Fordekruð meðalmennska!
24.8.2009 | 09:50
Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og hef mikla ánægju af því að sjá frábært íþróttafólk keppa sín á milli. Er nánast alæta og hef sérstaklega gaman af að horfa á íþróttir sem eru ekki mikið stundaðar hér á landi.
Eina sem mér leiðist er að horfa á frekar slaka íþróttamenn keppa sín á milli. Stundum finnst mér íslenskur karlafótbolti vera í þessum flokki. Skil satt best að segja ekki það rými sem fótbolti fær í fjölmiðlum. Í dæmigerðum fréttatíma fær maður 3-4, oft alveg ótrúlega ómerkilegar, fótboltafréttir áður en fjallað er um aðrar greinar. Ef það er þá gert. Er t.d. fréttnæmt að Eiður Smári hafi setið á bekknum? Væri það ekki frétt ef hann fengi að spila? Því þarf maður svona nákvæmar upplýsingar um afdrif íslenskra leikmanna í Norsku deildinni? Er það merkilegt?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er umfjöllun MBL 22. ágúst sl. um eldgömul Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Hvernig stendur á því að metið í 100 m hlaupi er síðan 1957, í þrístökki frá 1960 og að Clausen bræður séu í 4. sæti í 200 m hlaupi og tugþraut á afrekaskrá FRÍ? Er ekki til umhugsunar að Jón Arnar Magnússon, sem var tugþrautarmaður, skuli eigi einn besta árangur í mörgum greinum þrautarinnar? Svipaða sögu má segja frá öðrum greinum. Þannig er metið í 1500 m hlaupi frá 1982, í maraþoni frá 1985 og í stangarstökki karla frá 1984.
Vissulega voru þetta allt frábærir íþróttamenn en miðað við eðlilega þróun þá ætti að vera búið að slá eitthvað af þessum metum. Vissulega eru ljós í myrkrinu, þá sérstaklega hjá konunum en samt sem áður eru mörg met í kvennaflokki komin við aldur.
En ætli ástæðan fyrir þessu sé sú að á Íslandi séu ekki góð efni í frálsíþróttamenn? Ég tel svo ekki vera. Tel að mistökin sem gerð eru hvað karla varðar séu þau að flestum drengjum er beint í fótbolta á sínum yngri árum. Mjög margir þrífast þar illa og ná litlum árangri. Þegar þeir átta sig á því er það gjarnan of seint til að fara að stunda aðra íþrótt.
Með þessu er oft miklum hæfileikum sóað. Hvaða vit er t.d. í því að 17 ára karlmaður sem er 178 cm á hæð, 85 kg og með 12% fitu sé í fótbolta? Þetta er raunverulegt dæmi. Viðkomandi fann sig ekki og komst ekki í lið enda flestir frábærir fótboltamenn annaðhvort mun minni og léttari eða stærri. Sem betur fer áttaði þessi einstaklingur sig á stöðunni, snéri sér að annarri íþrótt og varð íslandsmeistari í henni í nokkur ár.
Því miður held ég að þessi saga sé nokkuð algeng. Ungmenni er gjarnan send í fótbolta m.a. vegna þess að það er þægilegt og svo virðast allir í hverfinu stunda hann. Ekkert er gert í því að greina hvar hæfileikar einstaklingsins liggja og beina viðkomandi í þá átt. Niðurstaðan er sú að íslenskur karlafótbolti er frekar slakur. Liðin eru allt of mörg miðað við íbúafjölda og greinilega margir að stunda fótbolta sem ættu líklega betur heima í annari íþrótt, s.s. eins og frjálsum. Við erum t.d miklu betri í handbolta en fótbolta en samt er eins og hann sé í öðru sæti á eftir hondum. Það þykir mér hálf fáránlegt.
En hver er þá lærdómurinn af þessu rausi? Jú hann er sá að það er mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að átta okkur á því í hverju við erum góð og einbeita okkur að því. Þess vegna er samstarf við aðrar þjóðir mikilvægt. Þær geta þá sinnt því sem við erum síðri í.
Að lokum þetta. Það virðist raunhæfur möguleiki á því að kvennalandsliðið í fótbolta geti unnið til verðlauna á stórmóti á næstu 5-7 árum (tel ofurbjartsýni á að það gerist nú, en áfram Ísland!). Það eru hverfandi líkur fyrir því að karlalandsliðið komist á stórmót. Liggur ekki í augum upp hvað KSÍ á að gera?
Athugasemdir
Sammála.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:00
íþróttaumfjöllun ræðst af áhugamálum íþróttafréttamanna.
Fámenn þjóð verður aldrei góð í hópíþróttum sem mikil breidd er í.
valdimar (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:29
Þú hefur nú soltið gaman af tölfræði. Þú gætir tekið saman hvort hagvöxtur eykst þegar íslenska hanboltalandsliðið er að ná góðum árangri á stórmóti. Að ekki sé talað um ef frjálsíþróttahetja er að gera góða hluti. Skilvirkni í samfélaginu eykst til muna - margsannað. Enda leggja lönd mikið uppúr að ná árangri sbr. Jamaica, Dominiska osfrv. Gæti orðið athyglisverð samantekt.
