Pólitískur línudans!

Stjórnmálamenn eru ekki öfundsverðir þessa dagana. Á þeim standa öll spjót og til þess ætlast að stjórnmálamenn komi með varanlegar lausnir á vanda skuldugra fyrirtækja og heimila. Sumum finnst sem að lausnin liggi í augum uppi á meðan að aðrir telja mikilvægt að greina vandann og forgangsraða. Flestir virðast þó komnir á þá skoðun að eitthvað verði að gera í málinu.

Hér er stjórnmálamönnum nokkur vandi á höndum. Það þarf ansi sterk bein, og skilning á eðli máls, til að móta sér ákveðna afstöðu og fylgja henni eftir. Jafnvel þó svo að til óvinsælda verði. Flestir stjórnmálamenn virðast hins vegar óttast almenningsálitið. Umrætt almenningsálit er reyndar ekkert endilega almenningsálit og getur verið t.t.l. þröngur hópur sem lætur hátt í fjölmiðlum eða í bloggheimum. Það þarf ekki að koma á óvart að hagsmunahópar verji hagsmuni sína.

Það er hins vegar til umhugsunar ef stjórnmálamenn láta stjórnast af þrýstingi hagsmunahópa. Að sjálfsögðu telja þessir hagsmunahópar sína hagsmuni mikilvægari en einhverja aðra hagsmuni. Sumum finnst augljóst að fresta eigi vegaframkvæmdum á landsbyggðinni og fella niður skattaafslátt til handa sjómönnum. Þessir sömu aðilar búa þá væntanlega ekki á landsbyggðinni né stunda sjómennsku. Aðrir telja glapræði að ætlast til þess að hagrætt verði í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu og saka stjórnvöld um skammsýni og árás á grunngildi samfélagsins.

Nú er það hlutverk stjórnmálamanna að taka margar erfiðar ákvarðanir í tengslum við fjárlagagerð næsta árs. Það er mikilvægt að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi en láta ekki stjórnast eða glepjast af hagsmunagæslu hagsmunahópa.

Þá verður útkoman eins og múlasni. Hvorki hestur né asni og til lítils gagns fyrir eigandann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband