Orsök eða afleiðing?

Ég hef sjaldan fengið eins mikil viðbrögð og við síðasta pistli mínum sem fjallaði um skuldaniðurfellingu.
Sumir virðast álíta að ég sé ekki mannvinur og vilji ekki að fólki sé komið til aðstoðar! Þetta er auðvitaða alrangt. Ég tel mikilvægt að leitað sé leiða til að leiðrétta þau undarlegheit sem átt hafa sér stað í efnahagslífinu.

Ástæðan fyrir því að ég tala gegn almennri niðurfellingu skulda er sú að þá væri verið að rugla saman orsök og afleiðingu. Það eru mjög algeng mistök. Afleiðingar eru eins og sjúkdómseinkenni. Það að ná tökum á sjúkdómseinkennum táknar ekki að maður hafi náð tökum á sjúkdómnum. Verði ekkert meira að gert mun sjúkdómurinn taka sig upp á ný með nýjum eða sömu sjúkdómseinkennum.

Skuldaaukning heimilana er því sjúkdómseinkenni af einhverju öðru. Það að fella niður skuldir og álíta út frá því að búið sé að leysa eitthvert vandamál er misskilningur. Það er mjög mikilvægt að greina orsökina og vinna gegn henni. Að sjálfsögðu á ekki að láta sjúkdómseinkennin afskiptalaus. Tel reyndar að það sé verið að gera eitthvað í þeim. Menn geta svo deilt um það hvort meðferðin sé nægilega góð eða rétt.

En hver er þá orsökin? Líklega ekki einhver ein heldur sambland margra þátta. Eitt af því sem ég hef verið að skoða undanfarin ár er hugtakið KAUPVILJI í eftirspurnarfræðum. Ég tel einfaldlega að ein af orsökum fjárhagsvanda sumra sé of ríkur kaupvilji!

Meira um það síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Það er kannski kaupvilji en það er nánast eini möguleikinn til að fá húsnæði. Leiguhúsnæði á landinu hefur ekki þrifist vegna verðlags eins og almenningur veit. Allt verð er sprengt upp og þessir sem eru/voru ráðnir til eftirlits og skipulags verðlags í landinu það eru starfsmenn ráðnir ævilangt út frá stjórnmálaskoðunum. Af hverju kosta flestar vörur og þjónusta 400-700% meira hér en á hinum norðurlöndunum?.Hvað gerir fólk við launin sín áður en þau hverfa í verðbólgu og stöðugar hækkanir?Þetta er svipað ástand og á Grænhöfðaeyjum í Afríku nema hér hefur verið vinna fyrir alla sem nennt hafa.

Þetta veit Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 23.8.2009 kl. 20:26

2 identicon

Það er ekkert í þessu sem heitir algildur sannleikur. Það hefðu verið mistök að boða skuldaniðurfellingu árið 2007, þar sem aðgengi að fjármagni var fáránlega auðvelt. Árangurinn hefði væntanlega verið olía á neyslubálið.

Niðurfelling skulda í dag lúta bara ekki sömu lögmálum. Það er engin lánastofnun að lána út fé, hvorki til neyslu né fjárfestinga. Það er heldur ekkert í kortunum að það komi til með að breytast í bráð.

Og einkaneyslan er komin niður fyrir það sem "eðlilegt" getur talist, enda afleiðing af því að fólk er hreinlega of skuldsett og orðið fyrir tekjurýrnun.

Minnkandi neysla var í sjálfu sér hið besta mál, en fyrr má nú rota en dauðrota. Við rekum ekki íslenskt velferðasamfélag ef engin verður neyslan. Og þar sem að neyslan framundan verður ekki aukin með lánum, gerist það með því að létta skuldaálögum og þannig að auka umráðafé fólks.

Stærsti hluti eignasafns hinna föllnu banka (öruggu veðin) eru í fasteignum landsmanna. Að stórum hluta eru þessi veð verulega ofmetin. Einnig eiga bankarnir þúsundir eigna sem liggja engum til gagns. Ekki er hægt að koma þessum eignum í verð, enda ofmetnar í bókhaldi og eru eingöngu til þess að fegra stöðu bankanna.

Á einhverjum tímapunkti verður að afskrifa þessi veð að einhverjum hluta. Annað væri raunar skýrt og klárt brot á lögum, þar sem engar líkur eru á að þessar eignir hækki í verði á næstunni.

