Fréttabörnin!

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig blaðamannastéttin er að þróast. Aftur og aftur gerist það að ég hrekk við þegar fjölmiðill virðist setja "barn" í það að fjalla um erfið og alvarleg mál sem krefjast mikillar reynslu af hendi blaðamannsins. Auðvitað eru þetta ekki börn, aðeins ungt fólk sem virðist hafa litla reynslu. Svo er kannski þessi upplifum mín fyrst og fremst til marks um það að ég er að eldast. Hver veit?

Mér finnst þó eitthvað vanta í stétt blaðamanna. Svo virðist sem settur hafi verið hámarksaldur í stéttinni og sýnist mér það sérstaklega áberandi í sjónvarpi. Hvar eru eiginlega "gömlu" góðu blaðamennirnir? Og hvar er undirbúningurinn? Og hvernig stendur á því að spurningarnar sem bornar eru upp bjóða viðmælandanum upp á það að svara með Já-i eða Nei-i?

Ágætt dæmi um þetta er umfjöllun í sjónvarpi (RÚV og Stöð2) á yfirheyrslu yfir Sigurði Einarssyni. Það var eiginlega ekki hægt að heyra spurningu af viti? Sumar voru settar fram sem Já eða Nei spurningar (sem ég hélt að væri afgreitt í fjölmiðlafræði 101), þ.e. svarið gat verið Já eða Nei og sumar voru með augljóst svar, virtust illa ígrundaðar og einkenndust miklu frekar af gjammi en að um væri að ræða mikilvægar spurningar sem gott væri fyrir almenning að fá svör við!

Kannski er þetta ósanngjarnt hjá mér og kannski var ég sérlega pirraður yfir þessari frétt. Mér finnst samt sem áður eiginlega ekkert gagn af svona blaðamennsku. Ef þetta er birtingarmynd fjórða valdsins, sem fjölmiðlar vilja stundum skilgreina sig, þá líst mér ekki á!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband