki síst bönkunum sjálfum !
Ofan í þetta er einstakt tækifæri til staðar þar sem afskriftirnar eiga að lenda hjá þeim sem með réttu á að bera tjónið....hjá þeim sem FJÁRMAGNAÐI ÞAÐ ! Í öllum þróuðum hagkerfum er það fjármögnunaraðili sem ber tjón af rekstrarerfiðleikum eða vanskilum er þar af hljótast. Í tilfelli Íslands eru það erlendir aðilar er fjármögnuðu bankakerfið okkar.
Allt tal um að ríkiskassinn, íbúðalánasjóður og slíkt þurfi að bera afskriftirnar er tómt bull og lýsir bara vankunnáttu þeirra sem það telja upp. Þegar hagkerfi "fer á hausinn" tapar sá sem lánaði því og til að koma Íslandi af stað uppá nýtt (s.k. Endurreisn) er fullkomlega nauðsynlegt að fara í skuldaleiðréttingu.
Undirritaður telur þó að um almenna niðurfærslu verði ekki að ræða því þá flækist Íbúðalánasjóður inn í dæmið, en gengistryggð lán þarf að færa niður og færa til JAFNS við þá er skulda verðtryggt.
Með því að færa ALLA (jafnt fyrirtæki sem og einstaklinga) að sama borði, t.d. með því að leiðrétta skuldir eins og allar skuldir hafi verið verðtryggðar frá lántökudegi, eru allir settir að sama borði og engum hyglt umfram almenna skynsemi.
Ef þetta gerist ekki og málið þvælist enn frekar fyrir okkar miður götugreindu stjórnvöldum þá eru lífskjörin farin og framtíð landsins með þeim.
Nonni (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 21:28
Stjórnvöld ákváðu að stofna Nýja Banka útúr gjaldþrota bönkunum LAI, KAU og GLB.
Nýji Bankinn er því neyddur til að fjárfesta á Íslandi, með því að kaupa lán og aðrar eignir er hinir bankarnir áttu í hruninu. Þessi lán og þessar eignir eiga sér bókfært verð og markaðsverð. Getur einhver gefið Íslenskum eignum markaðsverð í dag ? Nei og það er hreinlega ekki hægt svo hafið verði yfir gagnrýni.
Undir slíkum kringumstæðum á því Nýji Bankinn að "kaupa" eignirnar á verði sem hann getur nær ávallt sætt sig við og það miðað við nær fullkomlega svartsýnar horfur í efnahagslífi, eftirspurn og fjárfestingu etc.
Þetta "verð" er lágt og á að endurspegla óvissuna sem ríkir á Íslandi í dag. Skuldari láns á því ekki að borga fullar endurheimtur fyrst Nýji Bankinn er ekki að borga verð er endurspeglar fullar endurheimtur Nýja Banka.
Með því að framlengja þennan afslátt til skuldaranna (heimilanna/fyrirtækjanna) er kominn grundvöllur fyrir framtíð efnahagslífs Íslendinga og einhver fótfesta komin á.
Athygli skal vakin á að þetta er ekki til að forðast gjaldþrot heimila og fyrirtækja sem verst eru sett, það fóru sumir allt of geyst í lántökur. En hinn venjulegi Jón verður að geta fengið grundvöll fyrir sinni framtíð svo að allt fari ekki hér í stopp og þá á ég við atvinnustigið, neyslustigið og fjárfestingu.
vinur Nonna (IP-tala skráð) 19.8.2009 kl. 21:43
Ég vill eingöngu fá til baka þær byrgðar sem voru lagðar á lán mín þegar ríkið tryggði allar innistæður þeirra sem áttu peninga í bönkunum. Þeir voru fljótir að því en að hjálða okkur sem skuldum í eignum okkar töluvert meira út af þeim gjörningi. við sátum uppi með verðbólgu gengisfall auk breskra og hollenskra sparifjárseigenda sem vildu jafnrétti miðað við Íslendingana. af hverju var í lagi að bjarga fólki sem átti tugi og jafnvel hundruði milljóna þegar bankarnir hrundu á okkar kostnað en svo má ekki bjarga okkur úr þeim vandræðum sem þessi gjörningur olli. lækkið lán mín um 30-40% því að það eru beinar afleiðingar þessa gjörnings
Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 00:33
bull og vitleysa í þér þórhallur, ég er einn af þeim sem tók erlend lán uppá 17 millur og stendur það í dag í um 40 mill með kostnaði, ég get ekki borgað mismuninn bankinn vill ekki semja og ég get ekki borgað og er því á leyð í gjaldþrot jejj. bankinn á að vera 50% ábyrgur fyrir því að gefa mér lán og niðurfella helming lánsins. þá get ég haldið áfram að borga og allir eru ánægðir. annars borga ég ekki neitt og þeir tapa öllu. hvort er gáfulegra ?
Gunnar (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 09:02
Það væri freistandi að skrifa hér einhverja langloku, en einfaldast kannski bara að spyrja þig einnar einfaldrar spurningar: Er einhver munur á því að fastsetja skráð gengi vísitölu (bakfæra) eða á því að fella niður skuldir ef miðað er við sama tímabil?
Baldvin Jónsson, 23.8.2009 kl. 21:22
Á þessu er mikill munur.
Niðurfelling skulda snýr aðeins að skuldurum. Gengisbreyting er almennari aðgerð og snertir alla, einnig þá sem lítið eða ekkert skulda. Þetta myndi örfa viðskipti.
Einnig gætu stjórnvöld ákveðið að yfirtaka erlendar skuldir á sanngjörnu gengi og breytt þeim í krónulán. Síðan mætti endurlána skuldurum miðað við efni og aðstæður.
Þórhallur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 22:20
Ég hef talað lengi fyrir leiðréttingu gengisskráningar vísitölunnar og sýnist á þessu svari þínu að þú styðjir þá hugmynd.
Mér hefur þó sýnst að þessar tvær hugmyndir komi afar svipað út gagnvart aukningu neyslu í samfélaginu.
Þetta snýst kannski meira um hvaða leið menn vilja fara út frá siðferðilegum sjónarmiðum.
Á að aðstoða þá sem voru illa leiknir af fjárglæframönnum og eftirlitsleysi stjórnvalda og lækka hjá þeim skuldir á kostnað allra eða á að bakfæra skráningu vísitölunnar og ná þar með fram almennri leiðréttingu? Þ.e.a.s. lækkun skulda hjá skuldugum og lækkun tekna hjá þeim sem beinlínis græddu á hruninu.
Þessar vangaveltur, þó að þær snúist um peninga, eru samfélagslegar og snúast um það siðrof sem hér hefur orðið. Það er talið líklegt að gerendur í hruninu hafi beinlínis hagnast á því að lækka gengi krónunnar og samfélagið vill sjá þeim refsað.
Bakfærsla skráningarinnar er síðan að mínu mati réttlátari leið þar sem að kosntaðurinn við aðgerðina er þá að miklu leyti greiddur með því fjármagni sem varð til við óðaverðbólguna.
Baldvin Jónsson, 24.8.2009 kl. 11:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.