Í stöðunni í dag er skuldaniðurfelling stærsti þátturinn í að lækna orsökina. Afleiðingin af því að fresta þessu (þar sem skuldaniðurfelling eða afskriftir verður hvort eða er á einhverjum tímapunkti) verður áframhaldandi hnignun íslenska þjóðfélagssins.

Ég hef eng trú á að þú sért ekki mannvinur. Ég held þú gerir þér bara ekki grein fyrir því hvað er orsök og hvað afleiðing í því ástandi sem við höfum komið okkur í.

Orsakir og afleiðingar þurfa nefnilega ekki að vera þær sömu á mismunandi tímum.

Hilmar Hilmarsson (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 22:31

3 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Eftir hrun má skipta þjóðinni í tvo hópa. 

Í fyrri hópnum eru fjármagnseigendur.  Þeir eiga ákveðnar upphæðir á reikningum sem bera þar ágæta vexti (líklega þá hæstu á Vesturlöndum).  Ríkisstjórnin lýsti því yfir um leið og þetta ástand skapaðist að allar innistæður þeirra væru tryggðar og hagsmunir þessa hóps þar með.  Næstu tvær ríkisstjórnir hafa hvergi hvikað frá þessari afstöðu.  Þarna má segja að almennum aðgerðum hafi verið beitt og engan hef ég heyrt halda því fram að þær hafi þótt of dýrar.  Ekki einu sinni félagsmálaráðherran okkar hann Árna Pál, sem virðist ekki geta komið í viðtal hjá fréttamanna án þess að lýsa þeim áhyggjum sínum.  Má spyrja, kostaði það ekkert Ríkissjóð að koma bönkunum á réttari kjöl?  Kostaði ekkert innspýtingin sem hófst þá þegar Kaupþingi var veitt 500 milljóna lán?  Ég ætla ekki að draga í efa réttmæti þeirra aðgerða en vil minna á þessi útgjöld í þessu samhengi.

Í seinni hópnum eru þeir sem skulda.  Langflestir fylla þennan hóp vegna skulda sem mynduðust við kaup heimilis og bifreiða.  Ef viðkomandi hefur svo einnig misst vinnuna er staðan þeim mun alvarlegri.  Þarna skortir raunverulegar aðgerðir ríkisstjórnanna þriggja.  Við sjáum augljóslega hversu misskiptur velvilji ríkisvaldsins hefur verið eftir því hvorn hópinn maður fyllir.  Þess vegna er tilkomin þessi reiði og réttlætiskennd stórs hluta þjóðarinnar er misboðið.

Það þótti nauðsynlegt að verja bankakerfið og almennum aðgerðum var svo sannarlega beitt með almannafé, en það er yfirlýst stefna stjórnvalda að slíkt komi ekki til greina heimilunum til varnar.

Helgi Kr. Sigmundsson, 24.8.2009 kl. 08:14

4 identicon

Verðtrygging og gengisviðmið lána eru kerfi sem búin voru til af annars vegar stjórnmálamönnum og hins vegar bankamönnum (svona í grófum dráttum). Þessi kerfi eru sem sagt mannanna verk en ekki náttúrulögmál, við skulum muna það vel og vandlega og minnast á hverjum degi.

Nú er rétt að halda því til haga að lán með gengisviðmið voru ekki veitt í erlendri mynt heldur íslenskum krónum. Bankarnir fjármögnuðu þau hins vegar með erlendum gjaldeyri sem þeir lofuðu að yrði ávaxtaður meira og betur en annars staðar þekktist. Til að tryggja hagsmuni og eyða áhættu bankanna var sett gengisviðmið á íslensku lánin með þeim afleiðingum að lántakendur sitja núna í súpu gengisfallsins.

Við skulum ekki ræða það frekar hvers hvegna gengið hrundi né hversu ólögleg þessi gengisviðmiðuðu lán klárlega eru. Er verið að rannsaka þessi (meintu) lögbrot og má búast við því að ákærur verði lagðar fram? Það er ekki nema von að virðing fyrir landslögum dvíni ef slíkt er látið óátalið.

Það er augljóst að þessi tvö kerfi til að tryggja hag lánveitenda hafa þann innbyggða galla að þau réðu alls ekki við þær aðstæður sem upp komu hér á landi árið 2008.

