Hugleiðing um samkeppni

Upp á síðkastið hafa komið fram sjónarmið þess efnis að samkeppni og samkeppnislög séu munaður sem við ekki höfum efni á um þessar mundir. Það jafnvel gefið til kynna að Samkeppniseftirlitið sé fyrirbæri sem við getum verið án.

Þessum sjónarmiðum er ég ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að fátt sé eins skaðlegt neytendum og skortur á samkeppni, þar sem hún á við. Samkeppnishugtakið er hins vegar ekki mjög einfalt hugtak og á því margar hliðar. Þannig er t.d. hægt að skilgreina samkeppni út frá ólíkum sjónarhornum. Í grundvallaratriðum er um tvö sjónarhorn að ræða.

Það fyrra er samkeppni skilgreind út frá sjónarhóli atvinnugreinarinnar. Þetta er hefðbundin rekstrarhagfræðileg skilgreining á samkeppni og gengur út á það að fyrirtæki sem eru í sömu atvinnugrein, eru í samkeppni. Þannig er ein myndbandaleiga í samkeppni við aðrar myndabandaleigur, eitt flugfélag í samkeppni við önnur flugfélög og þannig má áfram telja. Samkeppnin er því skilgreind út frá sjónarhóli fyrirtækisins.

Hin nálgunin er að skilgreina samkeppni út frá markaðnum. Þá er sú starfsemi í samkeppni sem fullnægir sömu eða svipuðum þörfum.  Þetta er t.d. skilgreining sem markaðsfræðin styðst við. Þá er samkeppnin skilgreind út frá neytendum og miðað við það að ef neytendur hafa val um tvær eða fleiri leiðir til að fullnægja þörfum sínum og löngunum, þá sé til staðar samkeppni. 

Það er mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að til staðar sé eðlileg samkeppni. Það er hins vegar jafn mikilvægt að átta sig á því hvenær samkeppni er nauðsynleg og hvenær hún skiptir litlu sem engu máli. Það er t.d. óþarfi að láta samkeppnislög þvælast fyrir eðlilegum aðgerðum í bankakerfinu á meðan að nánast allt bankakerfið er á forræði hins opinbera.

Við slíkar aðstæður þjónar samkeppni afar litlum tilgangi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Samkeppni er nauðsynleg til að skapa aðhald þar sem markaðssvæðið er nógu stórt til að þola samkeppni.

Það er gott að hafa t.d. samkeppni í bílaviðgerðum svo hægt sé að bera verð saman.

Erfitt er að koma á samkeppni eins og t.d. mjólkurflutningum úr fámennum sveitum og almenningssamgöngum þar sem hver væri að aka á eftir hvor öðrum.  Þar mundi samkeppni fela dauðan í sér.

Varðandi bankana að þá er samkvæmt fréttum allt að fyllast af peningum í þeim, því það er engin markaður til að lána á vegna þess að engin tekur lán.

Engin tekur lán til að kaupa vörubíl því ekkert er að gera á þeim markaði. Engin kaupir bát ef hann á ekki kvóta.

Helst væri að menn ættu að fara kaupa kornþreskivélar, þar er markaður og óplægður akur í orðsins fyllstu merkingu.

Ég hitti svínabónda í gær, hann var búin að fá 80 tonn af þurru korni.

Ætli það geri ekki svona 4 millur sem hann sparar sér í kjarnfóðurkaupum.

Svo er líka til rekstrarform sem heitir samvinna. Gamla afurðarsölufélagið mitt SAH varð 100 ára um þessar mundir. Því hafa alla tíð stýrt gætnir og fyrirhyggjusamir bændur.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 26.9.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband