Viðskiptafræði!
25.2.2009 | 09:09
Í kjölfar bankahrunsins hafa komið fram undarleg sjónarmið varðandi nám og kennslu í viðskiptafræði. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt að þessi fræðigrein hefur verið úthrópuð á útifundum og það gefið til kynna að í greininni megi finna orsök efnahagsvanda þjóðarinnar!
Þetta er byggt á mikilli fáfræði um greinina. Viðskiptafræði er samsafn margra undirgreina, s.s. markaðsfræði, stjórnunar, stefnumótunar, fjármála, reikningshalds, mannauðsstjórnunar og alþjóðaviðskipta. Viðskipafræðingar starfa því mjög víða og koma að rekstri ólíkra fyrirtækja og stofnana. Vissulega unnu, og vinna, margir viðskiptafræðingar í bönkunum. Það er fyrst og fremst vegna þess að þar vinnur mjög margt fólk, ekki bara viðskiptafræðingar.
Sú hugmynd að það muni draga úr vinsældum viðskiptafræðinnar meðal háskólanema er dálítið uggvænleg. Sú hugmynd að það eigi jafnvel að hvetja til þess er skelfileg. Stjórnun og rekstur er sérsvið viðskiptafræðinnar. Það væri miklu nær að efla viðskipta- og rekstrarþekkingu þeirra sem koma að rekstri. Það er alltof algengt að það vanti upp á þá þekkingu.
Í öðrum greinum er það kallað fúsk!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ímynd eða ímyndun!
23.2.2009 | 16:50
Ímynd fyrirtækja skiptir miklu máli í nútíma rekstri. Ímynd skiptir einnig miklu máli fyrir staði, fólk og þjóðir. Sama má segja um stofnanir hins opinbera. Mjög skiptar skoðanir eru þó um gildi ímyndar og stundum er hugtakinu ruglað saman við ímyndun og því álitið að ímynd sé eitthvað sem ekki er raunverulegt, sé óekta og hafi lítið raunverulegt gildi.
Þetta er alvarlegur misskilningur. Sá misskilningur er af margvíslegum toga, sumur hafa beina andúð á hugtakinu og aðrir telja að hægt sé að byggja upp ímynd hratt og með auglýsingum einum saman. Vera kann að ímynd sé ekki gott orð í þessu sambandi. Hugsanlega væri betra að nota orðið orðspor, þ.e. að starfsemi, þjóðir og einstaklingar byggi upp orðspor. Hér þarf að hafa í huga að ímynd, eða orðspor, er ekki góð eða slæm, ekkert frekar en heit eða köld. Ímynd getur verið jákvæð eða neikvæð en tengist þó alltaf ákveðnum eiginleikum sem geta verið í eðli sínu jákvæðir eða neikvæðir. Þessir eiginleikar gætu verið frumkvæði, spilling, góð þjónusta, gamaldags eða nýjungagarn svo dæmi sé tekið.
Í nýrri rannsókn sem ég vinn að um þessar mundir er lagt mat á ímynd banka og sparisjóða í kjölfar bankakreppu. Niðurstöður má sjá hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Morgunblaðið
15.2.2009 | 13:43
Á heimasíðu félagsskapar um stofnun almenningshlutafélags um kaup á Morgunblaðinu kemur fram að framundan séu nýir tímar og að ekki sé lögmál að auðmenn eða ríkið eigi fjölmiðla. Þetta er vissulega áhugavert framtak. Óháð stjórnmálaskoðunum þá verða menn að viðurkenna að mikil verðmæti liggja í Morgunblaðinu.
Væntanlegir eigendur þurfa ekki að sækja vatnið yfir lækinn þegar kemur að ritun forsíðugreinar fyrsta tölublaðs sem nýir eiendur standa að. Vek ég athygli á grein í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins, sem kom út 2. nóvember 1913. Þar segir:
"Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað. Reykjavíkurbær hefur enn eigi eignast slíkt blað, þó þörfin hafi verið mikil um mörg ár og mörg nauðsynleg skilyrði hafi þegar verið fyrir hendi. Stjórnmálabarátta sú, sem þjóðin hefir átt í síðasta áratuginn, hefur tekið svo mikið rúm í blöðunum, að þeim hefir eigi verið unt að rita um margt hið skemtilega og nýstárlega, sem gerst hefir innanlands og utan. En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum, þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjarmálum. Þær fréttir munu ritaðar með öllu litlaust." (heimild: hvar.is)
Ég held að það sé eitthvað svona sem þessi ágæti félagsskapur hefur í huga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Viðskiptasóðaskapur!
11.2.2009 | 17:22
Síðustu daga hef ég orðið vitni að hegðun sem ég hef kosið að kalla "Viðskiptasóðaskap". Þetta er hegðun sem einkennist af því að stjórnendur ganga á svig við almenn gildi og nota þvinganir, ógnanir, óbilgirni og ruddaskap til að ná fram markmiðum sínum.
Markmiðin snúast svo ekkert endilega um hagsmuni þeirrar einingar sem þeim er ætlað að stjórna heldur kannski allt annarar einingar sem þeir eru þá einnig að stjórna eða vinna fyrir. Samkeppnislögin taka fyrir hátterni stjórnenda sem kann að vera ólöglegt.
En hver man ekki eftir löglegt en siðlaust?
Viðskiptasóðinn gengur út frá því að ef eitthvað er ekki beinlínis ólöglegt, þá sé það einnig siðlegt. Það er grundvallarmisskilningur. Lög eru mannanna verk og maðurinn er þrátt fyrir allt ákaflega ófullkominn. Siðgæðið er víðara og nær dýpra.
Því er rétt að hlusta eftir því.
Meira um þetta síðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hver og hver og vill og verður!
2.2.2009 | 23:39
Nýja ríkisstjórnin er ekki öfundsverð. Það er eiginlega alveg sama hvað gert verður, alltaf verða einhverjir óánægðir og benda á að einmitt það sem gert var, eða ekki, hafi verið það sem átti ekki að gera eða skorti. Nú, eins og gjarnan gerist í erfiðum aðstæðu, mun koma í ljós að vinir eru færri en maður ætlar, hagsmunir þeim mun ríkari.
Því miður verður að teljast líklegt að efnahagshruninu verði með einum eða öðrum hætti velt yfir á almenning. Enda er óljóst hvert annað ætti að velta því! Þá er mikilvægt að teknar séu ákvarðanir sem eru réttar, mögulegar og sanngjarnar. Hér er ríkisstjórninni vandi á höndum. Það sem einum þykir rétt, kann öðrum að finnast rangt og það sem einum þykir sanngjarnt, kann öðrum að þykja ósanngjarnt.
Til að bæta gráu ofan á svart eru kosningar framundan. Þeir sem lifað hafa nokkur kjörtímabil vita að ekki eru endilega skynsamlegustu ákvaranirnar teknar síðustu vikurnar fyrir kosningar. Getur það verið að nú verði breyting á? Kannski eru utanþingsráðherrarnir merki um breytta hætti. Kannski er það bara liður í vinsældaöfluninni? Leið til að róa lýðinn!
Hvernig sem er þá eru verkefnin næg fyrir hina nýju ríkisstjórn. Það er mikilvægt að á næstu vikum séu teknar margar réttar ákvarðanir. Því er einnig mikilvægt að aðrir stjórnmálamenn láti það ekki eftir sér að þvælast fyrir að óþörfu. Það er einfaldlega allt of mikið í húfi nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðstjórnin...
25.1.2009 | 18:55
... er rangnefni. Það er dálítið undarlegt að líta svo á að stjórn sem samsett er af öllum flokkum á þingi sér þjóðstjórn. Tiltrú þjóðarinnar á núverandi flokka, hvort sem um er að ræða meirihluta eða minnihluta, virðist einfaldlega ekki nægilega mikil til að hægt sé að kalla slíka stjórn þjóðstjórn.