Þegar verðtryggingin var >tímabundið< sett á til að vinna á óðaverðbólgu á sínum tíma gat enginn séð fyrir hvernig þessi tilraun með nokkurn veginn óhefta markaðshyggju mistókst gjörsamlega og endað með ósköpum á síðasta ári.

Vísitala verðtryggingar endurspeglar vissulega verðbólguna sem slíka en verðbólga síðustu mánaða og missera er í eðli sínu ekki eins og óðaverðbólgan sem verðtryggingin var sett til höfuðs. Það átti strax við hrunið að verjast þeirri holskeflu sem gengishrunið drekkti vísitölunni í, það þurfti líklega ekki einu sinni að breyta lögum. Vísitölugrunnurinn er endurskoðaður reglulega og það átti að bregðast við strax í október með því að breyta honum.

Það eina skynsamlega í stöðunni er að leiðrétta þessi kerfi með hóflegum hætti. Tilfinningar og reiði mega ekki bera okkur ofurliði þannig að gengið verði of langt í leiðréttingunni. Það mætti t.d. miða við gengi og vísitölu 29.02.2008, þ.e.a.s. í því stutta hléi sem gert var á tilræðinu við krónuna í upphafi árs 2008.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki sanngjarnt að lánveitendur, sama hversu illa eða með hrokafullum og miskunnarlausum hætti þeir hafa komið fram við lántakendur, taki allan skellinn. Lántakendur þurfa einnig að bera nokkra ábyrgð á neysluveislunni og þess vegna má ekki fara of langt aftur í tímann. Það má ekki "ofstýra" í hina áttina, þá lendum við bara útaf þeim megin.

Því er haldið fram að ríkissjóður geti ekki staðið undir neinum aðgerðum sem annað hvort fela í sér niðufellingu skulda (sem ég tel lakari leið) eða nauðsynlega og réttláta kerfisleiðréttingu (sem áreiðanlega er mun ódýrari, einfaldari og réttlátari aðgerð). Hins vegar hef ég ekki orðið var við að þessi fullyrðing um vanmátt ríkissjóðs hafi nokkurn tímann verið rökstudd eða útskýrð á einn eða annan hátt. Því leyfi ég mér að halda því fram að þetta flokkist undir hræðsluáróður, a.m.k. þangað til sýnt verður fram á þau raunverulegu áhrif sem slíkar aðgerðir hefðu á ríkissjóð.

Þá er einnig gerð sú krafa að þeir hinir sömu sýni fram á að það sé þjóðinni hagkvæmara að leggja fjölda fjölskyldna og fyrirtækja í rúst heldur en að leiðrétta hin augljóslega gölluðu kerfi.

Það er líka undarlegt ef ríkissjóður á að geta staðið undir okursamningunum við Breta og Hollendinga vegna innstæðutrygginga en getur á sama tíma ekki búið okkur skattgreiðendum landsins skilyrði til að búa hér við mannlega reisn. Frekar skal reka fjölskyldur og fyrirtæki í þrot til þess að báknið bogni síður. Fólkið í landinu má hins vegar brotna undan okinu.

Við hvað eru menn hræddir - að hér fari allt á vonarvöl? Ef ekkert verður að gert, þá stefnum við hvort sem er óðfluga í þá átt nú þegar. Þeir sem verst eru settir eru ýmist orðnir gjaldþrota eða stefna hraðbyri í þá átt.

Hættan er sú að þjóðfélagið rakni hægt og sígandi upp neðan frá, líkt og gömul lopapeysa. Það mun fjölga í hópi þeirra sem ennþá ná að standa við sínar skuldbindingar en geta það ekki til lengdar. Hægt og bítandi sogast einnig niður í hringiðu greiðsluþrots þær fjölskyldur sem mikilvægastar eru gangverki samfélagsins.

Barnafólk sem vinnur hörðum höndum að því að koma þaki yfir fjölskylduna og leggur líklega meira til veltuskatta og tekjuskatts en margir aðrir þjóðfélagshópar. Upp til hópa ungt fólk sem til þessa hefur lítið borgað fyrir fasteign sína annað en vexti og verðbætur eða álag vegna gengisviðmiðs.