Olegsky (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 11:56
Sammála. Að ekki sé nú á ekkifréttir af Birgi Leifi Hafþórssyni golfara.
Náttfari (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 12:27
Algjörlega sammála þessu og því má bæta við að þau lönd sem eiga afreksfólk í hinum ýmsu greinum -þau hafa alið börnin sín upp í því að stunda alhliða íþróttir til amk 12 ára aldurs en þá velja börnin sér þá grein sem þau finna sig í og þau hafa fundið út að þau geta náð árangri í ....þau velja sér ekki fótbolta sem aðalíþrótt jafnvel 5 ára gömul bara af því að pabbi vill að ég verði atvinnumaður eða hefur mikinn áhuga á boltanum eða eldra systkyni er í þessari íþrótt...þessu þurfum við að breyta...við foreldrar....og KSÍ þarf að átta sig á því að þeir knattspyrnumenn sem hafa æft aðrar íþróttir sem börn verða betri knattspyrnumenn og konur þegar fram líða stundir.. Áfram Ísland.....og ALLAR ÍÞRÓTTIR..
PS...og svo mega fjölmiðlar gjarnan fjalla um aðrar íþróttir eins vel og þeir sinna hinum erlenda fótbolta....
Guðrún K Einarsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 12:37
Er fullkomnlega sammála þínum skoðunum.
Þorður Sævar Jonsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:44
Ég er á margan hátt alveg sammála þér í pistli þínum en þessi grein í Mogganum var á margan hátt áhugaverð en þegar blaðamenn eru að reyna að koma með lærða greinar verða þeir aðeins að sýna kunnáttu á verkefninum sem þeir taka fyrir.
Í fyrsta lagi voru Íslandsmetin ekki rétt eftir höfð(sum hver. 4X400 m hlaup karla eitt dæmi).
Í öðru lagi tekur féttamaður ekki inn algerlega augljósar staðreyndir í málinu heldur er með þá sleggjudóma að með betri aðstöðu sem frjálsíþróttamenn hafi þá versni árangurinn. Þetta er svo forkastanleg einföldun að það er næstum meiðandi að halda þessu fram. Þetta kemur að vísu frjálsíþróttamönnum ekkert á óvart úr þessari átt.
Met í spretthlaupum mæld með handtímatöku fyrir nærri 50 árum síðan eru í besta falli mjög vafasöm heimild um getu íþróttamannana. Vissulega voru þessir menn fræknir íþróttamenn. Það tekur það enginn frá þeim en eftir þeim sögum sem ég hef frá samtímamönnum sem voru á staðnum þegar þessi met voru sett þá var til dæmis vindur mjög vafasamur. Menn hringdu í veðurstofuna til að athuga vindinn!!! Þetta sagði Valbjörn Þorláksson mér til dæmis. Nú ætla ég alls ekki að sverta þessa frábæru íþróttamenn sem voru uppi á þessum tíma heldur koma fram með eina staðreynd sem fréttamaður sleppti algerlega í sínum pistli.
Á árunum 1950 - 1960 má segja að vinsælasta íþróttagrein á Íslandi hafi verið frjálsar íþróttir. Það er auðvelt að sjá að þá komu fleiri að reyna sig í íþróttinni og hópurinn verður stærri sem þjálfarar hafa úr að moða. Í dag eru frjálsar mjög aftarlega á merinni varðandi vinsældir. Ekki eru íþróttafréttamenn að hjálpa til þarna. Þeir nánast láta það alveg vera að skrifa um frjálsar íþróttir nema eitthvað sérstakt(oft eitthvað neikvætt) gerist. Þeir frjálsíþróttaþjálfarar sem eru núna starfandi vinna gríðarlega óeigingjarnt starf og vissulega hefur aðstaðan batnað. Við erum líka að sjá nokkra mjög efnilega íþróttamenn að koma fram. Ég get nefnt Helgu Margréti sem hefur alla burði til að komast á pall á næstu ólympíuleikum ef vel verður haldið á spilunum.
Við íslendingar verðum að átta okkur á því að meðan frjálsar íþróttir hafa ekki úr stærri hópi að moða heldur en reyndin er getum við í besta fallið reiknað með afburðamanni(konu) á nokkurra ára fresti og þá er alger hending í hvaða grein þessi íþróttamaður(kona) lendir.
Eitt dæmi er velgengni Jamacia manna á síðasta Heimsmeistaramóti. Þeir voru að keppa um USA um fjölda verðlaunapeninga. Bandaríkjamenn eru meira en 100 sinnum fleiri hvernig er þetta hægt??? Það er auðveld skýring á þessu . Frjálsar íþróttir eru mjög hátt skrifuð íþróttagrein á Jamaica og þeir eru ótrúlega vel staðsettir á heitum stað en það verður aldrei of heitt þar. Í USA eru frjálsar jafnvel ekki jafn hátt skrifaðar og hér á landi. Einhver þjálfari í bandaríkjunum sagði við mig eitt sinn. Ef amerískur fótbolti og hafnarbolti væri ekki til þá væru heimsmetin í frjálsum allt önnur en þau eru í dag. Það er nokkuð mikið sannleikskorn í þessu.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.