Í ljósi aðstæðna væri því eðlilegt að mynda utanþingsstjórn með fimm ráðuneytum, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
En hverjir gætu gegnt þessum embættum? Sem betur fer eigum við mikið úrval af fólki sem vel gæti tekið við keflinu fram yfir næstu kosningar. Nefni nokkur nöfn:
Forsætisráðuneyti: Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Rannveig Rist forstjóri Alcan, Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar,
Fjármálaráðuneyti: Gylfi Magnússon dósent viðskiptafræðideild HÍ, Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar, Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.
Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti: Sigurður Guðmundsson forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ, Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar,
Atvinnumálaráðuneyti: Páll Jensson prófessor iðnaðarverkfræðideild HÍ, Ingjaldur Hannibalsson prófessor viðskiptafræðideild HÍ, Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar,
Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Páll Skúlason prófessor og fyrrverandi rektor HÍ, Jón Torfi Jónasson forseti menntavísindasviðs HÍ, Ástráður Eysteinsson forseti hugvísindasviðs HÍ.
Bloggar | Breytt 28.1.2009 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Loksins, loksins...
25.1.2009 | 12:00
... hefur einhver af ráðamönnum þjóðarinnar áttað sig á því að enginn einn er ómissandi. Þetta ágæta fólk hefur fram að þessu boðið þjóðinni upp á þann málflutning að fari það frá muni allt fara á versta veg! Einn tók meira að segja þannig til orða, svona til að réttlæta eigin tilvist, að lengi geti vont versnað. Annar taldi að kosningar í vor myndi lengja kreppuna um 2 ár!
Það er mikilvægt fyrir alla að stjórn og lykil embættismenn fari frá. Það verður að skapa eðlilegt svigrúm fyrir aðra til að taka við og gefa þjóðinni ástæðu til að öðlast trú að nýju á því kerfi sem við höfum ákveðið að búa við hér á landi. Það er reyndar hugsanlegt að stjórnvaldið hafi gengið núverandi kerfi svo gjörsamlega til húðar að nauðsynlegt reynist að taka upp nýtt kerfi. Hvaða kerfi ætti þá að taka upp er ekki augljóst.
Nú er spurningin hvað gerist næst þegar viðskiptaráðherra, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og stjórn þess hafa vikið. Atburðarás síðustu daga hefur verið með svo miklum ólíkindum að ómögulegt er að segja til um það. Það verður þó að teljast líklegt að fleiri fylgi í kjölfarið og að stjórnin falli. Maður veit þó aldrei. Það fer allt eftir því hversu ærlegir menn eru.
Ef stjórnin fellur er líklega heillavænlegast að mynduð verði þjóðstjórn valinkunnra karla og kvenna. Líklega duga 5 ráðuneyti til að halda hér málum gangandi. Þetta gætu verið forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti, atvinnumálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Þá er bara að finna fólk sem hefur þekkingu og hæfileika til að takast á við verkefnið. Það þarf ekki að vera mjög mikið vandamál. Í raun er miklu stærra vandamál að ákveða hver ætti að tilnefna þetta fólk. Líklega fellur það í hlut Forseta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Út í vorið!
31.12.2008 | 15:22
Þegar nýtt ár gengur í garð tala margir um að mesta skammdegið sé framundan með tilheyrandi drunga og tómlæti. Þetta tel ég vera alvarlega hugsanavillu. Hið rétt er að vorið er framundan og með hverjum degi þá færist þaðnær og hver dagur öðrum lengri.
Hálf ömurlegt ár er nú að kveðja, eða hvað?. Getur verið að sú atburðarás sem hófst með hruni fjármálakerfisins hafi verið upphafið að einhverju miklu betra? Getur verið að margt annað skipti máli en aðeins efnahagsleg velsæld?
Ég held að ég eigi ekki eftir að sakna vissrar hegðunar í okkar samfélagi. Þetta er hegðun sem einkennist af græðgi, sjálflægni og hálfgerðri heimsku. Hvaða vit er t.d. í því að byrja á því að henda öllu út úr nýlega keyptri íbúð? Hvaða vit er í því að vera láta teikna fyrir sig þriðju eldhúsinnréttinguna á fimm árum? Að mín mati ekki mikið. Ég held að það hljóti að vera hægt að ráðstafa tíma sínum með skynsamlegri hætti. Að ég tali nú ekki um ráðstöfum peninga.
Það er því bjart framundan að mínu mati! Kannski verður maður eitthvað blankari og sumir munu eflaust eiga í verulegum peningalegum vandræðum. Af því þarf að draga lærdóm. Sjálfur þekki ég það ágætlega að hafa fjárhagsáhyggjur. Það er ömurleg tilfinning. Sérstaklega þegar maður uppgötvar að það er svo margt annað sem skiptir miklu meira máli í lífinu. Að sjálsögðu á maður ekki að haga sér eins og kjáni í fjármálum. Það er vísasta leiðin til vandræða.
Ágætur maður sagði eitt sinn við mig að maður yrði að lifa í lausninni en ekki vandanum. Ef maður lifir í vandanum, þá vex hann. Ef maður lifir í lausninni, þá kemur hún. Þetta hef ég reynt að temja mér. Með misjöfnun árangri að sjálfsögðu en æfingin skapar meistarann. Það er eins og það sé meira fyrir því haft að vera jákvæður en neikvæður! Þess vegna þarf að vinna í því að vera jákvæður. Ef maður gerir ekki neitt, þá er hætt við að neikvæðnin banki upp á. Jákvæðnina þarf því að æfa og æfa eins og hverja aðra íþrótt.
Oftar og oftar gengur það betur því æfingin skapar meistarann.
Gleðilegt nýtt ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að fara í Jólaköttinn...
24.12.2008 | 13:11
...hefur ætíð þótt fremur slæmt. Hugsunin á bakvið hugmyndina er sú, eins og flestir vita, að fá ekki þann viðurgjörning um jól sem maður var vanur að fá eða átti von á.
Nú er hætt við að einn og einn fari í köttinn þann alræmda. Ákveðnar stéttir hafa verið drifnar áfram af gildum bónusgreiðslum sem alla jafna hafa verið greiddar út um jól eða áramót. Hætt er við að bónus ársins 2008 verði í rýrara lagi. Maður veit þó aldrei, ég hef satt að segja aldrei áttað mig á forsendum þessara greiðsla.
Ég er að sjálfsögðu ekki mótfallinn þeirri hugmynd að umbuna fólki fyrir vel unnin störf. Það mætti jafnvel taka upp þann sið á fleiri sviðum. Margir starfsmenn vinna frábært starf án þess að nokkur sjái ástæðu til þess að umbuna fyrir það, amk ekki peningalega. Þetta fólk fær bara sín laun sem oftar en ekki eru frekar lág. Þar er það hinn andlegi auður sem öllu skiptir.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef það á að umbuna fyrir fyrir vel unnin störf eða árangur, þá ætti einnig að "refsa" fyrir illa unnin störf eða slælegan árangur. Fáir eru mér þó sammála. Flestir líta á það sem næga "refsingu" að fá ekki bónus eða lægri bónus en í fyrra.
Gleðileg jól!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Háskóli Íslands nýtur mikils traust!
9.12.2008 | 17:14
Í nýlegri könnun MMR á trausti almennings til helstu stofnana samfélagsins kemur fram að Háskóli Íslands er sú stofnun sem borið er mest traust til. Tæp 77% bera frekar eða mjög mikið traust til skólans og aðeins 3.4% bera frekar eða mjög lítið traust til hans.
Til samanburðar þá bera 63.5% traust til Háskólans í Reykjavík og tæp 7% bera lítið eða mjög lítið traust til hans. Ekki kemur á óvart að þær stofnanir sem kenndar eru við bankahrunið koma mjög illa út í þessari könnun en innan við 10% bera traust til Seðlabankans, bankakerfisins og Fjármálaeftirlitsins og litlu fleiri bera traust til Alþingis.
Nánar má sjá upplýsingar hér
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)