Nú skora ég á þá sem þau rök nota að ríkissjóður þoli þetta ekki að útskýra hvernig ríkissjóður er betur settur með mikinn samdrátt tekna af veltusköttum. Það er óhjákvæmileg afleiðing þegar fjölskyldur og fyrirtæki draga verulega úr neyslu, ýmist til að leggja fyrir, þ.e. þeir sem eru aflögu færir eða hreinlega af ýtrustu neyð. Á að hækka tekjuskattinn aftur/meira - sem myndi þá draga enn frekar úr neyslu og fjárfestingu?

Það er ótrúleg sjálfsblekking að halda því fram að efnahagsreikningur banka, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða þoli ekki hina nauðsynlegu kerfisleiðréttingu. Ljóst er að drjúgur hluti útistandandi lána þeirra eru gegn veði sem núna dugar ekki fyrir lánunum og greiðslubyrði sem lántakendur standa ekki undir. Það er að óbreyttu fyrirséð að lántakendur í stórum hópum geta aldrei greitt þessi lán til fulls.

Ef krónan styrkist einhvern tímann svo mikið að höfuðstóll og greiðslubyrði gengisviðmiðaðra lána nálgist eitthvað raunveruleikann þá mun það lítt gagnast þeim sem þá verða löngu búnir að missa eignir sínar í hendur lánardrottna sinna. Það er þess vegna lítilsvirðing við þann hóp að benda á að ástandi eigi mögulega eftir að batna í framtíðinni. Það er álíka boðskapur og hjá bönkunum sem töldu það víst útilokað að gengi íslensku krónunnar myndi nokkurn tímann hrynja eins og raun varð á.

Til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána lækki svo eitthvað muni um þá þarf að auki að verða hér umtalsverð verðhjöðnun til lengri tíma. Hér á það sama við og með gengisviðmiðuðu lánin, allt tal um væntingar til framtíðarinnar eru hjóm eitt hjá þeim sem ekki geta beðið svo lengi.

Lærðum við ekkert af hruninu og aðdraganda þess? Höldum við ennþá að þetta reddist bara einhvern veginn?

Þar fyrir utan hefur það hingað til talist léleg latína að vænta verðhjöðnunar. Efnahagskerfi hinna "þróuðu" ríkja byggir á því að alltaf skrúfist allt upp, "velgengni" þjóða hefur lengi verið mæld með hagvexti. Án þess að við förum nánar út í það hér og nú, þá ætti það að vera hverjum manni til umhugsunar hvernig á því stendur að mælikvarði manngildis skiptir þar litlu eða engu.

Ef þessar "eignir" þessara stofnana (lánin sem við skuldum þeim) eru bókfærðar skv. verðtryggðum höfuðstóli og/eða gengisviðmiðuðum, eru efnahagsreikningar þeirra jafn falskir og kúlubólubullið sem byggðist á skuldum (hringekja með hlutabréf og lán með veði í bleki á pappír) og uppsprengdri "viðskiptavild" (sem í raun var ekkert annað en "platpeningaprentvél").

Við skulum gera okkur grein fyrir því að við eigum allar þessar stofnanir, við eigum ríkið og lífeyrissjóðina að fullu. Við leggjum samfélaginu til rekstrarfé í hvert sinn sem við fáum útborgað eða kaupum í matinn. Við eigum rétt á og gerum réttmæta kröfu til þess að löggjafinn og framkvæmdavaldið hugsi um hag fólksins í landinu, engu síður en innviða þess. Lausnirnar þurfa að snúast um mannfólkið en ekki bókhaldsmöppur.

Þjóðfélagið okkar mun ekki rétta úr kútnum fyrr en þegnar og fyrirtæki þessa lands búa við mannsæmandi kjör og eðlileg starfsskilyrði. Slík umgjörð verður ekki búin til í bráð með því að ríkið eigi stóran hluta atvinnustarfsemi og stjórni með einum eða öðrum hætti í gegnum hina nýju og að því er virðist ósnertanlegu ríkisbanka.

Það er vissulega óhjákvæmilegt að ríkið gerist bakhjarl endurreisnar en það má ekki gerast þannig að öll einbeiting snúist að "eignum" ríkisins og meintum hagsmunum stofnana þess.

Aflið og lífskrafturinn kemur frá fólkinu í landinu - er fólkið í landinu - og það er þjóðinni lífsnauðsyn að trúa á framtíðina, nú sem aldrei fyrr.

TJ (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband